Fara í efni

Ávarp skógræktarstjóra

Gengið til skógar

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Stórkostlegir hlutir hófust á árinu 2021, sem eiga eftir að gjörbreyta fjárhagslegu og framkvæmdalegu umhverfi skógræktar á Íslandi. Ég var minntur á það nýverið að fyrir fáum árum síðan hefði ég spurt á fundi innan Skógræktarinnar hvort við ættum ekki bara að hætta að tala um þessi kolefnismál og snúa okkur frekar að úrvinnslumálum timburs. Það hlustaði hvort eð er enginn á okkur og enginn sæi möguleikana á að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum sem fælust í skógrækt. Gremjan sem þessi spurning lýsti hafði byggst upp frá því fyrir aldamót með síendurtekinni afneitun stjórnvalda á mikilvægum þætti skógræktar í að takast á við loftslagsvandann.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóriÞröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Árið 2020 gerðist það svo að samtökin One Tree Planted (OTP) höfðu samband og spurðust fyrir um möguleikana á að fjármagna skógræktarverkefni á Íslandi. Svarið var já, það væri vel hægt. Bættust þau þar með í hóp með Landsvirkjun, Faxaflóahöfnum og örfáum öðrum aðilum sem fjármagnað höfðu skógrækt í smáum stíl um nokkra hríð. Munurinn var sá að OTP vildi gera á einu ári það sem hinir stuðningsaðilarnir höfðu gert á áratug, og byrja á öðru verkefni strax í kjölfarið. Árið 2021 bættust svo fleiri aðilar við, bæði erlendir og innlendir. Í lok ársins voru komnir samningar við sjö þeirra og um 40 í viðbót voru í undirbúningsfasa. Allir ætla þessir aðilar að fjárfesta í skógrækt til kolefnisbindingar og endurheimtar náttúrugæða með gróðursetningu til skóga á skömmum tíma. Það gjörbreytir auðvitað stöðunni. Í stað þess að mjatla plöntum í skógræktarsvæði yfir áratugi verður klárað að gróðursetja á einu til tveimur árum. Slíkt styttir t.d. þann tíma sem viðhalda þarf girðingum og gerir allt annað í stofnfasa skógræktar og framtíðarmeðferð skóga skilvirkara.

En hvað kom til? Hvað breyttist? Af hverju fór fólk allt í einu að meðtaka þá staðreynd, sem öllum hefur mátt vera ljós í áratugi, að skógar geri gagn og meiri skógar geri meira gagn? Það var tvennt. Annars vegar var það ákvörðun stjórnvalda víða um heim að stefna að kolefnishlutleysi eftir skamman tíma (20-30 ár). Þeir sem fatta hvað það þýðir sjá að slíkt næst ekki nema binding kolefnis úr andrúmsloftinu sé þar snar þáttur. Fáar leiðir eru til þess og aðeins ein þeirra sannreynd og örugg – skógrækt. Hins vegar var það vinna við að stofna til vottunar kolefnisbindingar með skógrækt, sem Gunnlaugur Guðjónsson, fjármálastjóri Skógræktarinnar, hóf að undirbúa árið 2019. Hann fékk til liðs við sig lítinn en góðan hóp fólks bæði innan og utan Skógræktarinnar og útkoman er Skógarkolefni (vottunarviðmið), Skógarkolefnisreiknir (spálíkan um kolefnisbindingu skóga) og Loftslagsskrá Íslands (sem heldur utan um eignarhald á vottuðum loftslagsverkefnum). Með þessu hófst vottunarferli fyrstu kolefnisskóga á Íslandi seint á árinu 2021.

Allt þetta kemur svo sem viðbót við auknar fárveitingar stjórnvalda til skógræktar á lögbýlum og samstarfsverkefna með Landgræðslunni. Verði öll þau verkefni sem rætt hefur verið um að veruleika má ætla að árleg gróðursetning verði komin í 15-20 milljónir plantna innan fimm ára. Það kallar á verulegt átak í uppbyggingu innviða. Auka þarf framleiðslugetu gróðrarstöðva og byggja nýjar. Tryggja þarf nægilegt framboð fræs og græðlinga. Auka þarf skógrækt með beinni sáningu og stungu órættra græðlinga. Bæta þarf aðferðir við flutning og dreifingu plantna. Leggja þarf slóðir til að komast að nýjum svæðum. Gera þarf stjórnsýslu sveitarfélaga og stofnana skilvirkari. Efla þarf rannsóknir. Virkja þarf skógarbændur sem þegar eru með samninga. Finna þarf ný lönd.

Ekki þarf að koma á óvart að þessi velgengni vakti viðbrögð hjá fámennum hópi andstæðinga skógræktar. Þótt furðulegt sé í svo til skóglausu landi þar sem augljóslega vantar miklu meiri skóg hefur allt frá upphafi verið fólk sem setur sig upp á móti skógrækt. Í þetta skipti ákvað sá hópur að ráðast á tiltekna trjátegund, stafafuru. Því var haldið fram að hún væri ágeng og stórhættuleg náttúrunni. Fyrir þeirri staðhæfingu eru þó ekki nokkur haldbær rök og því var þetta uppþot jafn hjáróma og árásir á skógrækt hafa jafnan verið í gegnum tíðina.

Á árum áður komu sumir andstæðingar skógræktar úr röðum bænda en slíkt er orðið fátítt nú á dögum, enda stunda margir bændur skógrækt á sínum jörðum. Engu að síður eru núningsfletir á milli skógræktar og sauðfjárræktar sem ekki er búið að leysa. Er þar einkum um að ræða vanda sem fylgir lausagöngu. Það er óásættanlegt að fólk sem vill fara í skógrækt þurfi að verja ræktun sína með miklum tilkostnaði gagnvart kindum nágrannans, ekki til að nefna hversu ósjálfbært og óviðeigandi það er að rýrt land og rofið sé nýtt til beitar. Slíkt land losar koltvísýring út í andrúmsloftið á meðan ekki er öflug gróðurhula, helst skógur, ofan á moldinni til að viðhalda kolefnisforða hennar. Nú er mikilvægara en nokkru sinni áður að græða upp land, ekki til að búa til beitiland, heldur til að binda kolefni í skógi og mold. Í þágu loftslagsmála, skynsamari landnotkunar og bændanna sjálfra þarf að nota stuðning ríkisins við sauðfjárrækt á annan hátt en nú er gert. Umfram allt er þó nauðsynlegt að bændur sjálfir axli ábyrgð og komi með lausnir.

En nóg af því neikvæða. Það er svo margt jákvætt í gangi. Trén vaxa, örfoka land grær til skógar, meira er byggt úr innlendu timbri og sífellt fleiri taka þátt í skógrækt. Ég geng sáttur frá góðu búi.

RANNSÓKNASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra

Rannsóknasvið 2021

Edda S. Oddsdóttir

Gróskumikið vísinda- og rannsóknarstarf er mikilvægt í skógrækt, enda stuðlar slíkt starf að framþróun skógræktar. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, sinnir rannsóknastarfi og þekkingaröflun í þágu skógræktar og skógverndar á Íslandi.

Rannsóknir Mógilsár helgast af faglegri þekkingarþörf skógræktar og vísindalegum gæðakröfum. Áfram verður unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi Mógilsár í stefnumörkun Skógræktarinnar og áhersla lögð á að:

 • stunda öflugar og sjálfstæðar rannsóknir er lúta að skógrækt og skógvernd
 • birta rannsóknaniðurstöður í alþjóðlega ritrýndum fræðatímaritum og á innlendum vettvangi
 • hefja rannsóknaverkefni þar sem nýrrar þekkingar er þörf og afla til þeirra styrkja
 • veita sérfræðiþjónustu á sviðum sem snerta skógrækt og skógvernd

Við rannsóknastörf á Mosfellsheiði þar sem borinn var saman árangur af skógrækt á beittu landi og óbeittu. Ljósmynd: Björn TraustasonAðalstarfstöð rannsóknasviðs er á Mógilsá en rannsóknir eru stundaðar um allt land. Stór hluti verkefna rannsóknasviðs flokkast sem hagnýt verkefni, þar sem leitast er við að finna lausnir á vandamálum í íslenskri skógrækt og þróa aðferðir við skógrækt og úrvinnslu afurða. Vöktunarverkefni eru annar flokkur verkefna þar sem fylgst er með breytingum sem verða á skógi og umhverfi hans, ekki síst til lengri tíma. Einnig eru stundaðar grunnrannsóknir, sem miða að því að afla upplýsinga til að auka skilning á skógi og vistkerfum hans og svo er lítill hluti rannsókna sem flokkast sem þjónusturannsóknir en þær eru unnar að beiðni utanaðkomandi aðila.

Í upphafi ársins 2021 störfuðu tólf starfsmenn við Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, þar af tveir með starfstöð á Akureyri. Í september 2021 fluttist Lárus Heiðarsson yfir á rannsóknasvið þar sem hann kemur inn í loftslagsdeildina. Lárus hefur starfstöð á Egilsstöðum. Christine Palmer, prófessor við Castleton University í Vermont í Bandaríkjunum, dvaldi sem gestavísindamaður í níu mánuði og stundaði rannsóknir á jarðvegslífi skóga landsins.

Á árinu birtu sérfræðingar rannsóknasviðs sex greinar í alþjóðlegum tímaritum, tvær alþjóðlegar skýrslur og ellefu greinar og skýrslur á innlendum vettvangi.

Alls voru fjórir sumarstarfsmenn við störf á Mógilsá sumarið 2021, bæði sem aðstoðarmenn sérfræðinga og við umhirðu umhverfis.

Rannsóknir ársins

Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir metur vindálag út frá flaggi á Mosfellsheiði. Ljósmynd: Björn TraustasonSem fyrr var mikil áhersla lögð á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda í skógum landsins. Þeim verkefnum er sinnt innan loftslagsdeildar Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Verkefni sem falla undir deildina eru m.a. eitt stærsta verkefni rannsóknasviðsins, Landsskógarúttekt. Upplýsingarnar sem fást úr þessum mælingum eru notaðar í kolefnisbókhald Íslands auk þess sem unnar eru spár um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda í skógum, skógrækt og viðarafurðum á Íslandi. Þá var virk þátttaka starfsmanna Mógilsár í Umbótaáætlun vegna bókhalds Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar.

Aukinn áhugi á skógrækt til kolefnisbindingar kemur fram í aukinni ráðgjöf og þjónustu við einkaaðila og á árinu 2021 var unnið að sjö slíkum verkefnum, allt frá ráðgjöf og upplýsingum um skógmælingar til útttektarverkefna, þar sem kolefnisbinding skóglenda er mæld. Því til viðbótar barst fjöldi símtala og tölvupósts þar sem óskað er upplýsinga um skógrækt og kolefnisbindingu.

Á árinu 2021 fékk verkefnið Birkivist styrk frá Rannís. Það er samstarfsverkefni nokkurra stofnana og háskóla sem miðar að þróun skilvirkra leiða við endurheimt birkiskóga á landsvísu. Unnið var að vali svæða og fyrstu nemendurnir hófu störf. Þá var unnið að því að afmarka og skrá sérstæða birkiskóga eins og kveðið er á um í lögum um náttúruvernd og skógræktarlögum. Gert er ráð fyrir að skila fyrsta listanum fyrri hluta árs 2022.

Frá upphafi hafa rannsóknir á trjátegundum, kvæmum og klónum verið stór þáttur í skógræktarrannsóknum á Íslandi. Þrjár slíkar tilraunir (tilraun með ryðþolna asparklóna, afkvæmatilraun 'Hryms' og jólatrjáatilraun) voru mældar á árinu 2021 en fyrsta formlega uppgjör þeirra tilrauna verður gert á árunum 2023-2025. Þá var haldið áfram vinnu við mælingar og úrvinnslu á birkikvæmatilraun og unnið úr mælingum tveggja tilrauna (kvæmatilraun sitkagrenis og deglikvæmatilraun) í meistaraverkefnum undir leiðsögn sérfræðinga rannsóknasviðs. Græðlingar af 'Hrymi'. Ljósmynd: Rakel JónsdóttirÞá hófst rannsókn á því hvort mögulegt væri að ræta græðlinga af lerkiblendingnum 'Hrymi' og nýttist þar vel uppbygging ræktunargáms á Vöglum sem átti sér stað á árinu og er lýst frekar í grein þeirra Brynjars og Rakelar.

Einn af flöskuhálsum skógræktar eru fyrstu þrjú árin eftir gróðursetningu. Því er mikilvægt að afla vitneskju um hvernig best megi hámarka lifun og vöxt nýgróðursettra plantna. Hluti af því er að tryggja gæði skógarplantna með gæðaprófunum, auk þess að kanna frostþol þeirra. Á árinu 2021 voru einnig mældar tvær áburðartilraunir, þar sem í annarri voru áhrif seinleysts áburðar skoðuð en áhrif moltu í hinni. Enn fremur var unnið að verkefni fyrir Kolvið, þar sem lifun og þrif plantna innan og utan beitarhólfa var metin. Helstu niðurstöður voru þær að lifun og vöxtur innan beitarhólfa var góður en nánast allar plöntur utan hólfa voru bitnar og afföll yfir 90%.

Þörfin á rannsóknum á umhirðu og afurðum íslenskra skóga heldur áfram að aukast, ekki síst eftir því sem trén hækka og skógarnir stækka. Sitkagreni er ein mikilvægasta trjátegundin í skógrækt á Íslandi og því er hafin vinna við að uppfæra og aðlaga jöfnur sem lýsa vexti tegundarinnar (lífmassa-, rúmmáls- og uppmjókkunarföll), enda hafa trén vaxið út fyrir gildissvið eldri jafna frá 2006. Með nýjum jöfnum má betur áætla lotulengd og hvaða umhirðuaðgerðir skila mestum arði, auk þess sem þetta nýtist við spár um kolefnisbindingu. Gert er ráð fyrir að niðurstöður þessarar vinnu verði birtar á árinu 2022. Þá var haldið áfram vinnu verkefna þar sem metin voru viðargæði, t.d. alaskaaspar og síberíulerkis. Samkvæmt forrannsókn á gallalausum sýnum síberíulerkis stenst það allar þær kröfur um styrk sem gerðar eru um timbur vegna notkunar í burðarvirki við mannvirkjagerð.

Sífellt eykst eftirspurn og framboð á timbri úr íslenskum skógum. Nauðsynlegt er að halda utan um hversu mikið efni er tekið úr skógunum, ekki síst til að tryggja sjálfbærni auðlindarinnar. Því er unnið að kerfi þar sem seljendur tilkynna sölu timburs til Skógræktarinnar, samhliða samræmdri aðferð við stæðumælingar.

Birki endurnýjar sig með rótar-/stubbaskotum á brunasvæðinu í Heiðmörk. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirSkógar eru ekki bara tré heldur fjölbreytt vistkerfi, bæði ofan- og neðanjarðar. Rannsókn á áhrifum mismunandi uppgræðsluaðferða á smádýrasamfélög hélt áfram og árið 2021 voru bjöllur og köngulær tegundagreindar. Fyrstu niðurstöður benda til þess að mikill munur sé á tegundafjölbreytileika milli uppgræðsluaðferða. Þá var einnig safnað smádýrum af svæðum sem brunnu í Heiðmörk til að meta áhrif brunans á smádýralífið.

Enn sem fyrr var fylgst með sjúkdómum og skordýrum á trjám og í skógum landsins. Áhersla var á rannsóknir á ásókn birkikembu í mismunandi birkikvæmi þar sem leitað var svara við því hvort skýra mætti kvæmamun á skemmdum með mismunandi laufgunartíma birkis. Meira má lesa um heilsufar skóga í Skaðvaldaannál Ársritsins.

Hér hafa eingöngu verið nefnd nokkur dæmi um fjölbreytt verkefni rannsóknasviðs á árinu 2021. Í töflu 1 má sjá helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá.

Samstarf

Álagsprófun á íslensku lerki í samvinnu við Límtré-Vírnet, Trétækniráðgjöf og fleiri. Ljósmynd: Ólafur EggertssonSem fyrr vinna starfsmenn rannsóknasviðs í miklu og góðu samstarfi við aðra starfsmenn Skógræktarinnar um allt land og þó nokkrir starfsmenn annarra sviða taka beinan þátt í rannsóknum, auk þess að veita ýmiss konar aðstoð, ekki síst í formi upplýsinga. Þá er samstarf við aðrar stofnanir ekki síður mikilvægt. Á síðasta ári voru starfsmenn rannsóknasviðs meðal annars í samstarfi við skógræktarfélögin, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landgræðsluna.

Síðast en ekki síst eiga starfsmenn rannsóknasviðs gott og mikið samstarf við fjölmarga skógareigendur og -ræktendur út um allt land. Samstarfið getur verið af ýmsum toga. Margir skógarbændur hafa látið land undir tilraunir og þá þarf oft að fara inn á einkalönd til að gera mælingar á kolefnisforða íslenskra skóga. Undantekningalaust hefur starfsmönnum rannsóknasviðs verið vel tekið á ferðum sínum og er það þakkarvert. Ótaldar eru allar upplýsingar sem fást fyrir tilstilli skógræktenda út um allt land, ekki síst þegar óskað er eftir upplýsingum um pestir og skaðvalda á trjám.

Tafla 1. Helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá árið 2021

LOFTSLAGSDEILD
Helstu vörður verkefna 2020

Landsskógarúttekt og kolefnisbókhald Íslands 

Mælifletir í ræktuðum skógum mældir í fjórða sinn. Gögn úr mælingum nýtt í útreikninga um skóga og skógrækt í kolefnisbókhaldi Íslands. Unnið að spá um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda fyrir skóga, skógrækt og viðarafurðir.

Birting:
Nicole Keller, Martina Stefani, Sigríður Rós Einarsdóttir, Ásta Karen Helgadóttir, Rafn Helgason, Hera Guðlaugsdóttir, Arnór Snorrason, Leone Tinganelli & Jóhann Þórsson 2021. National Inventory Report Emissions of greenhouse gases in Iceland from 1990 to 2019. The Environment Agency of Iceland. Reykjavik. 400 bls.

Úttekt á kolefnisbindingu skóglendis á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum

Birting:
Arnór Snorrason og Björn Traustason 2021. Úttekt á kolefnisbindingu skóglendis á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum. Rit Mógilsár, 42-2021. ISBN 2298-9994. 12 bls.

Úttekt á kolefnisbindingu skógræktar á svæðum Kolviðar á Hofssandi við Stóra-Hof á Rangárvöllum

Birting:
Arnór Snorrason 2021. Úttekt á kolefnisbindingu skógræktar á svæðum Kolviðar á Hofssandi við Stóra-Hof á Rangárvöllum. Rit Mógilsár, 43-2021. ISBN 2298-9994. 10 bls.

Inventory of Carbon stock changes at Óseyri afforestation area in Stöðvarfjörður, East-Iceland

Birting:
Arnór Snorrason og Lárus Heiðarsson 2021. Inventory of Carbon stock changes at Óseyri afforestation area in Stöðvarfjörður, East-Iceland. Rit Mógilsár, 41-2021. ISBN 2298-9994. 15 pp.

Ráðgjöf

Ráðgjöf til innlendra og erlendra aðila varðandi kolefnisbindingu íslenskra skóga.

Úttekt á kolefnisbindingu skógræktar Landsvirkjunar

Mælingum lokið og úrvinnsla gagna hafin.

Lífmassaföll fyrir sitkagreni

Uppfærsla á eldri jöfnum, vinna hafin.

Rúmmáls- og uppmjókkunarföll fyrir sitkagreni

Uppfærsla á eldri jöfnum, vinna hafin.

Vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni

Aðlögun að íslenskum aðstæðum, vinna hafin.

Endurkortlagning ræktaðra skóga

Uppfærsla korta.

ERFÐAFRÆÐI, UPPELDI
OG NÝSKÓGRÆKT
 

Kvæmatilraun með íslenska birkið

Úttekt á eldri tilraun, úrvinnsla gagna og greinaskrif.

Birting:

Brynjar Skúlason og Brynja Hrafnkelsdóttir (2021). Kvæmatilraun með íslenska birkið. Ársrit Skógræktarinnar 2020

Þátttaka í EUFORGEN

Birting:

D.Gömöry, K.Himanen, M. M.Tollefsrud, C. Uggla, H. Kraigher, S. Bordács, P. Alizoti; S. A’Hara, A. Frank, G. F. Proschowsky, J. Frýdl, T. Geburek, M. Guibert, M. Ivanković, A. Jurše, S. Kennedy, J. Kowalczyk, H. Liesebach, T. Maaten, A. Pilipović, R. Proietti, V. Schneck, A. Servais, B. Skúlason, C. Sperisen, F. Wolter, T. Yüksel and M. Bozzano. 2021. Genetic aspects in production and use of forest reproductive material: Collecting scientific evidence to support the development of guidelines and decision support tools. European Forest Genetic Resources Programme (EUFORGEN), European Forest Institute. 216 p.

Ryðþolnir asparklónar

Áfangaúttekt.

Áburðartilraun með seinleystan áburð

Áfangaúttekt.

Molta sem áburðargjafi í skógrækt

Áfangaúttekt.

Jólatrjáategundir

Áfangaúttekt.

Afkvæmatilraun lerkiblendingsins Hryms

Áfangaúttekt.

Kvæmatilraun sitkagrenis

Úrvinnsla gagna og ritgerðarskrif.

Degli – frostþol mismunandi kvæma

Úrvinnsla gagna og ritgerðarskrif.

Bein sáning barrtrjáa

Úrvinnsla gagna og ritgerðarskrif.

Ræktun reynis í skjóli lerkis

Úrvinnsla gagna og ritgerðarskrif.

Frostþolsprófanir skógarplantna

Mat á frostþoli skógarplantna fyrir ræktendur.

Gæðaprófanir skógarplantna

Gæði skógarplantna metin fyrir ræktendur.

Ræting græðlinga af lerkiblendingnum Hrym

Tilraun hafin.

Rótarfrostþol rússalerkiplantna á fyrsta ári

Tilraun hafin.

Loftslagsskógur á Mosfellsheiði

Úttekt og skýrsluskrif.

VISTFRÆÐI OG HEILSUFAR SKÓGA
 

Skógrækt í þágu loftslags

Birting:
Stanislava Brnkalakova, Jan Světlík, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, Arnór Snorrason, Viera Baštáková, and Tatiana Kluvankova 2021. Afforesting Icelandic land: A promising approach for climate-smart forestry? Canadian Journal of Forest Research, Volume 51 no. 12, 2021

Borgarskógrækt

Birting:
Crosby MK, McConnell TE, Holderieath JJ, Kjartansson BP, Traustason B, Jónsson PH, Snorrason A & Oddsdóttir ES 2021. Urban Street Tree Characteristics and Benefits in City Centre, Reykjavik, Iceland. Trees, Forests and People, Volume 4, 2021

Skógarhagfræði

Birtingar:
Þorbergur Hjalti Jónsson (2021). Ábót á yndissýnd. Rit Mógilsár, 44-2021, ISSN 2298-9994. 14 bls.

Þorbergur Hjalti Jónsson (2021). Landverð og landrenta - Reiknilíkan, verðmyndun og skógrækt. Rit Mógilsár, 45-2021, ISSN 2298-9994. 30 bls.

VISTFRÆÐI OG HEILSUFAR SKÓGA
 

Trjásjúkdómar og meindýr

Ástand skóga ásamt útbreiðsla meindýra og sjúkdóma metin í ferðum sérfræðinga, auk upplýsinga frá skógræktarfólki.
Birting:
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir (2021). Heilsufar trjágróðurs á árinu 2020. Ársrit Skógræktarinnar 2020

Sjálfsáning erlendra trjátegunda

Úttekt á sjálfsáningu stafafuru í Steinadal – úrvinnsla gagna og greinaskrif.

Birting:
Ólafur Eggertsson og Delfina Andrea Castiglia 2021: Sjálfsáning stafafuru í Steinadal. Ársrit Skógræktarinnar 2020

Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum 

Úrvinnsla gagna og greinaskrif.
Birting:
Brynja Hrafnkelsdóttir (2021). Ertuygla og loftslagsbreytingar. Ársrit Skógræktarinnar 2020

Áhrif skógarbruna á skordýr

Samanburður á yfirborðsskordýrum á brenndum vs. óbrenndum svæðum í Heiðmörk.
Sýnataka og greining sýna.

Áhrif mismunandi uppgræðsluaðgerða á bjöllu- og köngulóarsamfélög

Greining sýna og úrvinnsla gagna.

Sitkalús í Reykjavík

Birting:
Juliane Kuckuk, Sibren van Manen, Ólafur Eggertsson, Edda Sigurdís Oddsdóttir and Jan Esper 2021: Defoliation and dieback of Sitka spruce in Reykjavík, Iceland. ICEL. AGRIC. SCI. 34, 15-28

Samspil birkikembuskemmda og laufgunartíma birkis 

Mælingar og úrvinnsla gagna.

UMHIRÐA SKÓGA OG SKÓGARFURÐIR

 

Viðareiginleikar síberíulerkis

Ólafur Eggertsson, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Þór Þorfinnsson 2021: Viðareiginleikar síberíulerkis frá Hallormsstað – forathugun á styrk og rúmþyngd. Ársrit Skógræktarinnar 2020.

Viðargæði alaskaaspar

Könnun á viðargæðum íslenskra alaskaaspa. Mælingum á rúmþyngd, beygjuþoli og stífni lokið.

Viðarafurðir til framtíðar

Mat á því hvort íslenskur viður stenst kröfur byggingariðnaðarins. Mælingum lokið, úrvinnsla gagna og greinaskrif.

Sjálfsáð fura í Steinadal. Ljósmynd: Ólafur Eggertsson

 

Skaðvaldaannáll

Heilsufar trjágróðurs á árinu 2020

Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir

Hér verður fjallað í stuttu máli um helstu skaða á trjám á árinu 2021. Um haustið fóru höfundar í hringferð um landið, auk þriggja dagsferða, til að meta ástand skóga um land allt. Einnig var sendur út gátlisti til starfsmanna Skógræktarinnar og skógareigenda í byrjun sumars, þar sem þeir voru beðnir að leggja mat á sjúkdóma og skordýraplágur í nágrenni sínu. Á vef Skógræktarinnar og í tveimur blaðagreinum var óskað eftir ábendingum um skemmdir á trjám og runnum. Þá var fylgst með í hópum á Facebook og haft samband við fólk ef ástæða þótti til. Töluvert barst af upplýsingum sem liggja til grundvallar þessu yfirliti, auk eigin athugana höfunda.

Birki

Skemmdir vegna birkikembu (Eriocrania unimaculella) voru töluverðar á útbreiðslusvæði hennar þetta árið en ekki þó jafnmiklar og á síðasta ári. Hún heldur áfram að dreifa sér en nýir fundarstaðir á árinu voru Akranes, Vaglaskógur og Húsavík. Í lok árs 2021 náði útbreiðsluvæði birkikembu austan frá Kirkjubæjarklaustri vestur yfir landið upp í Borgarfjörð. Einnig finnst hún á nokkrum stöðum í Skagafirði, Eyjafirði, Fnjóskadal, á Húsavík og Vestfjörðum. Birkiþélan (Scolioneura betuleti) var töluvert áberandi í ár og var nokkuð um skemmdir af völdum hennar á ilmbjörk og hengibjörk. Eins og undanfarin ár voru skemmdirnar mestar á Norðurlandi. Hún dreifir sér hratt um landið en síðastliðið haust varð hennar vart í fyrsta sinn í Reykholtsdal, Skagafirði, Fnjóskadal, á Húsavík, Hallormsstað og í Mývatnssveit.

Birkiryð var undir meðallagi í ár og það sama má segja um fiðrildalirfuskemmdir.

Lerki og fura

Lítið var um skaða á lerki á þessu ári en það haustaði sig snemma á allraþurrustu svæðunum á Norður- og Austurlandi.

Stafafuruköngull sem óþekkt lirfa hefur étið. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirÁ Austurlandi er furulús (Pineus pini) í lágmarki. Furuvoðvespa (Acantholyda erythrocephala) er tiltölulega nýleg tegund hér á landi sem getur valdið skaða á furu, einkum lindifuru. Óvenju mikið fannst af fullorðnum furuvoðvespum á Suðvesturlandi sem bendir til þess að hún sé að fjölga sér á því svæði. Haustið 2021 fengum við í hendurnar stafafuruköngla frá nokkrum stöðum á Suðvesturlandi (Elliðaárdal, Rauðavatni og Hólmsheiði) sem höfðu verið étnir af einhverri lirfu. Ekki er vitað hvaða tegund þetta er en ljóst að þetta er eitthvað nýtt hérlendis.

Greni

Líkt og í fyrra var lítið um alvarlegar skemmdir á greni þetta árið. Minna var af skemmdum af völdum sitkalúsar (Elatobium abietinum) en oft áður.

Ösp, víðir, viðja og selja

Asparryð í Gunnfríðastaðaskógi á Bakásum Austur-Húnavatnssýslu. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirAsparglytta (Phratora vitellinae) heldur áfram að valda töluverðum skemmdum á víði á útbreiðslusvæði sínu. Henni fjölgar hratt á svæðum þar sem hún hefur nýlega numið land. Víða á eldri útbreiðslusvæðum hennar er að koma í ljós hversu alvarlegar afleiðingarnar eru af faraöldrum síðustu ára. Ljóst er að hún getur valdið verulegum skemmdum og jafnvel trjádauða á víði hérlendis. Asparglytta virðist fara sérstaklega illa með gulvíði og viðju.

Asparryð var á flestum stöðum í eða undir meðallagi árið 2021. Þó sást mjög mikið asparryð víða á Norðurlandi. Einhver sjúkdómur hrjáir nú aspir á nokkrum stöðum í Eyjafirði sem lýsir sér þannig að sprunga kemur á börk þeirra sem virðist svo leiða til dauða. Í lok árs 2021 voru sýni send í raðgreiningu til þess að reyna að komast að því hvaða sjúkdómur þetta væri en niðurstöður hafa ekki fengist.

Óþekktur sjúkdómur á ösp í Hvammi Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Bergsveinn ÞórssonEitthvað var um að aspir og víðir á Suður og Vesturlandi laufguðust seint síðastliðið vor. Þetta má rekja til þess að nokkrir klónar voru byrjaðir að vakna í hlýindunum í apríl en urðu fyrir áfalli þegar kuldakast kom í maí. Flest trén virtust þó hafa jafnað sig ágætlega þegar leið á sumarið.

Aðrar tegundir trjáa og runna

Snemmsumars bar aðeins á staðbundnum haustfetafaraldri (Operophtera brumata) á limgerðum suðvestanlands. Í flestum tilfellum náðu runnarnir sér þó þegar fór að líða á sumarið.

Eins og í fyrra var aðeins um staðbundna ertuyglufaraldra (Ceramica pisi) á sunnanverðu landinu en ertuygla virðist vera að sækja í sig veðrið á ný eftir að hafa verið í lágmarki undanfarin ár.

Lokaorð

Hér að ofan hefur verið farið yfir helstu skaðvalda í skógum landsins á árinu 2021. Í heildina var ekki mikið um skordýr og sjúkdóma, þótt eitthvað væri um staðbundna skaða. Veðurskaðar urðu einhverjir en þó minni en leit út í fyrstu. Kalt vor og næturfrost í júní í sumum landshlutum olli aðallega skaða á stöku nýgróðursetningum en önnur tré sluppu við vorkal og náðu sér þegar leið á sumarið. Þrátt fyrir mikla þurrka á Norður- og Austurlandi í sumar virðist trjágróðurinn þar hafa sloppið nokkuð vel.

Mynd af haustfetum á runna. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirRétt er að vekja athygli áhugasamra á skaðvaldavef Skógræktarinnar, www.skogur.is/skadvaldar þar sem er að finna upplýsingar um helstu skaðvalda sem finnast í trjám á Íslandi.

Þakkir

Höfundar vilja þakka áhugasömu skógræktarfólki um allt land fyrir upplýsingar og ábendingar um heilsufar skóga.

Áfram eru ábendingar um heilsu skóga vel þegnar og hægt er að koma þeim á framfæri með því að hafa samband við Brynju Hrafnkelsdóttur í síma 867 9574. Eins má senda upplýsingar og myndir á netfangið brynja@skogur.is. Sýni, bæði af sýktum trjám og skordýrum, er hægt að senda á rannsóknasvið Skógræktarinnar, Mógilsá, 162 Reykjavík, stílað á Brynju Hrafnkelsdóttur.

Áburðartegundir bornar saman

Sérstakur áburðarskammtari festur á geispu til að skammta áburðinn og flaska skrúfuð á skammtarann. Hver flaska dugar fyrir 450 plönturSamanburður á áburðartegundum
fyrir nýgróðursettar plöntur

Brynjar Skúlason

Í fyrstu úttekt á tilraun með seinleystan áburð sem sett var út á þremur stöðum á landinu sýna trjáplöntur sem fengu áburðartegundirnar Agroblen og Osmocote undantekningarlítið marktækt betri vöxt en viðmið. Áburðurinn var gefinn í holu áður en planta fór ofan í. Þetta eru meðferðir sem vert er að gefa betri gaum, sérstaklega fyrir alaskaösp og sitkagreni. 

Nýverið kom á markað í Svíþjóð áburður ætlaður fyrir nýgróðursettar plöntur. Vöruheitið er „Argrow granular“ og er kögglaður áburður, sem er að uppistöðu til amínósýran arginín. Sérstakur áburðarskammtari, hannaður fyrir áburðinn, gefur vinnuhagræðingu við sjálfa áburðargjöfina (sjá myndir til hægri).

Flaska með seinleystum áburðiÁkveðið var að prófa áburðinn í skógrækt hérlendis sumarið 2020 og bera notkun hans saman við hefðbundna áburðargjöf með auðleystum áburði og seinleystum áburðartegundum.

Tilraunin var gerð á þremur stöðum, Vöglum á Þelamörk, Droplaugarstöðum í Fljótsdal og Kluftum í Hrunamannahreppi. Gróðursett var í TTS-herfað mólendi á Vöglum, flekkjun með sláttuorfi í graslendi með talsverðri mosaþekju á Droplaugarstöðum og tætt framræst mýrlendi á Kluftum. Þannig fékkst bæði fjölbreytni í landgerðum, jarðvinnsluaðferðum og staðsetningu á landinu. Trjátegundirnar voru stafafura, lerki, birki, sitkagreni og alaskaösp nema á Kluftum þar sem lerkinu var sleppt.

Notaður var ráðlagður skammtur af Argrow (0,37 g), borinn saman við enga áburðargjöf (viðmið), hefðbundna áburðargjöf með 10 g af Blákorni (auðleystum alhliða áburði) kringum plöntu, 10 g af seinleystum áburði undir plöntu (Osmocote og Agroblen) og 10 korn af Blákorni undir plöntu. Gróðursett var í 5 blokkir með 6-7 endurtekningum innan hverrar blokkar fyrir hvern tilraunalið.

Allar tilraunirnar voru skoðaðar í september 2020. Allir tilraunaliðir litu vel út og plöntur almennt hraustlegar.

Mynd 1. Yfirlit yfir tilraunasvæðið á Kluftum. Ljósmynd: Brynjar SkúlasonÍ ágúst 2021 var lifun metin og hæð allra plantna í öllum þremur Argrow-tilraununum mæld. Almennt var ástand tilraunanna og lifun plantna í þeim mjög góð eða á bilinu 70%-100% ef undan er skilin grenigróðursetningin á Kluftum þar sem nánast allt grenið hafði drepist. Ekki hefur tekist að finna viðhlítandi skýringar á svo afgerandi afföllum í þessu eina tilviki. Ekki kom fram marktækur munur á lifun milli meðferða að þessu sinni. Annað var upp á teningnum þegar kom að samanburði áburðarmeðferða á hæðarvöxt. Plöntur sem fengu 10 gr. af Osmocote og Agroblen (báðar tegundir með 8-9 mán. leysanleika) undir plöntu, sem og þær sem fengu 10 gr. af auðleystu blákorni í kringum sig, voru sýnilega grænni og með meiri blaðmassa en hinar meðferðirnar. Þær plöntur sem fengu Argrow virtust svipaðar og viðmið eða með aðeins frísklegri grænan, en greinilegt að áburðaráhrif voru mun minni á útlit plantna samanborið við aðrar áburðarmeðferðir. Mest afgerandi var munurinn á meðferðum hjá birkinu (sjá mynd 2).

Mynd 2. Meðalhæð og staðalskekkja birkis á Kluftum, Vöglum og Droplaugarstöðum, eftir áburðarmeðferðum. Mismunandi bókstafir sýna marktækan mun milli einstakra meðferða (p<0,05)

 

Viðmið reyndist alltaf lægst. Það staðfestir gildi áburðargjafar til að nýgróðursettar trjáplöntur hefji vöxt. Agroblen, Osmocote og Blákorn ofan á raða sér oftast í efstu þrjú sætin. Agroblen og Osmocote, með 8-9 mán. leysanleika, eru undantekningarlítið marktækt með betri vöxt en viðmið. Það eru meðferðir sem vert er að gefa betri gaum, sérstaklega fyrir alaskaösp og sitkagreni. Ekki komu fram eitrunaráhrif þrátt fyrir 10 g skammt en e.t.v. væru fimm grömm nægjanleg til að skila góðum áburðaráhrifum. Þessi aðferð gæti verið góð þar sem grassamkeppni er umtalsverð í stað þess að gefa blákorn á yfirborð þar sem grasið stelur stórum hluta áburðarins. Argrow veldur nokkrum vonbrigðum og mögulega hafa áburðaráhrifin frá þeim áburði enn ekki komið fram að fullu. Því er mikilvægt að tilraunin verði mæld að 2-3 árum liðnum til að fá endanlega úr því skorið hvernig langtímaáhrif mismunandi áburðarmeðferða verða á bæði vöxt og lifun plantnanna.

 

Nýr rannsóknagámur á Vöglum

Ný aðstaða til stýrðrar ræktunar og rannsókna

Rakel J. Jónsdóttir og Brynjar Skúlason

Í ágúst síðastliðnum var tekinn í notkun ræktunargámur fyrir starfsfólk rannsóknasviðs sem staðsettur er á Vöglum í Fnjóskadal. Veglegur styrkur til verkefnisins fékkst frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Gámurinn er í raun frystigámur sem hefur hentuga einangrun til þess að hitastig í honum haldist vel. Þótt hann láti ekki mikið yfir sér er hann vel búinn búnaði til loftlagsstýringar. Það var fyrirtækið Rafeyri á Akureyri sem sá um hugbúnað og uppsetningu hans.

Gámurinn á Vöglum stendur við fræhöllina. Ljósmynd: Rakel J. JónsdóttirRGC-borð í gámnum þar sem m.a. fara fram gæðaprófanir á skógarplöntum úr gróðrarstöðvum. Ljósmynd: Rakel J. JónsdóttirGámnum er skipt í tvö rými. Í öðru þeirra standa þrjú hefðbundin ræktunarborð sem eru með aðskilinn stýribúnað. Þannig er mögulegt að framkalla mismunandi undirhita og ljóslotu í og yfir hverju borði. Einnig gerir þetta kleift að halda lofthitastigi í gámnum við kjöraðstæður til ræktunar. Á vordögum á að koma fyrir þokuúðunarkerfi yfir borðunum til þess að halda uppi háu rakastigi í ræktun fyrir þau verkefni sem þess krefjast. Í hinu rýminu hefur svokölluðum RGC-borðum verið komið fyrir. Þau borð eru sérhönnuð til þess að kanna rótarvöxt skógarplantna og hafa um árabil verið notuð hjá Skógræktinni til þess að meta gæði skógarplantna frá ræktunarstöðvum.

Þessi nýjung gefur tækifæri til rannsókna á ýmsum sviðum innan skógræktar, bæði rannsókna á kynbótahlutanum og rannsóknum á sviði skógarplöntuframleiðslu.

Unnið að ágræðslu stafafuru. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÍ trjákynbótum er verkefnið að safna úrvalseinstaklingum á einn stað þar sem stýra má víxlun og fræframleiðslu í sérstökum frægörðum. Greinar eru sóttar af völdum eintaklingum og þær græddar á grunnstofna. Til að ágræðslan heppnist er mikilvægt að hiti, ljós og raki sé sem heppilegast til að hámarka árangur við ágræðsluna. Vonir standa til að ræktunargámurinn muni bæta árangur við ágræðsluna til muna og styðja þannig við kynbótastarf skógræktar.

Frostþolspróf eru m.a. nýtt til að bera saman kalsækni mismunandi tegunda, kvæma og klóna. Sprotar eru teknir af efniviði til prófunar og þeir frystir við mismunandi hitastig. Þetta er til dæmis gert um tuttugasta september til að finna út hvaða efniviður hefur byggt upp frostþol tímanlega fyrir veturinn og hvaða efniviður er sérlega viðkvæmur fyrir fyrstu haustfrostum. Degli í frostþolsprófunum á Vöglum. Ljósmynd: Rakel J. JónsdóttirFrostþol sautján kvæma af degli var til að mynda prófað í lok september 2021. Til að frostskemmdir verði sýnilegar þarf að rækta frystu sprotana eftir frystinguna í hlýju umhverfi við hátt rakastig eins og um hefðbundna stiklingaræktun sé að ræða. Nýi ræktunargámurinn var fyrst nýttur til þessarar eftirræktunar í haust. Að tuttugu dögum liðnum voru óskemmdu sprotarnir enn frískir en kalnir sprotar sýndu brúnan vaxtarvef. Með þessu móti er ræktunargámurinn ómissandi hluti af kalrannsóknum í skógrækt.

Lerkiblendingurinn 'Hrymur' er mjög eftirsóttur til skógræktar en kortur á fræi gerir að verkum að eftirspurn er mun meiri en framboð. Fyrsta verkefnið sem fór af stað í gámnum var tilraun með fjölgun græðlinga af Hrymi. Kanna á hvort betra er að ræta græðlinga á vorin eða haustin, hve langan tíma það taki og hvort gerð græðlinganna skipti máli. Hver móðurplanta af Hrymi á að geta framleitt töluverðan fjölda af græðlingum ár hvert og því er vonast til þess að hægt verði að nota þessa aðferð til að búa til meira af Hrymi ef fræ skilar sér ekki til framleiðslu í nægilegu magni. Lerkigræðlingar í tilraunauppeldi í rannsóknaaðstöðunni á Vöglum. Ljósmynd: Rakel J. JónsdóttirFyrstu niðurstöður úr þessari athugun sýna að rætingarhlutfall græðlinga er á bilinu 60%-65% og hægt er að ræta græðlinga bæði vor og haust. Á sama tíma nýtist aðstaðan til þess að ágræða nýjar móðurplöntur sem nýta á til framleiðslu Hryms með fræi í fræhöllinni á Vöglum.

Næsta verkefni sem setja á af stað í gámnum er á sviði skógarplöntuframleiðslu. Það er samstarfsverkefni með Sólskógum ehf. Þar verður helstu tegundum í íslenskri skógrækt sáð í svokallaða míkróbakka. Bakkarnir innihalda 480 ræktunarhólf sem hvert er 4 ml að rúmmáli. Til samanburðar er ræktunarhólf í 40 gata bakka um 93 ml. Kanna á hve langan tíma það tekur birki, sitkagreni, stafafuru og rússalerki að ræta sig vel í bökkum sem þessum. Rótarfyllingin er lykilatriði ef nota á vinnuþjarka eða róbóta til þess að prikla úr míkróbökkum í hefðbundna bakka, 40 eða 67 hólfa. Sú ræktunaraðferð er vel á veg komin hjá skógarplöntuframleiðendum í Svíþjóð og Noregi. Þar er hún aðallega notuð fyrir rauðgreni en hefur líka verið notuð fyrir skógarfuru og hengibjörk.

Skógarplöntuframleiðendur huga nú að nýjum framleiðsluaðferðum og þekking á öllum þáttum slíkrar framleiðslu þegar kemur að þeim tegundum sem notaðar eru í íslenskri skógrækt er verðmæt.

Tilraunasáning í míkróbökkum. Ljósmynd: Rakel J. Jónsdóttir

Prófun á jólatrjátegundum

Ný prófun á ýmsum þekktum jólatrjáategundum
og kvæmum þeirra

Brynjar Skúlason

Vorið 2020 voru gróðursett átján kvæmi af níu jólatrjáategundum á fjórum stöðum á landinu. Staðirnir voru Vaglir á Þelamörk (undir lerkiskermi), Hallormsstaðaskógur (í nýhoggið skógarrjóður), við Hvaleyrarvatn í nágrenni Hafnafjarðar (í lúpínubreiðu) og Snæfoksstaðir í Grímsnesi (í rásir höggnar í stafafuru). Hugmyndin var að kanna hvort einhverjar jólatrjáategundir leyndust sem væru jafngóðar eða betri en bestu fjallaþinskvæmin til notkunar hérlendis.

Sumarið 2021, rúmlega ári eftir gróðursetningu var farið í tilraunasvæðin og bæði lifun og hreysti plantnanna metin. Á Snæfoksstöðum virtust nær allar plöntur hafa drepist. Sá staður er því ekki með í umfjölluninni hér á eftir og telst afskrifaður sem tilraun. Á hinum stöðunum reyndust afföll vera mikil hjá flestum tegundum og meðal lifandi plantna reyndist stór hluti vera talsvert sviðinn þannig að líklegt er að afföll verði áfram. Jafnframt kom fram að mikill munur var á kvæmum eins og sést á mynd 1.

Mynd 1. Meðallifun ýmissa kvæma á Vöglum á Þelamörk, Hallormsstað og við Hvaleyrarvatn. Ólíkir bókstafir gefa til kynna hvar munurinn er marktækur (p<0,05)

Mynd 1. Meðallifun ýmissa kvæma á Vöglum á Þelamörk, Hallormsstað og við Hvaleyrarvatn. Ólíkir bókstafir gefa til kynna hvar munurinn er marktækur (p<0,05).

Tvö kvæmi af rauðgreni og eitt af skógarfuru eru frönsk jólatrjáakvæmi og eru þannig nokkuð sérstakir fulltrúar sinnar tegundar. Fyrsti lærdómurinn er að fjallaþinskvæmið White River og síberíuþinur Novosibirsk sýa afgerandi besta lifun. Glæsiþinurinn kemur hér nokkuð á óvart og er á pari með fjallaþin enn sem komið er. Áfram verður fylgst með plöntunum í þeim þremur tilraunum sem eftir standa og mögulega er Glæsiþinur að koma inn sem efnileg tegund til ræktunar jólatrjáa hérlendis.

Vöxtur alaskaaspar á Héraði 2021

Þetta getur alaskaösp

Lárus Heiðarsson

Sumarið 2021 var með eindæmum hlýtt og sólríkt á Norður- og Austurlandi og af þeim sökum mátti búast við allgóðum vexti trjágróðurs í þeim landshlutum. Ekki var farið í sérstaka úttekt á vegum Skógræktarinnar til að skoða vöxtinn, en víða var hæðarvöxtur mældur. Hjá alaskaösp og mörgum víðitegundum var algengt að hann væri á bilinu 100-150 cm sem verður að teljast allgott. Á Droplaugarstöðum í Fljótsdalshreppi hefur verið fylgst með árlegum vexti alskaaspar frá árinu 2017. Í þessari grein er sagt frá helstu niðurstöðum eftir fimm ára mælingar og skoðað hvort sumarhlýindi 2021 skera sig úr með auknum vexti.

Aðferðir

Gróðursett var í svæðið árið 2005 og öspin því sautján ára gömul við mælinguna haustið 2021. Gróðursett var í gamalt tún sem jarðunnið var með vélflekkjara. Við gróðursetningu voru borin á um tólf grömm á hverja plöntu. Reytt var frá plöntunum 2-3 sinnum yfir sumartímann fyrstu fjögur árin svo plönturnar kæmust upp úr grasinu. Þrátt fyrir þetta urðu einhver afföll vegna þess að plöntur drápust í miklu grasi í samspili við frostskemmdir. Að megninu til var klónninn Hallormur gróðursettur í túnið en örlítið af tveimur öðrum óþekktum klónum sem uxu mun hægar, hafa lent undir í samkeppni um ljós og verður ekki fjallað meira um. Árið 2017 voru lagðir út tveir 100 m2 mælifletir í reitnum og hugsunin að annar yrði grisjaður en hinn látinn standa ógrisjaður. Á mælifletinum sem ekki átti að grisja stóðu 4.400 tré á hektara og á mælifletinum sem átti að grisja stóðu 3.300 tré á hektara. Haustið 2019 var mæliflöturinn grisjaður niður í 1.800 tré á hektara, þá 15 ára gamall.

Við hverja mælingu var þvermál í brjósthæð (1,3 m hæð) mælt á tvo vegu og meðaltalið notað sem þvermál trésins. Hæð var einnig mæld á öllum trjám innan mæliflatarins. Mælingar hafa farið fram í október ár hvert þegar vaxtartíma er lokið.

Mynd 1. Vöxtur yfirhæðar frá 13 til 17 ára aldurs á mæliflötunumNiðurstöður

Eins og sést á mynd 1 hefur verið mjög góður yfirhæðarvöxtur í skóginum og við sautján ára aldur er yfirhæðin um þrettán metrar á báðum mæliflötunum, sem þýðir að frjósemin er sú sama. Yfirhæð er skilgreind sem hæðin á sverasta trénu (tréð með mest þvermál í brjósthæð) á 100 m2 mælifleti.

Það sama má segja um þvermálsvöxt eins og hæðarvöxt, hann hefur verið mjög góður.

Mynd 2. Þvermálsvöxtur fyrir grisjaðan (þvermál G) og ógrisjaðan (þvermál ÓG) mæliflöt

 

Ef mynd 2 er skoðuð sést að þvermálsvöxturinn hefur verið svipaður á mæliflötunum fram að fimmtán ára aldri, mælt í meðalþvermáli. Skýringin á þessu er grisjun sem framkvæmd var 2019 (við 15 ára aldur). Munurinn á grisjaða (14 sm) og ógrisjaða (11,8 sm) mælifletinum er um tveir sentímetrar í dag en var um einn sentímetri fyrir grisjun. Ef vel er rýnt í myndina má einnig sjá að dregið hefur úr þvermálsvexti á ógrisjaða mælifletinum frá 2015 til 2017 og er aukningin aðeins 0,9 sm (10,9 og 11,8 sm). Fyrir sama tímabil hefur aukningin í grisjaða reitnum verið rúmlega 2 sm (11,8 og 14,4 sm).

Mynd 3. Standandi rúmmál á grisjaða (Standandi rúmmál G) og ógrisjaða (Standandi rúmmál ÓG) mælifletinum

 

Standandi rúmmál mæliflatanna er sýnt á mynd 3. Við grisjun sem gerð var við fimmtán ára aldur fellur standandi rúmmál á grisjaða mælifletinum en hefur náð að viðhalda svipaðri rúmmálsaukningu og ógrisjaði flöturinn í framhaldinu, örlítið minni þó. Í grisjuninni voru teknir út 68 m3/ha sem þýðir að um 40% af standandi rúmmáli voru fjarlægð í grisjun. Trjáfjöldi eftir grisjun var 1.800 tré/ha og voru því um 50% af trjánum fjarlægð.

Mynd 4. Heildarviðarframleiðsla á grisjaða (Heildarframleiðsla G) og ógrisjaða (Heildarframleiðsla ÓG) mælifletinum

 

Ef skoðuð er heildarframleiðsla mæliflatanna (mynd 4) sést að eftir grisjunina ná eftirstandandi tré ekki að viðhalda rúmmálsvextinum á grisjaða mælifletinum. Munurinn milli mæliflatanna við grisjun var um 10% en var orðinn 17% tveimur árum seinna.

 

Mynd 5. Meðal- og hlaupandi vöxtur á grisjaða (MÁV G, ÁV G) og ógrisjaða (MÁV OG, ÁV ÓG) mælifletinum

 

Meðal árlegur vöxtur (MÁV) var um 10 m3/ha frá 13 til 15 ára aldurs en hefur verið að aukast síðustu tvö ár og er nú orðin 16,8 m3/ha í ógrisjaða mælifletinum en 14,3 m3/ha í grisjaða mælifletinum (mynd 5). Árlegur vöxtur (ÁV) hefur verið hár frá því að mælingar hófust en síðasta sumar náði hann nýjum hæðum þegar hann varð 53,6 m3/ha á ógrisjaða mælifletinum og á grisjaða mælifletinum var hann 35,7 m3/ha og hafði náð upp vaxtartapinu sem hann varð fyrir við grisjunina 2015, þegar árlegur vöxtur var 31,8 m3 (mynd 5).

Umræður

Áður en lengra er haldið er gott að árétta að þetta eru niðurstöður mælinga frá tveimur mæliflötum og gefa einungis vísbendingar um mögulegan vaxtarhraða við afar góð vaxtarskilyrði á þessu svæði, en ekki til að yfirfæra á almenna alaskaasparrækt í landinu.

En eins og fram kemur í niðurstöðum hefur vöxtur asparinnar verið mjög góður og með því mesta sem mælt hefur verið hér á landi. Samkvæmt sænskum vaxtartöflum fyrir yfirhæð ætti öspin að ná 30 metra hæð við 50 ára aldur.

Á ógrisjaða mælifletinum er þéttleikinn farinn að hafa áhrif á þvermálsvöxtinn en dregið hefur úr honum eftir 2019 (mynd 2). Þvermálsaukninguna á grisjaða mælifletinum má að einhverju leyti rekja til grisjunarinnar því þá eru lítil tré fjarlægð, en þess ber að geta að ekki var mikill rúmmálsmunur milli felldra og eftirstandandi trjáa (gögn ekki sýnd) því meira var horft á gæði trjáa en stærð þeirra við grisjunina og því felld tré af öllum stærðum.

Grisjað var úr 3.300 trjám á hektara niður í 1.800 tré á hektara og skilaði hektarinn 68,5 m3. Til samanburðar má nefna að nýverið grisjaði Skógræktin 30 ára gamlan lerkiskóg á Héraði og þar skilaði hektarinn 67 m3. Stærsti ávinningurinn með grisjun er að þá stjórnar ræktandinn því hvaða tré eru sett á til framtíðar og skapar þeim þar að auki pláss til að auka þvermálsvöxt. Aukinn þvermálsvöxtur verður til þess að stærra hlutfall trjáa nýtist sem flettiefni. Þetta efni nýtist þá í afurðir sem hafa langan endingartíma sem er jákvætt með tilliti til loftslagsbreytinga.

Rúmmálsvöxtur á grisjaða mælifletinum var einungis 10% minni samanborið við ógrisjaða mæliflötinn fram að grisjun, þrátt fyrir að á honum stæðu 1.100 færri tré á hektara eða 25% minna (mynd 3 og 4). Þetta má túlka sem svo að óhagkvæmt sé að setja niður 4.400 tré af alaskaösp á hektara ef rúmmálsaukningin er 10% en kostnaðaraukningin 25%, án þess þó að það hafi verið skoðað sérstaklega í þessari athugun. Grisjaði reiturinn hefur ekki náð að viðhalda meðalrúmmálsvexti tveimur árum eftir grisjunina, sem var orðin 17% minni, miðað við 10% fyrir grisjun. Þetta mætti túlka sem svo að of hart hafi verið grisjað, en þegar svona stutt tímabil eru skoðuð, er ekki gott að segja. Þessi munur gæti minnkað þegar sjálfgrisjun byrjar á ógrisjaða mælifletinum ásamt því að þrengslin draga enn frekar úr þvermálsvexti og þar með úr rúmmálsvexti. Ef horft er til rúmmálsvaxtar hraðvaxta tegunda eins og aspar á stuttum vaxtarlotum (<50 ár), þá næst hámarksframleiðsla ef ekki er grisjað, en þetta getur snúist við ef vaxtarloturnar eru langar (>100 ár).

Þennan mikla vöxt asparinnar sumarið 2021 má að öllum líkindum þakka góðu sumri, en veruleg vaxtaraukning átti sér stað sem sést vel þegar árlegur vöxtur er skoðaður á mynd 5. samanborið við árin á undan. En sumarhiti einn og sér stjórnar ekki vextinum því tré þurfa vatn. Sumarið 2021 var líka með þeim þurrustu á innanverðu Fljótsdalshéraði. Samt sem áður virðist þurrkurinn ekki hafa orðið takmarkandi þáttur fyrir vöxt asparinnar.

Mikil umræða hefur verið um ræktun alaskaaspar síðustu ár vegna vaxtargetu hennar og sjá menn tækifæri í að nota hana til kolefnisbindingar. Þetta er þó eingögnu tækifæri ef:

 • Notaður er réttur klónn fyrir viðkomandi svæði.
 • Staðsetning er mikilvæg, því oft er land sem hentar til asparræktar sléttlendi í dalbotnum sem skapar hættu á frosti, jafnvel yfir hásumarið.
 • Landið þarf að vera vel framræst, að lágmarki 50 sm niður á grunnvatn yfir vaxtartímann.
 • Jarðvinnsla þarf að vera góð svo að plöntur lifi og komist örugglega í vöxt; annars þarf að eyða miklum tíma í að reyta gras frá plöntum.

Myndarleg björk í kvöldsól í félagsskap fallegra aspa í Fljótsdal sumarið 2021. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skordýraskemmdir og birki

Samband skordýraskemmda og laufgunar birkis

Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir

Undanfarin ár hafa farið fram ýmsar rannsóknir á skaðvöldum á mismunandi kvæmum birkis. Ein slík hófst vorið 2020 þar sem samband laufgunartíma var borið saman við skordýraskemmdir á mismunandi birkikvæmum. Erfðanefnd landbúnaðarins styrkti verkefnið, sem er samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Hér á eftir verður farið í stuttu máli yfir helstu niðurstöður þess.

Formáli

Mynd 1. Fullorðin birkikemba á laufgandi birkisprota. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirHérlendis eru rúmlega 30 skordýrategundir sem lifa á ilmbjörk (Betula pubescens; Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir, 2019). Um það bil þriðjungur þeirra nam hér land eftir 1900 og teljast þær því vera erlendar tegundir. Birkikemba (Eriocrania unimaculella) og birkiþéla (Scolioneura betuleti) eru dæmi um tvær tegundir meindýra sem hafa nýlega numið hér land en lirfur þeirra lifa innan í laufum birkis. Birkikemba (Eriocrania unimaculella; mynd 1) er smávaxið firðildi sem fannst fyrst í Hveragerði árið 2005 og hefur síðan þá dreift sér áfram um landið. Í dag finnst hún í öllum landshlutum nema Austurlandi (Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir, 2022).

Mynd 2. Fullorðnar birkiþéluflugur á birki í Haukadal. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirBirkiþéla (Scolioneura betuleti; mynd 2) er blaðvespa sem fannst fyrst í Haukadal 2016 en hefur líklega verið komin fyrr til landsins (Edda S Oddsdóttir o.fl., 2017). Hún hefur dreift sér hratt um landið og finnst nú í öllum landshlutum (Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir, 2022). Þrátt fyrir að birkikemba og birkiþéla valdi álíka skemmdum á birki eru þær þó ekkert skyldar að öðru leyti. Þær eru ekki á ferli á sama tíma; birkikemba veldur skaða snemmsumars en birkiþéla á haustin. Því fær birkið sem þær leggjast á, minna færi á að ljóstillífa á eðlilegan hátt yfir sumartímann eftir að þessar tegundir námu hér land.

Birkikvæmatilraunin í Varmadal í Rangárvallasýslu er ein af átta tilraunum á vegum Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, sem lagðar voru út víðs vegar um landið árið 1998 (mynd 3). Í Varmadal eru 42 birkikvæmi frá mismundi landsvæðum (alls 3.150 plöntur). Tilgangur tilraunanna var í upphafi að safna grundvallarupplýsingum um samspil erfða og umhverfis í aðlögun, vaxtarhraða og vaxtarlagi á meðal náttúrulegra íslenskra birkikvæma (Dennis A Riege og Aðalsteinn Sigurgeirsson, 2018).

Mynd 3. Kort af RARIK tilraunum með Varmadal inni. Kort: Elísabet Atladóttir

Undanfarin ár hafa ýmsar úttektir farið fram í kvæmatilrauninni í Varmadal, meðal annars á því hvernig mismunandi birkikvæmi bregðast við skaðvöldum. Í rannsókn á birkikembuskemmdum á mismunandi birkikvæmum árið 2017 kom í ljós að birkikemba sækir mismikið í mismunandi kvæmi (Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir, 2018). Í sömu rannsókn kom í ljós að hún sækir mest í þau kvæmi sem hafa vaxið hraðast. Enginn kvæmamunur var aftur á móti á öðrum skordýraskemmdum á birkinu. Ekki er vitað hverjar ástæðurnar eru fyrir þessum kvæmamun en vegna þess að birkikemban verpir snemma á vorin þegar birkið er rétt að byrja að laufgast var ákveðið að ráðastí nýja rannsókn þar sem laufgun birkis væri borin saman við (a) birkikembuskemmdir og (b) aðrar skordýraskemmdir.

Helstu niðurstöður

Skemmdir á birkilaufblaði vegna birkikembu. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirTöluverður munur var á laufgunartíma mismunandi birkikvæma. Einnig var mikill munur á birkikembuskemmdum en ekki á öðrum skordýraskemmdum þegar kvæmin voru borin saman. Þegar samband laufgunartíma og birkikembuskemmda var skoðað kom í ljós að hámarktækt og sterkt jákvætt samband er þar á milli. Ekkert samband fannst aftur á móti á milli laufgunartíma og annarra skordýraskemmda.

Lokaorð

Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna að birkikemba verpi frekar í birkikvæmi sem laufgast snemma á vorin en þau sem laufgast seint. Því er líklegt að þau birkikvæmi sem ekki eru fulllaufguð þegar varpi birkikembu er að ljúka sleppi betur við birkikembuskemmdir en þau sem laufgast fyrir varp. Ásókn birkikembu gæti því orðið vaxandi vandamál ef spár standast um hækkandi meðalhita á Íslandi og laufgun birkis verði enn fyrr á vorin. Laufgunartími skiptir aftur á móti ekki jafnmiklu máli fyrir aðrar skordýrategundir sem verpa síðar og eru það því aðrir þættir sem stjórna varpstað þeirra.

Heimildir

Brynja Hrafnkelsdóttir, og Edda S. Oddsdóttir (2018). Rannsóknir á birkikembu og birkiþélu. Ársrit Skógræktarinnar 2017, 22-24.
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir (2019). Susceptibility of different provenances of birch in Iceland to Eriocrania unimaculella. Rit Mógilsár, 38, 21-22.
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir (2022). Heilsufar trjágróðurs á árinu 2021. Ársrit Skógræktarinnar 2021.
Edda S Oddsdóttir, Brynja Hrafnkelsdóttir og Halldór Sverrisson (2017). Heilsufar trjágróðurs á árinu 2016. Ársrit Skógræktarinnar 2016, 22-25.
Dennis A Riege og Aðalsteinn Sigurgeirsson (2018). Provenance variability in establishment of native downy birch in a 14-year trial in southwest Iceland. Icelandic Agricultural Sciences 31(1), 3-9.

SKÓGARAUÐLINDASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra

Skógarþjónusta 2021

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Árið 2021 er fyrsta heila árið þar sem skógarþjónustusvið er rekið í þeirri mynd sem það er í nú eftir breytingar sem gerðar voru á skipuriti Skógræktarinnar vorið 2020. Í skógarþjónustu Skógræktarinnar starfa skógræktarráðgjafar á starfstöðvum stofnunarinnar víðs vegar um land.

Úr skógargöngu í Hálsaskógi í Kræklingahlíð Hörgárbyggð. Ljósmynd: Sigríður Júlía BrynleifsdóttirSkógræktarráðgjafar vinna aðallega að verkefnum er lúta að starfsemi nytjaskóga á lögbýlum á tilteknu svæði svo sem grunnkortlagningu, áætlanagerð, ráðgjöf, gæðaúttektum og tölvuvinnslu vegna nytjaskógræktar á lögbýlum. Einnig vinna þeir verkefni tengd þjóðskógunum, t.d. við kortlagningu og áætlanagerð, og taka þátt í mælingum tilrauna sem settar hafa verið út á viðkomandi starfsvæði auk annarra tilfallandi verkefna. Þessi önnur tilfallandi verkefni hafa verið að vaxa mjög en þar er einkum aukin eftirspurn eftir ráðgjöf og áætlanagerð fyrir aðila sem ekki starfa á vegum ríkisins. Þar er um að ræða fyrirtæki sem vinna að kolefnisskógrækt svo dæmi sé tekið. Starfsfólk skógarþjónustunnar er staðsett víðs vegar um landið, á Ísafirði, Silfrastöðum Skagafirði, Akureyri, Vöglum Fnjóskadal, Egilsstöðum, Selfossi og í Hvammi Skorradal en það síðastnefnda er ný staðsetning rágjafa á Vesturlandi sem áður höfðu starfstöð á Hvanneyri.

Starfsmannamál voru stöðug á árinu; litlar sem engar breytingar urðu fyrir utan að Kári Freyr Lefever kom í hlutastarf um sumarið á starfstöðinni á Egilsstöðum.

Þróun starfsins

Í heimsókn hjá Lilju Magnúsdóttur að Kvígindisfelli í Tálknafirði. Ljósmynd: Sigríður Júlía BrynleifsdóttirÍ lok árs 2020 hófst vinna við að endurskoða verkferla og vinnulag með það að markmiði að straumlínulaga starfsemi sviðsins. Markmiðið er að búa til einfalda ferla, án þess þó að draga úr þjónustu. Árið var nýtt til að innleiða ferla og laga þá enn betur að störfum sviðsins. Stafrænt Ísland og stytting vinnuvikunnar voru hvatinn að því að farið var í þessa endurskoðun. Stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmdar hjá Skógræktinni fyrsta desember 2020 en það er mat sviðstjóra að sú innleiðing hafi gengið með ágætum innan sviðsins og fólk hafi staðið sig vel í að aðlaga sín störf breyttum aðstæðum.

Ekki tókst að ljúka vinnu við að innleiða Stafrænt Ísland á árinu og ljóst að ráða þarf sérstakan verkefnisstjóra til að fylgja því eftir þar sem um mjög viðamikið verkefni er að ræða. Markmiðin eru háleit, t.a.m. að allir bændur geti skráð sig inn á Ísland.is með rafrænum skilríkjum og nálgast þar öll þau gögn sem snerta skógrækt á lögbýlum. Má þar nefna pöntunarform, framkvæmdaskýrslur, uppgjör, samninga og fleira. Árið nýttist hins vegar vel til nauðsynlegrar undirbúningsvinnu að innleiðingu Stafræns Íslands hjá Skógræktinni. Vil ég þakka öllum skógræktarráðgjöfum fyrir frábæra vinnu við að finna leiðir til að gera starfsemina og þjónustuna sem við veitum enn betri. Það er virkilega gefandi og gott að finna áhugann og umbótahugsunina sem er ávallt til staðar.

Tíu milljónir plantna á fimm árum

Skógarganga að Tungufelli Lundarreykjadal. Ljósmynd: Sigríður Júlía BrynleifsdóttirÁ árinu 2021 voru gróðursettar 2.438.290 plöntur í verkefnum bænda, skógrækt og skjólbeltarækt. Þær voru gróðursettar á 319 lögbýlum. Til gamans má geta þess að á fimm ára tímabili, árin 2017-2021, hefur verið gróðursett 10.523.021 planta á lögbýlum landsins. Meðalfjöldi á jörð var 7.643 plöntur en það er ríflega 600 fleiri plöntur en árið áður. Þá var heldur minna grisjað en vonir stóðu til en í heildina var grisjaður 61 hektari á árinu. Það er nokkuð ljóst að til að grisjun geti átt sér stað þarf að vinna að því að efla verktaka og fræðslu um grisjunarmál því ekki stóð á því að fjármagn hefði ekki verið áætlað í snemmgrisjun. Því miður varð ekki af meiri grisjun en raun ber vitni vegna manneklu.

Verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður var á fullum dampi á árinu með virkri þátttöku skógarþjónustunnar; umfjöllun um verkefnið voru gerð góð skil í síðasta Ársriti Skógræktarinnar.

Samráðsfundir Skógræktarinnar, Landssamtaka skógareigenda (LSE) og formanna aðildarfélaga LSE voru haldnir á Teams og gengu mjög vel. Fólkið hafði lært það á stóra Covid-árinu áður að þetta væri góður kostur og ódýrari. Engu að síður ákváðu sviðstjóri og skógræktarstjóri að endurtaka leikinn frá árinu áður og fara í hringferð um sumarið til að heimsækja félög skógarbænda sem skipulögðu skógargöngur í hverjum landshluta. Því miður, vegna heimsfaraldursins sem lét aftur á sér kræla síðla sumars, varð ekki þó unnt að heimsækja öll félögin. Við þökkum öllum þeim sem komu að undirbúningi þessara heimsókna fyrir móttökurnar og alla hjálp. Það er von okkar allra að nýtt ár færi okkur fleiri tækifæri til að koma saman í raunheimum en raunin hefur verið síðustu tvö ár. Þátttaka starfsfólks í ráðstefnum og fræðslufundum, auk þess að efla tengsl, skiptir miklu máli þegar stórar áskoranir eru fram undan. Svo virðist sem framtíðin sé björt í íslenskri skógrækt og því mikilvægt að við hjálpumst að við að byggja upp þessa atvinnugrein með opnum hug.

Grisjun á Norðurlandi

Grisjun og umhirða á Norðurlandi 2021

Benjamín Örn Davíðsson

Grisjað var víða á Norðurlandi í ár og var grisjun meira áberandi í starfinu þetta árið en árin á undan. Umfangsmeiri grisjun skýrist af ýmsum þáttum en stærst vega meiri fjárframlög til nytjaskógræktar á lögbýlum.

Grisjunarvélin að störfum í Hvammi. Ljósmynd: Benjamín Örn DavíðssonUmfjöllun um grisjun var áberandi í fjölmiðlum og bar eitt verkefni af í þeim málum, þ.e grisjun vegna væntanlegs göngu- og hjólastígs í Vaðlareit í tengslum við undirbúning og framkvæmdir við Skógarböðin. Stígurinn og lagning veitulagna undir honum er samvinnuverkefni Svalbarðsstrandarhrepps, Norðurorku, Vegagerðarinnar og Skógræktarfélags Eyfirðinga. Til að koma heitu og köldu vatni úr Vaðlaheiðargöngum í Skógarböðin var hannaður stígur í gegnum Vaðlareit sem mun nýtast sem útivistarstígur frá Akureyri að Vaðalheiðargöngum. Vaðalreitur er skógarperla í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga, mjög fjölbreyttur og áhugaverður skógur, bæði í sögulegu samhengi og til útivistar. Stígurinn er um 2,5 km langur og var verkefnið unnið af grisjunarverktakafyrirtækinu Skógarmönnum sem fengu hjálp frá helstu skógarhöggsmönnum landsins enda fékk hópurinn nafngiftina „Landsliðið“.

Á vormánuðum seldi skógarverktakinn 7-9-13 Gremio-skógarhöggs- og útkeyrsluvélaflota sinn sem eru einu vélarnar sinnar gerðar á Íslandi og nota má til að höggva skóg og fjarlægja timbrið. Verktakarnir Jens Líndal eða Jenni ehf. og Guðmundur Geirsson keyptu vélarnar og voru í kjölfarið ráðnir í verktöku á Norðurlandi.

Sá merki atburður átti sér einnig stað á Norðurlandi að PCC Bakki Silicon við Húsavík hóf að kaupa íslenskan grisjunarvið. Skógræktin seldi um það bil 670 m3 af grisjunarviði til verksmiðjunnar á Bakka. Slík sala til PCC á eftir að renna sterkari stoðum undir grisjun, sértaklega á Norðurlandi.

Á Skógarjörðinni Hvammi í Eyjafjarðarsveit voru grisjaðir um það bil fimm hektarar af skógi og fengust þar um það bil 780 rúmmetrar af grisjunarviði. Tveir reitir voru rjóðurfelldir vegna skemmda, 35 ára gamall síberíulerkireitur 0,9 hektarar að stærð og asparreitur 0,4 hektarar að stærð. Þetta telst til að vera ein stærsta einstaka grisjunin í rúmmetrum talin á sömu jörð, að minnsta kosti á Norðurlandi.

Grisjaður eyfirskur lerkiskógur. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson

Skógræktarfélag Eyfirðinga grisjaði skóga á nokkrum stöðum á árinu og varð heildarrúmmetrafjöldi úr þeim grisjunum um og yfir 400. Mest af því fór í kurl og eldivið sem félagið kemur í verð.

Snemmgrisjun á jörðum í verkefninu nytjaskógrækt á lögbýlum var umsvifameiri en undanfarin ár og voru samtals grisjaðir tæplega 40 hektarar á 12 jörðum á Norðurlandi. Jarðirnar liggja vítt og breitt um starfsvæði Norðurlandssdeildar eða allt frá Fnjóskadal í Suður-Þingeyjarsýslu til og með Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Skógarbændur grisjuðu sjálfir um það bil 30% af heildargrisjuninni en skógarverktakar um 70%.

Útkeyrsluvélin að störfum í Hvammi Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson

Grisjað var á tveimur jörðum þjóðskóganna á Norðurlandi, í Vaglaskógi og á Vöglum Þelamörk. Í Vaglaskógi voru grisjaðir rauðgrenireitir sem gróðursettir voru á árunum 1956 og 1961. Á Vöglum á Þelamörk vru grisjaðir stafafurureitir og lerkireitir gróðursettir upp úr 1980. Samtals voru grisjaðir rúmmlega 900 rúmmetrar í þessum norðlensku þjóðskógum, mest af rússalerki, stafafuru og rauðgreni. Birkiskógar á Norðurlandi voru grisjaðir til eldiviðarframleiðslu, í heildina um og yfir 100 m3.

Stærstu einstöku kaupendur að timbri á árinu voru PCC á Bakka sem tók við grisjunarviði og Skógarafurðir á Fljótsdalshéraði sem tóku við flettiefni, auk fastra samningsbundinna kaupenda. Skógarafurðir sáu um allan flutning frá fellingarstöðum til kaupenda.

Samtals féllu til yfir 2.200 rúmmetrar af timbri við grisjun á Norðurlandi á starfsárinu.

 Timburstæður í Hvammi Eyjafjarðarsveit. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson

 

Vorviður

Ársskýrsla Vorviðar 2021

Sæmundur Þorvaldsson

Vorviður er verkefni sem Skógræktin stofnaði til í árslok 2020 sem hluta af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og bættri landnýtingu í þágu loftslags. Markmiðið var að efla tengsl við og styðja félagasamtök til átaks í skógrækt. Sérstök fjárveiting frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu var nýtt í þessu skyni. Skógræktin skipaði verkefnisstjóra til að annast verkefnið. Hlutverk hans var að taka við umsóknum, yfirfara þær, meta og úthluta styrkjum. Hann sá um að fræða styrkþega og veita þeim ráðgjöf, fylgjast með framgangi verkefna, taka við framkvæmdaskýrslum og afritum reikninga og ganga úr skugga um að verkið hefði farið fram og að reglum verkefnisins fylgt. Tillögur verkefnisstjóra um hverjir hlytu styrki voru samþykktar af Skógræktinni. Á árinu 2021 lauk 21 félag við verkefni sín og nam úthlutuð fjárhæð samtals 6.833.160 krónum. Í þessum verkefnum voru gróðursettar 32.453 trjáplöntur.

Við gróðursetningu að Reynivöllum í Kjós. Ljósmynd aðsendMarkmið verkefnisins var að efla samstarf Skógræktarinnar og ýmissa félaga um allt land, í því augnamiði að félögin hefðu kost á að binda kolefni með eigin skógrækt. Félögum með aðgang að landi sem þegar hafði verið skipulagt til skógræktar nutu forgangs og einnig var mælst til að félögin nýttu sér plöntuframleiðslu í héimahéraði ef þess væri kostur.

Stuðningurinn fólst í endurgreiðslu kostnaðar við plöntukaup eingöngu. Ekki var gert ráð fyrir að styrkja félög til eigin plöntuframleiðslu, heldur eingöngu til kaupa á plöntum af viðurkenndum tegundum af viðurkenndum ræktendum.

Nokkrar forsendur voru gefnar fyrir styrkveitingu, bæði hvað varðar umsækjanda og land sem nýta mætti til verkefnisins. Styrkhæfi mótaðist einkum af ræktunaröryggi, svo sem beitarfriðun og mati á getu félaga til að koma hlutum í verk.

Félag sem hlýtur styrk gerir samning við Skógræktina fyrir eitt ár í senn. Samningi fylgja leiðbeiningar um tegundaval og ræktun. Plöntur skulu vera af tilteknum tegundum skógartrjáa.

 • Gróðursett að Felli í MýrdalAð umsækjandi hafi leyfi landeiganda fyrir framkvæmdinni og að hún stangist ekki á við verndarákvæði skv. landslögum eða skipulagsáætlun viðkomandi sveitarfélags.
 • Gróðursett að Felli í Mýrdal. Ljósmyndir aðsendarLandið sé friðað fyrir beit.
 • Styrkhæfar trjátegundir eru tegundir sem metnar eru hæfar til að binda kolefni úr andrúmslofti hérlendis (ekki skrauttré og skrautrunnar):
  • ilmbjörk og hengibjörk
  • reyniviður, gráreynir, silfurreynir og alpareynir
  • rússalerki, evrópulerki og lerkiblendingurinn 'Hrymur'
  • stafafura, bergfura og lindifura
  • sitkagreni, rauðgreni, hvítgreni og blágreni
  • fjallaþinur
  • gráelri, blæelri, svartelri, ryðelri og sitka-/græn-/kjarrelri
  • alaskaösp og blæösp
  • jörvavíðir, alaskavíðir, sitkavíðir, lensuvíðir og selja

Einnig voru nokkur önnur atriði tínd til sem gátu haft áhrif á hvort styrkur fengist eða ekki:

Hvers konar félög gátu hlotið styrk?

 • Formleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. góðgerðarfélög og áhugamannasamtök
 • Óformleg félög sem ekki hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. vinnustaðafélög
 • Félög sem hafa aðgang að annarri fjármögnun til skógræktar, t.d. skógræktarfélög

Fyrirtæki og opinberar stofnanir eða félög (hf., ehf., sf., ohf.) komu ekki til greina.

Kortið sýnir staðsetningu ræktunarstaða sumarið 2021. Athygli vekur að ekkert verkefni var á öllum austurhluta landsins. Af þeim landshluta barst aðeins ein umsókn og hlaut hún styrkloforð, en af framkvæmdum varð því miður ekki.

Hvers konar lönd mátti nota?

 • Stærri lönd sem eru skipulögð til skógræktar og friðuð fyrir beit eða svæði innan slíkra heilda, t.d. svæði innan skógræktarsvæða sveitarfélaga eða annarra aðila.
 • Stærri einkalönd sem eru friðuð fyrir beit.
 • Minni svæði (minnst 1 ha) sem eru friðuð fyrir beit.

Svæði sem ekki eru friðuð fyrir beit komu ekki til greina. Frístundalóðir komu ekki til greina.

Aðrar forsendur fyrir greiðslu styrkja voru þær að styrkþegi skilaði framkvæmdaskýrslu á þar til gerðu eyðublaði og útlínum hins nýja skógar hnituðum á kort með sérstöku appi, auk afrits af sundurliðuðum plöntureikningum.

Vaskur hópur við gróðursetningu við Laugarvatnsfjall. Lionsklúbbur Laugardals. Ljósmynd aðsendVerkefnisstjóri ásamt æðstu mönnum hjá Skógræktinni yfirfóru umsóknirnar og niðurstaðan varð að lofa 23 félögum styrkjum að upphæð alls 8.675.000 kr. Þessi félög voru dreifð vítt og breitt um landið og af ýmsum toga, tveir golfklúbbar, tvö hestamannafélög, þrír Lions-klúbbar og ellefu skógræktarfélög, auk fimm félaga af ýmsu tagi.

Þegar upp var staðið lauk 21 félag við verkefni sín en upphæð styrks lækkaði úr 8.675.000 niður í 6.833.160 kr. Lækkunin var bæði vegna þess að verkefnum fækkaði og eins að gátu allmörg félaganna ekki keypt allar þær plöntur sem stefnt hafði verið að. Mjög erfitt var að fá plöntur víða, enda eftirspurn aukist mjög en framleiðslugeta gróðrarstöðva annað þeirri auknu eftirspurn.

Tafla 1. Félög sem hlutu styrki úr Vorvið á árinu 2021, alls að upphæð 6.875.000 kr.
FÉLAG RÆKTUNARSTAÐUR PLÖNTUFJÖLDI
Brimnesskógur félag Viðvíkursveit, nærri Kolkuósi 900         
Ferðafélag Íslands Heiðmörk 1.801         
Fossá skógræktarfélag Fossá Hvalfirði 2.520         
Golfklúbbur Brautarholts Kjalarnes 422         
Golfklúbburinn Mostri Stykkishólmi 1.621         
Hestamannafélagið Borgfirðingur Borgarnesi 1.185         
Hestamannafélagið Geysir Gaddstaðaflötum Hellu 2.850         
Íslenski fjallahjólaklúbburinn Hafnarfirði 555         
Lionsklúbbur Hólmavíkur Hermannslundi 233         
Lionsklúbbur Laugardals Laugarvatni 1.470         
Lionsklúbburinn Ösp Glerárdal 493         
Skotfélagið Markviss Blönduósi - íþróttasvæði 1.275         
Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga Gunnfríðarstöðum 440         
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar Hamranesi við Hvaleyrarvatn 710         
Skógræktarfélag Ísafjarðar Battahlíð við Holtahverfi 960         
Skógræktarfélag Íslands Úlfljótsvatni 1.753         
Skógræktarfélag Rangæinga Bolholti 1.537         
Skógræktarfélag Reykjavíkur Reynivöllum í Kjós og Felli Mýrdal 5.558         
Skógræktarfélag Strandasýslu Klúkumelum 470         
Skógræktarfélag Suðurnesja Njarðvíkurskógum 3.300         
Skógræktarfélagið Hólum Hólaskógi Hjaltadal 2.400         
  Samtals 32.453         

Almennt telur skýrsluhöfundur að vel hafi tekist til með verkefni félaganna árið 2021 og öll stóðu þau skil á fullnægjandi gögnum um framkvæmd og kostnað.

Fræmál

Fræmál 2021

Valgerður Jónsdóttir

Með aukinni gróðursetningu eykst þörf á góðu fræi og græðlingaefni til fjölgunar. Öll umsýsla og geymsla á fræi fer nú fram á Vöglum, svo og utanumhald og skipulag fjölgunarefnis almennt. Undanfarin ár hefur verið lögð talsverð vinna í að fara yfir, spírunarprófa og ráðstafa eftir atvikum gömlum fræbirgðum sem safnast hafa saman í gegnum árin. Tegundum hefur fækkað nokkuð á frælista Skógræktarinnar, en áfram er lögð áhersla á að hafa í boði fræ af þeim tegundum sem þroska fræ hérlendis og notuð eru til skógræktar.

Birki

Hlutar birkifræs. Mynd: Pétur HalldórssonEftir að fræframleiðslu á birki var hætt í fræhúsinu á Vöglum hefur fræ af Emblu frá gróðrarstöðinni Mörk verið eina kynbætta birkifræið sem í boði hefur verið. Fram undir þetta hafa þó verið til lagerar úr fræhúsinu á Vöglum en þeir eru nú uppurnir. Safnað var talsverðu af birkifræi haustið 2020 og svo aftur síðastliðið haust. Starfsmenn Skógræktarinnar hafa séð um þá söfnun og valin hafa verið svæði með álitlegu birki af Bæjarstaðauppruna, þar sem ekki er mikil mengun af öðru birki í nágrenninu. Flestar gróðrarstöðvar þurfa að láta húða fræið til að geta sáð því með vélum og er fræið þá sent til Svíþjóðar í hreinsun og húðun. Ein gróðrarstöð hefur yfir að ráða sáningarvél sem getur sáð birki án þess að fræið sé húðað og er það mikill kostur, þar sem húðunin er dýr og fræið viðkvæmt í meðhöndlun eftir húðun. Birkifræ geymist skemur en barrtrjáfræ og því er ráðlegt að safna árlega og reikna með að eiga alltaf birgðir til 1-3 ára, þar sem sú staða getur hæglega komið upp að ekki sé fræár í birki.

Greni

Hálfþroskaðir könglar á sitkagreni. Ljósmynd: Pétur HalldórssonLíkt og flestar barrtrjátegundir geymist grenifræ lengi við réttar aðstæður. Til er talsvert magn af sitkagrenifræi sem safnað var árið 2008, mest af Cordova-uppruna. Þetta fræ ætti að endast okkur næstu ár, en geymsluaðstæður eru ekki alveg eins og æskilegt er til langtímageymslu þannig að koma verður í ljós hvað fræið heldur spírunareiginleikum sínum lengi. Gríðarlega mikið fræár var árið 2020 og þá var ætlunin að safna góðum lager. Það fórst þó fyrir og einungis nokkur kíló skiluðu sér í hús. Safna þarf sitkabastarði næsta haust og jafnvel bæta við lagerinn af sitkagreni af öðrum uppruna en Cordova.

Stafafura

Undanfarin ár hefur gengið fremur illa að safna nægjanlegu magni af stafafurukönglum til þess að mæta þörfinni, einkum fyrir kvæmi af Skagway-uppruna.Til skamms tíma var hægt að kaupa slíkt fræ að utan en vegna sjúkdómsins dvergmistilteins (Arceuthobium americanum) sem herjar á stafafuru í Alaska og víðar, er fræ ekki lengur í boði á þeim slóðum. Einnig hefur dálítið verið flutt inn af stafafurufræi gegnum Noreg, frá frægarðinum í Taraldsöy, en Norðmenn eru hættir að sinna þeirri söfnun af hagkvæmnisjónarmiðum. Athugað var með möguleika á því að Skógræktin sendi flokk út til Taraldsöy til að safna könglum, en það dæmi reyndist verða allt of kostnaðar- og tímafrekt til að slíkt væri fýsilegt.

Undanfarin ár hafa verið áform um mikla söfnun á stafafurukönglum og í bjartsýni okkar höfum við talið að starfsmenn Skógræktarinnar gætu sinnt þessari söfnun, svona með öðrum störfum. Þetta hefur ekki skilað nægjanlegu magni af fræjum undanfarin ár, enda allir störfum hlaðnir og haustið liðið án þess að menn kæmust í könglasöfnun.

Skógræktarfélag Eyfirðinga efndi til söfnunar á stafafurukönglum á Vöglum á Þelamörk og komu um fimmtíu manns til að leggja söfnuninni lið. Ágóðinn rann í sjóð til kaupa á nýjum snjótroðara fyrir Kjarnaskóg. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞví var ákveðið síðastliðið sumar að auglýsa eftir áhugasömum söfnurum og borga fyrir hvert kíló af könglum. Stofnað var til teymis innan Skógræktarinnar sem skyldi hafa það hlutverk að skipuleggja söfnun og aðstoða safnara eftir þörfum. Byrjað var á því að setja á blað reglur og leiðbeiningar varðandi könglasöfnun og sigta út vænlega söfnunarstaði. Mest áhersla var lögð á að safna könglum af Skagway-uppruna, en einnig var nokkru safnað af innlandskvæmum. Að vísu hefur notkun á innlandskvæmum færst að mestu leyti yfir á kynbætt sænskt efni, eftir góða útkomu þeirra kvæma úr kvæmatilraunum undanfarin ár.

Skemmst er frá því að segja að viðbrögð við ákalli um könglasafnara fóru fram úr björtustu vonum. Fjölmargir, bæði einstaklingar og hópar, höfðu samband og lýstu áhuga sínum á verkinu. Að lokum fór svo að rúmlega 40 manns, auk nokkurra félagasamtaka tóku þátt í að safna könglum. Afköstin voru mismunandi, allt frá því að fólk safnaði nokkrum kílóum upp í einstaklinga sem söfnuðu tugum og hundruðum kílóa. Sá sem sló öll met í söfnun á könglum safnaði 869 kílóum og geri aðrir betur!

Sekkir með stafafurukönglum. Ljósmynd: Pétur HalldórssonUpphaflega var markmiðið að safna einu tonni af könglum, til þess að vera örugg um að eiga nægjanlegt fræ til sáningar í vor, en þar sem verkið gekk mun betur en við þorðum að vona, var ákveðið að nýta tækifærið til að koma upp birgðum af fræi, sem myndu endast okkur tvö til þrjú ár. Þegar upp var staðið í byrjun desember höfðu safnast ríflega 3 tonn af könglum og þori ég að fullyrða að aldrei áður hefur verið safnað þvílíku magni hérlendis.

Fyrir nokkru var sú ákvörðun tekin að klengja alla köngla á Vöglum og senda fræin út til Svíþjóðar í afvængjun og hreinsun. Búnaður til klengingar er afar frumstæður og ekki ætlaður í svona mikið magn, það var því ærið verk fyrir starfsmenn á Vöglum að ná að klengja könglana í tæka tíð. Tímaramminn sem við höfum er þröngur því fræið þarf að berast til Svíþjóðar í síðasta lagi um miðjan nóvember til þess að það náist að meðhöndla fræið og gera allar nauðsynlegar prófanir í tæka tíð fyrir sáningu í byrjun mars. Í ár voru Svíarnir sérstaklega harðir á tímasetningum, þar sem metfræár var í greni hjá þeim og mikið álag í fræverkuninni. Ákveðið var að senda svo fljótt sem auðið var það magn sem við teldum að myndi duga til sáningar í vor og restina síðar.

Stórsekkur með könglum á Vöglum. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirUm miðjan nóvember sendum við út um 35 kg af óhreinsuðu fræi og renndum alveg blint í sjóinn með hvað yrði mikið úr því af hreinsluðu fræi. Ekki síður var spennandi að vita um gæði fræsins, því mikið er í húfi, bæði fyrir okkur sem kaupendur og ekki síður framleiðendur, að fræið hafi góða spírun og spírunarorku, þannig að unnt sé að sá einu fræi í hvert gat á plöntubökkum í gróðrarstöð. Með því móti verður nýtingin á gróðurhúsunum betri og minni vinna við flokkun og priklun, samanborið við það ef sá þarf fleiri en einu fræi í gat. Spennan var því mikil þegar niðurstöður bárust í lok janúar. Úr þessum 35 kílóum af óhreinsuðu fræi fengust 16,6 kíló af fræi sem spíraði 91,75%! Spírunarorkan var hins vegar ekki alveg nógu góð, þannig að tekin var ákvörðun um að IDS-meðhöndla fræið. Þegar þetta er skrifað, um miðjan febrúar 2022, er sú meðferð í gangi og vonir standa til að hún muni bæta bæði spírun og spírunarorku. Þessi niðurstaða er framar öllum vonum og mikið gleðiefni. Við eigum nú nægjanlegt magn af stafafurufræi af Skagway-uppruna til sáningar a.m.k. næstu þrjú til fjögur ár. Við erum enn þá að vinna í klengingu hér á Vöglum, þannig að óljóst er hve mikið magn bætist við, en það verða allavega nokkur kíló til viðbótar.

'Hrymur'

Blómgun á yngri móðurtrjám 'Hryms' í fræhúsinu á Vöglum. Fjær sjást eldri trén sem endurnýjuð verða á komandi árum. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÍ fræhúsinu söfnuðust 4,2 kg af Hrymsfræi. Nú fer að koma að því að endurnýja þurfi eldri hluta trjánna í húsinu; þau eru orðin um þrjátíu ára gömul sem er um það bil sá tími sem tré eru notuð í svona ræktun að jafnaði. Í ríflega helmingi hússins eru ung tré sem sett voru niður þar fyrir fáeinum árum. Þessi yngri hluti trjánna er ekki alveg kominn í gang í fræframleiðslunni. Sum þeirra eru þó farin að blómstra og gefa fræ en önnur ekki. Það má því búast við heldur minna Hrymsfræi næstu 2-3 árin, þar til yngri hlutinn kemst á fullan skrið. Þá má búast við meiri uppskeru.

Ösp

Asparstiklingar í uppeldi á Tumastöðum. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonLögð hefur verið áhersla á að fjölga móðurplöntureitum af ryðþolnum asparklónum. Mest af græðlingaræktinni fer fram á Tumastöðun, en einnig hafa verið settir upp móðurplöntureitir af ryðþolnum klónum til varðveislu á Vöglum og Hallormsstað. Einkaaðilar hafa verið talsvert í græðlingarækt og hefur Skógræktin hvatt þá til að auka þá ræktun og aðstoðað við að útvega ryðþolna klóna til fjölgunar.

Reyniviður

Fræ af reynivið geymist ekki sérstaklega lengi, þannig að birgðir eru litlar á Vöglum. Undanfarin ár höfum við tínt ber úr afkvæmatilraun á Vöglum á Þelamörk, en þar eru afkvæmi valinna einstaklinga farin að gefa ber. Sambærileg tilraun er í Hellismýri við Selfoss. Áhersla verður lögð á að nota þetta efni til fjölgunar næstu ár.

ÞJÓÐSKÓGASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra

Þjóðskógasvið 2020

Hreinn Óskarsson

Mikill fjöldi Íslendinga sótti þjóðskógana heim árið 2021 og er líklega um að ræða mesta fjölda sem heimsótt hefur þjóðskóga á einu ári. Tjaldstæði sér í lagi á Austur- og Norðurlandi voru fullbókuð hluta sumarsins enda eindæma veðurblíða á þeim hluta landsins og lítt spennandi að ferðast til útlanda í COVID-19 faraldrinum. Veðurgæðum var misskipt milli landshluta og var sumarið þurrt og hlýtt á norðan og austanverðu landinu, en að sama skapi blautt á suðvestanverðu landinu. Áhersla á gróðursetningu í lönd Skógræktarinnar jókst enn á árinu í tengslum við samstarfsverkefni við innlenda og erlenda aðila. Var gróðursetning trjáplantna hjá þjóðskógasviði árið 2021 sú mesta sem um getur. Stærstu verkefnin voru á Suður- og Vesturlandi auk nýrra verkefna í öðrum landshlutum. Grisjun var minni en undanfarin ár, en mest var grisjað á Norðurlandi.

Sjálfboðaliðar hvaðanæva úr heiminum leggja gjörva hönd á plóginn við umhirðu og viðhald á Þórsmerkursvæðinu. Ljósmynd: Judith HerrmannMeginverkefni þjóðskógasviðs eru umsjón með landsvæðum, skógum og fasteignum í eigu ríkisins, en einnig einstaka svæði í einkaeigu. Friðun og endurheimt birkiskóga er eitt af lykilverkefnunum, en einnig eru nýræktun blandaðra skóga mikilvægt verkefni. Stórt og mikilvægt verkefni þjóðskógasviðs er að viðhalda og byggja upp útivistarsvæði og áningarstaði fyrir almenning og ferðafólk. Umhirða skóga, úrvinnsla skógarafurða og þróun nýrra afurða og verklags við afurðavinnslu er einnig mikilvægt verkefni. Verkefni á þjóðskógasviði eru nokkuð margslungin og ólík, allt frá frá fræðslu til grunnskólabarna yfir í rannsóknasamstarf með erlendum sem innlendum aðilum. Allt frá fræsöfnun eða frærækt til lokahöggs skóga. Ráðgjöf um ýmsa þætti skógræktar er eitt af verkefnum starfsmanna á sviðinu auk fjölþættra samstarfsverkefna, teymisvinnu og fleiri verkefna sem ekki er rými til að telja upp hér.

Charles J. Goemans, verkefnastjóri sjálfboðastarfs á Þórsmörk, Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, og Jón Þór Birgisson skógræktarráðgjafi skoða grisjun í sitkagreniskógi. Ljósmynd. Hreinn ÓskarssonVerkefnastjóri samstarfsverkefna starfar á sviðinu og stýrir samstarfsverkefnum sem kennd eru við Bonn-áskorunina, þ.e. Hekluskógaverkefnið, Þorláksskógar og ræktun Hólasands. Fjórir skógarverðir stýra deildum á Suður-, Vestur-, Norður- og Austurlandi. Hver þeirra starfar á sínu sviði með nokkra starfsmenn. Sviðstjóri sviðsins er staðsettur á Selfossi. Á sviðinu störfuðu á árinu tæplega 30 starfsmenn, sumir í hlutastarfi. Um 15 erlendir skógfræðinemar dvöldu sem starfsnemar um nokkrurra vikna skeið hver og störfuðu á starfstöðvum með starfsfólki stofnunarinnar. Fjöldi ársverka var um 25 eins og undanfarin ár.

Tíðarfar var gott og hitastig ársins rétt undir meðaltali síðustu 10 ára. Fremur þurrt var á landinu og vetur snjóléttur á sunnanverðu landinu. Meðalhiti sumarsins var með hæsta móti og voru veðurmet slegin á norðan- og austanverðu landinu (heimild: vefur Veðurstofu Íslands). Vorið var smáplöntum á sunnanverðu landinu erfitt, sökum þess hversu þurrt og sólríkt var í apríl og maí. Maí var óvenjukaldur og næturfrost algeng inn til landsins fram í júní. Má telja að þessi þurrakuldi skýri mikil afföll á ungplöntum, sér í lagi á sunnanverðu landinu.

Gróðursetning

Mest var gróðursett af birki í þjóðskógum og samstarfsverkefnum, rúmlega 1,2 milljónir plantna. Ljósmynd: Trausti JóhannssonGróðursetning ársins 2021 hjá þjóðskógasviði var sú mesta frá upphafi á einu ári. Alls var gróðursett rúmlega 2,1 milljón plantna í verkefni á vegum sviðsins, bæði í umsjónarlönd Skógræktarinnar víða um land og í samstarfsverkefni með Landgræðslunni í Hekluskóga, Hólasand og Þorláksskóga. Í umsjónarlöndum Skógræktarinnar voru flest verkefnin í samstarfi við innlenda og erlenda aðila; mörg hver snerust um kolefnisbindingu með skógrækt. Í töflu 1 hér að neðan má sjá sundurliðun í svæði og trjátegundir. Mest var gróðursett af birki eins og undanfarin ár og var fjöldi plantna rúmlega 1,2 milljónir sem gróðursettar voru í um 575 ha lands í Hekluskógum, Þorláksskógum og á Hólasandi. Þessi verkefni voru eins og áður sagði unnin í samstarfi við Landgræðsluna. Fjöldi hópa tók að sér verkefni í Hekluskógum og Þorláksskógum eins og undanfarin ár, t.a.m. íþróttahópar sem gróðursettu á þriðja hundrað þúsund plöntur í fjáröflunarskyni. Stærstu gróðursetningarverkefnin í umsjónarlönd Skógræktarinnar voru í samstarfi við fyrirtækin Landsvirkjun,Unnið að stungu aspargræðlinga í jarðunnið land. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson Land Life og One Tree Planted. Mest var gróðursett í þessi verkefni af stafafuru, sitkagreni, alaskaösp og birki. Flatarmál gróðursetninga í þjóðskógunum var um 370 ha. Stærstur hluti gróðursetninga var unninn af verktökum, bæði innlendum sem erlendum. Starfsfólk Skógræktarinnar, ræktendur plantna, dreifingaraðilar, sjálfboðaliðar og verktakar unnu stórvirki í að láta alla þætti þessa mikla verkefnis ganga upp og eiga mikið hrós skilið.

Tafla 1. Gróðursetning á sviðinu í þjóðskógum og samstarfsverkefnum árið 2021
  ÞJÓÐSKÓGAR SAMSTARFSVERKEFNI
   
Trjátegund Suður-
land
Vestur-
land
Austur-
land
Norður-
land
Hóla-
sandur
Þorláks-
skógar
Heklu-
skógar.
ALLS % af heild
Alaskaösp
89.839
13.405
312
   
18.435
 
123.991
6%
Ilmbirki
46.714
 62.070
2.211
1.876
127.500
250.000
747.281
1.237.652
58%
Jörfavíðir
         
2.000
 
2.000
>1%
Hrymur (lerkibl.)
       
 
134
 
134
>1%
Rússalerki
       
15.008
   
15.008
1%
Sitkagreni/bast.
124.040
56.860
36.900
400
 
30.200
 
248.400
12%
Stafafura
275.736
110.362
75.159
25.252
800
17.200
 
504.509
24%
Víðir, ýms. teg.
 
1.435
         
1.435
>1% 
Samtals 538.329 244.132 114.582 27.528 143.308 315.969 747.281 2.131.129 100%
                   

Skógarumhirða

Grisjun í sitkagreniskógi. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonGrisjun skóga og önnur umhirða skógarreita var á höndum starfsfólks Skógræktarinnar og verktaka. Ekki voru stór grisjunarverkefni á Suður- og Vesturlandi eftir töluverða grisjun síðustu ár, en aukning var í grisjun norðan- og austan lands. Í þjóðskógum voru alls grisjaðir um 37 ha og 2,6 ha voru rjóðurfelldir. Alls komu rúmlega 2.200 m3 af viði úr þessum grisjunum, þ.a. tæplega 500 m3 úr lokafellingu. Tæplega 1.000 m3 komu úr lerkiskógum og afgangurinn greni, fura og birki.

Viðarvinnsla

Skógræktin er með viðarvinnslu á þremur starfstöðvum, á Hallormsstað, Vöglum og Þjórsárdal. Á öllum þessum starfstöðvum er arinviðarvinnsla, en bandsagir eru á Hallormsstað og í Þjórsárdal. Viður er kurlaður á fleiri stöðum og kurlið selt þaðan. Síðastliðin ár hefur öflugur kurlari sem er í eigu Skógræktarinnar og fleiri aðila farið að vorlagi hringinn í kringum landið og verið nýttur til að kurla viðarstæður og greinahrúgur víða um land.

Framkvæmdir við nýja eldaskálann í Vaglaskógi. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonÍslenskt timbur er í ríkara mæli nýtt í ýmiss konar smíðar. Niðurstöður prófana á íslenskum viði hafa sýnt að timbur úr íslenskum skógum getur verið sambærilegt að gæðum og innflutt timbur, sé rétt að umhirðu skóga staðið. Sem dæmi um verkefni sem íslenskt timbur var nýtt í árið 2021 má nefna nýja brú yfir Þjórsá við Búrfell sem opnuð var í júní 2021 og eldaskálann í Vaglaskógi sem reistur var sumarið 2021.

Starfsmenn Skógræktarinnar, auk einkaaðila og starfsmanna skógræktarfélaga voru í námi í úrvinnslu viðar í tengslum við TreProx-verkefnið sem hófst árið 2019. Verkefnið er samvinnuverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarinnar, Trétækniráðgjafar slf., Linné-háskólans í Svíþjóð og Kaupmannahafnarháskóla. Meðal markmiða verkefnisins er að kenna þeim sem vinna við úrvinnslu viðar hér á landi að auka gæði afurðanna við sögun, þurrkun og með bættri skógarumhirðu og að læra hvernig velja á hentugt efni til vinnslu. Enn fremur að tengja saman þá aðila sem vinna við úrvinnslu viðar hér á landi og fá innsýn inn í starfsemi viðarvinnslu í Skandinavíu. Standa vonir til að þetta verkefni efli fagmennsku við úrvinnslu viðar hér á landi.

Ferðamannastaðir

Gríðarleg aðsókn var að tjaldsvæðum í Hallormsstaðaskógi og Vaglaskógi sumarið 2021 enda einstakt hlýindasumar á Norður- og Austurlandi. Myndin er tekin í Höfðavík á Hallormsstað. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSkógræktin rekur ferðamannastaði víða um land og eru þjóðskógar opnir öllum allan ársins hring. Tjaldsvæði eru rekin af Skógræktinni í Hallormsstaðaskógi og Vaglaskógi, auk þess sem rekstur tjaldsvæða er leigður út í Þjórsárdal og Skorradal. Á Þórsmerkursvæðinu er rekstur ferðamannastaða í höndum ferðafélaga og fyrirtækja. Viðhald gönguleiða og áningarstaða er stór þáttur í starfi þjóðskógasviðs. Víða um land eru gönguleiðir um skóga og áningarstaðir eru á nokkrum stöðum. Eldaskáli er á Laugarvatni, bálskýli í Þjórsárdal og nú er unnið að smíði eldaskála í Vaglaskógi. Styrkir hafa fengist í tengslum við Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum. Stærsta verkefnið við uppbyggingu og viðhald gönguleiða hefur verið starfrækt á Þórsmörk og Goðalandi undanfarin ár og hafa gönguleiðir og merkingar á gönguleiðum verið stórbættar á síðustu tíu árum.

Starfsmannamál

Eins og áður var nefnt störfuðu um 30 manns á sviðinu í ár og skiluðu rúmlega 25 ársverkum. Þrír starfsmenn létu af störfum á árinu. Hrönn Guðmundsdóttir lét af störfum í árslok sem verkefnisstjóri Hekluskóga og annarra samstarfsverkefna Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Tveir starfsmenn sem starfað hafa á Hallormsstað, Sigurður Kjerúlf og Snorri Páll Jóhannson, létu einnig af störfum á árinu. Eru þeim öllum þökkuð góð störf á síðustu árum og áratugum.

Að lokum

Verkefnum fjölgar eftir því sem skógar vaxa. Grisjunarþörf og önnur umhirða skóga, s.s. viðhald göngu- og skógarstíga, eykst með hverju árinu. Viðhald bygginga og véla hefur einnig aukist með aukinni notkun. Á síðustu árum hefur gróðursetning stóraukist í tengslum við verkefni sem tengjast kolefnisjöfnun fyrirtækja. Starfsfólki hefur ekki fjölgað í takt við aukin verkefni sem skapað hefur aukið álag á starfsfólk. Vil ég nota tækifærið og þakka starfsfólki þá miklu elju og útsjónarsemi sem það hefur sýnt við úrlausn verkefna.

Verktakar frá Gone West við gróðursetningu á Hekluskógasvæðinu. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson


Mikilvægi þjóðskóganna

Angan engu lík – um mikilvægi þjóðskóganna

Þór Þorfinnsson og Pétur Halldórsson

Segja má að þjóðskógarnir séu andlit skógræktar á Íslandi. Þúsundir Íslendinga og erlendra gesta sækja skógana heim ár hvert og þeir gegna mikilvægu hlutverki í heimahéraði. En saga og hlutverk þjóðskóganna einskorðast ekki við að vera áningarstaður. Gildi þeirra og mikilvægi í þátíð, nútíð og framtíð er umtalsvert meira.

Guttormslundur á Hallormsstað er gott dæmi um þróunarstarf sem gefið hefur reynslu og þekkingu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞjóðskógar eru hugtak sem notað hefur verið um árabil um þá skóga sem eru í eigu þjóðarinnar og umsjón Skógræktarinnar. Það var þó fyrst árið 2019 sem hugtakið varð lögformlegt, með nýjum skógræktarlögum. Þjóðskógar rekja engu að síður sögu sína allt aftur til upphafs skipulagðrar skógræktar og skógverndar á Íslandi þegar byrjað var að friða birkiskógaleifar og svæði voru falin Skógræktinni til verndar og ræktunar með fyrstu skógræktarlögunum 1907.

En mikilvægi þjóðskóganna felst ekki í hugtökum um þá. Þeir eru í fyrsta lagi mikilvægir vegna þess að á elleftu stundu tókst að koma í veg fyrir að birkiskógar hyrfu með öllu af landinu. Án friðunar birkiskóga á fyrstu áratugum liðinnar aldar er ómögulegt að segja hvernig farið hefði fyrir Hallormsstaðaskógi, Vaglaskógi, Þórsmerkurbirkinu og fleiri birkiskóga og -kjarrsvæðum sem nú eru meðal gersema í hugum þjóðarinnar.

Löng ræktunarsaga

Verndun og útbreiðsla birkis hefur alla tíð verið annað af tveimur meginhlutverkum Skógræktarinnar og þetta hlutverk hefur eflst frekar en hitt á undanförnum árum, bæði með endurnýjaðri löggjöf og aukinni áherslu á landeflingu, ekki síst til að sporna gegn loftslagsröskun, jarðvegseyðingu og hnignun landsins. Þetta hlutverk er reyndar nátengt hinu meginhlutverki Skógræktarinnar, ræktun nýrra skóga til gagns fyrir land og þjóð.

Skógarfura í Grundarreit gróðursett um 1955. Ljósmynd: Pétur HalldórssonUm aldamótin 1900 hófust fyrir alvöru tilraunir með ræktun nytjaskóga á Íslandi og þótt lítið fari fyrir þeim skógum sem þá voru ræktaðir eigum við ýmsa merka minnisvarða. Þar ber helst að nefna Furulundinn á Þingvöllum og Grundarreit í Eyjafirði þar sem margar trjátegundir voru reyndar. Skógræktin gaf á árinu út myndbönd um þessa tvo reiti, meðal annars til að hvetja fólk til að sækja þá heim og skoða.

Löng ræktunarsaga skógræktar á Íslandi er vörðuð ýmsum tilraunum, áföllum, sigrum og vonbrigðum. Smám saman byggðist þó upp dýrmæt þekking á tegundum, kvæmum og aðferðum sem nýtast nú vel við hvers kyns skógræktarstarf. Þessa þekkingu eigum við ekki síst að þakka því starfi sem farið hefur fram í á aðra öld í þjóðskógum landsins, bæði verndar- og ræktunarstarfi.

Ræktunargildi og fyrirmynd

Áfram er unnið að ræktun, umhirðu og vernd í þjóðskógunum með reynslu og þekkingu að vopni. Þjóðskógarnir eru meðal annars vettvangur rannsókna og öflunar nýrrar þekkingar með ýmsum tilraunum sem þar eru gerðar. Reynd eru ný kvæmi, nýjar tegundir, nýjar aðferðir við ræktun eða umhirðu, aðferðir og verkkunnátta þróuð við grisjun og skógarhögg, fylgst með skaðvöldum og sjúkdómum en líka með þróun vistkerfisins þar sem birtast nýjar tegundir sveppa, fugla og fleiri tegunda lífvera svo nokkuð sé nefnt.

Þjóðskógarnir eru því og eiga að vera fyrirmynd annarrar skógræktar í landinu. Endurtaka má það sem vel hefur gefist og forðast þau mistök sem gerð hafa verið. Þannig má segja að þjóðskógarnir séu lifandi kennslustofa fyrir skógrækt og skógvernd á Íslandi. Þeir geta gefið svör við ótal spurningum.

Rannsóknargildi

Mismunandi „ryðgaðar“ aspir í þjóðskóginum Haukadal. Ljósmynd: Halldór SverrissonSlíkt umhverfi hefur að sjálfsögðu rannsóknargildi. Ef engin 100 ára gömul tré væru á Íslandi gætum við ekki rannsakað svo gömul tré eða umhverfi þeirra. Í þjóðskógunum höfum við komist að raun um ýmislegt sem snertir t.a.m. ræktun jólatrjáa, hvaða efniviður sé bestur og hvaða tegundir við höfum möguleika á að rækta. Í þjóðskóginum á Vöglum á Þelamörk eru til dæmis frægarðar fyrir kynbættan fjallaþin sem vonandi gefur fræ til framleiðslu á íslenskum trjám sem geta leyst af hólmi innfluttan þin.

Í þjóðskógunum höfum við líka komist að raun um ýmislegt sem snertir viðareiginleika og viðarvöxt trjátegunda. Við vitum að rauðgreni gefur gott timbur en í ljós kemur að það vex óþarflega hægt á Íslandi og mun vænlegra er að rækta sitkagreni eða sitkabastarð sem er blendingur sitka- og hvítgrenis. Alaskaösp er líka ein af mikilvægustu trjátegundunum okkar og þar hefur til dæmis staðið yfir mikil leit að bestu klónunum til ræktunar á mismunandi svæðum eða til varnar gegn asparryðsveppi. Þjóðskógarnir eru þarna mikilvægur vettvangur og eins fóstra þeir tilraunir með betri efnivið af birki, stafafuru, lerki og fleiri tegundum.

Söfn trjáa og erfðaefnis

Tilraun með úrvalstré reyniviðar í þjóðskóginum á Vöglum Þelamörk. Ljósmynd: Pétur HalldórssonAllt þetta starf gerir að verkum að í þjóðskógunum er að finna ýmislegt sem annars væri fágætt eða ekki til á landinu. Í þjóðskógunum er fjölbreytilegt erfðaefni trjátegunda sem kann að vera til margvíslegs gagns. Vegna þess hversu margt hefur verið prófað getur leynst í þjóðskógunum efniviður sem við sjáum ekki að gagnist okkur nú en gæti gagnast okkur síðar. Við gætum fundið í þessum skógum yfirburðaeinstaklinga einhverrar tegundar sem við myndum vilja nýta til kynbóta eða ræktunar á sérstaklega vel aðlöguðu yrki. Við áðurnefndar kynbætur á fjallaþin hafa verið tekin tré til ágræðslu sem gátu af sér kynbótatrén í frægörðunum á Þelamörk. Við ræktun á lerkiblendingnum 'Hrymi' var m.a. sóttur í þjóðskógana efniviður af úrvalstrjám af bæði evrópu- og rússalerki. Birkiskógarnir á Þórsmörk teljast til þjóðskóganna og Þórsmerkurbirkið gæti mögulega haft eiginleika sem nýst gætu vel við eflingu birkiskóglendis á landinu svo mögulegt dæmi sé tekið.

Og í mannheimi er til siðs að setja merkilega hluti á söfn til varðveislu og sýningar. Tré eru reyndar ekki hlutir sem hægt er að raða í hillur á söfnum. Engu að síður má finna trjásöfn í nokkrum þjóðskóganna, misjafnlega vel merkt og um hirt en öll áhugaverð. Þekktast er líklega trjásafnið í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi. Þar eru trjátegundir merktar í tugatali og gaman að koma til að kynnast tegundum trjáa en ekki síður til að sjá gömul tré á íslenskan mælikvarða því mörg þeirra eru meira en aldargömul. Trjásafnið í Vaglaskógi er heldur minna í sniðum en þar er þó líka margt að sjá, gömul tré eins og í Mörkinni og líka fágætar tegundir, svo sem balsamþin. Merkingar við trjátegundir er líka að finna í Grundarreit í Eyjafirði, á Reykjarhóli við Varmahlíð í Skagafirði, á Stálpastöðum í Skorradal, á Mógilsá við Kollafjörð, í Haukadal og í Múlakoti í Fljótshlíð og hafa allir þessir staðir eitthvað fram að færa fyrir áhugafólk um tré og skóga.

Allt þetta starf í bráðum 120 ár skilur eftir mikla reynslu og þekkingu. Starfið í þjóðskógunum er mikilvægur þáttur í að byggja upp og viðhalda mannauði í skógrækt á Íslandi.

Nýir tímar

Nýtt afl hefur nú bæst við í skógrækt á Íslandi og er ekki komið af góðu en kemur sér sannarlega vel fyrir þessa vaxandi grein í íslensku samfélagi. Loftslagsbreytingar ýta á aukna kolefnisbindingu með skógrækt. Aukin áhersla er nú lögð á að breiða út villt birkiskóglendi á landinu í fjölþættum tilgangi. Land sem klætt er skógi eða kjarri tapar ekki jarðvegi sínum og tapar ekki meira kolefni en það bindur. Birkið er duglegt að breiðast út af sjálfsdáðum og er þar með gott tæki til að verja land fyrir náttúruöflunum, meðal annars eldstöðvunum okkar. Þær spúa annað slagið ösku sem kæfir lággróður. Aftur á móti hefur komið í ljós að stöndugt kjarr eða skógur kafnar ekki í öskufalli heldur getur beinlínis haft gott af slíkri sendingu eins og sást á Þórsmerkurbirkinu eftir nýlegt gos í Eyjafjallajökli.

Lárus Heiðarson, sérfræðingur hjá Skógræktinni, og Eiður Elvarsson skógarverktaki, í nýjasta þjóðskóginum að Ormsstöðum Breiðdal þar sem One Tree Planted fjármagnar myndarlegt skógræktarverkefniEn ef markmiðið er að ná fram eins mikilli kolefnisbindingu og unnt er á hverjum hektara gefur betri raun að rækta trjátegundir sem vaxa hraðar og verða stærri en íslenska birkið gerir. Kolefni úr andrúmsloftinu er byggingarefni trjáa. Viðurinn í trjánum er að mestu leyti kolefni sem trén tóku úr andrúmsloftinu. Eftir því sem trén eru hærri og sverari, því meira kolefni hafa þau breytt úr lofti í við. Þeir þjóðskógar sem þegar hafa verið ræktaðir eru mikilvægt kolefnisforðabúr. Með því að stunda sjálfbærar nytjar á þessum skógum heldur kolefnisforðinn áfram að vaxa, þrátt fyrir að timbur sé tekið úr skógunum. Í þessu felst einmitt sjálfbærnin, að sjá til þess að auðlindin vaxi og dafni, þrátt fyrir nytjarnar. Við getum líkt þessu við íslenska þorskstofninn sem eitt sinn var í útrýmingarhættu en hefur farið vaxandi á síðari árum þrátt fyrir að nytjum hafi aldrei verið hætt. Snúið var af vegi ósjálfbærra nytja yfir í sjálfbærar.

Sjálfbærni er einmitt mergurinn málsins í kolefnisskógrækt. Það er ekki bara sjálfbærni ræktunarinnar og nytja skógarins heldur er það fólk í leit að sjálfbærni í rekstri fyrirtækja sinna sem nú sækist eftir því í vaxandi mæli að leggja fjármuni í nýskógrækt. Eftir því sem loftslagsmálin sverfa meira að, því meiri þrýstingur er á fyrirtæki að þau geti sýnt fram á að starfsemi þeirra stuðli ekki beinlínis að loftslagsbreytingum. Fleiri og fleiri fyrirtæki og stofnanir halda nú grænt bókhald þar sem fram kemur kolefnisfótspor starfseminnar. Í slíku bókhaldi sjást hlutirnir svart á hvítu. Og það eru ekki bara eigendurnir eða fólkið sem stendur í rekstrinum sem sér staðreyndirnar. Viðskiptavinir spyrja meir og meir út í kolefnisfótsporið. Þrýstingurinn vex ár frá ári. Ef til vill verða lögaðilar á endanum skyldaðir til að halda grænt bókhald og sýna fram á mótvægisaðgerðir ef reksturinn leiðir af sér nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Ef slíkt verður skylda þurfa enn fleiri á því að halda en nú að binda kolefni í skógi eða nýta aðrar leiðir sem draga úr nettólosun.

Í þessu efni eru þjóðskógarnir mikilvægir. Þekkingin sem þeir hafa gefið okkur í meira en öld nýtist nú til að skipuleggja skógrækt til kolefnisbindingar og sjálfbærar nytjar á þessum sömu skógum. Land í ríkiseigu er ekki ótakmarkað og kolefnisverkefni verða því ekki einungis unnin á þeim vettvangi. Þörf er á landi í annarra eigu, löndum bænda, sveitarfélaga, skógræktarfélaga og einkaaðila. Við hefðum ekki sömu tækifæri til að nýta þessi lönd ef ekki væri hægt að byggja á grunni þjóðskóganna. Þekkingin, reynslan og kunnáttan varð til í þjóðskógunum.

Fjölnytjaskógar

Gengið úr Básum á Goðalandi. Handan Krossár er Þórsmörk. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÍ skóglausu landi eins og Íslandi er enn mikilvægara en ella að skógar séu til fjölbreyttra nytja. Útivistargildi skóganna verður enn meira. Lagið Vor í Vaglaskógi eftir Jónas Jónasson við texta Kristjáns frá Djúpalæk segir sína sögu um gildi skógar fyrir fólk. Allir þjóðskógarnir eru opnir hverjum sem koma vill og þeir eru vettvangur fræðslu, upplifunar og bættrar lýðheilsu. Tjaldsvæði í skógum eru eftirsótt og gönguleiðir mikið nýttar eins og Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur eru mjög skýr dæmi um en líka Selskógur í Skorradal, Þjórsárdalsskógur og fleiri skógar, svo ekki sé minnst á Þórsmörk.

Nýta mætti betur ýmis tækifæri sem í skógunum felast svo sem að nýta þá til gönguferða með leiðsögn. Í ljós hefur komið að erlendir ferðamenn njóta þess mjög að heimsækja þjóðskógana og bæklingar sem gefnir hafa verið út á ensku um nokkra þjóðskóganna eru mikið notaðir. Skógarnir hafa líka menningarsögulegt gildi. Birkiskógarnir voru mikilvæg auðlind sem þvarr vegna ofnýtingar en þar er að finna minjar um kolagerð og járnvinnslu og í tungumálinu eru ótal orð og orðtök sem vitna um horfna skóga svo sem málshátturinn oft er í holti heyrandi nær. Orðið holt merkti skógur áður en skógurinn hvarf á Íslandi. Þú skalt ekki tala hátt í skóginum því þar gæti einhver leynst sem heyrir hvað þú segir. Heyrandi er sá sem heyrir.

Afurðir og atvinna

Sitkagreni úr Haukadal unnið í límtré hjá Límtré-Vírneti á Flúðum. Á árinu fékkst vottun á íslensku sitkagreni til slíkrar framleiðslu. Ljósmynd: Einar BjarnasonVísir er nú kominn að sjálfstæðum atvinnugreinum sem byggjast á skógarauðlindinni. Skógræktin hefur haft það hlutverk fram til þessa að þróa skógarnytjar og afurðavinnslu enda hefur ekki verið hagnaðarvon í slíku fram undir þetta. Nú eru starfandi fyrirtæki sem vinna íslenskt timbur og fleiri afurðir. Eftir því sem sjálfstæðum fyrirtækjum vex fiskur um hrygg dregur Skógræktin sig út úr slíkri starfsemi og einbeitir sér að öðrum hlutum sem þarf að vinna að og ekki eru aðrir til að sinna. Áfram þarf þó að sjá til þess að þróunarstarfi sé sinnt og þekkingu haldið við. Verktakar sinna nú ýmsum störfum í þjóðskógunum sem áður voru á höndum starfsmanna Skógræktarinnar og þarna þarf að ríkja jafnvægi. Óhætt er þó að fullyrða að þjóðskógarnir séu uppspretta atvinnusköpunar og sölu viðarafurða sem leggur grunn að nýsköpun og frumkvæði annarra aðila í landinu.

Skógur er deigla

Að hittast í skógi getur borið mikinn ávöxt. Á skógræktarráðstefnum og -fundum hérlendis og erlendis er fastur liður að fara í vettvangsferðir í skóginn. Þetta er ekki einungis gert í faglegum tilgangi til að kynnast og fræðast heldur býr eitthvert dulmagn í skóginum sem þjappar fólki saman, veitir því gleði og vellíðan. Í skóginum kvikna nýjar hugmyndir.

Glaðbeittir sjálfboðaliðar í dýrðinni á Þórsmörk sumarið 2021. Ljósmynd: Lucy Dennis/trailteam.isSkógræktarfólk á Íslandi á í margvíslegu samstarfi, innanlands og utan. Inn í þetta samstarf, sem hingað til hefur að miklu leyti einskorðast við faglegt starf í skógargeiranum, kemur nú fólk sem vill breiða út skóglendi heimsins, auka útbreiðslu náttúruskóga, styrkja vistkerfin, binda kolefni og stuðla að bjartari framtíð á jörðinni.

Skólar nýta skóga í vaxandi mæli til útivistar og kennslu. Allar námsgreinar er hægt að styrkja og efla með útikennslu í skógi. Í skóginum blómstra gjarnan einstaklingar sem ekki kunna best við sig í skólastofunni. Í skógum eru haldin námskeið í ýmsum greinum sem ekki tengjast endilega skógi á nokkurn hátt. Vettvangurinn er einfaldlega svo góður. Við förum á jólamarkaði í skógum, sækjum okkur jólatré í skóga, förum á skíði, göngum, hlaupum, hjólum, klifrum, buslum, borðum og drekkum. Við förum jafnvel á listsýningar í skóginum og fátt jafnast á við tónleika á hlýjum sumardegi í gróðursælum lundi.

Á hverju ári kemur fjöldi fólks til Íslands til að sækja sér verkþjálfun í skógartengdu námi en líka til að vinna í skógum, hvort sem er launaða vinnu eða sjálfboðastörf. Skógarnir eru vettvangur framtaks duglegra hópa sem í góðu samstarfi við þjóðskógana setja upp fjallahjólabrautir, frisbígolfvelli, blakvelli og fleira. Fyrir allt þetta hafa þjóðskógarnir verið mikilvægur og nauðsynlegur vettvangur og verða áfram, samhliða því góða starfi sem fram fer hjá skógræktarfélögum, skógarbændum, sveitarfélögum, skólum og öðrum sem kveikt hafa á perunni hvað varðar skóginn. Þjóðskógarnir taka gjarnan virkan þátt í ferðaþjónustu í nærsamfélögum sínum og hafa á stundum verið öðrum fyrirmynd í góðum háttum, s.s. með flokkun sorps á tjaldsvæðum og viðbrögðum við breyttum ferðamáta fólks.

Skógur er lífgjafi. Vissir þú, lesandi góður, að í ám og vötnum þar sem skógur vex fram á bakkana er fjölskrúðugra lífríki en þar sem enginn er skógurinn? Vissirðu að aukin fiskigengd er í samhengi við aukinn skóg? Við vitum um rjúpnaveiðar í skógi og hreindýraveiðar. Þjóðskógarnir eru grunnur sem við byggjum framtíð okkar á, framtíð með meira skóglendi og hraustara landi. Græn, ábyrg framtíð!

Allir þjóðskógar eru opnir almenningi, til dæmis Jórvíkurskógur í Breiðdal. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

 

Vottun á íslensku límtré

Göngubrú á Þjórsá fyrsta mannvirkið
úr vottuðu íslensku límtré

Pétur Halldórsson

Um 100 metra löng göngu- og hjólabrú sem að verulegu leyti er smíðuð úr alíslensku timbri er nú tilbúin til notkunar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Brúin liggur yfir Þjórsá við Búrfell og verður einnig opnuð hestafólki þegar framkvæmdum sem nú standa yfir við Búrfellsvirkjun er lokið.

Sýnishorn af miða eins og notaðir eru til að merkja vottað íslenskt grenilímtréFramkvæmdir við smíði þessarar nýju göngu-, hjóla- og reiðbrúar yfir Þjórsá ofan Þjófafoss gengu vel. Verkefnið var hluti mótvægisaðgerða vegna stækkunar Búrfellsstöðvar samkvæmt samkomulagi við sveitarfélag Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Brúin er 102 metra löng stálbitabrú með timburgólfi úr íslensku sitkagreni sem Skógræktin aflaði í þjóðskógunum og Límtré Vírnet framleiddi alíslenskt límtré úr. Framkvæmdir við brúarsmíðina hófust um miðjan október 2020 og sjálfri brúarsmíðinni var lokið í júní 2021. Þá var umferð gangandi og hjólandi leyfð yfir brúna. Þegar svo aðgerðum innan virkjunarsvæðis Búrfellsstöðva var lokið nokkru síðar var einnig opnuð leið fyrir hestamenn um Sámsstaðamúla og þá gátu hestamenn einnig farið að nota brúna.

Landsvirkjun sá um allt skipulag og hönnun brúarinnar og lagði mikið upp úr því að notast yrði við umhverfisvænt byggingarefni. Fyrirtækið leitaði til Skógræktarinnar og Límtrés Vírnets til að útvega íslenskt efni til smíðinnar. Brúin er alls 102 metra löng timburbrú með steyptum stöplum og burðarbitum úr stáli. Þar fyrir ofan koma límtrésbitar og loks tvöfalt lag af timburklæðningu í brúargólfið. Allt timburvirkið er úr íslensku sitkagreni úr Haukadalsskógi. Brúin er skilgreind sem göngubrú sem þó verður fær bílum í neyð. Er það hugsað sem öryggisatriði ef hamfarir verða, slys eða önnur neyðartilvik, svo að neyðarbílar komist þarna yfir.

Vottun á límtré úr íslensku timbri

Fullgild vottun er forsenda notkunar á alíslensku límtré í mannvirki. Árið 2019 leitaði fyrirtækið Límtré Vírnet til Skógræktarinnar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um að kannaðir yrðu möguleikar á framleiðslu límtrés úr íslensku timbri. Sú vinna bar góðan árangur og reyndist íslenska timbrið vel í burðarþolsprófum. Límtré Vírnet lagði mikið upp úr að allt ferlið við framleiðslu á límtré úr íslensku efni stæðist þær gæðakröfur sem annars eru gerðar við slíka framleiðslu og allar gæðaprófanir á timbrinu hafa komið mjög vel út. Var því einboðið að límtrésbitarnir í nýju Þjórsárbrúna yrðu unnir úr íslensku sitkagreni í verksmiðju Límtrés Vírnets á Flúðum.

Timbursins sem þurfti til brúarsmíðinnar var aflað í Haukadalsskógi og sagað í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal undir góðri leiðsögn Eiríks Þorsteinssonar, viðarfræðings hjá fyrirtækinu Trétækniráðgjöf slf., sem sá um að allt yrði rétt gert í ferlinu. Að sögun lokinni var efnið flutt til þurrkunar og frekari vinnslu hjá Límtré Vírneti á Flúðum. Þegar það hafði náð réttu rakastigi var hafist handa við að hefla, fingurlíma saman fjalirnar og því næst líma í límtrésbita.

Segja má að með þessu hafi verið stigið stórt skref fyrir skógrækt á Íslandi. Þær prófanir sem gerðar voru í vottunarferlinu sýna að íslenska timbrið stenst vel þær kröfur sem til þess eru gerðar og búast má við því að hlutfall íslensks timburs í mannvirkjagerð á Íslandi eigi eftir að aukast jafnt og þétt á komandi árum. Mikilvægt er að hugsa vel um skógana okkar svo hægt verði að framleiða meira gæðatimbur sem hentar til smíði húsa eða annarra mannvirkja og að sama skapi að halda áfram þróun og vinnslu á íslensku timbri. Nýja Þjórsárbrúin er mikilvægur minnisvarði um þennan merka áfanga í skógræktarsögu Íslands.

Með brúnni opnuðust mjög fallegar göngu-, hjóla- og reiðleiðir við Búrfell. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Vel heppnað sumar á Þórsmörk

Sjálfboðastarfið gekk vel þrátt fyrir Covid-19

Pétur Halldórsson

Þrátt fyrir ferðatakmarkanir gekk sjálfboðastarf á Þórsmerkursvæðinu vel sumarið 2021 og skiluðu 30 sjálfboðaliðar frá ýmsum löndum starfi sem mælist í alls ríflega 170 vinnuvikum. Meðal annars var lokið við endurbætur á Valahnúki þar sem eru einhverjar fjölförnustu gönguleiðir á svæðinu.

Göngufólk á Fimmvörðuhálsi. Í fjarska sér til Goðalands, Þórsmerkur og yfir til Fljótshlíðar handan Markarfljóts. Ljósmynd: Pétur HalldórssonEins og venjulega var megináherslan lögð á viðhald gönguleiða og aðgerðir til að hindra og lagfæra skemmdir á landi. Jafnframt unnu sjálfboðaliðar ýmis störf í starfstöð Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljóstshlíð, meðal annars við ræktun en líka við gróðursetningu skógarplantna.

Sjálfboðaliðar við störf á Valahnúki sumarið 2021. Ljósmynd: Nic MinculescuÁ Valahnúki þurfti að ljúka við tímabærar lagfæringar á mjög fjölförnum stígum og unnu sjálfboðaliðarnir við nokkur krefjandi verkefni þar. Steinþrep voru lagfærð en vinnuflokkarnir útbjuggu líka ný timburþrep á nokkrum köflum, að sjálfsögðu úr íslensku timbri, bæði að austan- og vestanverðu á hnúknum.

Á Goðalandi voru aðalverkefni sumarsins unnin á leiðinni áleiðis upp á Fimmvörðuháls, sérstaklega á stöðum upp undir Morinsheiði þar sem lagfæra þurfti skemmdir eftir veturinn og endurbæta afrennsli af leiðinni. Þetta reyndist þrautin þyngri enda eru viðkomandi staðir allfjarri bækistöð sjálfboðaliðanna í Básum og langt að ganga þangað með aðföng og verkfæri.

Minni-Hattur á Goðalandi fyrir miðju og Valahnúkur á Þórsmörk í baksýn. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson 

Söfnun og sáning á birkifræi

Skýrsla vinnuhóps um söfnun og sáningu á birkifræi 2020-2021

Áskell Þórisson, Brynjar Skúlason, Guðmundur Halldórsson og Pétur Halldórsson

Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi hófst sem samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar vorið 2020. Markmiðið var að efla útbreiðslu birkiskóga með sameiginlegu átaki landsmanna við söfnun og dreifingu birkifræs. Mikið birkifræ safnaðist haustið 2020 enda mjög gott fræár á Suður- og Vesturlandi en mun minni árangur varð 2021 þegar  minna var af fræi í þessum fjölmennustu landshlutum.

Prentmet Oddi, einn af aðalbakhjörlum verkefnisins, sá um útlishönnun fyrir verkefnið og framleiðslu á söfnunaröskjum úr pappa sem útdeilt var ókeypisÍ verkefnishóp voru skipaðir af hálfu Landgræðslunnar þeir Áskell Þórisson og Guðmundur Halldórsson en Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson af hálfu Skógræktarinnar. Fyrsti fundur verkefnishópsins var haldinn 13/5 2020 og síðan voru haldnir reglulegir fundir til að móta verkefnið og stýra því. Mikil áhersla var lögð á að ná samstarfi við fyrirtæki og félagasamtök og að kynna verkefnið almenningi. Fræsöfnunin byrjaði formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september 2020. Þann dag hófu forseti Íslands og umhverfisráðherra söfnun fræs á Bessastöðum að viðstöddum þeim sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd söfnunarinnar ásamt samstarfsaðilum. Almennt má segja að fræsöfnun 2020 hafi tekist vel. Þá söfnuðust um 274 kg af óhreinsuðu fræi enda var þá mikið fræ á birki, einkum suðvestan- og sunnanlands. Söfnun árið 2021 gekk mun síður; þá söfnuðust aðeins um 19 kg af fræi. Þá var lítið fræ á birki, einkum um sunnan- og vestanvert landið.

Samstarfsaðilar og stjórnun verkefnisins

Strax í upphafi verkefnisins tókst samstarf við þrjú fyrirtæki sem eiga stóran þátt í því hvernig til tókst. Prentmet Oddi sá um að hanna og framleiða öskjur fyrir fræsöfnun og útlitshönnun fyrir verkefnið. Bónus tók að sér að hýsa söfnunartunnur í verslunum sínum sem Terra útvegaði auk þess að tæma tunnur og koma fræinu til þeirra aðila sem sáu um móttöku þess. Öll þessi fyrirtæki tóku þátt í að kynna og auglýsa verkefnið. Efnt var til samstarfs við Lionshreyfinguna sem sýndi strax mikinn áhuga á verkefninu. Landvernd tók að sér kynningu á verkefninu með áherslu á Grænfánaskólana. Skógræktarfélag Kópavogs tók að sér móttöku á fræi sem safnaðist á höfuðborgarsvæðinu. Þá eru Skógræktarfélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands einnig aðilar að samstarfinu. Á árinu 2021 bættist Heimilistæki-Tölvulistinn í hóp samstarfsaðila og Kvenfélagasamband Íslands.

Frá sáningardegi á vegum Skógræktarfélags Kópavogs. Á myndinni eru nemendur í 3. og 4. bekk í Waldorfskólanum Lækjarbotnum. Nöfn þeirra eru frá vinstri: Stella, Kría, Edda, Nóah, Benedikt, Úlfur, Birkir, Óskar. Þá eru á myndinni Hafdís Hrund Gísladóttir, kennari í Waldorfskólanum, Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Bergljót Kristinsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi, Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, og Hrefna Einarsdóttir frá Skógræktarfélagi Kópavogs. Ljósmynd: kopavogur.is Á fundi í verkefnishópnum þann 19/4 2021 var kynnt að Landgræðslan væri að ganga frá samstarfssamningi við Skógræktarfélag Kópavogs um vinnu Kristins H Þorsteinssonar við verkefnið Söfnun og sáning birkis. Ákveðið var að Kristinn myndi sjá um að halda utan um samskipti fyrir verkefnið og stofnað hefur verið sérstakt netfang fyrir slík samskipti og bæri titilinn; Verkefnisstjóri og tengiliður. Einnig var ákveðið að Sæmundur Kr. Þorvaldsson kæmi inn sem starfsmaður verkefnisins af hálfu skógræktarinnar og bæri titilinn Verkefnisstjóri. Þessar breytingar voru síðan kynntar fyrir samstarfsaðilum á fundi 20/4 2021. Síðar kom Hrönn Guðmundsdóttir verkefnisstjóri Hekluskóga einnig inn í verkefnishópinn. Samstarfshópurinn ræddi einnig möguleika á að taka inn nýja aðila og var þá sjónum einkum beint að Gaju og Olís. Fundað var með Olís en engar ákvarðanir voru teknar um samstarf enda orðið ljóst að lítið yrði um fræ árið 2021 og því e.t.v. lítill áhugi á að ljúka málinu. Brynjar hafði samband við Gaju um hugsanlegar sáningar í sambandi við moltudreifingar en því máli er einnig ólokið enn.

Fram til þessa hefur samstarfið að miklu leyti verið óformlegt. Til að tryggja verkefnið í sessi er nauðsynlegt að formgera samstarfið og skipa verkefnisstjóra sem sjái um daglegan rekstur verkefnisins. Einnig þarf að skipa formlega stjórn og tryggja lifandi tengingu við annað starf á vettvangi endurheimtar birkiskóga. Til að unnt sé að halda starfinu gangandi þurfa Skógræktin og Landgræðslan að leggja verkefninu til ákveðna fjárhæð á hverju ári svo unnt sé að greiða fyrir vinnu og annan kostnað.

Miðlun

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, hófu fræsöfnunina formlega á Bessastöðum á degi íslenskrar náttúru 2020. Ljósmynd: Áskell ÞórissonStrax í byrjun var mikil áhersla lögð á kynningu verkefnisins og fræðslu um það. Þar lögðu samstarfsaðilar drjúgan skerf af mörkum, eins og áður hefur fram komið. Verkefnið var rækilega kynnt í blaðagreinum, útvarpi og sjónvarpi og virðist sú kynning hafa náð til allflestra landsmanna. Landgræðslan sá um uppsetningu á nýjum vef fyrir verkefnið á slóðinni birkiskogur.is. Textaefni var fengið úr ýmsum heimildum og undirbúningshópurinn vann textann í sameiningu til birtingar á vefnum. Skógræktin réðst í að gera tvö um það bil einnar mínútu myndbönd, annað um söfnun á birkifræi og hitt um sáningu. Myndböndin voru birt á Facebook og Youtube. Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og sviðstjóri hjá Skógræktinni, leiðbeindi í myndböndunum en um myndbandagerðina sá Hlynur Gauti Sigurðsson. Glærukynning var útbúin og henni var dreift m.a. til Lionshreyfingarinnar. Hún var líka gefin út sem myndband og birt á Facebook-síðu verkefnisins. Fréttatilkynning var send fjölmiðlum áður en verkefnið hófst formlega. Lionsmenn notuðu hana líka til kynningar til klúbba og meðlima þeirra. Þá voru einnig umslög með birkifræjum og örstuttum upplýsingum um verkefnið send til Kvenfélagasambands Íslands og fleiri aðila.

Stofnuð var Facebooksíðan Söfnum og sáum birkifræi og varð hún einn helsti vettvangur verkefnisins til dreifingar efni til almennings. Nokkuð kom á óvart að um svipað leyti og verkefnið fór í gang stofnuðu nokkrir áhugasamir aðra svipaða síðu og kölluðu Birkibændur. Þegar það kom í ljós vissi undirbúningshópurinn fyrst ekki hvaðan á hann stóð veðrið en fljótlega var tekinn sá póllinn í hæðina að þetta væri bara til bóta. Fólk myndi væntanlega rugla þessum tveimur síðum saman, sem gæti bara verið kostur, enda markmiðið ekki vegtyllur og persónuleg afrek og athygli forystumanna verkefnisins heldur árangur í útbreiðslu birkiskóglendis. Ekki var aðeins að markmið og áherslur þessara tveggja Facebook-síðna væri ámóta heldur stóðu fyrir þeim báðum menn með sama nafni, Pétur Halldórsson, sem margir töldu vafalaust að væri sami maðurinn. Ekki verður séð að þetta hafi spillt fyrir.

Mikil umferð var á Facebook-síðunni Söfnum og sáum birkifræi. Á árinu 2020 komu hátt í þrjátíu þúsund manns þar við og vinsælasta innleggið, sem var myndband um söfnun á birkifræi, sáu ríflega 21.000 manns. Sömuleiðis var mikið líf á síðunni Birkibændur og greinilegt að hún hjálpaði verkefninu mikið, jafnvel þótt hún hafi að líkindum tekið einhverja athygli frá hinni eiginlegu Facebook-síðu verkefnisins.

Instagram-síða verkefnisins var aldrei virkjuð fyrir alvöru og það er verkefni til að athuga betur með fyrir næstu ár. Á Instagram eru myndir aðalatriðið og hugsa þarf betur hvernig nýta megi þann miðil meira, enda myndi það væntanlega stækka hópinn mjög sem náð væri til, ekki síst með fólki í yngri kantinum.

Söfnun og sáning árin 2020-2021

Tveir af forystumönnum verkefnisins við fræhauginn sem myndaðist haustið 2020, Kristinn H. Þorsteinsson verkefnisstjóri og Áskell Þórisson hjá Landgræðslunni. Ljósmynd: Áskell ÞórissonHaustið 2020 gekk fræsöfnun vel, enda var afar gott fræár í birki á Suður- og Vesturlandi en heldur lítið var um fræ á Norður- og Austurlandi. Alls söfnuðust um 274 kg af óhreinsuðu fræi (tafla 1). Um 90 kg af því fræi sem safnaðist árið 2020 var sáð sama ár. Mikill áhugi virtist vera meðal almennings og samstarf Landgræðslu og Skógræktar við helstu samstarfsaðila gekk vel og framlag þeirra til verkefnisins ómetanlegt. Ber þar einkum að nefna Bónus, Terru, Prentmet og Skógræktarfélag Kópavogs.

Haustið 2021 var afar lítið af fræi á birki á Suður- og Vesturlandi, en öllu meira á Norður- og Austurlandi. Alls söfnuðust um 19 kg af fræi, mestallt á Norðurlandi (tafla 1). Mun minna virtist vera um áhuga almennings og fjölmiðla á málefninu sem eðlilegt má teljast með tilliti til þess hversu lítið var um fræ. Á árinu var lokið við að sá nær öllu fræi sem safnaðist árinu áður. Við lok árs voru birgðir af birkifræi um 32 kg (tafla 1). Í einstökum landshlutum gekk fræsöfnun og sáning árin 2020-21 sem hér segir:

Suðvesturland: Haustið 2020 söfnuðust um 135 kg af fræi á höfuðborgarsvæðinu. Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, sá um að taka við fræi frá söfnunarstöðvum og þurrka og koma í sáningu. Aðeins litlum hluta af þessu fræi var sáð árið 2020 en árið 2021 var um 35 kg af fræi sáð í 80 ha landbótasvæði við Selfjall fyrir ofan Heiðmörk og um 92 kg var sáð á Hekluskógasvæðinu og í Merkurnesi utan við Þórsmörk. Haustið 2021 var sáralítið fræ á Suðvesturlandi og þá var aðeins safnað um 1 kg af fræi á svæðinu svo kunnugt sé.

Vesturland og Vestfirðir: Haustið 2020 söfnuðust 9,5 kg af fræi í Vestfirðingafjórðungi hinum forna. Í söfnunarstöð í Borgarnesi bárust 25-30 kassar af fræi. Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi sá um þurrkun og afhendingu á fræi til sáningar. Í Stykkishólmi var skilað inn 19 kössum. Fjórði bekkur Grunnskóla Stykkishólms tók þátt í að safna fræi og Björn Ásgeir Sumarliðason formaður Skógræktarfélags Stykkishólms sá um að taka við því og sá í Grensás, rétt utan við Stykkishólm. Á Ísafirði komu inn 19 kassar og því var sáð skammt frá bænum vorið 2021. Haustið 2021 var sáralítið fræ á þessu svæði og ekki vitað til þess að neinu fræi hafi verið safnað samkvæmt upplýsingum frá Sæmundi Þorvaldssyni, skógræktarráðgjafa.

Norðurland: Haustið 2020 bárust um 12 kg af fræi í söfnunarstöðvar á Akureyri. Valgerður Jónsdóttir verkefnastjóri sá um þurrkun og hreinsun á fræi. Þessu fræi var sáð árið 2021, mest á Hólasand. Ekkert fræ barst til Héraðsseturs Landgræðslunnar á Húsavík en einhverju fræi mun hafa verið safnað og sáð, einkum við Kópasker. Aðrir söfnunarstaðir voru ekki á Norðurlandi. Haustið 2021 var safnað 10 kg af birkifræi á Ássandi í Kelduhverfi. Helmingi fræsins var sáð sama ár í landi Valþjófsstaða I, sunnan við Kópasker. Afgangurinn er í geymslu hjá Héraðssetri Landgræðslunnar á Norðausturlandi og verður notaður vorið 2022. Á Akureyri og nágrenni söfnuðust um 6 kg af fræi sem er í geymslu á Skógræktarstöðinni á Vöglum, þar voru fyrir 4 kg sem var afgangur af fræi sem var safnað árinu áður. Í Skagafirði var safnað um 1 kg af fræi, sem var sent til Skógræktarfélags Kópavogs.

Austurland: Haustið 2020 bárust 3 kassar af fræi í söfnunarstöðvar á Egilsstöðum. Þór Þorfinnsson skógarvörður sá um þurrkun og hreinsun á fræinu. Það fræ var sent til Vagla. Aðrir söfnunarstaðir voru ekki á Austurlandi. Þess má geta að afar lítið var af fræi á Austurlandi haustið 2020. Haustið 2021 sendi Þór Þorfinnsson, skógarvörður um 1 kg af birkifræi sem safnað var á Austurlandi til Vagla. Ekki er vitað um aðra söfnun á Austurlandi það árið.

Suðurland: Haustið 2020 söfnuðust um 117 kg af fræi. Í Vestmannaeyjum var skilað inn 40 kg af fræi sem var safnað í sumarbústaðalöndum eyjaskeggja á fastalandinu. Dagný Hauksdóttir, umhverfisstjóri Vestmannaeyjabæjar sá um dreifingu fræsins. Um 30 kg var sáð sama ár og afganginum árið 2021. Magnús Þór Einarsson, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar, safnaði 22-23 kg í nágrenni Hvolsvallar og af því er búið að sá um 17 kg á Emstrur og Fljótshlíðarafrétt. Starfsmenn Landgræðslunnar í Gunnarsholti söfnuðu um 22 kg af fræi, þar af er búið að sá 18 kg á landgræðslusvæði við Sandkluftavatn við Uxahryggjaveg, á Hekluskógasvæðinu og í Merkurnesi utan við Þórsmörk. Skógræktin á Selfossi safnaði um 25,4 kg af fræi og er búið að sá því öllu við Ingólfsfjall og á Hekluskógasvæðinu. Í Hveragerði var skilað inn 6,9 kg af fræi sem var safnað víða á S og SV landi og hefur því öllu verið sáð í nágrenni bæjarins. Haustið 2021 safnaði Leikskólinn Heklukot, Hellu, um einum lítra af fræi á Hellu. Því var dreift á landgræðslusvæði í Koti á Rangárvöllum. Ekki er vitað um aðra fræsöfnun á Suðurlandi það ár.

Tafla 1. Söfnun og sáning birkifræs árin 2020-2021. Þyngd safnaðs fræs var yfirleitt reiknað út frá fjölda innsendra frækassa. Haustið 2020 var safnað í tveggja lítra kassa og lausleg skoðun benti til að í hverjum kassa hafi verið að meðaltali um 1,5 l af fræi. Rúmþyngd óhreinsaðs fræs var mæld og reyndist vera á bilinu 100-115 g/l. Allt fræ sem kom til Skógræktarfélags Kópavogs það haust var viktað og einnig fræ sem sent var til Vagla og Gunnarsholts. Haustið 2021 voru notaðir minni kassar sem tóku um 1 l af fræi. Bæði árin var eitthvað um að safnað væri í önnur ílát og rúmmál eða þyngd áætlað af söfnunaraðilum. 

  Safnað (kg óhreinsað fræ) Sáð (kg óhreinsað fræ) Birgðir (kg)
  2020 2021 2020 2021  
Höfuðborgarsvæðið 135 1   127 9
Borgarnes 3,8   2,2 1,6  
Stykkishólmur 2,7   2,7    
Ísafjörður 2,9     2,9  
Sauðárkrókur   1     1
Akureyri 12 6   12 6
Kelduhverfi   10   5 5
Egilsstaðir 0,5 1     1,5
Vestmannaeyjar 40   30 10  
Hvolsvöllur 22,5 5 12 5,5  
Gunnarsholt 22   18   4
Selfoss 25,4   25,4    
Hveragerði 6,9   6,9    
Alls 273,7 19 90,2 171 32

 

Allt landið:
Söfnunartunna í Bónus-verslun. Þrátt fyrir góðar merkingar bar nokkuð á því að fólk fleygði rusli í tunnurnar og því er ráðgert að breyta þessum ílátum fyrir árið 2022. Ljósmynd: Áskell ÞórissonÁrið 2020 tóku átján Lionsklúbbar um allt land þátt í átakinu og meta Lionsmenn sem svo að um 800 vinnustundir hafi verið lagðar í fræsöfnun og dreifingu á vegum hreyfingarinnar það haust. Magntölur liggja ekki fyrir en sá Lionsmaður sem safnaði mestu fræi safnaði 20 lítrum (2 kg). Lionsmenn dreifðu m.a. um 30 lítrum (3 kg) af fræi á Hólasandi. Mikil ánægja var með verkefnið hjá þeim klúbbum sem tóku þátt í því og forystumenn hreyfingarinnar telja líklegt að fleiri klúbbar muni bætast í hópinn.

Engin leið er að segja til um hversu margt fólk fór á eigin spýtur, safnaði birkifræi og sáði víða um land. Verkefnishópurinn fékk þó fregnir héðan og þaðan um slík verkefni. Ef til vill má telja það besta árangur svona verkefnis ef það verður tómstundagaman fólks víðs vegar um landið að fara út á haustin, tína fræ og dreifa því þar sem vert þykir og vænlegt að birki geti vaxið upp. Slíkt grasrótarstarf er skemmtilegt, uppbyggilegt og getur borið mikinn árangur en er um leið mjög hagkvæmt og krefst ekki miðstýringar eða umstangs af hálfu opinberra stofnana.

Reynsla og framhald

Verkefnishópurinn telur að verkefnið hafi farið vel af stað og tekist betur en væntingar stóðu til og leggur til að um árlegt átak verði að ræða. Það er þó mikilvægt að taka tillit til þess að fræframleiðsla birkis er mjög breytileg eftir árum og landshlutum eins og reynslan af þessu verkefni sýnir. Þrátt fyrir það er mikilvægt að halda samfellu í starfinu því annars er hætta á að missa út samstarfsaðila og það gæti verið óbætanlegur skaði. Mikil undirbúningsvinna og reynsla liggur fyrir frá árunum 2020-21 og samstarfsaðilar hafa lýst áhuga á að taka áfram þátt í verkefninu.

Kátir nemendur MA við frætínslu að frumkvæði efnafræðikennara síns og Lionsmannsins Guðjóns Andra Gylfasonar sem tók myndinaSöfnun og sáning gekk misvel eftir árum og landshlutum. Um 274 kg af óhreinsuðu fræi söfnuðust haustið 2020 en um 19 kg haustið 2021, enda var fyrra árið gott fræár en það síðara lélegt. Árið 2020 gekk fræsöfnun best á höfuðborgarsvæðinu. Góðan árangur í fræsöfnun þar má einkum þakka gnótt fræja, öflugum samstarfsaðilum og vitundarvakningu almennings. Þar var hins vegar aðeins sáð litlum hluta þess fræs sem safnaðist það ár. Á Suðurlandi safnaðist litlu minna en á höfuðborgarsvæðinu en þar var meirihluta fræsins sáð sama ár. Í öðrum landshlutum var um helmingi fræs sáð sama ár. Lítil sáning á höfuðborgarsvæðinu árið 2020 stafaði að mestu leyti af því að kórónuvírusfaraldurinn og samkomutakmarkanir komu í veg fyrir að unnt væri að efna þar til almennrar sáningar eins og til stóð. Góðan árangur í söfnun og dreifingu utan höfuðborgarsvæðisins má þakka öflugum samstarfsaðilum sem tóku að sér bæði sáningu og dreifingu. Einnig má geta þess að þar var töluverðum hluta fræsins dreift með vélum af Landgræðslunni og Hekluskógaverkefninu.

Athygli vekur að bæði árin voru stór svæði utan söfnunar- og dreifingarsvæða, einkum á Norður- og Austurlandi, en það eru svæði þar sem Bónus er ekki með verslanir. Þar þarf að þétta netið með því að finna samstarfsaðila sem geti tekið við fræi og dreift því. Gæta þarf þess að gera það í samráði við Bónus og Terra, enda er mikilvægt að halda góðu samstarfi áfram við þau fyrirtæki. Innan hópsins hafa komið upp hugmyndir um að leita til olíufélaga því þau séu ekki í samkeppni við Bónus. Á árinu 2021 voru teknar upp viðræður við Olís um að taka að sér móttöku á fræi út á landi en niðurstaða var ekki fengin við árslok.

Þessi reynsla sýnir mikilvægi þess að á hverju svæði séu öflugir aðilar sem annist söfnun og dreifingu fræs. Formlegt samstarf er við Lions-hreyfinguna og Kvenfélagasamband Íslands. Báðir aðilar hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í söfnun og dreifingu birkifræs og raunar kom Lions inn í það starf strax árið 2020 eins og fram hefur komið. Félagsstarf beggja hreyfinga fer að mestu fram að vetrinum og þá er tækifæri til að virkja fleiri í þessum hreyfingum auk þess að reyna að fá fleiri fjöldahreyfingar til samstarfs. Nú þegar liggur fyrir kynningarefni sem slík félagasamtök geta nýtt sér. Lagt er til að Skógræktin og Landgræðslan bjóði uppá kynningarefni um birki og fræsöfnun sem nýtist félagasamtökum og fyrirtækjum sem þess óska. Verkefnishópurinn telur mikilvægt að sinna nýjum samstarfshópum vel í upphafi samstarfs sem eykur líkur á að fá inn nýja samstarfsaðila.

Nemendur í þriðja bekk Egilsstaðaskóla færðu skógræktarstjóra fræ sem þau höfðu safnað haustið 2021. Mynd frá skólanumMeð góðu skipulagi og jákvæðum anda eru góðar líkur á því að innan fárra ára muni landsmenn lyfta Grettistaki í söfnun og dreifingu birkifræs. Mikilvægt er að verkefnið lognist ekki út af þegar á móti blæs og lítið er um fræ eins og síðasta ár. Áfram þarf að vinna skipulega að því að ná til almennings, skóla og skógræktarfélaga. Landvernd er mikilvægur samstarfsaðili, ekki síst til að ná til skóla gegnum grænfánaverkefnið.

Landgræðslan og Skógræktin verða að „skipuleggja“ dreifingarsvæði í öllum landsvæðum. Skoða þarf hvaða umsjónarlönd hjá Skógræktinni og Landgræðslunni henta til að beina almenningi og félagasamtökum á til að sá beint. Ljóst er að sú dreifing hentar aðeins fyrir hluta landsins og því er hér lagt til að leitað verði til sveitarfélaga og skógræktarfélaga um landsvæði sem gæti hentað fyrir beina sáningu. Ljóst er að einungis hluti þátttakenda í verkefninu bæði safnar og sáir fræi. Í góðum fræárum berst mikið magn af fræi sem þarfnast sáningar. Skógræktin og Landgræðslan verða að skipuleggja hvernig að þeirri sáningu verður staðið og þróa leiðir til þess sem bæði eru afkastamiklar og árangursríkar. Lagt er til að við hlið birki-fræsöfnunar-verkefnisins starfi hópur sem hafi það hlutverk að finna leiðir og svæði þar sem birkifræi úr fræhirslum stofnananna verði sáð með markvissum aðferðum og geri tilraunir til að hámarka þennan árangur. Einnig er mikilvægt að þetta verkefni verði lifandi hluti af heildaráætlun um endurheimt birkis, ekki síst með tilliti til þess að nú er áratugur endurheimtar vistkerfa. Á verkefnisfundum var einnig rætt um hvernig unnt væri að kortleggja, hlú að og vernda birkileifar víðsvegar um landið

Nemendur Waldorfskólans lögðu hönd á plóg og sáðu birkifræi í örfoka mela á fræsáningardegi Skógræktarfélags Kópavogs í október 2020. Ljósmynd: Kristinn H. ÞorsteinssonÁkveða þarf hvernig „dreifarar“ geta merkt þau svæði þar sem þeir dreifa fræi. Tæknilegar útfærslur hafa verið lauslega ræddar við aðila innan stofnana. Mikilvægt er að einstaklingar og félagasamtök skrái hvar sáð er. Þannig er unnt að draga úr líkum á óþarfa skörun sáningarsvæða. Hitt er ekki síður mikilvægt að þannig er hægt að gera sáningarsvæði sýnileg sem auðveldar kynningu á verkefninu og árangri þess. Leggja má áherslu á að stórtækir aðilar eins og félagasamtök, sveitarfélög og stofnanir gefi upp gps hnit/fláka um staðsetningu sáningar inn á heimasíðu verkefnisins eða í tölvupósti starfsmanns. Gefa þarf einstaklingum kost á því sama en ekki er raunhæft að ætla að allir muni gera slíkt. Mikilvægt er að slíkar upplýsingar berist til Íslenskrar skógarúttektar og gerð verði tilraun til að meta árangur verkefnisins að nokkrum árum liðnum.

Horfa má á þessi fyrstu ár sem frumherjaspor og ýmislegt þarf að fínpússa í framkvæmdinni. Bæta þarf ferli söfnunar, finna heppilegri söfnunarílát og móttökuílát á móttökustöðvum. Efla þarf söfnunar- og sáningarnetið. Tengja þarf verkefnið öðrum mikilvægum umhverfismarkmiðum eins og til dæmis um nýtingu lífræns úrgangs. Sorpa hefur lýst yfir áhuga á að gerast samstarfsaðili. Þeirra hlutverk yrði þá afhending lífræns áburðar/moltu sem gæti hentað sem spírunarbeð fyrir birkifræ. Skógræktin og Landgræðslan þurfa að setja af stað nokkrar prófanir á sáningu birkifræs í samspili við notkun moltu og annars lífræns úrgangs til að tryggja hámarks árangur. Sömuleiðis þarf að gera úttekt á árangri sáninga strax og ætla má að árangur fyrstu sáninga eigi að vera að skjóta upp kollinum. Mikilvægt er að efla kynningu verkefnisins bæði utan og innan veggja Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Starfsmenn þessara stofnana verða að vita nákvæmlega út á hvað verkefnið gengur og gæta þess að allar upplýsingar og viðmót séu samhljóða.

Nokkrir minnispunktar um verkefnin framundan

 • Í upphafi hvers árs verða Skógræktin og Landgræðslan að ákveða, á grundvelli áætlunar hvert ár, að taka frá fjármagn sem verkefnið hefur úr að spila allra þátta verkefnisins.
 • Ákveða stjórnun verkefnisins. Skoða sérstaklega hvort verkefnið ætti að hafa starfsmann í hlutastarfi.
 • Setja af stað hliðarhóp sem vinnur að þróun og skipulagi birkisáningar á vegum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og samþættingu þess starfs við annað starf við endurheimt birkiskóga. Markmiðið væri að gera heildaráætlun um endurheimt birkiskóga
 • Kanna hvernig fólk getur skráð sig á heimasíðu verkefnisins, hvar það dreifði og hve miklu magni. Auðvelt er að draga út nöfn og veita verðlaun.
 • Enn sem komið er eru einu móttökustöðvar fræs verið verslanir Bónuss. Brýnt er að fjölga móttökustöðvum með það fyrir augum auðvelda fólki að koma fræi til okkar, einkum þar sem Bónus er ekki með verslanir.
 • Efla fræðslu um verkefnið og hvaða möguleikar henti best til þess.
 • Bjóða uppá heimsókn og sérstaka kynningu til formlegra samstarfsaðila. Gera áætlun um hvernig og hversu hratt ber að útvíkka samstarfið með fyrirtækjum og félagasamtökum.
 • Gera áætlun um samstarf við fjölmiðla og kynningar á verkefninu. Hvernig verður kynningu háttað í samstarfi við félög og fyrirtæki sem eru formlega í verkefninu.
 • Gera þarf úttekt á því hvernig best er að nota samskipta-/samfélagsmiðla til að ná til fólks. Einnig hvort og þá hvernig efni þarf að útbúa fyrir þessa miðla.
 • Gera þarf A4 þakkar- og þátttökubréf. Hér er minnt á að þakkir og hrós geta gert kraftaverk.

Blaðagreinar og umfjöllun fjölmiðla

Undirbúningshópurinn skrifaði nokkrar greinar í blöð sem birtust í tengslum við verkefnið og fjallað var um verkefnið í fréttum í blöðum, sjónvarpi, útvarpi og á vefnum. Hér á eftir er talið upp það helsta.

Skjámynd úr öðru tveggja myndbanda sem gerð voru um söfnun og sáningu á birkifræi. Hreinn Óskarsson leiðbeindi

Ein stærsta gróðursetning sögunnar

Gróðursettu nærri hálfa milljón birkiplantna í september

Pétur Halldórsson

 

Starfsfólk verktakans Gone West lauk í haust gróðursetningu sem líklega er ein sú stærsta sem um getur í sögu skógræktar á Íslandi, þar sem einn hópur gróðursetur á sama svæði. Hópurinn gróðursetti hátt í hálfa milljón birkiplantna á Hekluskógasvæðinu og upp í Hrauneyjar í  septembermánuði 2021.

Glaðbeittir gróðursetningarmenn úr hópi Gone West hvíla sig í landi sem áður hafði breyst í eyðimörk nú tekur að breytast í birkiskóg. Ljósmynd. Ana Marija MarinovAlls voru gróðursettar 456.000 birkiplöntur í um 210 hektara svæði og gekk gróðursetning mjög vel. Starfsfólk Gone West er mjög vel þjálfað og því er vel vandað til verka sem eykur mjög líkurnar á að plönturnar lifi og komist í vöxt. Lítils háttar næturfrost setti örlítið strik í reikninginn fáeina morgna en plöntur þiðnuðu þegar kom fram á daginn og komust heilar í jörð.

Og ekki er allt upp talið enn því annar verktaki, Guðjón Helgi Ólafsson, vann um svipað leyti ásamt Einari Páli Vigfússyni að gróðursetningu á um 100.000 birkiplöntum neðar á sama svæði. Í allt komst því talsvert meira en hálf milljón birkiplantna í jörð á Hrauneyjasvæðinu áður en vetur gekk í garð.

Þeir reitir sem nú hefur verið gróðursett í eru hugsaðir sem fræbankar fyrir framtíðina, að birkið sái sér sjálft úr þeim yfir nærliggjandi svæði á næstu áratugum. Ef vel tekst til mun birkið breiðast með sjálfsáningu yfir á þúsundir hektara í nágrenninu. Skógræktin hefur haft yfirumsjón með þessum verkefnum í samvinnu við Landgræðsluna sem unnið hefur að uppgræðslu á þessum svæðum á undanförnum árum. Þar hefur m.a. verið notað kjötmjöl til að koma næringu í landið og lífrænum ferlum í gang. Næsta vor stefnir Landgræðslan að því að bera á svæðin sem gróðursett var í nú í september. Ljósmynd: Ana Marija MarinovPlönturnar komu flestar frá Sólskógum í Kjarnaskógi, en einnig frá Kvistabæ í Biskupstungum. Starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi sá um að flytja plönturnar upp á gróðursetningarsvæðin, ásamt flutningafyrirtæki. Síðan var mikið verk að flytja alla tómu bakkana í dreifingarstöð og þaðan í gróðrarstöðvar og þar sem sáð verður í þá aftur að vori.

Gone West er fyrirtæki sem vinnur að gróðursetningu trjáplantna í nokkrum löndum Evrópu. Frá því að starfsemin hófst árið 2013 hefur starfsfólk þess gróðursett yfir fjórar milljónir plantna. Markmiðið með starfseminni er að bæta hag umhverfis og samfélaga fólks um allan heim með því að búa til siðræn, græn störf og aðstoða við að koma upp heilbrigðum vistkerfum eða endurheimta horfin landgæði.

REKSTRARSVIÐ

Skýrsla sviðstjóra

Rekstrarsvið 2021

Gunnlaugur Guðjónsson

Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Stofnunin varð til 1. júlí 2016 við samruna Skógræktar ríkisins og sex stofnana sem þjónuðu skógrækt á lögbýlum, hver í sínum landshluta.

Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast rannsóknasvið, skógarþjónusta og þjóðskógar. Hins vegar miðlægt svið, rekstrarsvið.

Hlutverk rekstrarsviðs er að hafa yfirumsjón með fjármálum, bókhaldi, skrifstofuþjónustu, starfsmannamálum og annarri stoðþjónustu stofnunarinnar ásamt skipulags-, samskipta-, fræðslu- og markaðsmálum. Þá hefur rekstrarsvið haft forystu um starf Skógræktarinnar að ábyrgum kolefnisverkefnum með skógrækt. Mikilvægur þáttur í því er vinna að gæðastaðlinum Skógarkolefni sem gerir kleift að búa til vottaðar kolefniseiningar með nýskógrækt og nýta þær til ábyrgrar kolefnisjöfnunar.

Sviðið hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar og eftirlit með framgangi hennar. Rekstrarsvið ber ábyrgð á því að uppgjör og upplýsingar berist til annarra stjórnenda og verkefnisstjóra þegar það á við. Sviðið er enn fremur ábyrgt fyrir gerð ársreiknings og miðlun fjármálaupplýsinga til Fjársýslu ríkisins, Ríkisendurskoðunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl.

Auk almennrar fjármálaumsýslu og áætlanagerðar tilheyrir rekstrarsviði einnig samskiptadeild. Hún veitir forystu verkefnum sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt er á höndum skipulagsfulltrúa.

Fjármál Skógræktarinnar 2021

Rekstur 2021

Heildarkostnaður við rekstur Skógræktarinnar var 1.713,1 m.kr. árið 2021. Stærstu liðirnir í rekstrinum eru tveir, annars vegar laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnaður og hins vegar framlög og tilfærslur vegna skógræktar á lögbýlum.

Rekstrarniðurstaða

Hagnaður af rekstri ársins var 47,2 m.kr. Í upphafi árs var höfuðstóll stofnunarinnar neikvæður um 17,6 m.kr. og í árslok var hann því jákvæður um 29,6 m.kr. Fjárheimild ársins var 1.131,9 m.kr. og hækkaði um 126,4 m.kr. á milli ára vegna aukinna fjárveitinga í loftslagsverkefni og kolefnisbindingu.

Heildarkostnaður við rekstur Skógræktarinnar var 1.713,1 m.kr. árið 2021 og hækkaði um 290,6 m.kr. frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður var 1.109,5 m.kr. og hækkaði um 147,0 m.kr. á milli ára. Framlög til skógræktar á lögbýlum voru 385,4 m.kr. og hækkuðu um 90,4 m.kr. frá árinu á undan. Fjallað er nánar um framlög til skógræktar á lögbýlum hér fyrir neðan. Sértekjur voru 610,8 m.kr. og hækkuðu um 220,3 m.kr., munar þar mest um samstarfsverkefni um kolefnisbindingu með ýmsum samstarfsaðilum. Viðskiptastaða stofnunarinnar við ríkissjóð var neikvæð um 11,7 m.kr. Bankainnstæður voru í árslok 9,6 m.kr.

Framlög til skógræktar á lögbýlum

Samkvæmt fjárlögum voru framlög til skógræktar á lögbýlum áætluð 307,0 m.kr. fyrir árið 2020 og hækkuðu um 85 m.kr. milli ára. Heildarframlög árið 2016 voru 253,0 m.kr., 222,8 m.kr. árið 2017, 217,0 m.kr. árið 2018, 238,4 m.kr. árið 2019, 295 m.kr. árið 2020 og 385,4 m.kr. árið 2021. Frá sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt eru uppsöfnuð framlög ríkisins til skógræktar á lögbýlum 1.596,4 m.kr. en heildarfjárhæð útgreiddra framlaga 1.611,9 m.kr.

Skipting framlaga milli landshluta árið 2021 var eftirfarandi: Austurland 56,4 m.kr. (var 54,7 m.kr árið 2020), Norðurland 90,4 m.kr. (var 91,5 m.kr. árið 2020), Vesturland og Vestfirðir 161,7 m.kr. (var 91,5 m.kr. árið 2020) og Suðurland 76,9 m.kr. (var 57,3 m.kr. árið 2020).

Stærstur hluti framlaga fór til plöntukaupa, 142,0 m.kr. (var 118,4 m.kr. árið 2020), gróðursetningar 96,4 m.kr. (var 73,0 m.kr. árið 2020), girðinga 90,7 m.kr. (var 62,0 m.kr. árið 2020) og snemmgrisjun 9,2 m.kr (var 24,1 m.kr árið 2020).

Gróðursett tré

Gróðursetning á lögbýlum, í þjóðskógum og samstarfsverkefnum sem Skógræktin tekur þátt í nam um 4,5 milljónum plantna á árinu. Þetta er ekki heildarfjöldi gróðursettra trjáplantna á landinu en aukningin frá fyrra ári nemur um 1,5 milljónum plantna.

Tímamót í ábyrgri kolefnisjöfnun

Fyrsta fyrirtækið skráð í Loftslagsskrá Íslands

Pétur Halldórsson

Tímamót urðu á árinu í möguleikum einkafyrirtækja til aðgerða í loftslagsmálum með tilkomu Loftslagsskrár Íslands sem er eins konar kauphöll fyrir kolefniseiningar. Eignarhaldsfélagið Festi hf. reið á vaðið og skráði í ágústmánuði fyrsta vottaða kolefnisbindingarverkefnið í Loftslags­skrá samkvæmt gæðakerfinu Skógarkolefni. Skrifað var í kjölfarið undir samninga á Mógilsá, m.a. verksamning við Skógræktina um ráðgjöf og eftirlit með kolefnisskógrækt Festi hf. að Fjarðarhorni í Hrútafirði sem verður fyrsta verkefni íslensks fyrirtækis af þessum toga. Á árinu varð vart aukins áhuga meðal fyrirtækja á ábyrgri kolefnisjöfnun með vottun.

Fulltrúar Festi og Loftslagsskrár Íslands ásamt skógræktarstjóra við undirritunina á Mógilsá. Ljósmynd: Pétur HalldórssonVerkefni Festi ehf. er fyrsta verkefnið sem unnið er samkvæmt áðurnefndu gæðakerfi, Skógarkolefni, sem Skógræktin hefur þróað að erlendri fyrirmynd. Óháð vottunarstofa vottar að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Kolefni verður bundið með nýskógrækt á jörðinni Fjarðarhorni í Hrútafirði sem er í eigu Festi. Gróðursett verður a.m.k. hálf milljón trjáplantna og áætluð kolefnisbinding næstu 50 árin verður um 90.000 tonn af CO2. Haft var eftir Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra í frétt um málið á vef Skógræktarinnar 26. ágúst að með þessu stigi Festi hf. mikilvægt skref til ábyrgrar kolefnisjöfnunar hérlendis. Það væri í samræmi við álit Loftslagsráðs frá því síðla árs 2020 um að ábyrg kolefnisjöfnun sé mikilvægur þáttur í heildstæðri loftslags­stefnu og hluti af vegferðinni að kolefnis­hlutleysi.

„Nú er loksins í boði vottuð kolefnisjöfnun á Íslandi og óskum við Festi til hamingju með fyrstu skrefin. Kolefnisbindingarverkefni Festi er í samræmi við álit Loftslagsráðs þar sem áréttað var mikilvægi ábyrgrar kolefnisjöfnunar og heildstæðrar loftslagsstefnu. Til að tryggja rekjanleika og gagnsæi mun óháð vottunarstofa sjá um að staðfesta að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Þegar binding verður raunveruleg og nýta á árangurinn til kolefnisjöfnunar verður það gert með afskráningu kolefniseininga í Loftslagsskrá. Það er afar ánægjulegt að við hjá Skógræktinni höfum fundið fyrir auknum áhuga á vottaðri kolefnisjöfnun meðal íslenskra og erlendra fyrirtækja sem sjá hag sinn í því að kolefnisjafna sinn rekstur með nýskógrækt hér á landi og er Skógarkolefni því okkar svar við því ákalli,“ sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í frétt á vef Skógræktarinnar 26. ágúst.

Hvað þýðir þetta?

 • Fyrsta vottaða bindingarverkefnið sem skráð er í Loftslagsskrá Íslands eftir gæðakerfinu Skógarkolefni
 • Bindur alla losun Festi hf. og dótturfélaga næstu 50 árin, 90.000 t. CO2
 • Hálf milljón trjáplantna í vottaðri nýskógrækt
 • Ábyrg kolefnisjöfnun í samræmi við álit Loftslagsráðs
 • Tímamótafrumkvæði íslensks fyrirtækis í baráttu við loftslagsógnina

Loftslagsskrá Íslands, eða International Carbon Registry eins og skráin heitir alþjóðlega, gerir kleift að skrá vottaðar kolefniseiningar hérlendis. Þar fást aðeins skráðar aðgerðir sem unnar eru eftir viðurkenndu gæðakerfi. Skógarkolefni er þess konar gæðakerfi, einnig kallað staðall, og er ætlað fyrir bindingarverkefni með nýskógrækt. Með tilkomu Skógarkolefnis og Loftslagsskrár Íslands opnast ný tækifæri til ábyrgra skrefa í umhverfismálum. Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, fagnaði því við þessi tímamót að fyrsta verkefnið skyldi vera komið af stað. Nú væru innviðir tilbúnir og þeim fylgdi hvati fyrir einkaframtak í loftslagsmálum.

Starfsfólk Skógræktarinnar 2021

Nöfn starfsmanna og ársverk

Hér er listi yfir starfsfólk sem var á launaskrá hjá Skógræktinni allt árið 2021 eða hluta ársins, hvort sem það var fullt starf eða hlutastarf.

Stöðugildi eða ársverk hjá Skógræktinni á á árinu 2021 voru 66 talsins og mannmánuðir samtals tæplega 780.

NAFN STARF STARFSTÖÐ SVIÐ
Aðalheiður Bergfoss bókari aðalskrifstofa rekstrarsvið
Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri aðalskrifstofa / Reykjavík  
Agnes Hlín Ýrardóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Andri Þór Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Anna Birna Jakobsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Anna Pálína Jónsdóttir launafulltrúi aðalskrifstofa rekstrarsvið
Ari Eydal Egilsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Arnór Snorrason sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Ásmundur Smári Ragnarsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Benedikt Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Benjamín Örn Davíðsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Bergsveinn Þórsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Bjarki Sigurðsson verkstjóri þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Bjarki Þór Kjartansson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Björg Björnsdóttir mannauðsstjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Björn Traustason sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Brynja Hrafnkelsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Brynjar Skúlason sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Charles Josef Goemans verkefnastjóri Þórsmörk þjóðskógar
Edda Sigurdís Oddsdóttir sviðstjóri Mógilsá rannsóknasvið
Einar Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Eiríkur Kjerulf verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Ellert Arnar Marísson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Elvar Aron Heimisson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Erlingur Viðarsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Erna Sigrún Valgeirsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Francisco De B. Yanez Barnuevo skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Geir Aðalsteinsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Gunnlaugur Guðjónsson sviðstjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Hallur S Björgvinsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Hallþór Jökull Hákonarson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Harpa Dís Harðardóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Hjálmar Óli Jóhannsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Hjördís Jónsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknasvið
Hlynur Gauti Sigurðsson verkefnastjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Hrafn Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Hraundís Guðmundsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Hrefna Jóhannesdóttir skipulagsfulltrúi aðalskrifstofa rekstrarsvið
Hreinn Óskarsson sviðstjóri Suðurland þjóðskógar
Hrönn Guðmundsdóttir verkefnastjóri Suðurland þjóðskógar
Huldar Trausti Valgeirsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Inga María Hauksdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Johan Wilhelm Holst skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Jóhannes H Sigurðsson aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Jón Auðunn Bogason skógarvörður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Jón Þór Birgisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Jón Þór Tryggvason verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Kári Freyr Lefever aðstoðarmaður sérfræðinga skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Kristinn Erlingsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Kristmundur Helgi Guðmundsson verkstjóri þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vestfjörðum skógarþjónusta
Laufey Rún Þorsteinsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknasvið
Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Magnús Björn Jóhannsson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Magnús Fannar Guðmundsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Maria Danielsdóttir Vest skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Martina Kasparová verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Níels Magnús Magnússon verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Orla Bridget Henderson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Ólafur Eggertsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Ólafur Stefán Arnarsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Ólöf Inga Sigurbjartsdóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Orri Freyr Tryggvason verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Pétur Halldórsson kynningarfulltrúi aðalskrifstofa / Akureyri rekstrarsvið
Rakel Jakobína Jónsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Rúnar Ísleifsson skógarvörður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Sigfús Jörgen Oddsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sviðstjóri skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Sigurður E Kjerulf vélsmiður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sigurlaug Eir Þórsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sindri Týr Shannen Sveinsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Snorri Már Vagnsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Snorri Páll Jóhannsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sylvía Rós Hermannsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Sæmundur Kristján Þorvaldsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Teitur Davíðsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Trausti Jóhannsson skógarvörður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Vala Garðarsdóttir bókari aðalskrifstofa rekstrarsvið
Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Valgeir Davíðsson verkstjóri þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Valgerður Anna Jónsdóttir verkefnastjóri skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Valgerður Erlingsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Viktor Steingrímsson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Þór Þorfinnsson skógarvörður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Þórður Ingi Sigurjónsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Þórir Vilhelm Ólafsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri aðalskrifstofa  
Þuríður Davíðsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar