Ársrit Skógræktarinnar 2021
Útgáfa skýrslna um liðið ár hefur verið fastur liður í starfi Skógræktarinnar allt frá stofnun 1908. Framan af fólst skýrslugerðin í því að skógarverðir skrifuðu skýrslur um starfsemina, hver í sínu umdæmi. Árið 2004 hóf Skógrækt ríkisins sem þá hét að gefa út Ársrit og hélt sú útgáfa áfram við sameiningu Skógræktar ríkisins við Landshlutaverkefni í skógrækt 2016. Landshlutaverkefnin gáfu út eigin skýrslur meðan þau störfuðu einnig. Allt þetta efni er að finna á vef Skógræktarinnar.
Ársskýrsluvefur
Frá og með 2020 er Ársrit Skógræktarinnar gefið út á sérstökum ársskýrsluvef. Prentaðri útgáfu Ársritsins var hætt árið 2018 í samræmi við þá stefnu Skógræktarinnar að draga sem mest úr pappírsnotkun, flutningum og öðrum umhverfisáhrifum starfseminnar. Ársskýrsluvefnum er jafnframt ætlað að gera þetta efni aðgengilegra fleirum og víðar en mögulegt er með prentuðu riti.
Tilgangur útgáfunnar tvíþættur
Ársriti Skógræktarinnar er einkum ætlað tvenns konar hlutverk. Annars vegar er að tíunda fyrir samtímanum helstu þætti í starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma en hins vegar að skrásetja sögu stofnunarinnar fyrir framtíðina. Farið er yfir liðið ár í stórum dráttum, tíundaðir merkisviðburðir, ástand skóga landsins á viðkomandi ári og fleira. Einnig er birtur rekstrarreikningur stofnunarinnar og helstu tölur um gróðursetningu og þess háttar.