Fara í efni

Gengið til skógar

Gengið til skógar 2021

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Stórkostlegir hlutir hófust á árinu 2021, sem eiga eftir að gjörbreyta fjárhagslegu og framkvæmdalegu umhverfi skógræktar á Íslandi. Ég var minntur á það nýverið að fyrir fáum árum síðan hefði ég spurt á fundi innan Skógræktarinnar hvort við ættum ekki bara að hætta að tala um þessi kolefnismál og snúa okkur frekar að úrvinnslumálum timburs. Það hlustaði hvort eð er enginn á okkur og enginn sæi möguleikana á að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum sem fælust í skógrækt. Gremjan sem þessi spurning lýsti hafði byggst upp frá því fyrir aldamót með síendurtekinni afneitun stjórnvalda á mikilvægum þætti skógræktar í að takast á við loftslagsvandann.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóriÁrið 2020 gerðist það svo að samtökin One Tree Planted höfðu samband og spurðust fyrir um möguleikana á að fjármagna skógræktarverkefni á Íslandi. Svarið var já, það væri vel hægt. Bættust þau þar með í hóp með Landsvirkjun, Faxaflóahöfnum og örfáum öðrum aðilum sem fjármagnað höfðu skógrækt í smáum stíl um nokkra hríð. Munurinn var sá að OTP vildi gera á einu ári það sem hinir stuðningsaðilarnir höfðu gert á áratug, og byrja á öðru verkefni strax í kjölfarið. Árið 2021 bættust svo fleiri aðilar við, bæði erlendir og innlendir. Í lok ársins voru komnir samningar við sjö þeirra og um 40 í viðbót voru í undirbúningsfasa. Allir ætla þessir aðilar að fjárfesta í skógrækt til kolefnisbindingar og endurheimtar náttúrugæða með gróðursetningu til skóga á skömmum tíma. Það gjörbreytir auðvitað stöðunni. Í stað þess að mjatla plöntum í skógræktarsvæði yfir áratugi verður klárað að gróðursetja á einu til tveimur árum. Slíkt styttir t.d. þann tíma sem viðhalda þarf girðingum og gerir allt annað í stofnfasa skógræktar og framtíðarmeðferð skóga skilvirkara.

En hvað kom til? Hvað breyttist? Af hverju fór fólk allt í einu að meðtaka þá staðreynd, sem öllum hefur mátt vera ljós í áratugi, að skógar geri gagn og meiri skógar geri meira gagn? Það var tvennt. Annars vegar var það ákvörðun stjórnvalda víða um heim að stefna að kolefnishlutleysi eftir skamman tíma (20-30 ár). Þeir sem fatta hvað það þýðir sjá að slíkt næst ekki nema binding kolefnis úr andrúmsloftinu sé þar snar þáttur. Fáar leiðir eru til þess og aðeins ein þeirra sannreynd og örugg – skógrækt. Hins vegar var það vinna við að stofna til vottunar kolefnisbindingar með skógrækt, sem Gunnlaugur Guðjónsson, fjármálastjóri Skógræktarinnar, hóf að undirbúa árið 2019. Hann fékk til liðs við sig lítinn en góðan hóp fólks bæði innan og utan Skógræktarinnar og útkoman er Skógarkolefni (vottunarviðmið), Skógarkolefnisreiknir (spálíkan um kolefnisbindingu skóga) og Loftslagsskrá Íslands (sem heldur utan um eignarhald á vottuðum loftslagsverkefnum). Með þessu hófst vottunarferli fyrstu kolefnisskóga á Íslandi seint á árinu 2021.

Allt þetta kemur svo sem viðbót við auknar fárveitingar stjórnvalda til skógræktar á lögbýlum og samstarfsverkefna með Landgræðslunni. Verði öll þau verkefni sem rætt hefur verið um að veruleika má ætla að árleg gróðursetning verði komin í 15-20 milljónir plantna innan fimm ára. Það kallar á verulegt átak í uppbyggingu innviða. Auka þarf framleiðslugetu gróðrarstöðva og byggja nýjar. Tryggja þarf nægilegt framboð fræs og græðlinga. Auka þarf skógrækt með beinni sáningu og stungu órættra græðlinga. Bæta þarf aðferðir við flutning og dreifingu plantna. Leggja þarf slóðir til að komast að nýjum svæðum. Gera þarf stjórnsýslu sveitarfélaga og stofnana skilvirkari. Efla þarf rannsóknir. Virkja þarf skógarbændur sem þegar eru með samninga. Finna þarf ný lönd.

Ekki þarf að koma á óvart að þessi velgengni vakti viðbrögð hjá fámennum hópi andstæðinga skógræktar. Þótt furðulegt sé í svo til skóglausu landi þar sem augljóslega vantar miklu meiri skóg hefur allt frá upphafi verið fólk sem setur sig upp á móti skógrækt. Í þetta skipti ákvað sá hópur að ráðast á tiltekna trjátegund, stafafuru. Því var haldið fram að hún væri ágeng og stórhættuleg náttúrunni. Fyrir þeirri staðhæfingu eru þó ekki nokkur haldbær rök og því var þetta uppþot jafn hjáróma og árásir á skógrækt hafa jafnan verið í gegnum tíðina.

Á árum áður komu sumir andstæðingar skógræktar úr röðum bænda en slíkt er orðið fátítt nú á dögum, enda stunda margir bændur skógrækt á sínum jörðum. Engu að síður eru núningsfletir á milli skógræktar og sauðfjárræktar sem ekki er búið að leysa. Er þar einkum um að ræða vanda sem fylgir lausagöngu. Það er óásættanlegt að fólk sem vill fara í skógrækt þurfi að verja ræktun sína með miklum tilkostnaði gagnvart kindum nágrannans, ekki til að nefna hversu ósjálfbært og óviðeigandi það er að rýrt land og rofið sé nýtt til beitar. Slíkt land losar koltvísýring út í andrúmsloftið á meðan ekki er öflug gróðurhula, helst skógur, ofan á moldinni til að viðhalda kolefnisforða hennar. Nú er mikilvægara en nokkru sinni áður að græða upp land, ekki til að búa til beitiland, heldur til að binda kolefni í skógi og mold. Í þágu loftslagsmála, skynsamari landnotkunar og bændanna sjálfra þarf að nota stuðning ríkisins við sauðfjárrækt á annan hátt en nú er gert. Umfram allt er þó nauðsynlegt að bændur sjálfir axli ábyrgð og komi með lausnir.

En nóg af því neikvæða. Það er svo margt jákvætt í gangi. Trén vaxa, örfoka land grær til skógar, meira er byggt úr innlendu timbri og sífellt fleiri taka þátt í skógrækt. Ég geng sáttur frá góðu búi.