Fara í efni

Ávarp skógræktarstjóra – Þröstur Eysteinsson

Gengið til skógar 2020

Þröstur Eysteinsson

Ekki er að öllu leyti fyrirsjáanlegt hvernig árin verða, enda höfum við öll gaman af sjálfskipuðum völvum sem skemmta sér og öðrum við að ljúga til um framtíðina. Minna var fyrirsjáanlegt um árið 2020 en flest önnur. Enginn átti von á heimsfaraldri nýrrar veiru sem setti allt á annan endann.

Mannamót voru bönnuð, reyndar eftir að Skógræktin var nýlega búin að halda starfsmannafund sinn. Fagráðstefnu var í bjartsýniskasti frestað, en síðan aflýst þegar faraldurinn var enn í gangi um haustið. Skógardagurinn mikli var ekki haldinn og svo mætti lengi telja. Öll lærðum við að funda á tölvunum, þar sem Skógræktin stóð reyndar vel að vígi, enda tekið þann sið upp áður.

Skógræktin gerði líka sitt til að hjálpa til. Trjáknúsið, úr því að ekki mátti faðma fólk, sem Bjarki Sigurðsson stakk upp á vakti mikla athygli og fór um allan heim. Myndskeið af skógarverðinum á Hallormsstað í tvíræðum faðmlögum við lindifuru urðu heimsfrægar og skógræktarstjóri hvatti til náinna kynna við tré og gönguferða í skógi í viðtölum í Kaliforníu, Ástralíu og Suður-Kóreu.

Ferðalög á milli landa urðu nánast engin og útlendingar hættu að koma. Hins vegar ferðuðust Íslendingar um land sitt sem aldrei fyrr og metaðsókn var að tjaldsvæðunum í þjóðskógunum. Vegna hruns ferðaþjónustunnar fór ríkisstjórnin í aðgerðir til að efla hagkerfið og draga úr atvinnuleysi. Þær höfðu þau áhrif hjá Skógræktinni að hægt var að ráða fleira sumarstarfsfólk en ella, auk þess sem peningar komu til að láta framleiða og gróðursetja hálfa milljón birkiplantna umfram það sem áætlað hafði verið. Var það nokkurt átak en tókst með góðum anda starfsfólks og samstarfi við plöntuframleiðendur og fleiri aðila. Segja má að Skógræktin hafi komið ágætlega út úr pláguárinu 2020, ekki síst þar sem enginn starfsmaður Skógræktarinnar veiktist af kórónaveirunni.

Þessi borði birtist á forsíðum bæði vefs Skógræktarinnar og Facebook-síðu stofnunarinnar í tengslum við knúsátakið sem ætlað var að veita gleði í veirufárinu og hvetja fólk til útivistar í skógi

Mikil gerjun var í tengslum við þátt skógræktar í loftslagsmálum á árinu 2020, enda er fólk smám saman að átta sig á því að kolefnishlutleysi verði ekki náð nema með miklu framlagi skógræktar. Um er að ræða tvennt. Annars vegar er það skuldbinding á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir samdrætti á kolefnislosun Íslands um 29% fyrir árið 2030 miðað við tímabilið 2005-2009. Í því samkomulagi er einnig að finna markmið um að losun frá landnotkun, breytingum á landnotkun og skógrækt (LULUCF) verði engin orðin (nettó núll) árið 2030. Í meginatriðum þýðir það að kolefnisbinding með skógrækt þarf að vega að fullu á móti allri losun frá framræstu landi og rýrlendi sem notað er til beitar.

Hins vegar er það kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Þar eru engin viðmiðunarár, aðeins að nettókolefnislosun af mannavöldum verði núll. Þar mun skógrækt hafa enn mikilvægara hlutverki að gegna. Þar mun einnig reyna á frjósama hugsun og dugnað við að koma hlutunum í verk. Er sú vinna hafin með hönnun kolefnisreiknis, gerð vottunarstaðals Skógarkolefnis og undirbúningi að kolefnismarkaði auk þess sem unnið var að þróun Kolefnisbrúarinnar með LSE.

Erlent fjármagn

Samningur var gerður við samtökin One Tree Planted í Bandaríkjunum um að rækta skóga á Ormsstöðum í Breiðdal. Þetta verður ein snarpasta gróðursetning sem þekkst hefur hérlendis þar sem til stendur að gróðursetja í 140 ha á tveimur árum. Erlendir aðilar hafa sýnt skógrækt á Íslandi aukinn áhuga og líklegt er að fleiri komi til sögunnar á næstunni.

Á Ormsstöðum kostaði 10 milljónir króna að girða, sem verða u.þ.b. 20% af heildarstofnkostnaði skógræktarinnar á staðnum. Svipað gildir um aðra skógrækt svo ekki sé talað um vegagerð, landgræðslusvæði og alla þéttbýlisstaði landsins. Þessi kostnaður stafar eingöngu af fyrirkomulagi sauðfjárræktar – lausagöngu. Við blasir að gera þurfi breytingar á og það eru sauðfjárbændur sjálfir sem þurfa að finna nýjar leiðir sem þeir geta lifað við og koma breytingunum í framkvæmd. Í því skyni tekur Skógræktin þátt í tveimur verkefnum, Loftslagsvænum landbúnaði og nefnd um úrbætur í girðingarmálum. Það er bráðnauðsynlegt að þessi vinna skili sér í breytingum.

Sala arinviðar dróst saman á árinu, en ýmis skemmtilegheit tengdust þó timburframleiðslu. Efnt var í tvö verkefni sem kröfðust stórviðar, stoðir bálskýlis í Vaglaskógi og göngubrú úr límtré yfir Þjórsá við Þjófafoss. Í báðum tilvikum var efnið sótt í sitkagreniskóga þar sem finna mátti há og sver tré. Það sannast æ betur að sitkagreni er okkar vænlegasta timburtré. Þá voru 40 m3 af kurli fluttir út til Færeyja og var það í fjórða skipti sem slíkur útflutningur átti sér stað. Í vinnu við gerð Landsáætlunar í skógrækt skrifaði ég í texta um viðarnytjar að útflutningur væri þar einn möguleikinn. Einn nefndarmanna dró það stórlega í efa að slíkt væri mögulegt. Gat ég þá bent á að slíkt væri ekki aðeins fjarlægur draumur heldur þegar raunin. Fordómar þess efnis að tré geti ekki vaxið á Íslandi eru enn einhvern veginn hluti af þjóðarsálinni og taka á sig ýmsar birtingarmyndir, en þær eyðast hægt og bítandi í hvert skipti sem við sýnum fram á ný mannvirki úr innlendu timbri eða aðra nýja möguleika.

Flutningabíll lestaður á bíl með farm af kurli til Færeyja frá Hallormsstað í desember 2020. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Merkir áfangar

Haldið var upp á aldarafmæli friðunar Þórsmerkur. Hundrað ára skógunum okkar fjölgar óðum og um leið trjám sem komin eru á aðra öldina. Ekki náði hæsta tré landsins, sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, þrjátíu metrunum þó, en að því er aaaaalveg að koma.

Gróðursetning jókst og náði loks að komast yfir 4 milljónir plantna í fyrsta sinn síðan 2010. Voru það skógarbændur í verkefninu Skógrækt á lögbýlum sem gróðursettu mest auk þess sem Hekluskógar og önnur samstarfsverkefni skiluðu sínu. Það stefnir í 5 milljónir árið 2021.

Margar áhugaverðar rannsóknaniðurstöður litu dagsins ljós á árinu og starfsfólk jók menntunarstig stofnunarinnar með doktorsgráðu, tveimur meistaragráðum og einni bakkalárgráðu. Þetta eru framfarir sem máli skipta.

Í samstarfi við Landgræðsluna fór fram birkifræsöfnun haustið 2020. Hún vakti geysimikla athygli almennings og margir tóku þátt í henni. Um leið var fræi safnað af völdum kvæmum birkis til plöntuframleiðslu, auk stafafuru- og sitkagrenifræs. Eflaust verður fræsöfnun almennings endurtekin, en framvegis verður að taka aðra fræsöfnun fastari tökum því aukin plöntuframleiðsla krefst meira hráefnis. Ekki má heldur slá slöku við um gæði fræsins, bæði erfðafræðilega séð og hvað varðar spírun. Með aukinni gróðursetningu þarf að leggja meiri áherslu á þau mál.

Árið 2021 byrjar sem pláguár 2 og ljóst að hlutirnir verða ekki komnir í samt lag fyrr en seint á árinu í fyrsta lagi. Á meðan vinnur Skógræktin sína vinnu, ræktar meiri skóg og stuðlar að framþróun skógræktar í þágu lands og þjóðar.


 

RANNSÓKNASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra – Edda S. Oddsdóttir

Rannsóknasvið 2020

Edda Sigurdís Oddsdóttir

Gróskumikið vísinda- og rannsóknarstarf er mikilvægt í skógrækt, enda stuðlar slíkt starf að framþróun skógræktar. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, sinnir rannsóknastarfi og þekkingaröflun í þágu skógræktar og skógverndar á Íslandi.

Rannsóknir Mógilsár helgast af faglegri þekkingarþörf skógræktar og vísindalegum gæðakröfum. Áfram verður unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi Mógilsár í stefnumörkun Skógræktarinnar og áhersla lögð á:

  • að stunda öflugar og sjálfstæðar rannsóknir er lúta að skógrækt og skógvernd
  • birta rannsóknaniðurstöður í alþjóðlega ritrýndum fræðatímaritum og á innlendum vettvangi
  • að hefja rannsóknaverkefni þar sem nýrrar þekkingar er þörf og afla til þeirra styrkja
  • að veita sérfræðiþjónustu á sviðum sem snerta skógrækt og skógvernd.

Aðalstarfstöð rannsóknasviðs er á Mógilsá en rannsóknir eru stundaðar um allt land. Stór hluti verkefna rannsóknasviðs flokkast sem hagnýt verkefni, þar sem leitast er við að finna lausnir á vandamálum í íslenskri skógrækt og þróa aðferðir við skógrækt og úrvinnslu afurða. Vöktunarverkefni eru annar flokkur verkefna þar sem fylgst er með breytingum sem verða á skógi og umhverfi hans, ekki síst til lengri tíma. Einnig eru stundaðar grunnrannsóknir, sem miða að því að afla upplýsinga til að auka skilning á skógi og vistkerfum hans og svo er lítill hluti rannsókna sem flokkast sem þjónusturannsóknir en þær eru unnar að beiðni utanaðkomandi aðila.

Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur lét af störfum á árinu en hann hefur m.a. unnið að kynbótum á alaskaösp með þol gegn ryðsvepp. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirÍ upphafi ársins 2020 störfuðu 11 starfsmenn við Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar. Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur lét af störfum í mars 2020 vegna aldurs. Rakel Jónsdóttir fluttist frá skógarþjónustusviði yfir á rannsóknasvið í ágúst 2020. Hún er með starfstöð á Akureyri og sinnir einkum rannsóknum á plöntuframleiðslu og nýræktun skóga. Tveir starfsmenn vinna að doktors- og meistaraverkefnum með vinnu og þær Brynja Hrafnkelsdóttir og Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir luku námi á árinu, Brynja með doktorsprófi og Jóhanna með meistaragráðu. Auk þessara ritgerða birtu sérfræðingar rannsóknasviðs fjórar greinar í alþjóðlegum tímaritum, fjórar alþjóðlegar skýrslur og átta greinar og skýrslur á innlendum vettvangi.

Alls voru 10 sumarstarfsmenn við störf á Mógilsá sumarið 2020, bæði sem aðstoðarmenn sérfræðinga og við umhirðu umhverfis. Elísabet Atladóttir landfræðingur var ráðin tímabundið til endurkortlagningar skóglenda. Starfsmenn sviðsins voru því 12 í lok árs 2020. Þá dvaldi Christine Palmer, prófessor við Castleton University í Vermont USA, sem gestavísindamaður í tvo mánuði og þau Davide Frigo og Delfina Andrea Castiglia unnu MS-verkefni sín við háskólann í Padoa undir leiðsögn Ólafs Eggertssonar. Verkefni Davide nefnist Climate-growth relationships of Norway spruce beoynd its natural distribution range en verkefni Andreu hafði titilinn The spread of natural regeneration of Pinus contorta in Iceland.

Meðal samstarfsverkefna á árinu voru tilraunir með fyrirtækinu Svarma við þrívíða kortlagningu skóga með hjálp dróna. Myndband: Hlynur Gauti Sigurðsson

Faraldurinn COVID-19 hafði talsverð áhrif á vinnu starfsmanna á Mógilsá sem unnu margir heima meðan mest smit var í þjóðfélaginu. Þar sem faraldurinn var í lágmarki yfir sumarmánuðina náðist hins vegar að ljúka mælingum og annarri útivinnu.

Undanfarin ár hefur verið lögð aukin áhersla á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda í skógum landsins. Þeim verkefnum er sinnt innan loftslagsdeildar Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Verkefni sem falla undir deildina eru m.a. eitt stærsta verkefni rannsóknasviðsins, Landsskógarúttekt. Þar var haldið áfram að safna gögnum um ræktaða skóga og náttúrulega birkiskóga landsins. Mældir voru 212 mælifletir um land allt. Alls voru 5.370 tré mæld og voru birki og lerki algengustu trjátegundirnar sem voru mældar. Upplýsingarnar sem fást úr þessum mælingum eru notaðar til að skila inn gögnum um skóga landsins, m.a. til Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, FAO, matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og í skýrslu um stöðu skóga í Evrópu. Þá eru ónefndar ýmsar innlendar skýrslur og greinar fyrir stjórnvöld og almenning.

Slóðin á Skógarkolefnisreikni er reiknivel.skogur.isÁ árinu 2020 vann loftslagsdeildin að nýjum vef er nefnist Skógarkolefnisreiknir. Reiknirinn er forrit sem aðstoðar við að meta mögulega kolefnisbindingu nýskógræktar. Tekið er tillit til staðsetningar, landgerða og trjátegunda og gefur reiknirinn vísbendingar um vænta kolefnisbindingu á völdum svæðum. Matið byggist á þúsundum skógmælinga sem gerðar hafa verið á síðustu 20 árum.

Meðal annarra verkefna sem tengjast loftslagsmálum eru rannsókn á mögulegum áhrifum hlýnunar á útbreiðslu íslenskra birkiskóga, rannsóknaverkefnið Mýrviður þar sem kolefnishringrás í asparskógi á framræstri mýri er skoðað (samstarfsverkefni með Háskólanum á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands) og hvernig hægt er að lesa í umhverfisbreytingar með því að skoða og mæla árhringi trjáa.

Skógrækt er ein af öflugustu leiðunum sem við höfum yfir að ráða til að binda kolefni úr andrúmslofti. Þetta er m.a. endurspeglað í áherslum ríkisstjórnarinnar í Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Samkvæmt henni á að auka flatarmál skóga umtalsvert, með það að markmiði að binda kolefni í gróðri og jarðvegi. Til þess að það gangi eftir þarf að velja vel þann efnivið sem gróðursettur er og tryggja eftir bestu getu lifun og góðan vöxt fyrstu árin eftir gróðursetningu.

Rannsóknasvið á í góðu samstarfi við starfsfólk á öðrum sviðum Skógræktarinnar. Hér er skógræktarstjóri ásamt starfsfólki þjóðskógasviðs og skógarþjónustu á Austurlandi eftir fræsöfnunarferð í Steinadal í Suðursveit. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonMógilsá hefur frá stofnun unnið að rannsóknum á því hvaða efniviður (tegundir og kvæmi) hentar best hér á landi. Árið 2020 var til að mynda byrjað að mæla birkikvæmatilraun, sem staðsett er víða um landið. Unnið var úr fyrstu niðurstöðum síðsumars og í ljós kom að meðal þeirra kvæma sem stóðu sig einna best var kvæmi úr Steinadal í Suðursveit. Í ljósi þess var farið í fræsöfnun í Steinadal og verður fræið notað til ræktunar birkis. Á árinu 2020 hófst nýtt verkefni sem styrkt er af norræna Atlantshafssamstarfinu NORA. Valdir voru 30 klónar af alaskaösp sem voru gróðursettir á 10 stöðum hér á landi, auk þess sem plöntur voru sendar til Grænlands og Færeyja. Markmiðið er að sannreyna ryðþol klónanna. Þá var unnið að verkefnum er snúa að því að hámarka lifun og vöxt nýgróðursettra plantna, ekki síst á erfiðum svæðum, s.s. á Mosfellsheiði, Hólasandi og víðar.

Sem fyrr voru stundaðar rannsóknir á meindýrum og sjúkdómum trjáa, t.d. ásókn birkikembu í mismunandi birkikvæmi, birkiryðsskemmdir á mismunandi birkikvæmum, ásókn asparglyttu í mismunandi víðikvæmi, rannsóknir á lífsferli ertuyglu auk þess sem fylgst var með útbreiðslu meindýra og sjúkdóma og skemmdum á trjám. Eru heilsufari skóga gerð sérstök skil í Skaðvaldaannál, næstu grein hér að neðan í Ársritinu.

Eftir því sem skógarnir vaxa og nytjar af þeim aukast, eykst einnig þörfin fyrir rannsóknir á umhirðu og afurðum íslenskra skóga. Árið 2020 hófst verkefni um viðargæði alaskaaspar sem styrkt var af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, auk þess sem verkefnið Viðarafurðir til framtíðar – varanleg kolefnisbinding íslenskra skóga fékk brautargengi hjá Loftslagssjóði. Enn fremur var unnið að verkefnunum Skógarfangi og Treprox. Skógarfang er teymishópur Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda um afurða- og markaðsmál en Treprox hefur það markmið að styrkja stoðir þess timburiðnaðar sem hægt og rólega er að líta dagsins ljós hér á landi. Seinna verkefnið er styrkt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins og er samvinnuverkefni Skógræktarinnar, Landssamtaka skógareigenda, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Hér hafa eingöngu verið nefnd nokkur dæmi um fjölbreytt verkefni rannsóknasviðs á árinu 2020. Í töflu 1 má sjá helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá en auk þess má lesa ítarlegri lýsingu á verkefnunum í Starfsáætlun Mógilsár sem birt verður á skogur.is.

Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi og Björn Traustason sérfræðingur við hæðarmælingar á lerki á Héraði. Ljósmynd: Hjördís JónsdóttirSem fyrr vinna starfsmenn rannsóknasviðs í miklu og góðu samstarfi við aðra starfsmenn Skógræktarinnar um allt land og þó nokkrir starfsmenn annarra sviða taka beinan þátt í rannsóknum, auk þess að veita ýmiss konar aðstoð, ekki síst í formi upplýsinga. Þá er samstarf við aðrar stofnanir ekki síður mikilvægt. Á síðasta ári voru starfsmenn rannsóknasviðs meðal annars í samstarfi við skógræktarfélögin, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landgræðsluna.

Síðast en ekki síst eiga starfsmenn rannsóknasviðs gott og mikið samstarf við fjölmarga skógareigendur og skógræktendur út um allt land. Samstarfið getur verið af ýmsum toga; margir skógarbændur hafa látið land undir tilraunir og þá krefjast mælingar á kolefnisforða íslenskra skóga þess oft að farið sé inn á einkalönd. Undantekningalaust hefur starfsmönnum rannsóknasviðs verið vel tekið á ferðum sínum og er það þakkarvert. Ótaldar eru allar upplýsingar sem fást með tilstilli skógræktenda út um allt land, ekki síst þegar óskað er eftir upplýsingum um pestir og skaðvalda á trjám.

Rannsóknir og þróun eru mikilvægur þáttur ef markmið um aukna kolefnisbindingu eiga að nást hratt. Ekki er nóg að beina fjármagni eingöngu í framkvæmdir og úttektir heldur þarf einnig að gera ráð fyrir rannsóknum, t.d. á hvernig bæta megi ræktun trjáplantna, auka afköst við gróðursetningu og hvernig tryggja megi sem best lifun og vöxt trjánna þegar búið er að gróðursetja. Það er því mikið áhyggjuefni að aðgengi skógræktarrannsókna að fjármagni var þrengt talsvert á síðasta ári, fyrst með því að Framleiðnisjóður landbúnaðarins var lagður niður og svo með því að rannsóknir er snúa að bindingu kolefnis í skógrækt voru útilokaðar frá Loftslagssjóði.

Tafla 1. Helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá árið 2020

 

VÖKTUNARVERKEFNI
Helstu vörður verkefna 2020
Íslensk skógarúttekt
 
Gagnagrunnur um skóga á Íslandi
Unnið að gagnasöfnun og samræmingu, gerð fitjuskrár um landfræðileg skógargögn og endurkortlagningu skóglendis.
Landsskógarúttekt
Mælifletir í ræktuðum skógum mældir í þriðja sinn en annað sinn í birkiskógum og -kjarri. Gögn úr mælingum nýtt í útreikninga um skóga og skógrækt í kolefnisbókhaldi Íslands.
Birtingar:
Nicole Keller, …, Arnór Snorrason, … 2020. National Inventory Report. Emissions of greenhouse gases in Iceland from 1990 to 2018. UST_2020:06. The Environment Agency of Iceland. Reykjavik. 424 bls.
Alberdi, I…. Snorrason, A., .. & Hernández, L. 2020. Assessing forest availability for wood supply in Europe. Forest Policy and Economics, 111. 14 bls.
Arnór Snorrason, Björn Traustason og Bjarki Þór Kjartansson 2020. Global Forest Resources Assessment 2020. Report: Iceland. Food and Agriculture Organization of the United Nations (FAO). 56 bls.
http://www.fao.org/3/cb0010en/cb0010en.pdf
Arnór Snorrason, Bjarki Þór Kjartansson & Björn Traustason 2020. Forest Reference Level 2021-2025: Iceland. National forestry accounting plan. Icelandic Forest Research Mógilsá, 162 Reykjavík, Iceland. ISBN 978-9935-9410-8-4. 51 bls.
Trjásjúkdómar og meindýr

 

Ástand skóga ásamt útbreiðsla meindýra og sjúkdóma metin í ferðum sérfræðinga, auk upplýsinga frá skógræktarfólki.
Birtingar:
Hrafnkelsdóttir, B. & Halldórsson, G. (2020) Invasive pests and diseases on birch in Iceland. Rit Mógilsár, 38.
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir (2020) Skaðvaldaannáll 2019. Ársrit Skógræktarinnar 2020.
HAGNÝTAR RANNSÓKNIR
 
NORA-ösp
Gróðursett í tilraunareiti á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum
Afkvæmarannsókn á klónum lerkis
Sýni tekin til faðernisgreiningar og þrif plantna mæld
Gæði og ending íslensks viðar
Áframhaldandi rannsóknir á þéttleikamælingum og áhersla lögð á notkunarmöguleika íslensks viðar
Birtingar:
Ólafur Eggertsson og Arnór Snorrason 2020: Viðarmagnsspá fyrir ræktaða skóga á Íslandi 2020/2035. Í: Skýrslu Skógræktarinnar og LSE, Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga (bls. 18-21).
Ólafur Eggertsson 2020: Innflutningur til landsins á viðarafurðum. Í: Skýrslu Skógræktarinnar og LSE, Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga (bls. 22-24).
Ólafur Eggertsson og Björn Bjarndal Jónsson 2020: Markaðsmál. Í: Skýrslu Skógræktarinnar og LSE, Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga (bls. 52).
Ásókn asparglyttu í mismunandi asparklóna
Áfram unnið úr niðurstöðum tilrauna.
Viðargæði Alaskaaspar
Verkefnið hófst á vormánuðum með styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Markmiðið er að kanna kanna hvort mögulegt er að nýta asparvið sem timbur í byggingar.
Treprox
Verkefnið hófst árið 2020 og gefið var út ritið:
Gæðafjalir - Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám 
Viðarafurðir til framtíðar – varanleg kolefnisbindning íslenskra skóga
Verkefnið hófst 2020 með styrk frá Loftslagssjóði.
Loftslagsskógar á Mosfellsheiði
Gróðursett var í tilraunareiti vorið 2020 og tilraunin mæld að hausti. Úrvinnsla fyrstu niðurstaðna er langt komin. Gert er ráð fyrir að mæla tilraunina aftur 2021
Kvæmatilraun með birki
Mældir voru 4 af 8 tilraunareitum á Norður- og Suðurlandi. Unnið úr fyrstu niðurstöðum. Stefnt að því að ljúka mælingum á öðrum reitum 2021.
Langtímatilraun með nýskógrækt
Unnið var úr mælingargögnum sem fengust á Héraði og niðurstöður birtar í Riti Mógilsár
Birting:
Rannsóknir á birkikembu

 

Skemmdir af völdum birkikembu metnar í birkikvæmatilraunum á Suðurlandi. Áfram fylgst með útbreiðslu kembunnar.
Birting:
Hrafnkelsdóttir, B. & Odssdóttir, E.S. (2020) Susceptibility of differentprovenances of birchin Iceland to Eriocrania unimaculella. Rit Mógilsár, 38.
Birkiryð
Ryðskemmdir á mismunandi birkikvæmummetnar í birkikvæmatilraunumá Suður- og Norðurlandi.
Samanburður hefðbundinnar aðferðar og LIDAR við umhirðu og viðarmagnsáætlun
Rannsakað hvort nota megi þyrildi útbúið LIDAR til mælinga á lerkiskógi við gerð umhirðu- og viðarmagnsáætlana. Úrvinnslu gagna lokið og skýrslu skilað til Framleiðnisjóðs.
Samræktun alaskaaspar og alaskalúpínu til framleiðslu iðnviðar og bindingar kolefnis
Meistaraverkefni lokið á vormánuðum.
Birting:
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir. (2020). Notkun aspargræðlinga í nýskógrækt samanburður á aðferðum, efnivið og landgerðum. (M.Sc.) Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
Notkun á fræpökkum og arginin áburðar til hagræðingar í skógrækt
 
Viðarmagnsúttekt á Vesturlandi
Verkefninu lauk með meistaraprófi vorið 2020
Birting:
Ellert Arnar Marísson (2020) Viðarmagnsspá fyrir Vesturland. (M.Sc.) Landbúnaðarháskóli Íslands. 77 bls.
Prófun á sænskri stafafuru
Áfram unnið að úrvinnslu gagna.
Þéttleikatilraun með reynivið í bland við lerki
 
Sitkagreni - kvæmi og tegundir
Áfram unnið að úrvinnslu gagna.
GRUNNRANNSÓKNIR
 
Sjálfsáning erlendra trjátegunda
Samstarfsverkefni við Dennis Riege og National Geographic. Gróðursett í nýjar tilraunir og unnið úr gögnum fyrri tilrauna.
Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum
Doktorsritgerð varin á vormánuðum. Beitaráhrif ertuyglu á mismunandi trjátegundum í Hvammi mæld.
Birtingar:
Hrafnkelsdóttir, B. (2020) The interaction between native insect herbivores, introduced plant species and climate change in Iceland. Faculty of Environmental and Forest Sciences,. Phd thesis. The Agricultural University of Iceland, pp. 70.
Hrafnkelsdottir, B., Sigurdsson, B.D., Oddsdottir, E.S., Sverrisson, H. & Halldorsson, G. (2020) The effect of insect herbivory on seed production of Lupinus nootkatensis, an introduced species in Iceland. Agricultural and Forest Entomology, 22, 136-145.
Brynja Hrafnkelsdóttir, Edda S. Oddsdóttir & Guðmundur Halldórsson (2020) Ertuygla: Útbreiðsla og áhrif á ungskóga. Skógræktarritið, 2, 34-38.

Ritið Gæðafjalir - viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám er afurð Treprox-verkefnisins. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tók á föstudag við fyrsta eintakinu af nýju riti sem hefur að geyma viðskiptaflokkun á timbri úr íslenskum barrtrjám. Reglur um slíka flokkun eru mikilvægt skref í uppbyggingu timburiðnaðar hérlendis. Ljósmynd: Rósa Björk Jónsdóttir/LbhÍ

 

 

 

 

 

Skaðvaldaannáll

Heilsufar trjágróðurs á árinu 2020

Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir

Hér verður fjallað í stuttu máli um helstu skaða á trjám á árinu 2020. Í ár var ekki farið í sérstakar ferðir um landið í þeim tilgangi að kanna ástand trjágróðurs, en gerðar voru athuganir á ýmsum stöðum í tengslum við aðrar ferðir. Einnig var sendur út gátlisti til starfsmanna Skógræktarinnar og skógareigenda í byrjun sumars, þar sem þeir voru beðnir að leggja mat á sjúkdóma og skordýraplágur í nágrenni sínu og óskað eftir ábendingum um skemmdir á trjám og runnum á vef Skógræktarinnar. Töluvert af svörum barst og þessar upplýsingar auk eigin athugana höfunda liggja til grundvallar þessu yfirliti.

Birki

Flugulirfur að éta birkiryðEins og fyrri ár voru skemmdir af völdum birkikembu (Eriocrania unimaculella) á útbreiðslusvæði hennar töluverðar þetta árið. Hún heldur áfram að dreifa sér á Vestfjörðum þar sem hún fannst fyrst árið 2019. Útbreiðslusvæði hennar nær í dag austan frá Kirkjubæjarklaustri á Suðurlandi vestur um land upp í Borgarfjörð. Einnig finnst hún á nokkrum stöðum í Skagafirði, Eyjafirði og á Vestfjörðum (Dýrafirði, Skutulsfirði og Tungudal). Lirfa skógarsveifu að gæða sér á birkisprotalúsBirkiþéla (Scolioneura betuleti) var töluvert áberandi í ár og var nokkuð um skemmdir af völdum hennar á Suðurlandi og í Eyjafirði. Hún heldur áfram að dreifa sér um landið en hún fannst í fyrsta skipti á Egilsstöðum síðastliðið haust.

TSkemmdir vegna furuvoðvespuöluvert var af haustfeta (Operophtera brumata) og tígulvefara (Epinotia solandriana) á Austurlandi og á sunnanverðum Vestfjörðum en þó voru skemmdirnar ekki jafnmiklar og árið 2019. Yfir heildina voru aðrar maðkskemmdir á birki undir meðallagi á landsvísu.

Birkiryð var um eða undir meðallagi í ár.

Lerki og fura

Á heildina litið virðist sem lerki og fura hafi sloppið að mestu við alvarlega kvilla þetta árið. Lirfa furuvoðvespuÞó mátti víða sjá rauðleitar furur vegna veður- og þurrskemmda í vor. Þá virðist tilfellum þar sem furuvoðvespa (Acantholyda erythrocephala) skaðar furur, einkum lindifurur, fara fjölgandi á Suðvesturlandinu en vespan er tiltölulega nýleg tegund hér á landi. Lerki á Norðurlandi hefur jafnað sig töluvert á skemmdum af völdum lerkibarrfellis sem herjaði á það síðustu ár þar sem það er nú grænna á að líta.

Greni

Lítið var um alvarlegar skemmdir á greni þetta árið. Til að mynda var minna af skemmdum af völdum sitkalúsar (Elatobium abietinum) í ár á þeim svæðum sem hún hefur herjað á undanfarin ár.

Greniryð (Chrysomyxa abietis) var mun minna á Suðurlandi í ár, miðað við undanfarin ár.

Ösp, víðir, viðja og selja

Asparglytta (Phratora vitellinae) heldur áfram að valda töluverðum skemmdum á ösp, víði og viðju á útbreiðslusvæði sínu. Engir nýir fundastaðir voru skrásettir þetta árið en hún er að dreifa sér á þeim stöðum þar sem hún hefur áður verið skrásett, til að mynda í Skaftafelli og Eyjafirði. Víða á útbreiðslusvæði hennar er að koma í ljós hversu alvarlegar afleiðingarnar eru af faraöldrum síðustu ára og er ljóst að hún getur valdið verulegum skemmdum og jafnvel trjádauða hérlendis, sérstakalega á víðitegundum. Gulvíðir virðist fara sérstaklega illa af völdum hennar.

Illa farnir víðirunnar eftir nokkurra ára asparglyttufaraldra í SkaftafelliAsparryð í ár var í meðallagi. Það er viðvarandi í uppsveitum Árnessýslu og er enn að aukast í Eyjafirði, þar sem það er tiltölulega nýlega komið.

Aðrar tegundir trjáa og runna

Óþekktur sjúkdómur af rósaættSíðastliðið haust fór að bera á skemmdum á reyniviði og fleiri tegundum af rósaætt á Suður- og Vesturlandi. Einkennin þóttu lík eldibrandi (Erwinia amylovora) sem er alvarlegur og mjög smitandi bakteríusjúkdómur og leggst á ýmsar trjátegundir rósaættar. MAST kannaði málið og tók sýni af skemmdum trjám á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og í Borgarnesi. Sýnin sem tekin voru reyndust öll neikvæð hvað varðar eldibrand þannig að enn þá er ekki vitað hvað olli þessum skemmdum á trjánum. MAST stefnir að því að senda sýni til frekari greiningar til Noregs næsta vor þannig að vonandi kemur í ljós árið 2021 hvað veldur þessum skemmdum.

Aðeins var um staðbundna ertuyglufaraldra (Ceramica pisi) á sunnanverðu landinu en ertuygla virðist vera að sækja í sig veðrið eftir að hafa verið í lágmarki undanfarin ár.

Lokaorð

Hér að ofan hefur verið farið yfir helstu skaðvalda í skógum landsins á árinu 2020. Í heildina var ekki mikið um skordýr og sjúkdóma, þótt eitthvað væri um staðbundna skaða.

Rétt er að vekja athygli áhugasamra á vef Skógræktarinnar, skogur.is/skadvaldar, þar sem er að finna upplýsingar um helstu skaðvalda sem finnast í trjám á Íslandi.

Þakkir

Höfundar vilja þakka áhugasömu skógræktarfólki um allt land fyrir upplýsingar og ábendingar um heilsufar skóga.

Áfram eru ábendingar um heilsu skóga vel þegnar og hægt að koma þeim á framfæri með því að hafa samband við Brynju Hrafnkelsdóttur í síma 867 9574. Eins má senda upplýsingar og myndir á netfangið brynja@skogur.is. Sýni, bæði af sýktum trjám og skordýrum, er hægt að senda á Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, Mógilsá, 162 Reykjavík, stílað á Brynju Hrafnkelsdóttur.

Ertuygla og loftslagsbreytingar

Ertuygla og loftslagsbreytingar

Brynja Hrafnkelsdóttir

Síðastliðið vor varði höfundur doktorsritgerð sína í skógfræði með áherslu á skordýrafræði við náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Leiðbeinendur hennar voru Guðmundur Halldórsson, Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson. Doktorsritgerðin er á ensku með íslensku ágripi og er íslenskur titill hennar „Samspil á milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi“. Verkefnið, sem var samstarfverkefni Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, var styrkt af Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson og Vísindasjóði Suðurlands.

Meginmarkmiðin voru að rannsaka: (1) áhrif loftslagsbreytinga á stofnstærðarþróun og útbreiðslu ertuyglu og (2) áhrif skordýrabeitar á þrótt alaskalúpínu og trjáa, þar sem fræframleiðsla og ársvöxtur eru notuð sem mælikvarðar á þrótt plantna. Hér á eftir verður stuttlega fjallað um helstu niðurstöður ritgerðarinnar.

Breytingar á faröldrum og útbreiðslu ertuyglu

Mynd 1. Breytingar á útbreiðslusvæði ertuyglu á Íslandi. Mismunandi litir sýna tímasetningu skrásetningar; útbreiðsla skráð í Wolff9 (1971) (gulir þríhyrningar), nýir fundarstaðir í úttektum 2009-2011 (rauðir ferningar) og í úttekt 2018 (grænir tíglar). Kort: Bjarki Þ. Kjartansson

Höfundur skoðar ertuyglu á lúpínu

Hlýnun undanfarinna ára á Íslandi hefur nú þegar haft áhrif á gróður og dýralíf á landinu (Halldór Björnsson o.fl., 2018). Til að mynda hefur hraði landnáms nýrra skordýrategunda sem lifa á trjám og runnum hérlendis aukist töluvert samfara hlýnun (Guðmundur Halldórsson o.fl., 2013).

Einnig sjást breytingar á útbreiðslu og þéttleika þeirra tegunda sem hafa verið hér lengur (Gudmundur Halldórsson o.fl., 2013; Brynja Hrafnkelsdottir o.fl., 2016). Ein þeirra tegunda er ertuygla (Ceramica pisi) en hún eru innlend fiðrildategund sem var lengi vel nær eingöngu bundin við sunnanvert landið en útbreiðslusvæði hennar hefur stækkað töluvert frá síðustu aldamótum (Mynd 1)(Brynja Hrafnkelsdóttir, 2020).

Á sama tíma fór að bera á auknum faröldrum af völdum ertuyglulirfa í lúpínu og í skógrækt á útbreiðslusvæði hennar (Brynja Hrafnkelsdottir o.fl., 2016).

Áhrif hlýnunar á ertuyglu

Í verkefninu var kannað hvaða áhrif vetrarhiti (a) og sumarhiti (b) hefði á lifun ertuyglu.

  1. Ertuyglulirfur á greniAukinn kuldi hafði engin áhrif á lifun ertuyglu (Brynja Hrafnkelsdottir o.fl., 2019). Aftur á móti kom í ljós í sömu rannsókn að stærð púpna skipti miklu máli fyrir lifun ertuyglu þar sem stærri púpur voru mun líklegri til að lifa af en þær minni (Brynja Hrafnkelsdottir o.fl., 2019).
  2. Þegar meðalsumarhiti frá júní og stærð ertuyglulirfa var borið saman kom í ljós að sumarhiti hefur aftur á móti mikil áhrif á stærð lirfa (Brynja Hrafnkelsdóttir, 2020). Rannsóknin sýndi einnig að stærri lirfur urðu að stærri púpum þannig að hærri sumarhiti eykur meðalstærð púpna sem veldur því að fleiri púpur lifa af veturinn (Brynja Hrafnkelsdóttir, 2020).

Áhrif ertuyglu á lúpínu og tré

Í verkefninu voru könnuð áhrif ertuyglubeitar á fræframleiðslu lúpínu (a) og hæðarvöxt sitkagrenis og alaskaaspar(b).

  1. Ertuyglulirfur á öspÁhrifin á fræframleiðslu lúpínu voru könnuð með stýrðri beitartilraun þar sem kom í ljós að skordýrabeit hefur áhrif á fræframleiðslu eldri lúpínu en ekki á þá yngri (Brynja Hrafnkelsdottir o.fl., 2020a).
  2. Áhrif á vöxt trjáa voru könnuð með því að skoða hæðarvöxt alaskaaspar og sitkagrenis á trjám sem urðu fyrir mismunandi beit af völdum ertuyglu. Aflaufgun af völdum ertuyglulirfa reyndist hafa neikvæð áhrif á hæðarvöxt sitkagrenis, en engin áhrif á hæðarvöxt alaskaaspar (Brynja Hrafnkelsdóttir o.fl., 2020b).

Lokaorð

Hér að ofan hefur verið fjallað um helstu niðurstöður doktorsverkefnis höfundar en áhugasamir geta einnig nálgast ritgerðina á slóðinni https://opinvisindi.is/handle/20.500.11815/1786.

Heimildir

Brynja Hrafnkelsdóttir (2020). The interaction between native insect herbivores, introduced plant species and climate change in Iceland. Doktorsritgerð við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Brynja Hrafnkelsdottir, Bjarni D. Sigurdsson, Edda Oddsdóttir, Halldor Sverrisson og Guðmundur Halldórsson (2019). Winter survival of Ceramica pisi (Lepidoptera: Noctuidae) in Iceland. Agricultural and Forest Entomology, 21, 219-226.
Brynja Hrafnkelsdottir, Bjarni D. Sigurdsson, Edda S. Oddsdottir, Halldor Sverrisson og Gudmundur Halldorsson (2020a). The effect of insect herbivory on seed production of Lupinus nootkatensis, an introduced species in Iceland. Agricultural and Forest Entomology, 22, 136-145.
Brynja Hrafnkelsdóttir, Edda S. Oddsdóttir og Guðmundur Halldórsson (2020b). Ertuygla: Útbreiðsla og áhrif á ungskóga. Skógræktarritið, 2(2020), 34-38.
Brynja Hrafnkelsdottir, Edda Oddsdóttir, Gudmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson (2016). Rannsóknir á ertuyglu. Ársrit Skógræktar ríkisins 2015, 12-14.
Gudmundur Halldórsson, Bjarni D Sigurdsson, Brynja Hrafnkelsdottir, Edda Oddsdóttir, Ólafur Eggertsson og Erling Ólafsson (2013). New arthropod herbivores on trees and shrubs in Iceland and changes in pest dynamics: A review. Icelandic Agricultural Sciences (26), 69-84.
Halldór Björnsson, Bjarni D Sigurdsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S Ástþórsson, Snjólaug Ólafsdóttir, … Trausti Jónsson (2018). Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018.Veðurstofa Íslands, 237 bls.

Kvæmatilraun með íslenska birkið

Kvæmatilraun með íslenska birkið

Brynjar Skúlason og Brynja Hrafnkelsdóttir

Ilmbjörk (Betula pubescens) er eina íslenska trjátegundin sem myndar samfelldan skóg. Hún er ein mest gróðursetta trjátegundin í skógrækt á Íslandi undanfarin ár. Mikilvægt er að efniviðurinn sé góður og valin séu þau kvæmi birkis sem henta á því svæði sem gróðursett er á. Þá er ljóst að kvæmi geta verið misvel móttækileg fyrir ýmsum skaðvöldum. Einnig getur verið munur á því hversu mikið meindýr sækja í viðkomandi kvæmi.

Formáli

Undirbúningur að erfðavistfræðirannsókn á íslensku birki hófst um 1995. Rannsóknastöðin á Mógilsá stóð fyrir söfnun á birkifræi af um 50 kvæmum, vítt og breitt um landið. Plöntur voru ræktaðar á Mógilsá og gróðursettar í 9 kvæmatilraunir sumarið 1998, einnig með mikla landfræðilega dreifingu. Rarik veitti styrk í tilraunina í tilefni af 50 ára afmæli sínu. Á meðfylgjandi korti má sjá uppruna kvæma í tilrauninni ásamt tilraunastöðum.

Tilraunirnar voru mældar árið 1999, 2001 og 2008. Aðalsteinn Sigurgeirsson og Sabrina Fischer gerðu grein fyrir helstu niðurstöðum á Fagráðstefnu skógræktar árið 2009. Árið 2020 þótti ástæða til að endurtaka mælingar, ekki síst til að meta áhrif nýrra skaðvalda á mismunandi kvæmi, mun á kolefnisbindingu og mun á fræframleiðslu. Af 8 tilraunareitum sem teljast nógu heillegir til að gefa upplýsingar var mælt á Hjaltastöðum, Fagurhólsmýri, Haukadalsheiði, í Varmadal og á Læk að hluta. Til stendur að mæla á Höfða, Reykjanesi, í Húsafelli og það sem út af stendur á Læk á árinu 2021. Hér fyrir neðan má sjá niðurstöður þessara úttekta 2020 fyrir Varmadal. Unnið verður úr gögnum fyrir tilraunina í heild þegar mælingum lýkur 2021 og niðurstöður birtar í kjölfarið.

Niðurstöður

Í Varmadal var meðallifun 65% en hún var mjög misjöfn hjá kvæmum, allt frá því að vera 0% (Laugvalladalur S-Múlasýslu og Laugaból Ísafjarðarsýslu) upp í 98% (Steinadalur, A-Skaftafellssýslu) (mynd 2).

Mynd 2. Meðallifun mismunandi birkikvæma í Varmadal 2020. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Líkt og með lifun í Varmadal var töluverður munur á milli kvæma hvað varðar lífmassavöxt ofanjarðar. Af þeim kvæmum þar sem lifun var yfir 0% var meðallífmassi ofanjarðar frá 1,9 kg (Leyningshólar Eyjafjarðarsýslu) upp í 11,7 kg (Embla) (mynd 3). Lífmassi var hærri hjá flestum kvæmum sem eru upp runnin á Suðvestur- og Suðausturlandi samanborið við kvæmin frá Norðvestur- og Norðausturlandi (mynd 3).

Mynd 3. Meðallífmassi ofanjarðar á mismunandi birkikvæmum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Meðalfræframleiðsla var mjög misjöfn á milli birkikvæmanna í Varmadal. Líkt og með aðrar breytur í þessari rannsókn virðist vera landshlutabundinn kvæmamunur þar sem fræframleiðsla var mest hjá kvæmum sem eru uppruninn á Suðurausturlandi en minnst hjá kvæmum frá Norðausturlandi og Norðvesturlandi (mynd 4).

Mynd 4. Meðalfræmyndun á mismunandi birkikvæmum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Einnig var töluverður kvæmamunur á umfangi ryðsmits og komu þau kvæmi af Suðurausturlandi best út en kvæmi af Norðausturlandi verst hvað varðar smit (mynd 5).

Mynd 5. Umfang birkiryðs á birkikvæmunum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Þegar skemmdir af völdum birkikembu voru bornar saman á milli kvæma var aftur á móti ekki jafnskýr munur á milli landsvæða.

Mynd 6.  Birkikembuskemmdir á birkikvæmunum í Varmadal. Mismunandi litir sýna upprunastað kvæmis. Lóðréttar línur sýna staðalskekkju.

Lokaorð

Ljóst er að mikill kvæmamunur er á lifun birkikvæmanna í Varmadal. Í stuttu máli virðist birkið af SA-landi hafa yfirburði í lifun, lífmassa, fræmyndun og ryðþoli. Birkið af SV-landi fylgir þar á eftir. Þol gagnvart birkikembu er ekki eins bundið við kvæmi frá ákveðnum landshlutum en þó virðist Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar vera þeir viðkvæmustu fyrir birkikembu (mynd 6). Hér er um algjörlega nýjar upplýsingar að ræða og sýnir það mikilvægi þess að eiga kvæmatilraunir til að meta ófyrirséð umhverfisáhrif á ólík kvæmi á einum stað.

Lónsöræfi og Stafafellsfjöll – skógmælingaferð

Ferðasaga úr Lónsöræfum – Stafafellsfjöllum

Bjarki Þór Kjartansson, Elísabet Atladóttir og Laufey Rún Þorsteinsdóttir

Frá stofnun Skógræktarinnar hefur eitt af meginviðfangsefnum stofnunarinnar verið birkiskógar landsins. Fyrri hluta síðustu aldar var lagt mat á ástand birkiskóga og þeir verndaðir eftir fremsta megni, m.a. með beitarfriðun. Síðar á öldinni var farið í ýtarlegri úttektir, kortlagningu og mælingar á skógunum. Undir lok aldarinnar var gagnsemi skóga í baráttu við loftslagsbreytingar orðin að nýrri áherslu í eftirliti með skógunum.

Mynd 1. Fossarnir tveir við gönguleið upp Meingilshæðir og MúlakollAlþjóðlegar skuldbindingar landsins sem snúa að loftslagsmálum fengu þá aukið vægi í starfsemi stofnunarinnar. Verkefnið Íslensk skógarúttekt var sett á fót upp úr árinu 2002. Meginmarkmiðið var að mæla standandi kolefnisforða og meta bindingu í skógum landsins, ræktuðum skógum sem og birkiskógum. Frá 2005 til 2010 var mælt af kappi í birkiskógum landsins en raunin var sú að eldri kortlagning var ekki nógu nákvæm fyrir kröfur nútímans. Samstillt átak innan stofnunar sem utan skilaði því að í fyrsta skipti frá landnámi var hægt að staðfesta að birkiskógarnir væru að breiðast út, 1.502 ferkílómetrar að flatarmáli.

Við endurkortlagningu sumarið 2014 fór Bjarki inn í Lónsöræfi til að kortleggja birkiskóga. Gengið var frá Skyndidalsá upp með Jökulsárgljúfri og svæðin í kring kortlögð. Rétt áður en komið er fram á Illakamb blasir við voldugt gil til norðurs þar sem Víðidalsá rennur og sameinast svo Jökulsá í Lóni. Gilið er snarbratt á köflum og samanstendur af skriðum og gljúfrum fyrir ofan beljandi fljótið. Innst í gilinu mátti sjá glitta í grasi vaxna bletti með kjarri sem var þá kortlagt úr fjarska, áður ókortlagt svæði. Þetta svæði kallast Flár og fyrir ofan það eru gil sem kallast Flug og lýsir það heiti brattanum vel. Úr fjarlægð virðist gilið ekki fært nema fuglinum fljúgandi.

Mynd 2. Mosavaxnar hlíðar og birkikjarr við minni Víðidalsár á FláumSvo skemmtilega vildi til að slembivalinn mæliflötur fyrir Íslenska skógarúttekt lenti í kjarrinu þarna í minni Víðidals. Gerð var ferð árið 2017 á svæðið til að mæla þennan punkt. Heimamenn sögðu að þangað væri hægt að fara því þarna væri smalað.

Eftir heilan dag á göngu og nokkurt brölt urðu mælingamenn frá að hverfa því ekki fannst leið niður í gilið. Gengið var með fram börmum gilsins ofanverðs og reynt að finna leið niður. Í þoku og rigningu reyndist það ómögulegt fyrir óstaðkunnuga. Niður í gilið eru snarbrattar líparítskriður sem erfitt er að ganga um og ekki fyrir lofthrædda að vera á ferð.

Mynd 3. Gönguleiðin frá Kollumúla liggur yfir snarbrattar skriður við GjögurSumarið 2020 var ákveðið að reyna aftur að komast á mæliflötinn og vildi svo til að tveir sumarstarfsmenn, Elísabet og Laufey, sem unnu við skógarúttekt það sumarið höfðu nokkra reynslu af klifri og fjallabrölti.

Þrír mælingamenn héldu af stað inn í Lónsöræfi 13. ágúst klyfjaðir mælitækjum, mat og birgðum fyrir allt að þrjá daga. Ekkert símasamband er í Lónsöræfum og var gert ráð fyrir nokkrum tilraunum til að komast í gilið vegna landslags og veðurs en farið yrði niður á láglendi á þriðja degi. Fyrir ferðina var rætt við staðkunnuga heimamenn. Helsta spurningin var hvort það væri í raun hægt að komast fótgangandi ofan í gilið og á Fláar. Jú, einhverjir þekktu til þess að þarna væri smalað og ætti að vera kindagata niður skriðurnar einhvers staðar austan við gönguleiðina og fossana í Meingili. Á gilbarminum við einstigið ætti að vera varða sem þyrfti að finna, en annars voru staðlýsingarnar heldur ónákvæmar.

Mynd 4. Fyrsta tilraun til að finna mæliflötinn bar ekki árangurVið fengum far snemma upp á Illakamb og gengum þaðan í hálftíma að Kollumúlaskála. Í Lónsöræfum var lágskýjað og nokkur vindur en engu að síður gríðarlega fallegt landslag sem blasti við okkur hvert sem var litið. Við ákváðum að halda strax áfram, freista þess að finna göngustíginn og framkvæma mælinguna ef við yrðum heppin. Lögðum af stað með létta bakpoka og regnfötin í seilingarfjarlægð.

Fyrsti hluti göngunnar er hið hrikalega Gjögur, snarbrattar líparítskriður sem þarf að þvera til þess að komast á göngustíginn sem liggur upp Meingilshæðir. Ekki leið á löngu þar til fór að rigna, vatnsheldur fatnaður settur upp í flýti og skyggni orðið lélegt. Við höfðum fengið þær leiðbeiningar að eftir fossana tvo ættum við að stefna beint í austur í átt að gilinu.

Eftir smágöngu blasti við snarbrött hlíðin niður og sást glitta í ána langt fyrir neðan. Við þræddum gilbrúnina nokkuð í suður í leit að leiðinni niður og fundum hana á endanum. Leiðin var hálfgert klifur niður á við og þurftum við að styðja okkur við og toga aðeins í birkikjarrið sem tórði þarna í bröttum skriðunum.

Mynd 5. Laufey Rún bendir á einstigið niður brattar skriðurnar sem við fundum í lok dagsÞegar niður var komið héldum við áleiðis inn gilið og kom fljótt í ljós að við höfðum farið vitlausa leið. Hér var enginn möguleiki á að halda áfram. Við blasti snarbrattur gilskorningur sem lá þvert á leið okkar. Í rigningunni héldum við upp gilið að nýju og tókum nú stystu leið með tilheyrandi príli og fimleikum. Þegar upp var komið gengum við með fram brúninni og eftir örstutta stund komum við auga á fallega vörðu á gilbarminum. Þar greindum við fljótlega óskýran slóða niður skriðurnar með fram klettunum.

Mynd 6. Bjarki Þór, Laufey Rún og Elísabet í lok dagsÞegar hér er komið sögu er farið að bæta hressilega í vind og úrkomu, við öll orðin blaut inn að beini og klukkan að verða sex um kvöld. Við höfðum fundið vörðuna sem við vorum að leita að og héldum því áleiðis í Kollumúlaskála til þess að hvílast, sátt eftir dagsverkið. Góðan kvöldmat þurfti í hlýjum skála til þess að stappa stálinu í okkur svo við gætum endurtekið gönguna daginn eftir.

Við vöknuðum við heiðskíran, fallegan dag, hlýtt var í lofti og logn. Nú vissum við hvert skyldi halda, hnit vörðunnar voru komin inn í GPS-tækið og því auðvelt að komast að henni. Gangan gekk vel og komumst við fljótt að vörðunni þar sem við virtum fyrir okkur niðurleiðina.

Einstigið niður er alls ekki fyrir lofthrædda eða fólk sem skortir jafnvægi. Fyrsti hlutinn var brattastur en svo tók við löng hliðrun inn gilið og upp og niður litla skorninga. Loksins komum við á grasi gróna bakka fljótsins. Grænt grasið og stæðileg tré stungu í stúf við annars stórbrotið landslag Lónsöræfa.

Megnið af skóginum er kjarr en þó finnast svæði með stærri trjám, 2-3 metra háum, og svo einstaka enn stærra tré. Það sem kom okkur mest að óvart voru tvö voldug reynitré, það hærra rúmlega 6 metrar á hæð og þvermálið umtalsvert. Annað tréð er nokkuð beinvaxið en talsvert skemmt á berki að neðanverðu, mögulega vegna reyniviðarátu. Hitt tréð liggur sem stór grein niður brekkuna, snjósligað, en vöxtulegt.

Mynd 7. Stæðileg reynitré vöktu athygli og aðdáun okkar niðri í FláumVið sáum engin minni reynitré á svæðinu né nokkur önnur reynitré á göngu okkar um svæðið. Uppruni þessara trjáa er því óljós og geta má nærri að mjög langt sé í móðurtrén. Fláar eru smalaðir í lok sumars en þar heyja bændur baráttu við snemmbúinn vetur. Mynd 8. Bjarki Þór mundar tölvuna við mælingu á birki í LónsöræfumÞá byrjar kapphlaup við að ná öllu sauðfé niður á láglendi sem tekst ekki alltaf. Skammt frá reynitrjánum lágu nokkur kindahræ sem bændur vissu af.

Eftir að hafa dáðst að reynitrjánum hófst leitin að mælifletinum en hann fannst í brattanum skammt frá reynitrjánum hjá djúpu gili. Birkikjarrið var þétt og undirlendið gróið, sum trén náðu 3 metrum en önnur uxu með jörðinni. Trjánum líður greinilega vel þarna. Mælingin gekk smurt fyrir sig þrátt fyrir að hluti mæliflatarins væri í brekku sem hallaði niður að gili. Við tókum okkur tíma í að mæla þennan merkilega mæliflöt af nákvæmni og tókum okkur góða nestispásu.

Sólin skein og við vorum fljótt komin á stuttermaboli. Fyrir utan einangrunina vorum við komin í algjöra paradís hér við bakka Víðidalsár og einstök tilfinning að vera svo fjarri öllum mannabyggðum.

Mynd 9. Laufey Rún og Bjarki Þór sátt eftir árangursríka mælingu og ferðAð lokinni mælingu gengum aftur sömu leið inn í Kollumúlaskála og komum þangað undir kvöldið. Við fögnuðum þessum áfanga með veglegum kvöldverði sem samanstóð af skógarsveppum sem við fundum á leiðinni, ódýrum núðlusúpum og einum pakka af stolinni bollasúpu frá skálaverðinum.

Daginn eftir var gengið aftur upp á Illakamb þar sem beið okkar bíll sem færði okkur aftur til byggða. Mikil gleði var í mælingahópnum að hafa náð þessum áfanga en sömuleiðis var talsverð þreyta eftir göngu síðustu daga.

Lónsöræfi kvöddu okkur með sól og fallegu veðri og þreytu í fótunum. Með eftirvæntingu eftir heitri sturtu fundum við einnig fyrir trega að fara niður úr þessum fallegu fjöllum en þetta verður ekki síðasta sinn sem við heimsækjum Lónsöræfi.

Mælingamenn vilja koma á framfæri kærum þökkum til Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir að veita okkur aðstöðu í Kollumúla á tímum Covid-19.


 

Mynd 10. Gengið niður Illakamb með skálann í Kollumúla í bakgrunni

Mosfellsheiði – rannsókn á skógræktarskilyrðum

Skógræktarskilyrði á Mosfellsheiði

Björn Traustason, Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Þorbergur Hjalti Jónsson

Tilraun til að kanna aðstæður til skógræktar á Mosfellsheiði fór af stað með gróðursetningum haustið 2019 og vorið 2020. Meginmarkmið tilraunarinnar er annars vegar að kanna áhrif umhverfisaðstæðna á vöxt plantna og hins vegar að athuga hvort beit hafi áhrif á vöxt og lifun trjáplantna. Tilraunin er unnin fyrir Kolvið.

Mynd 1. Yfirlitskort af tilraunastöðum á Mosfellsheiði (smellið til að stækka)Á heiðinni voru valdir 12 tilraunareitir sem eru í 200-350 metra hæð yfir sjó. Í hverjum tilraunareit er annars vegar girðing sem er 5x5 m að stærð og hins vegar jafnstórt gróðursetningarsvæði utan girðingar. Gróðurfar stjórnast að mestu af hæð yfir sjó, en reynt var að velja svæðin með breytileika í gróðurfari í huga. Svæðin eru öll í námunda við slóða sem liggur um heiðina, til þess að auðvelda aðgengi að þeim en heiðin getur verið erfið yfirferðar utan slóða.

Framkvæmd tilraunarinnar skiptist í tvo hluta, annars vegar haustgróðursetning 2019 (eftir fyrstu göngur) þar sem einungis var gróðursett utan girðingar og hins vegar vorgróðursetning 2020 þar sem gróðursett var bæði innan og utan girðinga. Enginn áburður var gefinn við haustgróðursetningu, en helmingur gróðursettra plantna fékk áburð við gróðursetningu að vori.

Niðurstöður

Haustgróðursetning

Mynd 2. Uppsetning girðingar á Mosfellsheiði.Haustgróðursetning 2019 kom vel undan fyrsta vetri. Vorið 2020 var lifun birkis 98% og 100% hjá furunni. Töluvert var um bruna á nálum hjá stafafuru og kal hjá birkiplöntum eftir veturinn. Þegar þessi tilraun var tekin út haustið 2020 var lifun 64% og rekja má flest afföllin til beitarskemmda. Mikill munur var á milli svæða þegar kom að beitarskemmdum. Mestar voru skemmdir á svæði 2 (58%) en á fimm svæðum (svæði 1, 4, 5, 7 og 11) hafði sauðfé látið plönturnar vera.

Vorgróðursetning

Mynd 3. Plöntur gróðursettar að vori innan girðingarHaustúttekt á vorgróðursetningu 2020 utan girðinga leiddi í ljós mikil afföll af völdum sauðfjár. Mestu afföllin voru á svæði 2 (75%) en minnstu afföllin á svæði 5 (12%). Ekkert svæðanna slapp alveg við áhrif sauðfjár. Hæðarmælingar á lifandi plöntum sýndu fram á minni meðalhæð frá gróðursetningu, sem skýra má með toppbiti.

Innan girðinga var lifun 84% eftir fyrsta sumarið. Birkið bætti við sig 6 cm að meðaltali þetta fyrsta sumar, en meðalhæð furunnar breyttist ekki frá gróðursetningu.

Mynd 3. Hlutfall liggjandi plantna, þ.e. plöntur sem sauðfé hefur kippt upp

Ályktanir

Þessar frumniðurstöður sýna afdráttarlaust neikvæð áhrif sauðfjárbeitar á nýskógrækt og má rekja flest ef ekki öll afföll plantnanna til beitarinnar. Minni beitarskemmdir voru í haustgróðursetningu samanborið við vorgróðursetningar.

Lifun og vöxtur innan girðinga gefur til kynna að umhverfisaðstæður séu ákjósanlegar til skógræktar á svæðinu. Þó ber að hafa í huga að þegar þetta er skrifað eiga þessar plöntur eftir að takast á við yfirstandandi vetur. Næstu mælingar munu þannig leiða betur í ljós hvernig þeim vegnar.

Sjálfsáning stafafuru í Steinadal

Sjálfsáning stafafuru í Steinadal

Ólafur Eggertsson og Delfina Andrea Castiglia

Hér er greint frá rannsóknum sem fóru fram sumarið 2020 á útbreiðslu stafafuru í Steinadal í Suðursveit út frá skógræktarreit undir Staðarfjalli (Delfina Andrea Castiglia 2020). Sambærileg rannsókn á útbreiðslu stafafurunnar var framkvæmd árið 2010 (Hanna B. Guðmundsdóttir 2012). Markmiðið með núverandi rannsókn var að kanna þær breytingar sem orðið hafa á sjálfsáningu stafafurunnar og útbreiðslu á þessu 10 ára tímabili.Mynd 1. Steinadalur. Myndin er tekin frá hlíðum Staðarfjalls, séð í suðvestur

Upphafið að skógrækt í Staðarfjalli í Suðursveit má rekja aftur til ársins 1954 en þá var 0,4 hektara svæði girt af og gróðursetning hafin með „nytjaskógarplöntum, aðallega fór þar niður fura og greni“ . Var gróðursett í reitinn a.m.k. fram til ársins 1969. Árið 1961 var girðingin stækkuð í 2 hektara og árið 1990 var hún fjarlægð að mestu „þar sem menn töldu sig sjá að greniplöntur sem hafði verið plantað utan girðingar nokkrum árum áður virtist fara jafnvel eða betur fram en þær plöntur sem gróðursettar voru sama ár innan girðingar“ (Fjölnir Torfason 2007 og Hanna B. Guðmundsdóttir 2012).

Mynd 2. Loftmynd af rannsóknasvæðinu í Steinadal. Gamli reiturinn er afmarkaður með rauðri línu (2 ha), svarta línan sýnir mörk ystu sjálfsánu trjánna (útlagaplöntur) árið 2010 (20 ha) og hvíta línan mörk útlagaplantna sumarið 2020 (66 ha)Árið 1985 greinir Fjölnir Torfason (2007) frá því að hann hafi fundið stafafurur í moldarbarði rétt utan girðingar í Staðarfjalli og hélt hann í fyrstu að einhver hefði gróðursett þær. Fjölnir áttar sig síðar á því að um sjálfsánar furur er að ræða. Vorið 2007 metur Fjölnir stærð þess landsvæðis þar sem finna má sjálfsánar furur og kemst að því að tegundin hafi dreifst á meira en 50 hektara svæði.

Mynd 3. Yfirlitsmynd sem sýnir hæðir sjálfsáinna stafafuruplantna í Steinadal og staðsetningu sumarhúsa og gróðursettra trjálunda með stafafuru.Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hversu stórt svæðið er sem sjálfsánar stafafuruplöntur í Staðarfjalli hafa dreift sér í frá móðurplöntum frá árinu 1985 og frá fyrri úttekt árið 2010 með því að kortleggja ystu mörk útbreiðslunnar eins og hún er nú (sumarið 2020). Einnig var kannaður þéttleiki og hæð stafafuruplantna í sniði út frá gömlu girðingunni sem afmarkaði upprunalegu gróðursetninguna sem byrjað var á 1954.

Gögn og aðferðir

Vettvangsvinna fór fram síðsumars árið 2020. Byrjað var á því að finna þær sjálfsánu plöntur sem væru lengst frá upprunalegu gróðursetningunni og mæla staðsetningu þeirra með nákvæmu GPS-tæki sem nefnist Emlid REACH RS2 GPS. Síðan var lagt út snið frá gömlu gróðursetningunni í suðvestur og tré mæld (tegund, hæð og þvermál) á 200 m2 fleti með 20 metra millibili þar til engar plöntur var að finna innan mælireits.

Niðurstöður

Mynd 2 sýnir kortlagninguna á þeim plöntum sem fundust fjærst upprunalegum móðurplöntum sem voru gróðursettar á árabilinu 1954-1969. Svæðið sem afmarkað er með rauðum línum sýnir mörk gömlu gróðursetningarinnar. Svarta línan sýnir mörk ystu plantna frá gróðursetningu árið 2010 og hvíta línan mörkin sumarið 2020. Meðalfjarlægð plantna frá gömlu gróðursetningunni árið 2010 var rúmlega 270 metrar og sumarið 2020 var fjarlægðin orðin rúmlega 500 metrar. Útbreiðsluhraðinn á ári var á tímabilinu 1985-2010 um 11 m en 14 m árið 2020. Á milli áranna 2010 og 2010 var „hraðinn“ tæplega 23 metrar á ári. Stærð útbreiðslusvæðis/áhrifasvæðis sumarið 2020 er a.m.k. 66 hektarar.

Í ágúst 2020 bárust fréttir að sjálfsánum stafafurum mun lengra austur frá gömlu gróðursetningunni (Bjarki Þór Kjartansson munnleg heimild). Andrea ákvað að fara aftur á svæðið og kanna staðsetningu þessara plantna og kortleggja, en þær voru í um 1,5 km fjarlægð frá gömlu gróðursetningunni (mynd 3). Rétt þar fyrir austan eru tvö sumarhús og þar hafa verið gróðursettar stafafurur, líklega um og upp úr 1980. Þá er spurningin hvort þessar nýfundnu plöntur eiga uppruna að rekja til gömlu gróðursetningarinnar eða til trjánna sem gróðursett voru við sumarhúsin. Þeirri spurningu er enn ósvarað.

Mynd 4. Fjöldi sjálfsáinna stafafura á 200 m2 reitum í sniði út frá gömlu gróðursetningunni. Sniðið má sjá á mynd 3Mynd 4 sýnir fjölda sjálfsáinna stafafuruplantna í 200 m2 reitum á sniði út frá móðurplöntum. Fjöldinn er mestur í 20-40 metra fjarlægð frá gömlu girðingunni eða um 7.500 plöntur á hektara (mynd 4 og 5) og fer síðan fækkandi. Þegar komið er í um 200 metra fjárlægð er þéttleikinn aðeins um 50 plöntur á hektara.

Eins og sjá má á myndum 2 og 3 er útbreiðsla stafafurunnar áberandi mest á hinum gróðursnauðu melum en mun minni og nær engin þar sem gróðurþekjan er sem þéttust og mest. Því má álykta að furufræin eigi auðvelt með að ná fótfestu á röskuðu landi þar sem samkeppnisgóður er í lágmarki. Engar plöntur af stafafuru fundust inni í þéttu birkikjarri og á skógarbotni eldri birkiskógar.

Mynd 5. Þéttleiki sjálfsáinna plantna er mestur næst móðurplöntum

Heimildir:

Delfina Andrea Castiglia 2020. The spread of natural regeneration of Pinus contorta in Iceland. MS-ritgerð við Háskólann í Padua, Ítalíu, 74 bls.
Fjölnir Torfason 2007: Skógar og skógrækt í Suðursveit sjá: https://www.thorbergur.is/index.php?option=com_content&view=article&id=45:skogar-og-skograekt-i-sudhursvei&catid=28&Itemid=138
Hanna Björg Guðmundsdóttir 2012: Útbreiðsla stafafuru (Pinus contorta) undir Staðarfjalli í Suðursveit, BS-ritgerð, Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóli Íslands, 38 bls.

 

Viðareiginleikar síberíulerkis

Viðareiginleikar síberíulerkis frá Hallormsstað
– forathugun á styrk og rúmþyngd

Ólafur Eggertsson, Bergrún Arna Þorsteinsdóttir og Þór Þorfinnsson

Inngangur

Í ljósi vaxandi þekju ræktaðra skóga er mikilvægt að byrja sem fyrst að kanna gæði innlends viðar. Framboð á íslenskum efnivið úr skógum landsins mun aukast mjög á næstu áratugum. Tré binda kolefni þegar þau vaxa og það kolefni helst þar þangað til trjáviðurinn rotnar eða er brenndur. Þess vegna skiptir miklu máli hvað verður um viðinn eftir að trén eru felld. Sú lokaafurð sem gefur minnstan virðisauka er iðnviður sem nýtist til dæmis sem kolefnisgjafi við málmvinnslu (kísilmálm). Mestur virðisauki er við framleiðslu á söguðu timbri og plönkum sem fer í brýr, byggingar, innréttingasmíði, klæðningar og húsgögn. Ein helsta nýting íslensks viðar í dag er brennsla, til dæmis sem kolefnisgjafi í stóriðju. Við brunann losnar allt kolefnið sem tréð batt á vaxtartíma sínum. Með því að nýta innlent timbur í varanlegri framleiðslu, t.d. húsbyggingar, helst kolefnið í viðnum.

Hér er greint frá niðurstöðum rannsókna á þremur helstu eðliseiginleikum síberíulerkis (rúmþyngd, beygjustyrk og stífni) til að kanna hvort lerkið sem vex á Hallormsstað stenst alþjóðlega viðargæðastaðla fyrir byggingariðnaðinn.

Efniviður og aðferðir

Mynd 1. Lerkipinnarnir fyrir brot (tvö sýni tekin úr hverjum pinna). Við völdum þau sýni sem voru að mestu kvistlaus. Efniviður rannsóknarinnar var síberíulerki (Larix sibirica) af kvæminu Hakaskoja sem gróðursett var árið 1954 á Hallormsstað. Trén voru felld í október 2019, söguð niður í grófar stærðir og merkt hvaðan úr trjánum sýnin voru tekin. Smíðaverkstæðið á Flúðum sá síðan um að fullvinna efnið í staðlaðar þykktir og lengdir, 30x30x400 mm (ISO 3129) (mynd 1). Sýnin voru síðan styrkleikaprófuð á rannsóknastofu Límtrés Vírnets ehf. á Flúðum með þriggja punkta aðferð (mynd 2). Mældur var beygjustyrkur (brotþol við beygjuálag, MOR) og stífni (samband á milli álags og aflögunar, MOE). Rakastig sýna við brot var á bilinu 7%-8%. Beygjustyrkur og stífni eru þeir þættir sem notaðir eru sem mælikvarði á styrk trjáviðar. Viðarþéttleiki eða rúmþyngd er einnig mikilvægur þáttur sem mælikvarði á gæði viðarafurða. Fylgt var ISO 13061 staðlinum sem lýsir framkvæmd brottilrauna á smáum gallalausum viðarsýnum (ISO 13061).

Mynd 2. Styrkur og stífni lerkisins mæld á Flúðum í þriggja punkta brotvél Límtrés Vírnets ehf.Einnig voru tekin sýni úr sömu pinnum til mælinga á rúmþyngd (grunneðlisþyngd) (basic density). Rúmþyngdin er reiknuð þannig að í þyngd þurrviðar (0% raki) er deilt með rúmmáli sýnis í vatnsmettuðu ástandi. Rúmþyngdin var mæld fyrir hvern pinna sem fór í brottilraunina. Rúmþyngd viðar er sá eiginleiki sem oft er horft til þegar lagt er mat á gæði viðar með tilliti til styrkeiginleika. Samtals var styrkur og grunneðlisþyngd mæld í 20 sýnum sem komu úr fjórum mismunandi trjábolum. Fjöldi árhringja var talinn í öllum pinnum og meðalbreidd þeirra mæld.

Niðurstöður og umræður

Rúmþyngd síberíulerkis

Meðalrúmþyngd síberíulerkisins frá Hallormsstað mældist 580 kg/m3 (0,580 g/cm3, sf 0,059). Hæsta gildið var 688 kg/m3 og það lægsta 484 kg/m3. Að meðaltali mælist því rúmmetrinn af þurrum lerkivið 580 kg. Ef viðurinn væri með 12% raka (notkun innanhúss) er rúmmetrinn nálægt 650 kílóum og um 700 kg við notkun utanhúss (20% raki). Sævar Hreiðarsson (2017) mældi rúmþyngd stafafuru sem 380 kg/m3, sitkagrenis 328 kg/m3 og rauðgrenis að meðaltali 328 kg/m3. Lerkið er því með mun hærri rúmþyngd en aðrar tegundir í íslenskri skógrækt. Erlendar rannsóknir á rúmþyngd evrópulerkis eru oft á bilinu 400-500 kg/m3 og sem dæmi sýndu rannsóknir Tumenjargal (2018) að rúmþyngd síberíulerkis frá Mongólíu væri að meðaltali 530 kg/m3. Í samanburði við erlendar rannsóknir er lerkið frá Hallormsstað með frekar háa rúmþyngd. Hæst var rúmþyngdin í pinnum sem komu úr kjarnvið næst rysju og lægst í sýnum næst merg (ungviður).

Mynd 3 sýnir samband rúmþyngdar í síberíulerki og meðalbreiddar árhringja í sýnum. Fylgni er há (R2=0,676) við breidd árhringja. Þéttir árhringir gefa því hærri rúmþyngd.

Mynd 3. Samband rúmþyngdar í síberíulerki og meðalbreiddar árhringja í sýnum

Beygjustyrkur og stífni

Mynd 4. „Gölluð“ sýni, lágt gildi fyrir styrk vegna kvista. Kvistir eru ekki æskilegir í burðarvirki. Kvistir eru leyfðir í burðarvirki að ákveðnu hlutfalli og er þá til dæmis miðað við fjölda og stærð kvista á lengdareininguBeygjustyrkur (MOR = Modulus of Rupture) er mælikvarði á það álag sem setja má á viðinn uns hann brotnar. Stífni (MOE = Modulus of Elasticity) er sambandið á milli álags og aflögunar. Á erlendum tungum er talað um E-modul efnisins. Með prófun á stífni er verið að svara spurningunni hversu mikið álag má setja á viðinn þannig að hann „rétti úr sér aftur“ án þess að tapa styrk. Í töflu 1 má sjá styrkleikagildin fyrir síberíulerkið. Beygjustyrkurinn er að meðaltali 107 N/mm2 og stífnin 9.800 N/mm2 (einnig skrifað 9,8 GPa). Í erlendri rannsókn á styrk gróðursetts síberíulerkis í Mongólíu er beygjustyrkurinn uppgefinn sem 102 N/mm2 og stífnin 11.240 N/mm2 að meðaltali (Ishiguri 2018), mjög svipað þeim niðurstöðum sem við fáum fram. Sænskar rannsóknir sýna svipuð gildi eða ívið lægri. Samkvæmt forrannsókn okkar á gallalausum smásýnum stenst síberíulerki allar þær kröfur um styrk sem gerðar eru um timbur vegna notkunar í burðarvirki við mannvirkjagerð. Til samanburðar má geta að gildin sem sem Ívar Örn Þrastarson (2014) fékk fyrir beygjustyrk rauðgrenis var 52,8 N/mm2, stafafuru 52,1 N/mm2 og sitkagrenis 50,4 N/mm2.

Lerkið hefur því mun meiri beygjustyrk en önnur barrtré í íslenskri skógrækt. Stífni var ekki með í rannsóknum Ívars. Umfangsmiklar rannsóknir munu fara fram á íslenskum efnivið árið 2021 á rúmþyngd, beygjustyrk og stífni. Í þeirri rannsókn verða tífalt fleiri sýni rannsökuð en í þessari forrannsókn.

Tafla 1. Meðaltalsgildin fyrir beygjustyrk og stífni síberíulerkis frá Hallormsstað.

  Beygjustyrkur (MOR)
N/mm2 (MPa)
Stífni (MOE)
N/mm2 (MPa)
Meðaltal 107,23               9.842,50        
Staðalskekkja 7,43               481,47        
Staðalfrávik (sf) 33,21               2.153,21        
Lægsta gildi 47,00               6.810,00        
Hæsta gildi 167,00               14.000,00        
Fjöldi (n) 20               20        

Í töflu 1 má sjá meðaltalsgildin fyrir alla þá pinna sem voru styrkleikaprófaðir í þessari rannsókn. Nokkur sýni gáfu lágar tölur vegna galla í sýnum. Mynd 4 sýnir „gallaða pinna“. Á henni sést að sýnin brotnuðu vegna kvista í efninu. Þegar niðurstöðurnar eru leiðréttar fyrir gölluðum sýnum (tvö sýni tekin út, sjá mynd 4) verður beygjustyrkurinn 114 N/mm2 og stífnin 10.000 N/mm2 að meðaltali (n=18).

Mynd 5. Samband rúmþyngdar í síberíulerki og stífni (MOE)

Mynd 5 sýnir hversu góð fylgni er á milli rúmþyngdar og stífni (R2=0,776) og mynd 6 sýnir sambandið á milli stífni (MOE) og beygjustyrks (MOR), R2 gildið er 0,780. Rauði hringurinn á mynd 6 sýnir sýnin sem tekin voru úr kjarnvið næst rysju. Þar eru árhringirnir þéttastir, en þar er líka rúmþyngdin hæst og styrkur efnisins mestur.

Mynd 6. Sambandið á milli stífni (MOE) og beygjustyrks (MOR). Rauði hringurinn sýnir sýnin sem tekin voru úr trjánum næst rysjuvið en þar eru árhringirnir þéttastir, rúmþyngdin hæst og styrkur efnisins mestur

Heimildir

ISO 3129: Wood — Sampling methods and general requirements for physical and mechanical testing of small clear wood specimens.
ISO 13061: Physical and mechanical properties of wood — Test methods for small clear wood specimens.
Ívar Örn Þrastarson 2014: Gæðaprófanir á viði úr íslenskum skógum sem byggingarefni. BS-ritgerð. LBHÍ, Hvanneyri, 66 s.
Ishiguri F o.fl. 2018: Wood properties of Larix sibirica naturally grown in Tosontsengel, Mongolia, International Wood Products Journal, 9:3, 127-133, https://doi.org/10.1080/20426445.2018.1506606
Ólafur Eggertsson 2014. "WoodBio" will enhance the forests' role in the Nordic bioeconomy. Scandinavian Journal of Forest Research 29(6): 617-618.
Sævar Hreiðarsson 2017: Eiginleikar íslensks trjáviðar, þéttleiki og ending. MS-ritgerð. LBHÍ, Hvanneyri, 76 s.
Tumenjargal B ofl 2018: Geographic variations of wood properties of Larix sibirica naturally grown in Mongolia. Silva Fennica vol. 52 no. 4 https://doi.org/10.14214/sf.10002

 

Skógarplöntuframleiðsla í Noregi

Skógarplöntuframleiðsla í Noregi
 nemandaverkefni

Rakel Jónsdóttir

Undanfarin ár hafa gróðrarstöðvar sem framleiða skógarplöntur á Norðurlöndum tekið í gagnið nýja tækni. Sáning fer í minna mæli fram í þá bakkastærð sem plöntur eru afhentar úr, heldur eru vélmenni notuð til þess að dreifsetja smáplöntur úr bökkum með smærri ræktunarhólfum yfir í þá bakkastærð sem plönturnar ná svo fullri stærð í. Hólfið í sáningarbökkunum getur farið niður í 4 ml, allt eftir bakkagerð. Til samanburðar er ræktunarhólfið í 40 gata bakka 93 ml og 50 ml í 67 gata bakka. Ræktunartíminn í bökkum með smærri hólfum er mismunandi langur eftir tíma ársins og gróðrarstöðvum, frá 8 til 12 vikur, svo hægt er að sá oft yfir árið.

Smáplöntur rauðgrenis tilbúnar til dreifsetningar, aðeins um 4 cm á hæð

Með þessu móti má framleiða mun fleiri plöntur á hvern fermetra gróðurhúsa og spara með því mannskap, kostnað vegna upphitunar og yfirbyggingu í gróðrarstöðinni. Sem dæmi um hagræðingu sem af þessu hlýst er að rækta má 2.900-3.300 plöntur/m2 stað þess að rækta 526 plöntur/m2 þegar unnið er með 40 gata bakka eða 881 plöntur/m2 þegar 67 gata bakkar eru notaðir. Vélmennin eru búin gervigreind og velja aðeins plöntur í ákveðinni lágmarkshæð til að dreifsetja áfram í stærri bakkana. Þannig má tryggja að alltaf sé lífvænleg planta í öllum hólfum. Það hefur í för með sér betri nýtingu á gróðurhúsum og plássi á útiplönum. Handtökin við flokkun verða líka færri. Þegar horft er til framleiðslunnar hér heima, þar sem unnið er með íslenskt fræ með lakari fræspírunarprósentu en gerist og gengur í nágrannalöndum, sjást strax möguleikar á hagræðingu. Íslenskt stafafurufræ er t.d. iðulega aðeins með 80%-85% spírun og því geta allt að 20% ræktunarhólfa sem búið er að sá í orðið tóm, sem skilar engu nema kostnaði fyrir framleiðandann. Eins og áður segir má tryggja plöntu í hverju hólfi með nýju tækninni.

Séð yfir breiðu af rauðgrenibökkum í gróðrarstöðinni Skogplanter Østnorge Eftir dreifsetningu fara bakkarnir ýmist inn í gróðurhús til framhaldsræktunar eða beint á útiplön eftir því á hvaða árstíma sáning fer fram. Hjá gróðrarstöðinni Skogsplanter Østnorge við Biri í Noregi hefur framleiðsla fimmfaldast á síðustu 10 árum með þessari tækni. Þar eru nú framleiddar 20 milljónir skógarplantna árlega. Aukningunni er náð með því að sá þrisvar til fjórum sinnum frá mars fram í ágúst.

En breytingar á ræktunarferlum með nýrri tækni eru þó ekki þrautalausar. Eitt af þeim vandamálum sem upp hafa komið er hægur rótarvöxtur í ágústsáningu rauðgrenis sem geymd er í frysti yfir vetrartímann. Þær plöntur eru þá tilbúnar til dreifsetningar snemma, vorið eftir sáningu. Hægur rótarvöxtur gerir að verkum að plönturnar taka seint við sér eftir dreifsetningu og ná síður þeirri markmiðshæð sem staðlar kveða á um, auk þess sem þær fylla seint út í ræktunarhólfið. Í einu af doktorsverkefnum undirritaðrar er reynt að grafast fyrir um ástæður þessa og er þá horft til þess hvernig frostþol byggist upp í skógarplöntum í framleiðslu en einnig hvaða áhrif geymsla í frysti yfir vetrartímann getur haft.

Verkefnið er unnið í samstarfi við tvær gróðrarstöðvar í Noregi, annars vegar Skogplanter Østnorge og hins vegar Skogplanter Midt-Norge sem staðsett er rétt austan við Namsos. Markmið þess er að kanna hvort lengd geymslutímans yfir vetrartímann hefur áhrif á rótarvöxt og hvort samband er á milli rótarvaxtar og kolvetnainnihalds í rót og sprota eftir geymslu. Þar er, með öðrum orðum, verið að kanna hvort plönturnar ganga á forða sinn í geymslunni. Smáar rauðgreniplöntur af þremur mismunandi kvæmum og sáningartímum eru notaðar í rannsóknina. Niðurstöðu er að vænta á næsta ári.

SKÓGARAUÐLINDASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra – Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Skógarauðlindasvið 2020

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Það má með sanni segja að miklar breytingar hafa orðið á starfsemi skógarþjónustunnar á árinu. Í marsmánuði var tekin sú ákvörðun að endurskipuleggja skipurit Skógræktarinnar en þá var skógarauðlindasvið lagt niður og því skipt upp í tvennt, þjóðskógasvið annars vegar og skógarþjónustu hins vegar.

Auk ráðgjafarstarfa í skógrækt hefur Arnlín verið ötul að kynna börnum skógrækt. Hér leiðbeinir hún barni við trjámælingar á Klúku í Bjarnarfirði á Ströndum. Ljósmynd. Arnlín ÓladóttirÍ skógarþjónustu Skógræktarinnar starfa skógræktarráðgjafar á starfstöðvum Skógræktarinnar víðs vegar um land. Skógræktarráðgjafar vinna aðallega að verkefnum er lúta að starfsemi nytjaskóga á lögbýlum á tilteknu svæði svo sem grunnkortlagningu, áætlanagerð, ráðgjöf, gæðaúttektum og tölvuvinnslu vegna nytjaskógræktar á lögbýlum. Einnig vinna þeir verkefni tengd þjóðskógunum, t.d. við kortlagningu og áætlanagerð, og taka þátt í mælingum tilrauna sem settar hafa verið út á viðkomandi starfsvæði auk annarra tilfallandi verkefna. Starfsfólk skógarþjónustunnar er staðsett víðsvegar um landið, tvö á Ísafirði, einn á Silfrastöðum, tveir á Akureyri, ein á Vöglum, þrjú á Egilsstöðum, þrjú á Selfossi og fjögur á Hvanneyri. Arnlín Óladóttir skógræktarráðgjafi lét af störfum á haustmánuðum. Arnlín hefur verið viðloðandi ráðgjöf frá því að Skjólskógum á Vestfjörðum var ýtt úr vör um síðustu aldamót. Hún hefur haft starfstöð á heimili sínu í Bjarnarfirði. Verkefni Arnlínar færast til Kristjáns og Ellerts með góðum stuðningi Valdimars og Sæmundar. Arnlíni eru þökkuð góð störf og hennar verður sást saknað úr hópi samstarfsfólks og skógarbænda.

Hlutfallsleg skipting gróðursettra skógarplantna á lögbýlum 2020 eftir landshlutumÍ lok árs hófst vinna við að endurskoða verkferla og vinnulag með það markmið að straumlínulaga starfsemi sviðsins. Markmiðið er að gera ferla einfalda, án þess að draga úr þjónustu. Til þess nutum við leiðsagnar Signýjar Hreinsdóttur sem er sérfræðingur í straumlínustjórnun (Lean thinking). Til stóð að allur hópurinn myndi hittast á vinnufundi í Reykjavík um haustið en út af „dottlu“ var hætt við það og gerð tilraun til að vinna þetta á Teams, sem gekk mjög vel. Haldnir voru þrír tveggja tíma fundir með viku millibili og lokafundurinn var svo hálfum mánuði síðar. Þar var búið að vinna úr öllum þeim gögnum sem söfnuðust. Jafnframt var kynntur einn verulega endurskoðaður verkferill og annar sem verður í vinnslu næsta ár í tengslum við innleiðingu á Stafrænu Íslandi (island.is).

Hlutföll tegunda skógarplantna gróðursettra á lögbýlum 2020Þessir tveir þættir, Stafrænt Ísland og stytting vinnuvikunnar, voru einmitt hvatinn að því að farið var í þessa endurskoðun. Stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmdar hjá Skógræktinni 1. desember 2020 og því ljóst að taka þurfti til í verkferlum af þeim sökum. Með styttingu vinnuvikunnar kemur þó ekkert aukafjármagn til reksturs og því þarf að finna leiðir til hagræðingar því verkefnin verða áfram til og fjölgar ef eitthvað er. Annar hvati sem nefndur hefur verið er að Skógræktin hefur sótt um samstarf til að komast með samskipti og utanumhald vegna skógræktar á lögbýlum inn í Stafrænt Ísland. Markmiðið er að allir bændur geti skráð sig þar inn með rafrænum skilríkjum og nálgast öll þau gögn sem snerta skógrækt á Viðkomandi lögbýli. Má þar nefna pöntunarform, framkvæmdaskýrslur, uppgjör, samninga og fleira. Reiknað er með að árið 2021 fari í að undirbúa þetta. Það verður gaman að fylgja þessu eftir á næsta ári en þá verðum við í vinnu með sérfræðingum hjá Stafrænu Íslandi til að undirbúa innleiðingu í upphafi árs 2022. Vil ég þakka öllum skógræktarráðgjöfum fyrir frábæra vinnu við að finna leiðir til að straumlínulaga starfsemina. Það var virkilega gaman að finna áhugann og umbótahugsunin var alltaf til staðar.

Fjöldi gróðursettra plantna á lögbýlum 2020Í upphafi árs voru mikil plön um verulega aukningu á gróðursetningum í skógrækt á lögbýlum. Áætlanir gerðu ráð fyrir að 2,4 milljónir plantna færu í verkefnið. Raunin varð ekki sú og varð gróðursetningin á svipuðum notum og árið áður. Ástæður þessa voru m.a. afföll í gróðrarstöðvum og aðstæður bænda sem urðu að hætta við gróðursetningar af persónulegum orsökum. Í heildina voru gróðursettar 2.030.617 plöntur. Þær voru gróðursettar á 289 lögbýlum. Í meðfylgjandi töflum má sjá skiptingu tegunda og fjölda eftir landshlutum. Einnig er gerð grein fyrir meðalfjölda á jörð sem var 7.026 plöntur en það er aðeins minna en árið áður. Þá var heldur minna grisjað á Héraði en mörg undanfarin ár eða 31 hektari. Norðurland kom sterkt inn með 40 hektara grisjaða en í heildina var grisjaður 71 hektari á árinu. Á næsta ári er stefnt að umtalsvert meiri grisjun og gróðursetningu. Vonir standa til að það muni allt ganga upp og veðurguðirnir verði með okkur í liði hvað það varðar.

Tölur um skiptingu gróðursettra plantna á lögbýlum eftir landshlutum 2020Verkefninu Loftslagsvænni landbúnaði var hrundið formlega af stað á árinu með virkri þátttöku skógarþjónustunnar. Umfjöllun um verkefnið er í annarri grein í þessu ársriti.

Eins og allir vita, og hafa ekki farið varhluta af, var árið litað af heimsfaraldri. Starfstöðvar voru ansi tómlegar en fólk vann mikið að heiman. Þetta hafði í för með sér að ferðalögum fækkaði og dregið var úr heimsóknum til bænda nema farið væri eftir ströngum reglum. Þá jókst verulega notkun fjarfundakerfa og gekk vel. Samráðsfundir Skógræktarinnar, LSE og formanna aðildarfélaga LSE voru haldnir á Teams og gengu mjög vel. Þegar rofaði til í heimsfaraldrinum í júní ákváðu sviðstjóri og skógræktarstjóri að fara í hringferð og heimsækja félögin sem skipulögðu skógargöngur í hverjum landshluta. Þessar göngur voru að Núpum í Ölfusi, Hofi í Vatnsdal, Ferstiklu í Hvalfirði, Svanshóli á Ströndum og Mýrum í Skriðdal. Öllum þessum heimsóknum voru gerð góð skil í greinum formanna aðildarfélaganna sem birtar voru á vef LSE, skogarbondi.is og í fréttum á vef Skógræktarinnar. Það er von okkar allra að nýtt ár færi okkur fleiri tækifæri til að koma saman í raunheimum en raunin var 2020. Þátttaka starfsfólks í ráðstefnum og fræðslufundum, auk þess að efla tengsl, skiptir miklu máli þegar stórar áskoranir eru fram undan en svo virðist sem framtíðin sé björt í íslenskri skógrækt og því mikilvægt að við hjálpumst að við að byggja upp þessa atvinnugrein með opnum hug.

Góð þátttaka var á fundunum með skógarbændum. Hér er sunnlenski hópurinn á Núpum í Ölfusi 21. júní 2020. Ljósmynd: Björn B. Jónsson

Loftslagsvænn landbúnaður

Loftslagsvænn landbúnaður

Benjamín Örn Davíðsson, Kristján Jónsson,
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Valdimar Reynisson

Þrettán bú hófu á árinu þátttöku í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði þar sem sett er upp aðgerðaáætlun um hvernig stefna skuli að loftslagsvænum búskap. Í verkefninu fá þátttakendur tækifæri til að skoða stöðu bús síns eins og hún er í dag og setja skýra stefnu um hvert skuli halda með markmiðasetningu og eftirfylgni.

Umhverfisráðgjöf Íslands vann að beiðni Landssamtaka sauðfjárbænda (Ls) skýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskri sauðfjárrækt. Skýrslan kom út í október 2017. Þá samþykkti aðalfundur Ls metnaðarfull markmið um að draga út nettólosun gróðurhúsalofttegunda um a.m.k. 290 þúsund tonn miðað við losunina árið 2005. Þetta markmið er í samræmi við samþykkt aðalfundar Ls 2017 þar sem samþykkt var stefna til ársins 2027. Þar er m.a. kveðið á um að íslensk sauðfjárrækt skuli kolefnisjöfnuð eins fljótt og auðið er.

Í framhaldinu var unnin skýrsla að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þessi skýrsla var unnin af starfshóp frá Landgræðslunni, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Skógræktinni. Tilgangur skýrslunnar var að leggja fram og útfæra tillögur um hvernig ná mætti því markmiði aðgerðaáætlunar Landssamtaka sauðfjárbænda. Finna þurfti leið til að hvetja bændur til þátttöku og greiða fyrir því að þeir legðu land til þess að vinna þessi verkefni. Meðal mögulegra leiða til þess væri að nýta græna hvata í formi landgreiðslna og framkvæmdastyrkja svo bændur gætu með þátttöku í verkefni skapað sér aukna möguleika til tekjuöflunar á landi í sinni umsjá og unnið þannig að verkefnum sem hafa í för með sér loftslagsávinning, landsmönnum öllum til heilla.

Á grundvelli þessarar undirbúningsvinnu setti umhverfis- og auðlindaráðuneytið af stað samstarfsverkefnið „Loftslagsvænni landbúnaður“ sem í daglegu tali er nefnt LOL. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) veitir verkefninu forystu ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni.

Mynd 1. Árni Bragason RML fræðir bændur í Dölum. Ljósmynd VRMarkmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu í landbúnaði. Verkefnið er nú hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þátttakendur fá heildstæða ráðgjöf og kennslu um loftslagsmál ásamt því að setja upp aðgerðaáætlun um hvernig stefna skuli að loftslagsvænu búi. Verkefnið er að hefja sitt annað ár, en fjöldi þátttakenda í verkefninu eru orðnir 28 samtals. Þátttökubúin koma frá mismunandi stöðum á landinu og eiga það öll sameiginlegt að vera í gæðastýringu í sauðfjárrækt.

Forsenda fyrir þátttöku í verkefninu er að taka þátt í grunnámskeiði þar sem farið er yfir helstu möguleika á aðgerðum til að minnka losun og auka bindingu kolefnis. Boðið er upp á ýmis tækifæri til að ná sér í þekkingu á þessu sviði, s.s staðarvinnustofur, fyrirlestra á fjarfundasniði, jafningjafræðslu, fésbókarsíðu með fróðleik og fréttum, opinn dag á búi og aðgerðaráætlun.

Aðgerðaráætlunin er hjarta verkefnisins, lifandi skjal þar sem þátttakendur gera áætlun fyrir eigið bú, með skammtíma- og langtímamarkmiðum um hvernig og hvenær skuli að framkvæma til að ná loftslagsvænum árangri. Þátttakendur fá tækifæri til að skoða stöðu bús síns eins og hún er í dag og setja skýra stefnu um hvert skuli halda með markmiðasetningu og eftirfylgni.

Á meðan á verkefninu stendur hafa þátttakendur greiðan aðgang að ráðgjöfum stofnananna. Ráðgjafateymi verkefnisins les yfir, rýnir og kemur með ábendingar til þátttakenda til að gera sem loftslagsvænsta áætlun fyrir viðkomandi bú enda er hvert bú einstakt og taka þarf tillit til margvíslegra þátta og staðhátta.

Ávinningur þátttakenda er margvíslegur, bæði fjárhagslegur og umhverfislegur. Í lok fyrsta árs, þegar staðfest aðgerðaáætlun liggur fyrir, á þátttökubóndi rétt á fjárstyrk sem nemur 500 þúsund krónum. Fjárhæðin er kostnaðargreiðsla sem er ætlað að standa straum af öllum kostnaði sem fellur til við verkefnið og gerð áætlunarinnar. Enn fremur er veittur styrkur til efnagreiningar fyrir allt að 50 þúsund kr. á fyrsta ári.

Eftir námskeiðið ættu þátttakendur að geta gert sér betur grein fyrir þeim möguleikum sem þeir hafa til að kolefnishlutleysa rekstur sinn, minnka sóun og bæta rekstur á búum sínum, bæði umhverfislega og fjárhagslega.

Mynd 2 kort af staðsetningu þátttökubúa í LOL 2020 og 2021

Á fyrsta ári verkefnisins voru fimmtán bú tekin inn í það. Tvö þeirra gengu úr skaftinu vegna breyttra aðstæðna en unnið var að hinum þrettán. Þátttakendur hittust á grunnnámskeiði um veturinn og í vinnustofum um vorið þar sem þeir fengu aðstoð við skipulagningu og gerð aðgerðaráætlana. Um haustið var þessum áætlunum skilað inn til rýningar hjá ráðgjöfum stofnananna sem komu með ábendingar um hvað mætti betur fara. Endanlegum aðgerðaráætlunum búanna var skilað í nóvember. Í þeim voru komu fram samtals 165 markmið í átt að loftslagsvænum lausnum á búunum. Þetta voru bæði markmið til að draga úr losun og einnig markmið sem snúa að aukinni kolefnisbindingu. Markmiðin voru sett upp í framkvæmdaliði og vörður þar sem fram komu tímasetningar tiltekinna aðgerða.

Segja má með sanni að þeir þátttakendur sem eru í þessu verkefni hafi vakið áhuga á loftslagsmálum í heimabyggðum sínum því nú í upphafi ársins 2021 þegar auglýst var eftir nýjum þátttakendum kom greinilega í ljós mikill áhugi á LOL. Í apríl höfðu 15 ný bú verið tekin inn í verkefnið. Reynsla síðasta árs hefur kennt verkefnisstjórninni ýmislegt til að gera verkefnið enn betra og njóta þessi nýju bú góðs af þeirri reynslu sem komin er. Árið hófst með grunnnámskeiði, nú hafa allir hafið vinnu við aðgerðaráætlanir sínar og stefnt er að vinnustofu í júní. Þá eru þátttakendur frá fyrra ári að hefja endurskoðun á áætlunum sínum.

Samstarf stofnana hefur að okkar mati gengið vel. Þetta samstarf hefur aukið tengingu á milli stofnananna og stuðlað að meiri samvinnu og betri samskiptum á milli starfsmanna af ólíkum stofnunum. Þeir starfsmenn sem komið hafa að vinnu við LOL-ið hafa tekið virkan þátt í að móta þetta verkefni. Það er að myndast heilsteypt þverfaglegt teymi, þvert á stofnanir, sem heldur utan um þetta verkefni.

Það er von okkar að þetta verkefni eigi í framtíðinni eftir að styrkja samstarf milli þessara ólíku aðila og styrkja stöðu þeirra, þá ekki síst sauðfjárbænda. 

Hvar búa skógarbændur og starfa?

Atvinna og búseta skógarbænda

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Valgerður Jónsdóttir

Í þessari stuttu samantekt er ætlunin að taka saman og gera grein fyrir búsetu skógarbænda og atvinnuháttum. Auk þess verða settar fram vangaveltur um möguleika til atvinnuuppbyggingar og uppbyggingar þeirrar nýju auðlindar sem skógar eru.

Með sameiningu landshlutaverkefnanna í skógrækt og Skógræktar ríkisins í Skógræktina árið 2016 færðust verkefni skógræktar á lögbýlum undir einn hatt. Gömlu landshlutaverkefnin voru um margt ólík, enda hófust þau á mismunandi tímum við ólíkar aðstæður og störfuðu hvert og eitt undir sinni stjórn. Eftir sameiningu hefur verið unnið að því að samræma verkefni landeigenda sem taka þátt í nytjaskógrækt, með framlögum Skógræktarinnar, undir sömu reglur og leitast við að veita skógarbændum sem besta þjónustu í formi ráðgjafar og eftirlits. Í því sambandi var nýlega send út þjónustukönnun til skógarbænda en markmiðið er að gera það með reglubundnum hætti til að hægt sé að fylgjast með viðhorfi bænda til þjónustu Skógræktarinnar. Með því er hægt að bregðast við ef vísbendingar eru um að einhverju sé ábótavant.

Í byrjun árs 2021 eru rétt um 600 samningar um nytjaskógrækt á landinu öllu. Þessi tala sveiflast allajafna nokkuð til en jafnframt því að nýir samningar líta dagsins ljós eru aðrir endurnýjaðir eða sagt upp af ýmsum orsökum. Öllum samningum um skógrækt á lögbýlum er þinglýst á viðkomandi jörð skv. þeim lögum og reglum sem í gildi eru. Auk þess eru fjölmargir skjólbelta- og skjóllundaræktendur sem ýmist eru einnig í skógrækt eða skjólbeltarækt eingöngu. Þeir samningar eru einfaldari í sniðum og ekki þinglýst á viðkomandi jörð heldur er „fókusinn“ meira á einstök verkefni innan hverrar jarðar í hvert skipti.

Samningar um skógrækt á lögbýlum eftir landshlutumEins og sést á þessu kökuriti eru flestir skógræktarsamningar á Norðurlandi, enda er starfsvæði gömlu Norðurlandsskóga einna stærst ásamt Suðurlandi. Þar eru hins vegar mun fleiri skjólbeltabændur en á Norðurlandi. Fjöldi samninga segir heldur ekki alla söguna, þar sem skógræktarsvæðin eru mismunandi stór. Með aukinni samræmingu og samvinnu í nytjaskógrækt á lögbýlum hverfa þessi gömlu landshlutamörk væntanlega með tímanum.

Það getur einnig verið gagnlegt að skoða hvers konar búskapur eða atvinnustarfsemi er stunduð ásamt skógræktinni á jörðum víðs vegar um landið. Þess vegna fóru allir skógræktarráðgjafar yfir jarðalista á sínum svæðum og skilgreindu hvers konar starfsemi væri á jörðunum. Það er áhugavert að sjá að innan við helmingur er ekki í neinum hefðbundnum búskap á jörð. Á kökuritinu hér fyrir neðan má sjá skiptinguna á milli búgreina en jafnframt að í 30% tilfella er enginn búskapur á jörð. Þá er ferðaþjónusta stunduð á 11% jarðanna og á 13% þeirra er önnur atvinnustarfsemi. Það sem er skilgreint sem önnur ativinnustarfsemi er t.d. bílaverkstæði, trésmíðar o.s.frv.

Mynd 2. Búskapur skógarbændaSkógrækt er ekki enn komin á það stig hérlendis að skógarbændur geti haft lifibrauð sitt af henni eingöngu, en svo gæti orðið í náinni framtíð. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hvers konar fjölbreytni í atvinnuháttum styður við hvað annað á hverju svæði og það á einnig við um skógrækt á jörðum bænda.

Í opinberri umræðu um skógrækt, hafa „andstæðingar“ málstaðarins oft freistast til að halda því fram að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum, séu jafnvel ríkir og búi í Reykjavík! Þessu hefur skógræktarfólk svarað með þeim góðu rökum að ólíkt mörgum öðrum atvinnutækifærum sem hið opinbera hefur leitast við að koma upp á landsbyggðinni, þá er skógurinn þar sem til hans er stofnað, skógur er auðlind sem verið er að byggja upp og þar með atvinnutækifæri, bæði í nútíð og framtíð.

Mynd 3. Búseta skógarbændaÞessi kaka sýnir að umræðan um að stór hluti skógarbænda búi ekki á jörðum sínum er ekki byggð á sterkum rökum. Vissulega á hún rétt á sér eins og öll umræða yfirleitt en stóra spurningin er hvers vegna hún komi upp fyrst ef þetta er raunin. Á kökuritinu sést að þrír fjórðu hlutar skógarbænda búa á jörðum sínum, eða í sama landshluta, þá annað hvort í nærliggjandi þéttbýli eða í sömu sveit. Velta má fyrir sér hvort það búsetuval tengist þeirri starfsemi sem á sér stað á jörðinni, hvort skógræktin stuðli að því að ábúendur kjósi að búa í sem mestri nálægð við skóginn sinn.

Það væri áhugavert að sjá að gerðar yrðu rannsóknir á þessu sviði og skoðaðir hinir ýmsu vinklar á búsetuvali og atvinnu skógarbænda. Þessi litla óvísindalega samantekt gefur þó einhverja hugmynd um hvernig staðan er í dag.

 

Endurbætt fræðsluefni fyrir skógarbændur

Fræðsluefni um skógrækt

Pétur Halldórsson

Á árinu gaf Skógræktin út nýja og endurbætta útgáfa af bæklingnum Fræðsluefni um skógrækt. Bæklingurinn er einkum miðaður við skógarbændur sem eru að stíga sín fyrstu skref í skógrækt og fá allir nýir skógarbændur afhent eintak.

Forsíða bæklingsinsÞetta er þriðja útgáfa bæklings með þessu heiti, Fræðsluefni um skógrækt, en önnur útgáfa kom út á vegum Landshlutaverkefna í skógrækt árið 2014. Í bæklingnum er að finna helstu atriði sem fólk þarf að þekkja áður en hafist er handa við skógrækt. Að mörgu er að hyggja þegar lagt er upp í slíka ferð og um skógrækt á máltækið góða vel við, að í upphafi skyldi endinn skoða. Fyrstu skrefin ákvarða nefnilega hvað skógurinn gefur í framtíðinni, bæði hvað varðar afurðir og útlit.

Í stuttum bæklingi gefst ekki tækifæri til að kafa djúpt í málin heldur aðeins tæpa á því helsta. Fjallað er um skógræktaráætlanir, helstu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi, undirbúning lands og meðferð skógarplantna. Þá er allítarlegur kafli um gróðursetningu og einnig er fjallað um áburð áburðargjöf og um plöntugæði.

Nýir skógarbændur eru jafnframt hvattir til þess að sækja þau námskeið sem í boði eru og kynna sér ítarlegra lesefni sem fáanlegt er hjá Skógræktinni og á vefnum skogur.is en einnig hjá Landssamtökum skógareigenda (LSE) og á vef samtakanna, skogarbondi.is.

Sæmundur Kr. Þorvaldsson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, ritstýrði þriðju útgáfu bæklingsins og tók þátt í endurskoðun hans frá annarri útgáfu ásamt Arnlín Óladóttur, Halli Björgvinssyni, Hraundísi Guðmundsdóttur, Jóni Þór Birgissyni og Valgerði Jónsdóttur. Fleiri gáfu líka góðar ábendingar, svo sem Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar, og Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri LSE, sem jafnframt teiknaði flestar skýringarmyndanna í ritinu. Um textavinnslu og umbrot sá Pétur Halldórsson.

Finna má nýja bæklinginn og fleiri fræðslubæklinga á vef Skógræktarinnar. Áfram verður unnið að endurskoðun bæklinga og annars fræðsluefnis og von er á nýrri útgáfu bæklinga um skógarumhirðu og skjólbelti á komandi misserum.

ÞJÓÐSKÓGASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra  – Hreinn Óskarsson

Þjóðskógasvið 2020

Hreinn Óskarsson

Árið 2020 var að mörgu leyti einstakt fyrir þær ferða- og samgöngutakmarkanir sem ríktu í heiminum vegna COVID-19. Árið var einnig sérstakt hvað varðar starf og skipulag starfs í þjóðskógunum. Á vordögum var ákveðið að taka upp nýtt skipurit og breyta skipulagi sviða hjá Skógræktinni. Skógarauðlindasviði var skipt upp og þau verkefni sem snúa að þjóðskógunum voru sett undir sérstakt svið, þjóðskógasvið. Verkefni samhæfingarsviðs voru svo færð undir rekstrarsvið og þjóðskógasvið. Ástæðu þess að sérstakt þjóðskógasvið var stofnað má meðal annars tengja auknu umfangi gróðursetningar í samstarfsverkefnum Skógræktarinnar við innlenda sem erlenda aðila þar sem kolefnisbinding er í öndvegi.

Valdimar Reynisson, Hraundís Guðmundsdóttir og Ellert Arnar Marísson hamast við könglatínsluna í haustblíðunni í Daníelslundi Borgarfirði. Mikið var af fræi í haust, sérstaklega á birki og sitkagreni á Suður- og Vesturlandi. Ljósmynd: Sæmundur ÞorvaldssonÁ þjóðskógasviði eru helstu verkefni almenn umsjón með þeim landsvæðum, skógum og fasteignum sem eru í þjóðskógum, friðun og endurheimt birkiskóga, samstarfsverkefni um nýrækt skóga, innviðir og uppbygging útivistarsvæða auk móttöku á ferðafólki, umhirða skóga og úrvinnsla, sala og þróun afurða úr skógum. Auk þessara verkefna fléttast ýmiss konar samstarfsverkefni, teymisvinna, fræðsla, kynning, ráðgjöf og samskipti við fjölmarga aðila inn í starfið. Fjórir skógarverðir stýra hver sinni deild í hverjum landshluta og hafa hver nokkra starfsmenn. Sviðstjóri sviðsins er staðsettur á Selfossi. Á sviðinu störfuðu á árinu tæplega 30 starfsmenn, sumir í hlutastarfi. Fjöldi ársverka var um 25.

Tíðarfar var fremur rysjótt um allt land á árinu. Sér í lagi voru fyrstu mánuðir ársins stormasamir og urðu miklar skemmdir á trjágróðri víða um land. Hiti var undir meðallagi síðustu ára. Fremur blautt var norðan heiða en þurrara syðra. Haustið var almennt milt og lítið um óveður en úrkoma mikil eystra. Trjávöxtur var í meðallagi og mikið var af fræi á trjám, sér í lagi á sunnanverðu landinu, bæði á birki og grenitegundum. Töluverðu magni til sáninga í gróðrarstöðvum var safnað í skógum, bæði af stafafuru, sitkagreni og birki, en minna af öðrum tegundum.

Gróðursetning

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, við gróðursetningu á Hafnarsandi í Ölfusi. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirGróðursetning á vegum þjóðskóga jókst frá fyrra ári, aðallega í tengslum við samstarfsverkefni við ýmsa aðila. Alls voru gróðursettar rúmlega 1,5 milljónir plantna í verkefni í umsjá þjóðskógasviðs, sem er aukning úr ríflega 425.000 plöntum 2019. Mest var gróðursett af birki eða tæplega 1,1 milljón plantna, næstmest af stafafuru 235 þúsund, þá 127 þúsund sitkagreniplöntur og minna af öðrum tegundum. Stærstu verkefnin voru í tengslum við gróðursetningu á birki í gegnum átaksverkefni ríkisstjórnar Íslands. Átaksverkefnin voru bæði tengd atvinnusköpun vegna COVID-19 og átaki í kolefnisbindingu í samstarfi við Landgræðsluna, auk þess sem birki var gróðursett á tveimur svæðum í nafni Bonn-áskorunar, einnig í samstarfi við Landgræðsluna. Mest var gróðursett á Hekluskógasvæðinu, Hafnarsandi í Ölfusi, Hólasandi, Leiðvelli í Skaftárhreppi og Haukadalsheiði. Stærstu samstarfsverkefni með fyrirtækjum voru kolefnisbinding fyrir Landsvirkjun í Skarfanesi í Landsveit, við Blönduvirkjun og á Belgsá í Fnjóskadal. Að auki voru gróðursettar á annað hundrað þúsund trjáplöntur af ýmsum tegundum í lönd Skógræktarinnar víða um land. Stærstur hluti gróðursetninga var unninn af verktökum.

Skógarumhirða

Heldur var minna grisjað af skógum en hefur verið á undanförnum árum. Töluverð vinna var þó víða við að fella tré sem brotnað höfðu í stórviðrum vetrarins. Birkiskógar voru grisjaðir á Hallormsstað og í Fnjóskadal eins og undanfarin ár og er viðurinn nýttur í arinviðarframleiðslu. Miklir viðarflutningar voru úr Haukadalsskógi vorið 2020, en þar voru vélgrisjaðir allmargir reitir haustið 2019 og vorið 2020 af Óskari Grönholm. Alls voru um 2.000 m3 grisjaðir í þessu verkefni og var stærstur hluti viðarins, eða um 1.600 m3, seldur til kísiljárnsframleiðslu. Eftir því sem skógar eldast fjölgar þeim reitum sem eru komnir að lokahöggi. Á Hallormsstað voru 3 ha af síberíulerki gjörfelldir og verður gróðursett í þessa reiti aftur árið 2021.

Úrvinnsla afurða og afurðasala

Hér stendur skógarvörðurinn Trausti svo við myndarlega sitkagreniboli úrí Haukadalsskógi. Um 500 sitkagrenibolir verða notaðir í nýju Þjórsárbrúna við Búrfell. Ljósmynd: Trausti Jóhannsson Líklega hefur aldrei jafnmikið af bolviði verið sagað í borð, eða timbur eins og algengara er að kalla sagaðan við, eins og gert var hjá þjóðskógunum árið 2020. Stærstu verkefnin voru sögun á efni í nýjan eldaskála í Vaglaskógi og sögun á efni í nýja brú sem er verið að reisa yfir Þjórsá við Búrfell í Þjórsárdal. Töluverð vinnsla var á flettu efni til ýmissa verkefna hjá starfstöðinni Hallormsstað. Töluverð sala var einnig á bolvið til sögunar og keyptu Skógarafurðir vel á þriðja hundrað rúmmetra af viði frá Skógræktinni í ár. Arinviðarsala dróst saman á árinu hjá stofnuninni vegna COVID-19 og minni ferðamannastraums af völdum heimsfaraldursins. Þó seldist ágætlega af viðarkurli enda var fólk duglegt að sinna görðum og sumarhúsum. Útflutningur var á viðarkurli til nágranna okkar í Færeyjum en þeir keyptu um 40 m3 af kurli til að þekja gólf í reiðhöll þar í landi. Jólatrjáavertíðin var með hefðbundnu móti og seldust ríflega 2.000 tré, en stór hluti innlendra jólatrjáa kemur í dag frá skógræktarfélögum og skógarbændum um allt land.

Útivistarsvæði og ferðamannastaðir

Gestir í Hallormsstaðaskógi geta nú skilað frá sér lífrænum úrgangi og rafhlöðum, auk þeirra fimm sorpflokka sem voru í boði fyrir. Flokkun á lífrænum úrgangi gengur mjög vel Svipaða sögu er að segja úr Vaglaskógi. Ljósmynd: Bergrún Arna ÞorsteinsdóttirSkógarnir voru einstaklega vinsæl útivistarsvæði árið 2020. Fólk fór ekki aðeins út í skóga til að knúsa tré þó Skógræktin hafi hvatt landsmenn til þess í stað þess að knúsa hvert annað. Tjaldsvæðin, gönguleiðir og áningarstaðir voru afar vinsælir þetta árið enda ferðuðust landsmenn nær eingöngu innanlands. Mikið var um að fólk nýtti skógana til fjallahjólaiðkunar og hafa t.d. sérstakar fjallahjólaleiðir verið gerðar á Þórsmörk og í Hallormsstaðarskógi í samstarfi við fjallahjólafólk. Umfangsmestu verkefnin í stígagerð og stígaviðhaldi voru á Þórsmerkursvæðinu eins og undanfarin ár, en einnig var smærri verkefnum sinnt, s.s. í Laugarvatnsskógi og á Kirkjubæjarklaustri.

Gistinætur í Vaglaskógi voru 8.253 sumarið 2020 sem var 1.511 fleiri en árið áður. Voru gestir að langmestu leyti Íslendingar. Ástæðan var að sjálfsögðu faraldurinn Covid-19 sem gerði að verkum að erlendum ferðamönnum fækkaði verulega á landinu en Íslendingar ferðuðust þeim mun meira innanlands. Veðurblíða á Austurlandi varð til þess að aldrei hafa fleiri gistinætur verið taldar á tjaldsvæðunum í Hallormsstaðaskógi. Gistinóttum fjölgaði þar um 52% miðað við meðaltal síðustu 19 ára. Gistinóttum erlendra ferðamanna fækkaði hins vegar um 20% prósent miðað við sama meðaltal. Samtals voru gistinætur í Atlavík og Höfðavík 26.071 á árinu. Í Sandártungu Þjórsárdal voru gistinætur 3.632 talsis árið 2020 sem einnig er töluverð aukning frá fyrra ári þegar þær voru um 2.500.

Fasteignir, vegir og girðingar

Tjaldsvæði í Vaglaskógi á góðum degi sumarið 2020. Ljósmynd: Pétur HalldórssonEitt af þeim verkefnum sem sinna þarf í þjóðskógum landsins er viðhald fasteigna og uppbygging aðstöðu fyrir starfsemi Skógræktarinnar. Stærsta uppbyggingarverkefnið var í Vaglaskógi, en þar hófst bygging á eldaskála, sams konar byggingu og var reist á Laugarvatni fyrir fáum árum. Byggingin verður að mestu leyti reist úr íslenskum viði, bæði burðarviðir og klæðningar. Verkefnið er styrkt af Landsáætlun um uppbyggingu ferðamannastaða. Fjöldi fasteigna Skógræktarinnar um allt land þarfnast viðhalds og endurnýjunar og er leitast við að sinna þeim verkefnum eftir því sem fjárveitingar leyfa. Stærsta verkefnið í viðhaldi fasteigna er í Hvammi í Skorradal og er stefnt að því að ljúka því verkefni í júní 2021. Þá mun skrifstofuaðstaða skógræktarráðgjafa sem verið hefur á Hvanneyri færast í Hvamm.

Jón Gunnarsson, gröfumaður hjá Jónsmönnum ehf. grefur fyrir hornstaur og stögum á Ormsstöðum í Breiðdal. Aðalverktaki við girðinguna var Skúli BjörnssonViðhald girðinga og vega er eilífðarverkefni og mjög háð tíðarfari og snjóalögum. Girðingar sem liggja um umsjónarsvæði Skógræktarinnar eru rúmlega 250 km að lengd, þ.a. 60 km af rafgirðingum. Fjármagn til viðhalds þessara girðinga er af skornum skammti og hefur Skógræktin neyðst til að hætta viðhaldi á sumum þeirra girðinga þar sem ekki er brýn þörf á því að halda búfé utan þeirra. Á svæðum þar sem nýskógrækt er stunduð verður hins vegar að sinna viðhaldi girðinga og smölun búfjár sem sleppur inn í girðingar. Ein ný girðing var reist á árinu um nýtt skógræktarsvæði að Ormsstöðum í Breiðdal, en þar mun hefjast gróðursetning vorið 2021 sem styrkt er úr sjóðum One Tree Planted.

Víða um skóga landsins hafa verið lagðir skógarstígar sem nýtast í alla þá vinnu sem fara þarf fram í skógunum, auk þess að vera nauðsyn fyrir t.d. slökkvilið landsins ef upp koma skógareldar. Vegir þessir eru í misjöfnu ástandi og þarfnast sífellds viðhalds. Töluvert hefur verið unnið í frásögun frá skógarvegum á síðustu árum og hafa verktakar verið fengnir til verksins með sérhæfð tæki til slíkra verka.

Hér hefur aðeins verið tæpt á broti af þeim verkefnum sem þjóðskógasvið sinnti á árinu 2020. Breytingar á starfi sviðsins eru fram undan með aukinni áherslu á gróðursetningu á næstu árum. Samstarfsverkefni við innlenda sem erlenda aðila um kolefnisbindingu með skógrækt munu aukast á næstu árum og umsvif sviðsins þar með.

Ýmislegt verður til úr íslenska timbrinu. Hér er Snorri Páll Jóhannsson, einn starfsmanna þjóðskógasviðs, með rafmagnsgítar sem hann smíðaði úr viði stafafuru sem gróðursett var í Trjásafninu Hallormsstað 1964. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson


 

 

Þórsmörk – friðun í 100 ár

100 ár frá friðun Þórsmerkur

Hreinn Óskarsson og Pétur Halldórsson

Laugardaginn 9. maí 2020 voru liðin 100 ár frá því samningur um friðun Þórsmerkur var full­gilt­ur. Friðunin var gerð að tilstuðlan bænda og ábúenda jarða í Fljótshlíð auk Oddakirkju sem afsöluðu sér beitarrétti á Þórsmörk og fólu Skógræktinni að vernda svæðið fyrir beit, svo hægt væri að bjarga þeim birkiskógum sem þar var enn að finna. Birkiskóglendið hefur breiðst mik­ið út alla þessa öld en hraðast síðustu áratugina. Þetta er eitt merkilegasta náttúruverndar­verkefni Íslendinga á 20. öld.

Þórsmörk við Húsadal upp úr miðri 20. öld. Ljósmynd: ÞGÞórsmörk og nærliggjandi afréttir voru skógi vaxið svæði við landnám. Þar viðhéldust skógar langt fram eftir öldum enda svæðið nokkuð einangrað af jöklum og jökulám. Á 19. öld var ástand birkiskóga á Þórsmerkursvæðinu þó orðið afar bágborið og í lok aldarinnar skipaði sýslu­maður Rangárvallasýslu skógarverði úr hópi bænda til að stjórna skógarhöggi á svæðinu. Svipað sjónarhorn nú. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonEftir Kötlugosið 1918 var svæðið þakið ösku og ekki hægt að beita fé þar fyrstu mánuðina. Líklega hefur það ástand stuðlað að því að hugmyndir um friðun skóganna fengu meðbyr. Árni Einarsson í Múlakoti vann málinu framgang meðal bænda í Fljótshlíð sem áttu beitarrétt á Þórsmörk ásamt Oddakirkju. Agner F. Kofoed-Hansen skógræktarstjóri og Einar Sæmundsen skógarvörður voru einnig ötulir að koma málinu áfram hjá ráðamönnum og heimamönnum. Í janúar 1920 skrifuðu allir eigendur og ábúendur jarða í Fljótshlíð með beitarrétt á hálfri Þórs­mörk undir skjal þar sem þeir fólu Skógræktinni að friða skóga Merkurinnar. Skjalið var fullgilt af Erlendi Þórðarsyni, presti í Odda, 9. maí 1920, en Oddakirkja átti beitarrétt á hinum helmingi Þórsmerkur. Er þetta samkomulag líklega eina dæmi þess hér á landi að beitarréttarhafar hafi afsalað sér beitarrétti á afrétt til að vernda skóga.

Það var árið 1924 að fyrstu girðingarnar voru reistar á þessum afskekkta stað og var girðingar­efni flutt á hestum yfir Markarfljót. Flestir staurarnir voru gerðir úr járnbrautarteinum er lágu úr Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn. Árið 1927 var gert sams konar samkomulag við Breiðaból­staðar­kirkju sem átti beitarrétt á Goðalandi. Ekki gekk áfallalaust að halda sauðfé frá Þórsmörk þótt beit minnkaði heldur. Skógræktarmenn þurftu reglulega að smala svæðið. Skógar breidd­ust samt sem áður nokkuð út, þéttust og hækkuðu. Í upphafi friðunar voru skógar og kjarr á um 250 hekturum og mikill uppblástur á svæðinu. Skagfjörðsskáli í Langadal 1965Um 1960 höfðu um 100 ha bæst við flatar­málið en heldur illa gekk að eiga við allt það sauðfé sem sótti inn í girðingarnar af nærliggj­andi afréttum. Skagfjörðsskáli nú. Ljósmynd: Pétur HalldórssonÞað var ekki fyrr en með samningum Landgræðslunnar við bændur undir Vestur-Eyjafjöllum um að hætta beit tímabundið að alger beitarfriðun náðist. Þá breiddust birkiskógar hratt út enda hækkaði meðalhiti á þessum árum og fræárum fjölgaði. Uppgræðsla jókst einnig og hefur verið gott samstarf milli Skógræktarinnar og Landgræðslunnar um upp­græðslu síðustu áratugi. Ferðafélög sem hafa starfsemi á svæðinu hafa einnig unnið gott starf við að græða moldir, sem og ýmis félagasamtök og einstaklingar.

Öll þessi vinna hefur skilað því að nú er stór hluti Þórsmerkursvæðisins þakinn birkiskógum. Lífríkið allt hefur dafnað við friðunina og hefur allur gróður aukist, sem og dýralíf. Landið er nú mun þolnara gagnvart áföllum en það var árið 1918 þegar Katla dreifði ösku yfir svæðið. Eldskírnina fengu nýir skógar á Þórsmerkursvæðinu árið 2010 þegar aska dreifðist yfir stóran hluta þeirra. Gróður á skóglausum svæðum í nærliggjandi sveitum og afréttum átti í vök að verjast vegna öskufalls og öskufoks. Á hinn bóginn sá á ekki á skógum á Þórsmerkursvæðinu. Þvert á móti nutu þeir góðs af öskunni sem veitti þeim næringu. Í dag er viðhald gönguleiða um svæðið aðalverkefni Skógræktarinnar á Mörkinni og er svæðið opið almenningi allt árið um kring.

Skógræktin óskar Fljótshlíðingum, kirkjunum í Odda og Breiðabólstað sem og Íslendingum öllum til hamingju með 100 ára friðun Þórsmerkur. Það var rétt ákvörðun að vernda skóginn.

Austursýn frá Álfakirkju á Goðalandi 1963. Ljósmynd: Einar Þ. Guðjohnsen

Sama sjónarhornið tæpum 60 árum síðar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Snjóbrotsveturinn mikli 2019-2020

Versti snjóbrotsvetur sögunnar

Þröstur Eysteinsson

Þegar voraði árið 2020 og fólk fór að skoða sig um í skógum staðfestist það sem margir óttuðust að mikið var af brotnum trjám eftir veturinn á öllu norðanverðu landinu. Nokkuð var einnig á Austurlandi og jafnvel á Suðurlandi.

mynd. Rauðgreni í Grundarreit brotnaði ofan snjólínu í einhverju veðranna. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonÍ fréttum Veðurstofunnar um tíðarfar veturinn 2019-2020 stendur um desember:

Kramið blágreni kemur undan snjó við Botnsvatn. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson„Mikið norðanóveður gekk yfir landið dagana 10. til 11. desember sem olli miklu tjóni. Verst var veðrið á Ströndum, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Mikil ísing og fannfergi fylgdu óveðrinu sem olli því að hundrað hross fennti í kaf, skemmdir urðu á rafmagnslínum með tilheyrandi rafmagnstruflunum og mikil röskun varð á samgöngum.“

Þetta var mikill snjór. Í fréttinni segir jafnframt:

„Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur á norðanverðu landinu og mældist úrkoman þar víða sú mesta sem vitað er um í desember. Úrkoman á Akureyri mældist meira en þrefalt meiri en í meðalári og sú mesta sem mælst hefur þar í desembermánuði frá upphafi mælinga.“

Aspir komnar í 5-6 m hæð stóðu varla upp úr snjónum að Svanshól í Bjarnarfirði á Ströndum og enn var snjórinn ekki horfinn 26. júní. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonÁfram bætti í snjóinn og um tíðarfar janúar er sagt:

„Janúar var mjög illviðrasamur. Meðalvindhraði var óvenju hár og sá hæsti síðan í febrúar 2015. Illviðrisdagar voru óvenju margir, með því mesta sem hefur verið. Úrkoma var vel yfir meðallagi um mest allt land. Mjög snjóþungt var á Vestfjörðum …“.

Snjórinn lagði þessa 120 ára gömlu bergfuru í Grundarreit að velli. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonUm febrúar er sagt:

„Febrúar var fremur kaldur um land allt. Úrkomusamt var á Norður- og Austurlandi. Samgöngur riðluðust margoft vegna óveðurs. Versta veðrið var þ. 14. þegar mikið austanveður gekk yfir landið og bættist í hóp verstu illviðra síðustu ára. Mikið tjón hlaust af veðrinu einkum á Suðurlandi, Suðausturlandi og á Faxaflóasvæðinu þar sem veðrið var einna verst.“

Bæld og brotin stafafura við Húsavík. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonOg um mars:

„Mars var fremur kaldur og tíð óhagstæð. Vindhraði var vel yfir meðallagi, illviðri tíð og töluverðar truflanir voru á samgöngum. Mjög snjóþungt var um landið norðan- og austanvert og á Vestfjörðum.“

Niðurstrípuð stafafura á Hólasandi. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonLoks þetta um apríl:

„Mikið norðaustan illviðri gekk yfir landið dagana 4. til 5. apríl og er það í flokki hinna verstu í apríl.“

Ljóst er að blotasnjór, fannfergi og ísing leggst ekki síður á tré en raflínur. Því urðu fyrstu skemmdirnar strax í veðrinu 10.-11. desember. Eftir óveðrið fraus sá blauti snjór og myndaði harðfenni sem hóf að síga. Hann hékk líka sem klaki á greinum trjánna og var þar enn þegar óveðrin skullu á í janúar. Snjór hélt svo áfram að hlaðast upp í janúar, febrúar og mars. Ekki hlánaði að ráði fyrr en um miðjan apríl. Talað var um mesta snjóavetur síðan 1995 eða jafnvel 1949.

Veðrið 14. febrúar sem olli skemmdum á Suðurlandi braut allmörg tré, ekki síst á Selfossi. Rúsínan í pylsuendanum var svo veðrið 4. til 5. apríl. Í upphafi þess veðurs gerði enn mikinn blotasnjó sem festist við tré og fraus þar þegar kólnaði. Víða var þannig ástatt í skógum að toppar trjáa stóðu upp úr fannfergi vetrarins og í því veðri brotnuðu þeir hreinlega af við snjólínuna.

Í viðbót má síðan geta þess að illviðrin í janúar voru sum úr suðvestri og báru þau með sér mikla seltu yfir allt landið. Við það skemmdust nálar á stafafuru og skógarfuru og roðnuðu síðan þegar voraði. Var ástandið sérstaklega áberandi á Austurlandi þar sem slíkar nálaskemmdir eru sjaldgæfari en á Suður- og Vesturlandi.

Í desemberveðrinu fór birki einna verst. Það sligaðist og brotnaði. Harðfrosinn sígandi snjór reif greinar af trjám fram eftir öllum vetri og kramdi ung tré sem lentu algjörlega á kafi. Stafafura varð einna verst úti. Greni varð helst fyrir barðinu á aprílveðrinu og missti allt að 4 m háa toppa ofan af 8 m háum trjám.

oppar sitkagrenis sem stóðu upp úr snjónum á Húsavík brotnuðu í aprílveðrinu. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonSnjóbrot og aðrir veðurskaðar á trjám eru ekki nýnæmi á Íslandi. Ekki þarf að horfa lengra en til ársins 2012 til að finna dæmi um talsvert snjóbrot á birki eftir blotasnjó á Austurlandi. Eflaust muna margir eftir öðrum slæmum atvikum. Það er þó sérstakt við veturinn 2019-2020 að fannfergið náði til alls Norðurlands auk Vestfjarða og ekki aðeins til útsveita, eins og oft er. Þá hefur skógrækt og vaxandi útbreiðsla birkiskóga þau áhrif að nú eru fleiri og víðáttumeiri skógar sem orðið geta fyrir slíkum skemmdum en verið hefur í manna minnum.

Þó ekki sé hægt að fullyrða að skemmdirnar séu þær mestu í Íslandssögunni, þá eru þær augljóslega þær mestu sem elstu menn muna.

Myndir segja meira en orð.

 

Mörg gömul og myndarleg birkitré í Mela- og Skuggabjargaskógi í Fnjóskadal brotnuðu í kjölfar bleytuhríðarinnar 10. desember 2019. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Á Suðurlandi voru ekki sömu snjóþyngsli og fyrir norðan en ekki skorti stormana. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

 

 

 

 

 

Blæaspir í Grundarreit sýna að þetta er ekki í fyrsta sinn sem tré afmyndast af fannfergi. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Vaglaskógur – snjóalög fyrr og nú

Snjóalög í Vaglaskógi

Valgerður Jónsdóttir

Vaglaskógur er þekkt snjóakista enda stendur starfstöð Skógræktarinnar þar í nær 150 metra hæð yfir sjávarmáli. Skógurinn veitir skjól en safnar jafnframt í sig snjó á vetrum. Fyrir kemur að jörð sé snævi þakin í sjö mánuði í Vaglaskógi.

Timburstæða á kafi í snjó á Vöglum. Ljósmynd: Valgerður Jónsdóttir

Snjódýptarmælingar hafa verið framkvæmdar af starfsmönnum Skógræktarinnar allt frá árinu 1960. Sú samantekt sem hér birtist er ekki hávísindaleg, enda tekin saman meira til gamans. Snjómælingar hafa farið fram á þremur mismunandi stöðum á tímabilinu. Fyrst var mælirinn staðsettur við hús skógarvarðar á Vöglum 2, síðan um árabil við Lerkihlíð en undanfarin ár hafa mælingar farið fram á flötinni sunnan starfstöðvarinnar.

Skógarvörðurinn mokar upp heimilisbílinn í febrúar 2018. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirÍ skýrslum skógarvarða hefur í gegnum tíðina oft verið fjallað um snjóþyngsl og erfiðleika sem af þeim hafa skapast. Snjóalög hafa þó greinilega verið afar mismunandi eftir árum, allt frá því að vera nánast snjólaust upp í að allt sé á bólakafi mánuðum saman.

Skógarvörður skrifar eftirfarandi í ársskýrslu 1915:

Þetta árið hefir vöxturinn í skóginum og græðireitnum verið með lang rýrasta móti, fjölda margir ársprotar eru ekki lengri en 5-8 cm. eftir sumarið og sumir hafa ekki einu sinni náð þeim vexti. Einkum var það hart næturfrost fyrst í júlímánuði, sem kippti úr vextinum, eða stöðvaði vöxtinn algerlega um tíma.

Það hefur sem betur fer ekki gert þvílíkt frost í byrjun júlí nýlega, en þetta lýsir vel þeim aðstæðum sem búið var við.

Árið 1949 skrifar skógarvörður í ársskýrslu:

Tíðarfar var mjög erfitt framan af sumri allt fram í miðjan júní … t.d. varð að fá snjóýtu til að ryðja veginn, svo hægt væri 5. júní að komast á bifreið í græðireitinn.

Norskir skógræktarmenn komu gjarnan til Íslands til að gróðursetja um og upp úr miðri síðustu öld og íslenskir skógræktarmenn fóru til Noregs í sömu erindagjörðum í staðinn. Ætla má að veðráttan hafi verið mildari löndum okkar í Noregsferðunum en norskum skógræktarmönnum sem komu að Vöglum í byrjun júní 1952. Skógarvörður lýsir heimsókninni í ársskýrslu:

Hafði allan þennan tíma verið mjög kalt í veðri, oftast frost um nætur. Unnið var þó að gróðursetningu mest allan tímann sem Norðmennirnir voru í Vaglaskógi, var það kuldaverk að vinna að gróðursetningu oft í slydduéljum. Þurfti víða að ryðja snjó frá til að koma plöntunum niður.

Miklum snjó kyngdi niður á Norðurlandi um miðjan janúar 2020. Huldar Trausti Valgeirsson, starfsmaður Skógræktarinnar, við snjóhreinsun. Ljósmynd: Valgerður JónsdóttirVeturinn 1994-1995 var afar snjóþungur. 24. júní sagði skógarvörður frá því í blaðaviðtali að til stæði að opna skóginn þá um helgina, þrátt fyrir að enn væri ekki hægt að opna öll tjaldsvæði vegna bleytu og gat hann þess að mikill snjór væri enn þá í Þórðarstaðarskógi.

Hin síðari ár hefur veðráttan verið mildari. Þó má yfirleitt reikna með að það vori u.þ.b. tíu dögum seinna á Vöglum en vestan megin við Vaðlaheiðina, í Eyjafirði. Síðan mælingar hófust hefur snjódýptarmæling einu sinni náð tveimur metrum. Það var 27. febrúar 1990, þegar snjódýpt mældist sléttir 2 metrar.

Það segir þó kannski meiri sögu um snjóalög hversu lengi snjórinn staldrar við. Oft snjóar mikið en tekur svo upp aftur. Meðfylgjandi graf sýnir fjölda daga þar sem snjóþekja er 70 cm. eða meiri.

Dagar með snjódýpt yfir 70 cm

Eins og sjá má er árið 2012 sigurvergarinn í þeirri keppni áranna, en þá var snjódýpt meiri en 70 cm. í um 5 mánuði.

Ef við skoðum sömu tölfræði, en miðum við 20 cm snjólag, sést að árið 2012 hefur verið snævi þakin jörð í Vaglaskógi í a.m.k. sjö mánuði! Það ár er snjódýpt skráð síðast 4. júní að vori og í fyrsta sinn að hausti 9. september.

Dagar með snjódýpt yfir 20 cm

One Tree Planted fjármagnar skóg á Ormsstöðum Breiðdal

Hreiður drekans, Dragon's Nest

Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson

Ormsstaðir í Breiðdal. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonSkógræktin og One Tree Planted undirrituðu síðla árs samning um ræktun skógar á Ormsstöðum í Breiðdal. Teknir verða 170 hektarar undir þetta verkefni í neðanverðri brekkunni ofan þjóðvegar. Á næstu tveimur árum verða gróðursett þar 350.000 tré.

Jörðin Ormsstaðir er í norðanverðum Breiðdal skammt innan við Breiðdalsvík. Síðasti ábúandinn, Sigríður Brynjólfsdóttir, arfleiddi Skógræktina að Ormsstöðum árið 2005, með þeim skilyrðum að þar skyldi rækta skóg. Síðan hefur Skógræktin verið að leita leiða til að fjármagna þá skógrækt og hefur það nú loks tekist. Skógurinn verður ræktaður á um 170 ha svæði í neðanverðri brekkunni ofan þjóðvegar.

Styður við Heimsmarkmið SÞ

Rýrir mosamóar og melar inn á milli eru einkennandi fyrir núverandi ástand gróðurfars á Ormsstöðum sem er mjög bágborið og mikið rofið. Votlendisgróður fær að dafna á votlendum svæðum innan skógræktarsvæðisins og njóta nálægðarinnar við skóginn. Gunnarstindur gnæfir í baksýn ásamt fleiri fjöllum norðan Breiðdals. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonOne Tree Planted eru góðgerðarsamtök sem hafa það markmið að auðvelda fólki að bæta umhverfið með gróðursetningu trjáa. Verkefni þeirra eru víða um heim og fara fram í samstarfi við heimafólk og sérfræðinga til að skapa ágóða fyrir náttúruna, fólk og dýralíf. Með skógræktarverkefnum er markmiðið að endurreisa skóga þar sem skógum hefur áður verið eytt. Slík endurreisn hefur jákvæð samfélagsleg áhrif, t.d. með því að skapa störf, binda kolefni úr andrúmsloftinu og efla líffjölbreytni. Verkefnin skulu ná fjölþættum markmiðum og skapa margs konar ágóða sem styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hægt er að fræðast um One Tree Planted á vefnum onetreeplanted.org.

Horft til Ormsstaða af svæðinu sem nú hefur verið tekið undir skógrækt. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonLokið var við að girða svæðið fyrir veturinn. Verktaki við það verk var Skúli Björnsson, sem er öllu skógræktarfólki að góðu kunnur. Svæðið er venjulegt beitiland, að mestu rýrt og að stórum hluta rofið. Skógurinn verður blanda trjátegunda, talsvert birki í jöðrunum, stafafura á rýrustu svæðunum, sitkagreni á þeim skárri og alaskaösp með fram lækjum. Þá verða opin svæði líka í skóginum, einkum þar sem land er blautt, og þar fær votlendisgróður að dafna. Þannig verður alls gróðursett í um 140 ha af þeim 170 sem verða innan girðingar. Það sem er nýstárlegt við þetta verkefni er að til stendur að gróðursetja í allt svæðið á aðeins tveimur árum.

Horft inn Breiðdal úr landi Ormsstaða. Til vinstri sést til nágrannabæjarins Fells. Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi og Þór Þorfinnsson skógarvörður ræða málin. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonVerndun burstajafna tryggð

Skógræktarsvæðið er innan hverfisverndarsvæðis. Er það ekki síst af því að á Ormsstöðum er eini fundarstaður byrkningsins burstajafna á landinu (Lycopodium clavatum). Sá fundarstaður er þó utan skógræktargirðingarinnar og talsvert frá henni. Burstajafna verður því ekki raskað við skógræktarframkvæmdir. Tegundin burstajafni hefur að vísu mikla útbreiðslu í heiminum og er víðast hvar að finna í barrskógum. Því er hugsanlegt að tilkoma skógar í nágrenninu stuðli að útbreiðslu burstajafnans þegar fram líða stundir og að útbreiðslusvæði hans stækki með tilkomu skógarins í fyllingu tímans.

Melar og mosaþembur, sem nú einkenna meirihluta svæðisins, fá senn í sig öflugri gróður, bæði trén sjálf og undirgróður. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonSamkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar er gert ráð fyrir skógrækt á þessu svæði, enda lá fyrir áætlun þess efnis áður en skipulagið var gert. Þegar fram líða stundir munu melar og mosaþembur, sem nú einkenna meirihluta svæðisins, fá í sig öflugri gróður, bæði trén sjálf og undirgróður. Skógurinn verður búsvæði fjölda fuglategunda, sveppa, skordýra og annars lífs. Fjölbreyttur skógurinn verður útivistarsvæði fyrir gesti og gangandi. Síðast en ekki síst mun skógurinn leggja sinn skerf til kolefnisbindingar, sem verður viðsnúningur frá þeirri losun sem nú á sér stað á hinu rofna landi Ormsstaða. Þannig nást markmið One Tree Planet um samfélagslegan og umhverfislegan ávinning af verkefninu.

Með vísan til fornsagnaarfsins og ýmissa kvikmynda og sjónvarpsþátta sem í hann sækja og hafa verið kvikmyndaðir að einhverju leyti á Íslandi, fékk þetta verkefni Skógræktarinnar og One Tree Planted í Breiðdal hið skemmtilega enska heiti, Dragon's Nest, eða Hreiður drekans. Verkefnið hefur nú þegar vakið athygli viðskiptavina og velgjörðarfólks One Tree Planted sem hyggur á fleiri verkefni hérlendis á næstu misserum.

REKSTRARSVIÐ

Skýrsla sviðstjóra – Gunnlaugur Guðjónsson

Rekstrarsvið 2020

Gunnlaugur Guðjónsson

Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Stofnunin varð til 1. júlí 2016 við samruna Skógræktar ríkisins og sex stofnana sem þjónuðu skógrækt á lögbýlum, hver í sínum landshluta.

Á vorjafndægri 2020 tók í gildi nýtt og endurskoðað skipurit stofnunarinnar. Þar var meðal annars tekið mið af nýjum lögum um skóga og skógrækt og auknum hlut loftslagsverkefna í starfsemi Skógræktarinnar. Jafnframt var ýmislegt endurskoðað út frá reynslunni af rekstri stofnunarinnar frá 2016.

Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast rannsóknasvið, skógarþjónusta og þjóðskógar. Hins vegar miðlægt svið, rekstrarsvið.

Hlutverk rekstrarsviðs er að hafa yfirumsjón með fjármálum, bókhaldi, skrifstofuþjónustu, starfsmannamálum og annarri stoðþjónustu stofnunarinnar ásamt skipulags-, samskipta-, fræðslu- og markaðsmálum.

Sviðið hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar og eftirlit með framgangi hennar. Rekstrarsvið ber ábyrgð á því að uppgjör og upplýsingar berist til annarra stjórnenda og verkefnisstjóra þegar það á við. Sviðið er enn fremur ábyrgt fyrir gerð ársreiknings og miðlun fjármálaupplýsinga til Fjársýslu ríkisins, Ríkisendurskoðunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl.

Auk almennrar fjármálaumsýslu og áætlanagerðar tilheyrir rekstrarsviði einnig samskiptadeild. Hún veitir forystu verkefnum sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt er á höndum skipulagsfulltrúa. Gunnlaugur Guðjónsson er sviðstjóri rekstrar.

Fjármál Skógræktarinnar 2019

Heildarkostnaður við rekstur Skógræktarinnar var 1.422,5 m.kr. árið 2020. Stærstu liðirnir í rekstrinum eru tveir, annars vegar laun, launatengd gjöld og starfsmannakostnaður og hins vegar framlög og tilfærslur vegna skógræktar á lögbýlum.

Rekstrarniðurstaða

Tap af rekstri ársins var 8,5 m.kr. Í upphafi árs var höfuðstóll stofnunarinnar neikvæður um 9,0 m.kr. og í árslok var hann því neikvæður um 17,5 m.kr. Fjárheimild ársins var 1.005,5 m.kr. og hækkaði um 90,6 m.kr. á milli ára. Munar þar mest um tímabundið framlag atvinnuátaks vegna Covid-19 faraldursins.

Heildarkostnaður við rekstur Skógræktarinnar var 1.422,5 m.kr. árið 2020 og hækkaði um 200,0 m.kr. frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður var 1.109,5 m.kr. og hækkaði um 147,0 m.kr. á milli ára. Framlög til skógræktar á lögbýlum voru 295,0 m.kr. og hækkuðu um 56,6 m.kr. frá árinu á undan. Fjallað er nánar um framlög til skógræktar á lögbýlum hér fyrir neðan. Sértekjur voru 390,5 m.kr. og hækkuðu um 99,4 m.kr.

Viðskiptastaða stofnunarinnar við ríkissjóð var jákvæð um 5,2 m.kr. Viðskiptakröfur hækkuðu um 5,6 m.kr. á milli ára úr 44,3 m.kr. í 49,9 m.kr. Bankainnstæður voru í árslok 3,1 m.kr. Skammtímaskuldir hækkuðu um 6,8 m.kr., úr 25,8 m.kr. í 32,6 m.kr.

Framlög til skógræktar á lögbýlum

Samkvæmt fjárlögum voru framlög til skógræktar á lögbýlum áætluð 307,0 m.kr. fyrir árið 2020 og hækkuðu um 85 m.kr. milli ára. Heildarframlög árið 2016 voru 253,0 m.kr., 222,8 m.kr. árið 2017, 217,0 m.kr. árið 2018, 238,4 m.kr. árið 2019 og 295 m.kr árið 2020. Frá sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt eru uppsöfnuð framlög ríkisins til skógræktar á lögbýlum 1.203,7 m.kr. en heildarfjárhæð útgreiddra framlaga 1.226,5 m.kr.

Skipting framlaga milli landshluta árið 2020 var eftirfarandi: Austurland 54,7 m.kr. (var 65,5 m.kr árið 2019), Norðurland 91,5 m.kr. (var 57,7 m.kr. árið 2019), Vesturland og Vestfirðir 91,5 m.kr. (var 61,9 m.kr. árið 2019) og Suðurland 57,3 m.kr. (var 53,2 m.kr. árið 2019).

Stærstur hluti framlaga fór til plöntukaupa, 118,4 m.kr. (var 108,7 m.kr. árið 2019), gróðursetningar 73,0 m.kr. (var 66,6 m.kr. árið 2019), girðinga 62,0 m.kr. (var 36,1 m.kr. árið 2019) og snemmgrisjun 24,1 m.kr (var 11,4 m.kr árið 2019).

Aukinn mannauður – skógtækni

Þrír starfsmenn luku námi í skógtækni

Pétur Halldórsson

Þrír starfsmenn Skógræktarinnar luku námi í skógtækni á árinu 2020 og juku þannig við mannauð og kunnáttu hjá stofnuninni. Þriggja ára nám í skógtækni er í boði við garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi, sem er hluti Landbúnaðarháskóla Íslands. Námið er á framhaldsskólastigi og kallast Skógur og náttúra. Það tilheyrir starfsmenntasviði skólans og fer fram bæði í staðarnámi og fjarnámi. Aðeins eru teknir inn nemendur á brautina annað hvert ár og næst verður opið fyrir umsóknir vorið 2022.

Niels Magnús Magnússon tekur við prófskírteini sínu úr höndum brautarstjórans, Björgvins Eggertssonar. Valgeir Davíðsson fylgist með ásamt rektor, Ragnheiði Þórarinsdóttur. Ljósmynd: LbhÍEins og fram kemur á vef Landbúnaðarháskólans veitir námið nemendum undirstöðuþekkingu í störfum að skógrækt og umönnun umhverfis. Það skiptist í tveggja ára bóklegt staðarnám á Reykjum í Ölfusi og 60 vikna verklegt nám undir handleiðslu garðyrkjufræðings. Ef námið er tekið í fjarnámi tekur bóklegi hlutinn fjögur ár auk verknáms. Gert er ráð fyrir að umsækjandi hafi lokið 12 vikna reynslutíma við alhliða skógræktar- eða garðyrkjustörf áður en bóknám hefst, auk hluta af verknámi.

Áherslur í námi

Kenndar grunngreinar náttúrufræði, svo sem jarðvegs- og áburðarfræði, plöntuþekking, plöntulífeðlisfræði, vistfræði og umhverfisfræði. Einnig er fjallað ítarlega um skógrækt, nýtingu skógarafurða, skjólbelti, útivistarsvæði og friðlönd.

Uppbygging námsins

Nám á braut skógar og náttúru skiptist í bóklegt nám, fjórar annir við starfs- og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum Ölfusi og verklegt nám í alls 60 dagbókarskyldar vikur á verknámsstað sem skólinn viðurkennir, undir handleiðslu fagfólks með menntun á sviði garðyrkju og skógræktar. Dagbók er metin til einkunnar. Alls er námið 220 f-einingar, 120 f-einingar bóklegt og 100 f-eininga verknám.

Að loknu námi

Starfsvettvangur fullnuma nemenda er skóg- og trjárækt og verkstjórn á þeim sviðum. Jafnframt vinna þeir við margvísleg störf sem tengjast uppgræðslu, landbótum, náttúruvernd, útivistar- og ferðaþjónustusvæðum, grænum svæðum í þéttbýli, o.fl. Þar sem skógrækt fer nú vaxandi á ný og sömuleiðis umhirðuþörf í eldri skógum eru næg verkefni fram undan á því sviði hérlendis. Meðal annars er orðin þörf fyrir aukna verktakastarfsemi í skógrækt, við undirbúning lands og gróðursetningu, umhirðu ungskóga, grisjun og skógarhögg. Sömuleiðis er viðarvinnsla ný atvinnugrein sem byrjuð er að byggjast upp á frjálsum markaði. Loks má nefna að með aukinni skógrækt eykst líka þörfin fyrir kunnáttufólk í ræktun trjáplantna í gróðrarstöðvum. Nám í skógtækni getur verið góður grunnur að námi í þeirri grein einnig. Sömuleiðis eru dæmi um að skógtæknar hafi haldið áfram í námi og bætt við sig skógfræði á háskólastigi eða skógarverkfræði.

Fjölgun skógtækna hjá Skógræktinni

Sem fyrr er greint luku þrír starfsmenn Skógræktarinnar skógtækninámi á Reykjum í Ölfusi á árinu 2020. Þetta eru þeir Magnús Fannar Guðmundsson, Níels Magnús Magnússon og Valgeir Davíðsson. Magnús Fannar og Níels Magnús starfa á þjóðskógasviði á Suðurlandi, Magnús á Skriðufelli Þjórsárdal og Níels í Haukadal, en Valgeir er aðstoðarskógarvörður á Norðurlandi með starfstöð á Vöglum. Auk þeirra þriggja luku Andri Már Agnarsson og Hafdís Huld Þórólfsdóttir einnig námi í skógtækni við skógar- og náttúrubraut LbhÍ

Nánar um námið við LbhÍ á vef skólans, www.lbhi.is.

Útskriftarnemar af garðyrkjubrautum ásamt rektor og kennurum við athöfnina í Hveragerðiskirkju 30. júní 2020. Ljósmynd: LbhÍ

Aukinn mannauður – skógfræði

Fjórir starfsmenn Skógræktarinnar
luku háskólagráðum 2020

Brynja Hrafnkelsdóttir, Ellert Arnar Marísson,
Hallur S. Björgvinsson og Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir

Á árinu luku fjórir starfsmenn Skógræktarinnar háskólaprófi í skógvísindum frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hallur S. Björgvinsson lauk bakkalárgráðu, Ellert Arnar Marísson og Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir luku meistaragráðu og Brynja Davíðsdóttir doktorsgráðu. Hér að neðan er stutt lýsing á lokaverkefnunum. Flest vinna þau nú að greinaskrifum í tengslum við verkefni sín og verða greinarnar birtar á komandi misserum.

Áhrif skjóls á vöxt og nærviðri – B.Sc.

Hallur S. Björgvinsson starfar sem skógræktarráðgjafi hjá skógarþjónustu Skógræktarinnar. Hann lauk BS-prófi í skógfræði og fjallaði lokaverkefni hans um áhrif skjóls á trjávöxt og nærviðri.

Vindur getur haft mikil áhrif vöxt og þroska trjáa og annars gróðurs, bæði með beinu áreiti á plöntuvefi og í gegnum þau áhrif sem hann hefur á aðra nærviðrisþætti, eins og lofthita, jarðvegshita, yfirborðshita plantna, rakastig, o.fl. Markmið verkefnisins var að skoða samspil vindhraða, hitastigs og plöntuvaxtar, með því að mæla vindhraða, hitastig í 10 og 200 cm hæð og í jarðvegi yfir eitt vaxtartímabil, sem og vöxt ungra birkiplantna sem gróðursettar voru í staðlaðan jarðveg á þremur mismikið skýldum meðferðarstöðum í Fljótshlíð (1. ekkert skjól, 2. hálfskýlt, 3. mikið skjól) innan afmarkaðs svæðis með sama veðurfari. Til að meta bein áhrif vindslits fór einnig fram samanburður á mælingu slitflagga á sömu stöðum en yfir lengra tímabil.

Í samanburðarreitum var komið fyrir síritandi veðurmælistöðvum ásamt slitflöggum og eins árs birkiplöntum í 6 röðum. Ljósmynd Hallur S. BjörgvinssonSkjólmeðferðirnar drógu marktækt úr meðal- og hámarksvindhraða á skýldum stöðum miðað við berangur. Meðaltöl hitastigs yfir rannsóknatímabilið voru einnig marktækt hærri á skýldu svæðunum en á óskýldu svæði. Dagshiti í 200 cm hæð var 0,6 °C hærri í miklu skjóli en á berangri, en 1,6 °C hærri í 10 cm hæð frá yfirborði, og 1,1 °C hærri á 10 cm dýpi í jarðvegi.

Mæling á lífmassa birkiplantna á meðferðarsvæðunum þremur sýndi að skjólið hafði aukið vöxtinn marktækt á báðum skýldu svæðunum miðað við svæði 1. Lífmassi í sumarlok vað að jafnaði 71,8% meiri á svæði svæði 2 og 78,5% meiri á svæði svæði 3, miðað við svæði 1. Hlutfallslega var meira af heildarlífmassa trjánna varið til rótarvaxtar á skjóllausum berangri en á skýldum svæðum. Laufflatarmál birkisins að hausti var nær tvöfalt meira á báðum skýldu svæðunum miðað við óskýlda svæðið.

Skjólbeltin höfðu mikil áhrif á plöntuvöxt í þessari rannsókn. Í mælingum komu greinilega fram jákvæð áhrif skjólgjafa á nærviðri, s.s. jarðvegs- og lofthita.

Viðarmagnsspá fyrir Vesturland – M.Sc.

Ellert Arnar Marísson er skógræktarráðgjafi hjá skógarþjónustu Skógræktarinnar. Hann lauk meistaranámi í skógfræði og fjallaði lokaverkefni hans um gerð viðarmagnsspár fyrir ræktaða skóga á Vesturlandi.

Hagsmunaaðilar í skógrækt á Vesturlandi hafa mikla trú og áhuga á framtíð skógarauðlindarinnar. Því er þetta verkefni tilkomið með það að markmiði að svara spurningum um stöðu skóga og spá fyrir um framtíðarvöxt þeirra á Vesturlandi. Allt starfsvæði Vesturlandsskóga var tekið fyrir í þessu verkefni, eins og það var fram til ársins 2016, frá Gilsfjarðarbotni í norðri að Strandaheiði í suðri. Gögn frá Íslenskri skógarúttekt (ÍSÚ) og úr reiknilíkaninu Ice-Forest voru notuð til að greina og spá fyrir um stöðu skóga landshlutans til næstu 30 ára.
Í þessu verkefni var leitast við að svara eftirfarandi spurningum: i) Hvað er stórt hlutfall af öllum ræktuðum skógum landshlutans nýtanlegt til timburvinnslu í dag? ii) Hvar eru þeir staðsettir? Hvernig dreifist eignarhald þeirra? Og að lokum, iv) spá fyrir um vöxt þessara nýtanlegu skóga með líkaninu IceForest.

Staðsetning þeirra mæliflata sem metnir voru hæfir til nýtingarNettóflatarmál nýtanlegra ræktaðra skóga á Vesturlandi var metið 2.870 ha (± 630), en það voru einungis 47% af öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi sem þöktu 7.000 (± 640) ha árið 2017. Meirihluti þessara nýtanlegra skóga var staðsettur í kringum höfuðborgarsvæðið og á sunnanverðu Vesturlandi til og með Skorradal. Um þriðjungur af nýtanlegum skógum var í eigu ríkisins, annar þriðjungur í einkaeigu og síðasti þriðjungurinn í eigu félaga og skógræktarsamtaka. Um 77% ónýtanlegra skóga á Vesturlandi fengu það mat vegna tveggja flokka: „stofnar of kræklóttir“ eða „vöxtur of lítill“.
Standandi rúmmál í nýtanlegum skógum var metið á um 110.000 m3 (± 50.000) árið 2019, við upphaf spárinnar. Standandi rúmmál jókst í um 410.000 m3 (±130.000) við lok spár árið 2049, þar sem grisjanir, lokahögg og önnur umhirða verður framkvæmd á réttum tíma miðað við að hámarka timburnytjar. Líkanið IceForest áætlaði að nýtanleg viðaruppskera úr skógunum yfir spátímabilið gæti verið um 190.000 m3 (± 90.000). Þetta er það viðarmagn sem hægt er að gera ráð fyrir að aðilar sem nýta skóga Vesturlands geti nýtt með sjálfbærum hætti næstu 30 árin.

Aspargræðlingar í nýskógrækt – M.Sc.

Þriggja ára aspargræðlingur í jarðunnu lúpínusvæði í Skarfanesi. Mynd Jóhanna Bergrúnar ÓlafsdóttirJóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir starfar sem sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Hún lauk meistaranámi í skógfræði og lokaverkefni hennar fjallaði um notkunarmöguleika á órættum aspargræðlingum til nýskógræktar í ólíkum landgerðum. Verkefnið var unnið út frá tilraunum sem settar voru út árið 2016 á þremur stöðum á Suðurlandi, í mólendi, á áreyrum og í gömlum lúpínubreiðum. Í lúpínubreiðum voru prófaðar mismunandi jarðvinnsluaðferðir og stungið 20 cm órættum græðlingum. Í mólendi og á áreyrum voru gerðar tilraunir með mismunandi tímasetningar áburðargjafar á 20 cm græðlinga. Í öllum landgerðum voru settar niður tilraunir með mislanga græðlinga (20, 40, 80 og 100 cm langa).

Horft yfir áburðartilraun á áreyrum í Skarfanesi. Mynd Jóhanna Bergrúnar ÓlafsdóttirHeildarlifun í öllum tilraununum var 63% eftir þrjú ár. Niðurstöður eftir þrjú ár í jarðvinnslutilraunum sýndu að ef nota á 20 cm græðlinga á lúpínusvæðum er heiltæting besta jarðvinnsluaðferðin. Þar var lifun best og einnig vöxtur, samanborið við græðlinga sem fóru í TTS-rásir eða óhreyfða lúpínu. Með heiltætingu er samkeppnisstaða græðlinga bætt og þeir hafa betra aðgengi að ljósi. Í TTS-rásum í lúpínubreiðum var lifun 20 og 40 cm græðlinga dræm en betri hjá 80 cm löngum græðlingum, sem standa hærra upp og hafa þannig betri aðgengi að ljósi. Áburðargjöf hafði ekki áhrif á lifun plantna, en á áreyrum hafði áburðargjöf jákvæð áhrif á vöxt. Áburðargjöf í júní sama ár og stungið var skilaði betri vexti á fyrsta sumri. Áburðargjöf ári eftir stungu gaf betri vöxt í samanburði við græðlinga sem fengu engan áburð eftir þrjú ár. Niðurstöður verkefnisins er hægt að nýta til leiðbeininga við val á hentugum græðlingagerðum og aðferðum við nýræktun asparskóga í mismunandi landgerðum.


Áhrif ertuyglu á vöxt og lifun – P.hD.

Brynja Hrafnkelsdóttir starfar sem sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Brynja lauk doktorsprófi í skógfræði með áherslu á skordýrafræði í júní 2020.

Meginviðfangsefni verkefnisins er ertuygla og áhrif hennar á vöxt og lifun lúpínu og trjáplantna. Einnig voru áhrif aukins vetrar- og sumarhita á ertuyglu rannsökuð.

Nánar er fjallað um verkefnið og helstu niðurstöður þess í sérstakri grein eftir Brynju í þessu riti, Ertuygla og loftslagsbreytingar í kafla rannsóknasviðs.

Þrír útskriftarnemanna að lokinni brautskráningu í Hjálmakletti Borgarnesi 5. júní 2020. Frá vinstri: Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor og brautarstjóri skógfræðibrautar, Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Ellert Arnar Marísson, meistarar í skógfræði, og Brynja Hrafnkelsdóttir, doktor í skógfræði. Ljósmynd: LbhÍ

Skógarkolefni – vottuð kolefnisbinding

Vottuð kolefnisbinding með Skógarkolefni

Gunnlaugur Guðjónsson og Pétur Halldórsson

Í Ársriti Skógræktarinnar fyrir árið 2019 var sagt frá nýju verkefni, Skógarkolefni, sem Skógræktin hafði þá hrundið af stað. Með væri ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með yrði í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining samsvarar einu tonni af koltvísýringi. Sá sem losar eitt tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið og vill kolefnisjafna það með ábyrgum og viðurkenndum hætti þarf að sjá til þess að eitt tonn af koltvísýringi verði bundið á ný, til dæmis í skógi.

Regluverk um vottuð kolefnisverkefni með skógrækt var kynnt í árslok 2019 undir sama heiti, Skógarkolefni. Áfram var unnið að framgangi verkefnisins á árinu 2020 og áherslan lögð á að komið yrði á fót löggiltri kolefnisskrá svo skrá mætti kolefniseiningar með öruggum hætti, versla með þær og að lokum telja þær fram á móti losun til kolefnisjöfnunar og undir lok árs varð Loftslagsskrá Íslands að veruleika.

Hér eru sýnd á einfaldan hátt meginatriði ábyrgrar kolefnisjöfnunar. Sá sem losar dregur eftir mætti úr losun sinni en útvegar sér vottaðar einingar á móti því sem eftir stendur. Mynd: Skógræktin

Hugmyndin

Meginmarkmiðið með Skógarkolefni er að hægt sé bjóða ábyrgum fyrirtækjum upp á vottaðar kolefniseiningar. Ef fyrirtæki og aðrir lögaðilar vilja nota hugtök eins og kolefnisjöfnun og kolefnishlutleysi nægir ekki að gera samninga um skógrækt eða önnur verkefni sem binda kolefni eða koma í veg fyrir losun, nema ávinningurinn af slíkum verkefnum sé staðfestur af sérfræðingum samkvæmt viðurkenndum reglum og allt ferlið að lokum vottað af óháðum þriðja aðila, viðurkenndri vottunarstofu. Mikilvægt er í slíkum verkefnum að koma í veg fyrir allt sem kallast gæti grænþvottur.

Í starfinu að Skógarkolefni hefur verið lögð áhersla á að bjóða upp á einfalt og skýrt ferli. Fyrirmynd kerfisins er breska kerfið Woodland Carbon Code sem Skógræktin hefur átt gott samstarf við. Hefur kerfið verið staðfært fyrir Ísland. Ekki er þó margt að staðfæra því að í eðli sínu eru loftslagsmálin eins alls staðar í heiminum. Ástæðulaust er því að tala um „sérstöðu Íslands“ nema ef vera skyldi ástand landsins og það mikla landflæmi sem hér hentar til bæði nytjaskógræktar og útbreiðslu birkiskóglendis.

Aðferðafræðin er með öðrum orðum tilbúin og hentar sérstaklega vel fyrir nýskógrækt sem gerir nánast skóglaust land eins og Ísland að kjörnum vettvangi fyrir kolefnisverkefni. Þegar skógur er ræktaður á skóglausu landi á Íslandi hefst mikil binding eftir fáein ár á landi sem í besta falli batt lítið eða ekkert kolefni áður og var jafnvel í því ástandi að losa kolefni vegna rotnunar á gömlum jarðvegi.

Skógarkolefni styður við aðgerðaráætlun Íslands í loftslagsmálum með því að hvetja einkageirann til ábyrgra verkefna sem leiða til aukinnar kolefnisbindingar og nettósamdráttar í losun vegna starfsemi viðkomandi fyrirtækis.

Kolefnisbankabók

Ýmislegt er nýstárlegt í þessum efnum fyrir flestu fólki. Flest fólk áttar sig á því hvað sé losun og hvað sé binding. Það hefur líka ákveðna hugmynd um hvað sé kolefnisjöfnun. Málin flækjast þegar farið er að ræða um kolefniseiningar, kolefnisskrá og vottun. Í raun er þetta þó sáraeinfalt og mætti líkja við bankareikning sem við höfum öll.

Við getum verið í mínus á bankareikningnum en líka í plús. Sá sem losar kolefni út í andrúmsloftið en bindur ekki kolefni á móti er í mínus. Ástand lofthjúps jarðar nú helgast af því að við höfum í 250 ár verið á yfirdrætti í þessum bankareikningi sem kolefni í andrúmsloftinu er. Við leggjum ekkert inn, tökum bara út. Nú er komið að skuldadögum. Gleðibankinn er að verða tómur.

Eftir því sem tímar líða verður æ eftirsóttara að eiga kolefnisinneign. Ekki er verra ef þessi inneign er eins og verðbréf og getur hækkað í verði með aukinni eftirspurn. Allt bendir til þess að kolefniseiningar verði eftirsóttari eftir því sem loftslagsmálin sverfa meira að mannkyninu og aðgerðir verða brýnni. Æ fleiri munu þurfa að eignast kolefniseiningar til að telja fram á móti losun sinni.

Ef ég rækta skóg fyrir eigin peninga og skrái verkefnið mitt í Skógarkolefni get ég eignast á fáeinum árum seljanlegar kolefniseiningar sem geta gefið mér verulegan arð af skóginum, löngu áður en skógurinn gefur timbur eða aðrar beinharðar afurðir. Þar með á ég kolefnisinneign. Ef ég rek starfsemi sem losar kolefni út í andrúmsloftið get ég notað þessar einingar til að næla mér í viðurkennda og vottaða kolefnisjöfnun. Þar með sýnir fyrirtæki mitt ábyrgð í loftslagsmálum. Slík ábyrgð verður æ verðmætari fyrir ímynd fyrirtækja eftir því sem fram líða stundir og jafnvel skylda.

En ef ég er ekki með neina slíka starfsemi og þarf ekki að kolefnisjafna sjálfur eru kolefniseiningarnar mínar dýrmæt kolefnisinneign. Ég get veðjað á að verðið á einingunum haldi áfram að hækka, líkt og ef ég ætti verðbréf, eða selt einingarnar strax og notað peningana í annað.

Fyrir fjárfesta hefur skógrækt ekki þótt ýkja freistandi kostur fram undir þetta enda þarf að bíða í áratugi eftir því að arðurinn fari að skila sér. Nú, þegar færi gefst á nýrri skógararfurð, vottuðum kolefniseiningum, má vænta þess að féð fari að skila sér aftur eftir aðeins fimm ár. Þessi afurð kemur til viðbótar við aðrar afurðir af skóginum því að í kolefnisverkefnum er hægt að gera ráð fyrir sjálfbærum nytjum af skóginum eins og áður. Áætluð kolefnisbinding skógarins er metin út frá því hvernig ætlunin er að hirða um skóginn, allt frá engri umhirðu upp í reglulega grisjun og skógarhögg. Eina skilyrðið er að farið sé eftir þeirri áætlun sem lagt var upp með í upphafi og sú binding sem áætluð var verði örugglega í skóginum.

Loftslagsráð

Hinn 26. október 2020 sendi Loftslagsráð frá sér álit um ábyrga kolefnisjöfnun. Þar er bent á að nauðsynlegt sé að tryggja að íslenskar kolefniseiningar standist alþjóðlegar gæðakröfur og séu byggðar á viðurkenndri aðferðafræði við útgáfu kolefniseininga á grundvelli mælinga. Úttekt sem gerð var fyrir Loftslagsráð á árinu leiddi í ljós að umtalsverðra úrbóta væri þörf. Kallaði ráðið helstu aðila sem málið varða saman til að vinna að nauðsynlegum úrbótum.

Með regluverki Skógarkolefnis og tilkomu Loftslagsskrár Íslands eru allar þær kröfur sem Loftslagsráð setur fram í áliti sínu uppfylltar. Skógarkolefni er fyrsta kerfið á Íslandi sem gefur færi á ábyrgri kolefnisjöfnun.

Vefur Loftslagsráðs er á slóðinni loftslagsrad.is.

Vottun

Forsendan fyrir því að ábyrg kolefnisjöfnun sé möguleg er alþjóðleg, óháð vottun. Vottuninni má líkja við það að ég fái til mín iðnaðarmann sem vinni hjá mér tiltekið verk og síðan komi óháður sérfræðingur í viðkomandi iðngrein og fari yfir allt ferlið til að staðfesta að allt hafi verið rétt gert. Slík staðfesting á viðkomandi ferli, reglum og aðferðum tryggir traust. Óháð vottun tryggir gæði. Með vottuninni er komið í veg fyrir að viðkomandi verkefni sé aðeins fúsk eða yfirklór. Vottun er besta leiðin til að koma í veg fyrir grænþvott.

Ef gæðin eru tryggð með þessum hætti er líklegt að eftirspurnin verði meiri. Vottaðar kolefniseiningar eru því gæðavara. Fólk vill gæðavöru. Krafa stjórnvalda og alþjóðastofnana um gæði verður æ meiri. Með því að skrá einingar í Loftslagsskrá Íslands verður til markaður með gæðavöru sem nota má til að vinna að kolefnishlutleysi.

Í öllu þessu starfi er þó lögð áhersla á að meginverkefni okkar sé að draga úr losun. Þetta er raunar ein af þeim kröfum sem gerðar eru í Skógarkolefni. Fyrst á viðkomandi aðili að setja sér markmið um að draga úr losun. Kolefniseiningar á eingöngu að nota á móti losun sem viðkomandi getur ekki hætt strax. Áfram á svo að vinna að því að draga úr losun og auðvitað er hið endanlega markmið að hætta henni alveg. Þangað til það verður hægt eru vottaðar kolefniseiningar mikilvægt tæki í loftslagsbaráttunni.

Valkvæður markaður

Kolefnismörkuðum er í grófum dráttum skipt í tvennt eins og staðan er í Evrópu nú. Annars vegar er hinn reglubundni kolefnismarkaður, á alþjóðamali compliance market. Hann felst í því að yfirvöld gefa út tiltekið magn losunarheimilda, carbon allowances, og fyrirtæki þurfa að eiga heimildir fyrir allri sinni losun. Þetta þýðir að þak er sett á mögulega losun viðkomandi fyrirtækis. Reglubundni markaðurinn er eftirlitsmarkaður. Ein losunarheimild samsvarar einu tonni af CO2 og hana má nota á móti einu tonni af CO2 sem losað er út í andrúmsloftið. Þetta er hið svokallaða ETS-kerfi, European Trade System.

Hins vegar er hinn svokallaði valkvæði markaður, á alþjóðamáli voluntary market. Þar er gert ráð fyrir því að fyrirtæki kaupi losunarheimildir til að vega upp á móti eigin losun. Skógarkolefni tilheyrir þessum markaði. Ef fyrirtæki losar eitt tonn af CO2 en kaupir eitt tonn af CO2 sem bundið hefur verið annars staðar telst það hafa kolefnisjafnað viðkomandi tonn. Á valkvæða markaðnum eru aðallega einkaaðilar og í heitinu felst að þessar aðgerðir eru valkvæðar, ekki skylda, hvað svo sem síðar kann að verða. Aukinn þrýstingur á aðgerðir gegn loftslagsbreytingum eykur líkurnar á að einkaaðilar fari þessa leið, m.a. til að bæta ímynd sína svo að viðskiptavinir snúi sér ekki til annarra sem standa sig betur.

Ein af þeim sviðsmyndum sem settar hafa verið upp fyrir Skógarkolefni. Hér er gert ráð fyrir að eigandi verkefnis, til dæmis landeigandi, fjármagni skógræktarverkefnið og þar með verði til vottaðar einingar sem eigandinn getur selt - eða notað á móti eigin losun. Mynd: Skógræktin

Kröfusettið Skógarkolefni

  1. Grundvallarkrafa í Skógarkolefni og sambærilegum verkefnum er svokölluð viðbót. Það þýðir að viðkomandi verkefni verður að leiða til þess að ný binding verði í skógi sem ekki hefði orðið annars. Bindingin er því viðbót (e. additionality) við það sem hefði hvort eð er gerst.
  2. Önnur krafa er svokallaður varanleiki (e. permanence). Bindingin þarf að vara í tiltekinn tíma en ekki endilega út í það óendanlega. Þessi tími er skilgreindur í samningi og skógræktaráætlun viðkomandi verkefnis.
  3. Þriðja hugtakið sem mikilvægt er að átta sig á er svokallaður leki (e. leakage) Verkefnið má ekki leiða til þess að losun verði annars staðar. Þetta þarf að ganga rækilega úr skugga um við gerð samnings og áætlunar.
  4. Í fjórða lagi þarf að vera skýr aðferðafræði um mælanleika (e. measurability) verkefnisins og vöktun þess. Fylgjast verður með því að það sem áætlað er í byrjun verði að raunveruleika þegar þar að kemur.
  5. Fimmta mikilvæga atriðið er gagnsæi (e. transparency) Allar upplýsingar um mælingar og aðferðafræði þurfa að liggja fyrir og vera aðgengilegar á hverjum tíma.
  6. Í sjötta lagi eru úttektirnar (e. audit). Árangur skal tekinn út af óháðum vottunaraðila. Sérfræðingar gera mælingar (sjá fjórða atriðið) og þær mælingar eru meðal þess sem vottunaraðilinn gengur úr skugga um að hafi verið gerðar samkvæmt reglum og áætlunum.
  7. Loks er í sjöunda lagi nauðsynlegt að verkefnið sé skráð (e. registered). Einingar skulu skráðar miðlægt í rafræna skrá. Loftslagsskrá Íslands er slík skrá og má líkja við verðbréfaskrá. Hver kolefniseining fær sína kennitölu og henni fylgja upplýsingar um hvort hún bíður eftir að verða fullgild, er fullgild eða hefur verið notuð á móti losun.

Skógarkolefnisreiknirinn

Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar gerir kleift að áætla á fljótlegan hátt bindingu á hvaða svæði sem er á Íslandi, þar sem skógrækt kemur á annað borð til greina. Mynd: SkógræktinÍ árslok 2020 kynnti Skógræktin einnig mikilvægt hjálpartæki fyrir alla skógræktendur, svokallaðan Skógarkolefnisreikni. Þetta er reiknivél sem byggð er á ítarlegum gögnum sem Skógræktin hefur safnað í áratugi um vöxt og bindingu íslenskra skóga. Í gagnagrunninum eru upplýsingar um veðurfars- og ræktunarskilyrði á öllu láglendi Íslands. Með reiknivélinni má áætla gróflega vöxt og bindingu helstu trjátegunda á hverju því svæði á láglendi landsins sem kemur til greina til skógræktar.

Skógarkolefnisreiknirinn er ekki síst mikilvægt tól til að gera áætlanir um kolefnisbindingu þess skógar sem ráðgert er að rækta. Gögnin sem útreikningarnir eru byggðir á verða að teljast mjög traust enda sendir Skógræktin á hverju ári nýjar tölur um bindingu skóglendis á Íslandi til Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC. Sú vinna fer fram á vegum loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar og fær ævinlega góða einkunn hjá fulltrúum IPPC.

Ef ákveðið er að ráðast í skógræktarverkefni eftir regluverki Skógarkolefnis eru gerðar ítarlegri áætlanir um vöxt og bindingu en fást með Skógarkolefnisreikni. Viðkomandi svæði er tekið út, gerð skógræktaráætlun, trjátegundir valdar og út frá því má áætla með meiri nákvæmni hvað skógurinn muni binda mikið kolefni á samningstímanum.

Skógarkolefnisreikni er að finna á vefnum á slóðinni reiknivel.skogur.is.

Staðlaráð

Unnið er að því að formgera reglur á kolefnismarkaði í samvinnu við Staðlaráð Íslands og Loftslagsráð með þátttöku fjölda fyrirtækja og stofnana. Þetta starf hófst á árinu 2020 með þátttöku Skógræktarinnar og heldur áfram á árinu 2021. Þess er vænst að sú aðferðafræði sem Skógarkolefni byggist á muni verða tekin upp í fleiri verkefnum sem tengjast ábyrgri kolefnisjöfnun.

Fyrirtæki á markaði

Ísland hefur stimplað sig inn víða um heim sem áhugaverður vettvangur fyrir kolefnisbindingarverkefni. Hér er mikil þekking til staðar, vel menntað fólk og stöðugleiki í stjórnkerfi og þjóðmálum. Þá er hér mikið af skóglausu landi sem hentar til skógræktar, bæði nytja- og náttúruskóga.

Á árinu 2020 varð vart við mikinn áhuga erlendra og innlendra fyrirtækja á kolefnisverkefnum með skógrækt á Íslandi. Varla leið sú vika að ekki væri haft samband við Skógræktina til að kanna slíka möguleika. Vottuð kolefnisbinding er þó ekki megináhersla allra þessara aðila. Mikill áhugi virðist vera hjá fólki um allan heim að stöðva eyðingu skóga heimsins og stuðla að því að þeir stækki á ný. Margir vilja leggja fé til slíkra verkefna. Árangur af því er til dæmis skógræktarverkefni One Tree Planted í Breiðdal sem sagt er frá annars staðar í Ársritinu.

En svo eru það fyrirtæki á markaði sem vilja kolefnisjafna sig. Með Skógarkolefni eru tækifærin að aukast. Stór innlend fyrirtæki hafa verið í viðræðum við Skógræktina um vottuð kolefnisverkefni og sömuleiðis eru stórir erlendir aðilar í slíkum viðræðum við stofnunina.

Fyrstu verkefnin í Loftslagsskrá Íslands

Snemma árs 2021 er hægt að upplýsa að nú er unnið að því að skrifa verkefnalýsingar í samræmi við kröfur Skógarkolefnis fyrir tvö kolefnisverkefni sem skráð verða í Loftslagsskrá Íslands. Fleiri eru í farvatninu. Stefnt er að því að fyrsta verkefnið verði skráð í Loftslagsskrá Íslands í júní 2021.

Samstarf um söfnun á birkifræi

Söfnum og sáum birkifræi

Pétur Halldórsson

Skógræktin og Landgræðslan tóku höndum saman á árinu og efndu til landsátaks til söfnunar og sáningar á birkifræi undir kjörorðunum „Söfnum og sáum birkifræi“. Mjög góður árangur náðist í verkefninu og dæmi voru um einstaklinga sem tíndu yfir 20 kíló af fræi hver. Lionsfélagar lögðu samtals um 800 vinnustundir í að safna og sá birkifræi. Stefnt er að því að endurtaka verkefnið að ári.

Askjan sem Prentmet Oddi hannaði og framleiddi fyrir verkefniðStofnanirnar tvær fengu í lið með sér þrjú stöndug fyrirtæki, Bónus, Prentmet Odda og Terra. Prentmet Oddi lagði 10.000 pappaöskjur til verkefnisins sem lágu frammi í Bónusverslunum þar sem einnig voru tunnur frá Terra til að taka við fræinu. Öskjurnar gengu allar út en fólk skilaði fræi líka í annars konar pappaöskjum eða bréf- og taupokum. Auk fyrirtækjanna þriggja var efnt til samstarfs við Lionshreyfinguna, Grænfánaverkefni Landverndar og Skógræktarfélag Íslands.

Á degi íslenskrar náttúru 16. september hófst verkefnið formlega með því að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tíndu formlega fyrstu fræin af birkitrjám á Bessastöðum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra við frætínslu á Bessastöðum á degi íslenskrar náttúru 2020. Ljósmynd: Áskell ÞórissonVerkefnið tókst framar vonum og mikill áhugi reyndist vera hjá þjóðinni að safna og sá birkifræi, sem sást meðal annars á mikilli umferð á Facebook-síðu verkefnisins, Söfnum og sáum birkifræi, og annarri síðu birkiáhugafólks sem sett var upp í haust undir heitinu Birkibændur. Söfnunin naut töluverðrar athygli fjölmiðla og tvö fræðslumyndbönd sem Skógræktin sá um að gera, annað um söfnun á birkifræi og hitt um sáningu þess, voru mikið nýtt, sérstaklega það fyrrnefnda sem hátt í 30.000 manns sáu.

Nemendur í MA tína birkifræ. Ljósmynd: Guðjón Andri GylfasonSkólahópar allt frá leikskóla upp í framhaldsskóla, fóru út að tína fræ, tuttugu Lionsklúbbar á landinu lögðu um 800 vinnustundir í fræsöfnun og -dreifingu og tugir sjálfboðaliða dreifðu fræi í landi Kópavogsbæjar í Selfjalli í Lækjarbotnum tvo laugardaga í október, þótt veirufaraldurinn COVID-19 kæmi í veg fyrir að hægt væri að senda stóra hópa til frædreifingar þegar á leið. En tíðarfarið í haust var verkefninu mjög hagstætt og sömuleiðis var árið 2020 gott fræár hjá flestum trjátegundum víða um land. Þó var heldur lítið af fræi á birki á Norðurlandi og mjög lítið á Austurlandi sem endurspeglaðist í magninu sem þaðan kom.

Gróflega var áætlað að um 270 kíló af fræi hefðu skilað sér, mest á suðvesturhorninu, eða rúmlega fjórðungur úr tonni. Myndarlegur haugur varð til í húsakynnum Skógræktarfélags Kópavogs sem Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri félagsins, sá um að þurrka og gera klárt til dreifingar. Stefnt er að því að lokið verði að koma öllu því fræi til dreifingar vorið 2021, bæði með vél- og handsáningum.

Fræhaugur safnaðist í húsnæði Skógræktarfélags Kópavogs en alls er áætlað að fjórðungur úr tonni af fræreklum hafi safnast í söfnuninni. Ljósmynd: Áskell ÞórissonEnn erfiðara er að áætla hversu miklu fræi fólk sáði víða um land á eigin spýtur en miðað við frásagnir og myndir fólks á samfélagsmiðlum, fregnir frá Lionsfólki og fleiri tíðindi sem borist hafa er mikið fræ komið í jörð hér og þar um landið sem vonandi mun spíra vel að vori. Besti árangurinn af verkefni sem þessu væri sá að það yrði einhvers konar þjóðaríþrótt meðal landsmanna að safna efniviði í aukna útbreiðslu skóga og koma honum af stað úti í náttúrunni.

Allir til í tuskið aftur að ári

Samstarfsaðilar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í þessu verkefni eru ánægðir með árangurinn og hafa lýst áhuga á að halda því áfram. Sem fyrr segir er Skógræktarfélag Íslands með í samstarfinu og af aðildarfélögum þess hvíldi mestur þunginn á Skógræktarfélagi Kópavogs sem lagði drjúgan skerf til verkefnisins. Bónus, Terra og Prentmet Oddi hyggjast taka þátt í átaki um birkifræsöfnun og -sáningu næsta haust og sömuleiðis Lionshreyfingin og Landvernd. Næstu misseri verður unnið að því að útfæra verkefnið enn betur, meðal annars með aukinni þátttöku skólafólks, Lionsklúbba og fleiri félagasamtaka. Jafnframt verður hugað betur að því hvernig gera megi fólki kleift að dreifa fræi á eigin spýtur á svæðum sem tilgreind verða og auglýst til frædreifingar.

Upphaf frædreifingar í Selfjalli í Lækjarbotnum. Ljósmynd: Kristinn H. Þorsteinsson

Trjáknús – ráð gegn COVID-19

Knúsum tré

Pétur Halldórsson

Þegar kórónuveirufaraldurinn COVID-19 fór að sverfa fyrir alvöru að Íslendingum á vordögum 2020 kom upp sú hugmynd hjá Skógræktinni að hvetja landsmenn til að leita huggunar gegn veirufárinu með því að knúsa tré. Reynið, og þið munuð finna! voru skilaboðin

Kveikjan að þessu átaki Skógræktarinnar var mynd sem Bjarki Sigurðsson, verkstjóri hjá skógarverðinum á Austurlandi, birti á samfélagsmiðlum með svipuðum skilaboðum. Þetta voru erfiðir tímar, kórónuveiran hrelldi þjóðina, aðskildi fólk og bældi niður þjóðfélagið. Fólk var beðið að forðast nánd og snertingu, þar á meðal að faðmast eða knúsa hvert annað. En þá bjuggu tækifærin í skóginum eins og svo oft vill verða. Skógarnir hafa svör við ýmsum af vandamálum okkar mannanna. Trjáknús er til dæmis heilandi og læknandi athöfn.

Aðgæsla vegna smits

Í tengslum við átakið var bent á að ákveðna aðgæslu þyrfti til að vinsæl knústré beri ekki kórónuveirusmit. Nóg væri af trjánum þannig að fólk þyrfti ekki að faðma sama tréð. Ekki þyrfti endilega að velja fyrsta tréð sem fólk fyndi við göngustíginn heldur væri gott að fara inn í skóginn.

En trjáknús þarf ekki að vera bundið við veirufaraldur. Gleði- og heilsuáhrif af trjáknúsi eiga við á öllum tímum. Tréð þarf ekki að vera stórt og svert. Það má alveg vera í öllum stærðum en aðalatriðið er að knúsa það dálítið. Það er mjög gott líka að loka augunum á meðan maður er að faðma eða knúsa tré. „Ég halla nú kinninni að trénu og finn hlýjuna og straumana streyma frá trénu yfir í mig. Það er alveg greinilegt,“ sagði Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi þegar Sjónvarpið heimsótti Hallormsstað og gerði frétt um trjáknúsið 8. apríl 2020.

Gætið þess að knúsa ekki bara augnablik. Takið utan um tréð og bíðið þangað til þið farið að finna hvernig lífsmagnið fer að streyma í ykkur úr trénu.

Þetta virkar, sannið þið til! Hér fyrir neðan eru myndir af starfsfólki Skógræktarinnar, aðstandendum og vinum Skógræktarinnar við þessa nytsömu iðju, að knúsa tré. Trjáknúsarar allra landa sameinist! Knúsum tré og útbreiðum skóga heimsins á ný. Klæðum landið!

Flýgur fiskisagan!

Sú hvatning Skógræktarinnar til fólks í veirufárinu að fara út og knúsa tré til að njóta útiveru í skógarumhverfi  vakti sannarlega athygli í fjölmiðlum hér innanlands og á samfélagsmiðlum. Tímaritið Iceland Review fjallaði um þetta átak eftir að sjónvarpsviðtalið birtist við skógarvörðinn og aðstoðarskógarvörðinn á Hallormsstað. Í framhaldi af því tóku erlendir fjölmiðlar upp þráðinn og höfðu nokkrir samband beint við Skógræktina til að forvitnast. Patricia Karvelas hjá ástralska ríkisútvarpinu, ABC Radio National, tók til dæmis viðtal við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem sagði átakið til gamans gert og til að hvetja fólk til að nýta skógana til útivistar.

Svipaða sögu er að segja af skemmtilegu viðtali á svæðismiðli bandaríska fjölmiðlarisans CBS í Sacramento í Kaliforníu. Í morgunþætti stöðvarinnar, Good Day Sacramento, ræddi sjónvarpsmaðurinn Cody Stark við Þröst um sama efni. Þar var Þröstur spurður að því hvort hann hefði talaði við Björk Guðmundsdóttur nýlega og hann sagðist vissulega hafa talað við Björk í fyrrasumar en svo væri systir hans líka skólasystir Bjarkar. Þar með ku sjónvarpsmaðurinn hafa unnið veðmál við vinnufélaga sinn um að Þröstur hefði örugglega hitt Björk. Cody spurði líka hvort hann gæti fengið mynd af sér að knúsa tré birta á skogur.is og það var að sjálfsögðu velkomið. Í myndasafninu hér fyrir neðan má finna kappann að knúsa myndarlegt pálmatré í blíðunni eilífu í Sacramento.

Miðlar víða um lönd fjölluðu um málið og hér eru nokkur dæmi. Einnig má sjá dæmi um viðbrögð fólks hér heima og erlendis á Facebook með því að nota myllumerkið #knusumtre.

 

 

 

Starfsfólk Skógræktarinnar 2020

Nöfn starfsmanna og ársverk

Hér er listi yfir starfsfólk sem var á launaskrá hjá Skógræktinni allt árið 2020 eða hluta ársins, hvort sem það var fullt starf eða hlutastarf.

Stöðugildi eða ársverk hjá Skógræktinni á á árinu 2019 voru 65 og hálft.

NAFN STARF STARFSTÖÐ SVIÐ
Aðalheiður Bergfoss bókari aðalskrifstofa rekstur
Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri aðalskrifstofa/Reykjavík yfirstjórn
Alexander Máni Gautason verkamaður Mógilsá rannsóknir
Andri Þór Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Aníta Mjöll Ásgeirsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Anna Pálína Jónsdóttir launafulltrúi aðalskrifstofa rekstur
Antonía Þóra Antonsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Arnlín Þuríður Óladóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturl./Vestfjörðum skógaþjónusta
Arnór Snorrason sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Astrid Maria Stefánsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Ásmundur Smári Ragnarsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Benedikt Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Benjamín Örn Davíðsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Bergsveinn Þórsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Bjarki Benediktsson verkamaður Mógilsá rannsóknir
Bjarki Sigurðsson verkstjóri þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Bjarki Þór Kjartansson sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Bjarni Hjaltason verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Björg Björnsdóttir mannauðsstjóri aðalskrifstofa rekstur
Björn Bjarndal Jónsson verkefnastjóri Suðurland rekstur
Björn Traustason sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Bragi Halldórsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Brynja Hrafnkelsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Brynjar Skúlason sérfræðingur Mógilsá/Akureyri rannsóknir
Charles Josef Goemans verkefnisstjóri Þórsmörk þjóðskógar
Edda Sigurdís Oddsdóttir sviðstjóri Mógilsá rannsóknir
Einar Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Eiríkur Kjerulf skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Ellert Arnar Marísson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Erna Sigrún Valgeirsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Fjölnir Brynjarsson aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá/Akureyri rannsóknir
Francisco De B. Yanez Barnuevo skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Freyja Sól Bessadóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Gunnar Darri Bergvinsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Gunnar Már Atlason aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Gunnlaugur Guðjónsson sviðstjóri aðalskrifstofa rekstur
Halldór Sverrisson sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Hallur S Björgvinsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Harpa Dís Harðardóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa/Selfoss rekstur
Hjalti Snær Árnason verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógasvið
Hjördís Jónsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Hlynur Gauti Sigurðsson verkefnastjóri aðalskrifstofa/Reykjavík rekstrarsvið
Hrafn Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Hraundís Guðmundsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Hrefna Hrólfsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Hrefna Jóhannesdóttir skipulagsfulltrúi skógarþjónusta Norðurlandi rekstur
Hreinn Óskarsson sviðstjóri þjóðskógar/Selfoss þjóðskógasvið
Hrönn Guðmundsdóttir verkefnastjóri Suðurland þjóðskógasvið
Huldar Trausti Valgeirsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógasvið
Illugi Örvar Sólveigarson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Inga María Hauksdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógasvið
Isidore Jean Lou L. Maisonneuve verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Ísak Steingrímsson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógasvið
Johan Wilhelm Holst skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Jóhannes H Sigurðsson aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Jón Auðunn Bogason skógarvörður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógasvið
Jón Þór Birgisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Jón Þór Tryggvason verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógasvið
Jónas Ásólfur J. Schougaard verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Kjetil Vatne Nybö verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógasvið
Kristjana Björnsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vestfjörðum skógarþjónusta
Laufey Rún Þorsteinsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Lucile Delfosse verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Magnús Fannar Guðmundsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Maria Danielsdóttir Vest skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarþjónusta
Martina Kasparová verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógasvið
Narfi Hjartarson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógasvið
Níels Magnús Magnússon skógarhöggsmaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógasvið
Ólafur Eggertsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi aðalskrifstofa/Reykjavík samhæfingarsvið
Ólafur Stefán Arnarsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Ólöf Inga Sigurbjartsdóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa rekstur
Pavle Estrajher verkamaður þjóðskógar Vesturlandi þjóðskógar
Pétur Halldórsson kynningarfulltrúi aðalskrifstofa/Akureyri rekstur
Rakel Jakobína Jónsdóttir sérfræðingur Mógilsá/Akureyri rannsóknir
Rúnar Ísleifsson skógarvörður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Sigfús Jörgen Oddsson skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sviðstjóri skógarþjónusta/Ísafjörður skógarþjónusta
Sigurður E Kjerulf vélsmiður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Sigurður Ingi Arnarsson aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Sigurður Valur Ásbjarnarson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Sigurlaug Eir Þórsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Silja Björk Blöndal verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Snorri Már Vagnsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Snorri Páll Jóhannsson skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Svanhvít Jóhanna Jóhannsdóttir aðstoðarmaður sérfræðinga skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Sverrir Baldur Torfason aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknir
Sylvía Rós Hermannsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Sæmundur Kristján Þorvaldsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Teitur Davíðsson skógarhöggsmaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Trausti Jóhannsson skógarvörður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Vala Garðarsdóttir bókari aðalskrifstofa rekstur
Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarþjónusta
Valgeir Davíðsson aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar
Valgerður Anna Jónsdóttir verkefnastjóri skógarþjónusta Norðurlandi skógarþjónusta
Valgerður Erlingsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarþjónusta
Viktor Steingrímsson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi skógarþjónusta
Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknir
Þór Þorfinnsson skógarvörður þjóðskógar Austurlandi þjóðskógar
Þórður Ingi Sigurjónsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi þjóðskógar
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri aðalskrifstofa yfirstjórn
Þuríður Davíðsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi þjóðskógar