Fara í efni

Gengið til skógar 2020

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Ekki er að öllu leyti fyrirsjáanlegt hvernig árin verða, enda höfum við öll gaman af sjálfskipuðum völvum sem skemmta sér og öðrum við að ljúga til um framtíðina. Minna var fyrirsjáanlegt um árið 2020 en flest önnur. Enginn átti von á heimsfaraldri nýrrar veiru sem setti allt á annan endann.

Mannamót voru bönnuð, reyndar eftir að Skógræktin var nýlega búin að halda starfsmannafund sinn. Fagráðstefnu var í bjartsýniskasti frestað, en síðan aflýst þegar faraldurinn var enn í gangi um haustið. Skógardagurinn mikli var ekki haldinn og svo mætti lengi telja. Öll lærðum við að funda á tölvunum, þar sem Skógræktin stóð reyndar vel að vígi, enda tekið þann sið upp áður.

Skógræktin gerði líka sitt til að hjálpa til. Trjáknúsið, úr því að ekki mátti faðma fólk, sem Bjarki Sigurðsson stakk upp á vakti mikla athygli og fór um allan heim. Myndskeið af skógarverðinum á Hallormsstað í tvíræðum faðmlögum við lindifuru urðu heimsfrægar og skógræktarstjóri hvatti til náinna kynna við tré og gönguferða í skógi í viðtölum í Kaliforníu, Ástralíu og Suður-Kóreu.

Ferðalög á milli landa urðu nánast engin og útlendingar hættu að koma. Hins vegar ferðuðust Íslendingar um land sitt sem aldrei fyrr og metaðsókn var að tjaldsvæðunum í þjóðskógunum. Vegna hruns ferðaþjónustunnar fór ríkisstjórnin í aðgerðir til að efla hagkerfið og draga úr atvinnuleysi. Þær höfðu þau áhrif hjá Skógræktinni að hægt var að ráða fleira sumarstarfsfólk en ella, auk þess sem peningar komu til að láta framleiða og gróðursetja hálfa milljón birkiplantna umfram það sem áætlað hafði verið. Var það nokkurt átak en tókst með góðum anda starfsfólks og samstarfi við plöntuframleiðendur og fleiri aðila. Segja má að Skógræktin hafi komið ágætlega út úr pláguárinu 2020, ekki síst þar sem enginn starfsmaður Skógræktarinnar veiktist af kórónaveirunni.

Þessi borði birtist á forsíðum bæði vefs Skógræktarinnar og Facebook-síðu stofnunarinnar í tengslum við knúsátakið sem ætlað var að veita gleði í veirufárinu og hvetja fólk til útivistar í skógi

Mikil gerjun var í tengslum við þátt skógræktar í loftslagsmálum á árinu 2020, enda er fólk smám saman að átta sig á því að kolefnishlutleysi verði ekki náð nema með miklu framlagi skógræktar. Um er að ræða tvennt. Annars vegar er það skuldbinding á Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir samdrætti á kolefnislosun Íslands um 29% fyrir árið 2030 miðað við tímabilið 2005-2009. Í því samkomulagi er einnig að finna markmið um að losun frá landnotkun, breytingum á landnotkun og skógrækt (LULUCF) verði engin orðin (nettó núll) árið 2030. Í meginatriðum þýðir það að kolefnisbinding með skógrækt þarf að vega að fullu á móti allri losun frá framræstu landi og rýrlendi sem notað er til beitar.

Hins vegar er það kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Þar eru engin viðmiðunarár, aðeins að nettókolefnislosun af mannavöldum verði núll. Þar mun skógrækt hafa enn mikilvægara hlutverki að gegna. Þar mun einnig reyna á frjósama hugsun og dugnað við að koma hlutunum í verk. Er sú vinna hafin með hönnun kolefnisreiknis, gerð vottunarstaðals Skógarkolefnis og undirbúningi að kolefnismarkaði auk þess sem unnið var að þróun Kolefnisbrúarinnar með LSE.

Erlent fjármagn

Samningur var gerður við samtökin One Tree Planted í Bandaríkjunum um að rækta skóga á Ormsstöðum í Breiðdal. Þetta verður ein snarpasta gróðursetning sem þekkst hefur hérlendis þar sem til stendur að gróðursetja í 140 ha á tveimur árum. Erlendir aðilar hafa sýnt skógrækt á Íslandi aukinn áhuga og líklegt er að fleiri komi til sögunnar á næstunni.

Á Ormsstöðum kostaði 10 milljónir króna að girða, sem verða u.þ.b. 20% af heildarstofnkostnaði skógræktarinnar á staðnum. Svipað gildir um aðra skógrækt svo ekki sé talað um vegagerð, landgræðslusvæði og alla þéttbýlisstaði landsins. Þessi kostnaður stafar eingöngu af fyrirkomulagi sauðfjárræktar – lausagöngu. Við blasir að gera þurfi breytingar á og það eru sauðfjárbændur sjálfir sem þurfa að finna nýjar leiðir sem þeir geta lifað við og koma breytingunum í framkvæmd. Í því skyni tekur Skógræktin þátt í tveimur verkefnum, Loftslagsvænum landbúnaði og nefnd um úrbætur í girðingarmálum. Það er bráðnauðsynlegt að þessi vinna skili sér í breytingum.

Sala arinviðar dróst saman á árinu, en ýmis skemmtilegheit tengdust þó timburframleiðslu. Efnt var í tvö verkefni sem kröfðust stórviðar, stoðir bálskýlis í Vaglaskógi og göngubrú úr límtré yfir Þjórsá við Þjófafoss. Í báðum tilvikum var efnið sótt í sitkagreniskóga þar sem finna mátti há og sver tré. Það sannast æ betur að sitkagreni er okkar vænlegasta timburtré. Þá voru 40 m3 af kurli fluttir út til Færeyja og var það í fjórða skipti sem slíkur útflutningur átti sér stað. Í vinnu við gerð Landsáætlunar í skógrækt skrifaði ég í texta um viðarnytjar að útflutningur væri þar einn möguleikinn. Einn nefndarmanna dró það stórlega í efa að slíkt væri mögulegt. Gat ég þá bent á að slíkt væri ekki aðeins fjarlægur draumur heldur þegar raunin. Fordómar þess efnis að tré geti ekki vaxið á Íslandi eru enn einhvern veginn hluti af þjóðarsálinni og taka á sig ýmsar birtingarmyndir, en þær eyðast hægt og bítandi í hvert skipti sem við sýnum fram á ný mannvirki úr innlendu timbri eða aðra nýja möguleika.

Merkir áfangar

Haldið var upp á aldarafmæli friðunar Þórsmerkur. Hundrað ára skógunum okkar fjölgar óðum og um leið trjám sem komin eru á aðra öldina. Ekki náði hæsta tré landsins, sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, þrjátíu metrunum þó, en að því er aaaaalveg að koma.

Gróðursetning jókst og náði loks að komast yfir 4 milljónir plantna í fyrsta sinn síðan 2010. Voru það skógarbændur í verkefninu Skógrækt á lögbýlum sem gróðursettu mest auk þess sem Hekluskógar og önnur samstarfsverkefni skiluðu sínu. Það stefnir í 5 milljónir árið 2021.

Margar áhugaverðar rannsóknaniðurstöður litu dagsins ljós á árinu og starfsfólk jók menntunarstig stofnunarinnar með doktorsgráðu, tveimur meistaragráðum og einni bakkalárgráðu. Þetta eru framfarir sem máli skipta.

Í samstarfi við Landgræðsluna fór fram birkifræsöfnun haustið 2020. Hún vakti geysimikla athygli almennings og margir tóku þátt í henni. Um leið var fræi safnað af völdum kvæmum birkis til plöntuframleiðslu, auk stafafuru- og sitkagrenifræs. Eflaust verður fræsöfnun almennings endurtekin, en framvegis verður að taka aðra fræsöfnun fastari tökum því aukin plöntuframleiðsla krefst meira hráefnis. Ekki má heldur slá slöku við um gæði fræsins, bæði erfðafræðilega séð og hvað varðar spírun. Með aukinni gróðursetningu þarf að leggja meiri áherslu á þau mál.

Árið 2021 byrjar sem pláguár 2 og ljóst að hlutirnir verða ekki komnir í samt lag fyrr en seint á árinu í fyrsta lagi. Á meðan vinnur Skógræktin sína vinnu, ræktar meiri skóg og stuðlar að framþróun skógræktar í þágu lands og þjóðar.