Fara í efni

Gengið til skógar 2022

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóriTvenn tímamót urðu í íslenskri skógrækt á árinu 2022. Snemma á árinu var tilkynnt að þekja skóga og kjarrs hefði náð 2% af flatarmáli landsins. Er það skv. mælingum og útreikningum Íslenskrar skógarúttektar (ÍSÚ) á Mógilsá. Þessu var vel fagnað af ráðstefnugestum á fyrstu Fagráðstefnu skógræktar eftir Covid-19 faraldurinn, sem haldin var á Hótel Geysi. Í lok sumars náði svo íslenskt tré í fyrsta sinn 30 m hæð. Var það sitkagrenitré í reitnum við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri, sem um nokkur ár hefur verið hæsta tré Íslands. Haldið var upp á þetta með veglegum hætti. Forsætisráðherra kom og mældi tréð, með dyggri aðstoð ÍSÚ-manna og tækja, Skógræktarfélag Íslands útnefndi það tré ársins, ræður voru haldnar og tónlist spiluð og sungin.

Að mælitölur nái heilum tugum er í sjálfu sér aðeins merkilegt af því að það gefur tilefni til að segja frá. Það er enginn sýnilegur munur á 1,99% eða 2%, eða þá 29,8 m eða 30 m. Miklu frekar er gildi slíkra talna táknrænt. Þær þýða að við erum að ná árangri í að klæða landið meiri skógi og að trén okkar vaxa vel. Slíkt er vissulega tilefni til að koma saman og fagna.

Undirritaður var fyrir löngu búinn að ákveða að hætta að vinna þegar hann kæmist á eftirlaunaaldur í ágúst 2022. Samkvæmt því ritaði hann tilkynningu þar að lútandi til matvælaráðuneytisins sex mánuðum áður. Til baka kom svar þar sem starfslokunum var hvorki fagnað né þau hörmuð, en tilkynnt að til stæði að skoða sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Því yrði ekki auglýst eftir nýjum skógræktarstjóra. Frekar en að einhver væri settur í embætti skógræktarstjóra til bráðabirgða ákvað ég að bjóðast til að vera áfram. Því var vel tekið og því er ég hér að ganga til skógar einu sinni enn.

Árið 2022 markaðist einmitt sterklega af undirbúningi sameiningarinnar. Fyrst var skipuð nefnd á vegum ráðuneytisins til að skoða kosti og galla sameiningarinnar. Skilaði hún þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að sameina þrátt fyrir nokkurn áherslumun og menningarmun á milli stofnananna tveggja. Í september tilkynnti svo Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að stefnt skyldi að sameiningu. Það gerði hún fyrst á sameiginlegum fundi allra starfsmanna beggja stofnananna, áður en það var gert opinbert fyrir alþjóð. Um leið var tilkynnt um nokkur grundvallaratriði, svo sem að ekki stæði til að segja upp starfsfólki og að ný stofnun myndi framfylgja bæði nýlegum lögum og stefnumörkun ríkisins, sem þegar lægi fyrir. Því yrði ekki um faglega stefnubreytingu í málefnum skógræktar og landgræðslu að ræða. Þá yrði staðsetning höfuðstöðva nýrrar stofnunar látin liggja á milli hluta og ráðast eftir ráðningu nýs forstjóra. Í ráðuneytinu var svo gengið til verks við að semja lagafrumvarp sem formfesti þetta allt saman. Drög að frumvarpi lágu fyrir í desember 2022. Var það lagt fram á Alþingi í febrúar 2023 og samþykkt sem lög frá Alþingi 9. júní 2023. Framhaldið bíður næsta „Gengið til skógar“.

Annað stjórnsýslulegs eðlis sem talsvert bar á á árinu 2022 var að matvælaráðuneytið setti saman fyrstu opinberu stefnumörkun íslenska ríkisins í skógrækt og landgræðslu. Endanleg stefna og aðgerðaráætlun bar heitið Land og Líf og var gefin út af ráðherra í ágústmánuði 2022. Hún samanstóð af landsáætlun í skógrækt og landgræðsluáætlun, sem unnar höfðu verið á undangengnum þremur árum af nefndum undir stjórn skógræktarstjóra annars vegar og landgræðslustjóra hins vegar. Áður var stefnumótun í þessum málaflokkum á vegum stofnananna sjálfra og undir hælinn lagt hvort nokkur tók yfirleitt mark á þeim, þar sem þær höfðu lítið stjórnsýslulegt vægi. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort mark verður tekið á Landi og lífi.

Unnið var áfram að þróa verkefni í kolefnisbindingu með vottun skv. kröfusetti Skógarkolefnis. Í lok árs var fyrsta verkefnið til vottunar staðfest af vottunarstofu. Það þýddi að fljótlega eftir áramót urðu til kolefniseiningar í bið sem hægt væri að skrá og setja á markað. Þær fyrstu voru seldar í janúar 2023.

Gróðursetning hélt áfram að aukast og líklegt að náðst hafi að gróðursetja um 6 milljónir trjáa á landinu árið 2022. Var gróðursetning þá aftur komin upp í það hámark sem náðist á árunum 2006-2008. Unnið var í því að hvetja gróðrarstöðvar til að auka framleiðslugetu sína og það gekk eftir. Einnig fór af stað undirbúningsvinna að stofnun nýrra gróðrarstöðva, sem á enn eftir að skila sér þegar þetta er skrifað.

Annað sem vantar ef auka á gróðursetningu er fjölgunarefni og fór allmikil vinna í að auka öflun þess. Í fyrsta sinn var mikil áhersla lögð á beina stungu aspargræðlinga, en slíkt hafði borið ágætan árangur í tilraunum og nokkrum prufustungum. Þá voru lagðir út reitir fyrir framleiðslu aspargræðlinga sem munu skila sér á komandi árum. Sýnt var fram á að græðlingaræktun lerkiblendingsins Hryms gæti gengið og verður það verkefni komandi ára að koma honum í magnframleiðslu.

Mesta átakið var þó fræsöfnun um haustið. Gott fræár var hjá grenitegundum og birki á Norður- og Austurlandi, eftir hlýtt sumar þar árið 2021, og von var til þess að einhver spírun væri í lerkifræi. Eins og venjulega var hvað mest áhersla lögð á að safna stafafurufræi og birgðir til nokkurra ára fengust af góðum kvæmum sitkagrenis og sitkabastarðs. Einnig safnaðist nokkuð af blágrenifræi, það fyrsta í mörg ár. Nóg var safnað af lerkifræi til að hægt væri að senda það til Svíþjóðar í hreinsun. Þótt spírun þess væri ekki nema um 10% verður þó til nægilegt hreinsað fræ til að sá í gróðrarstöðvum.

Margt fleira mætti telja upp, en það er í raun ekki markmið þessa pistils. Nægir að enda á því að árið 2022 var farsælt til framþróunar skógræktar á Íslandi.