Ávarp skógræktarstjóra
Gengið til skógar 2022
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri
Tvenn tímamót urðu í íslenskri skógrækt á árinu 2022. Snemma á árinu var tilkynnt að þekja skóga og kjarrs hefði náð 2% af flatarmáli landsins. Er það skv. mælingum og útreikningum Íslenskrar skógarúttektar (ÍSÚ) á Mógilsá. Þessu var vel fagnað af ráðstefnugestum á fyrstu Fagráðstefnu skógræktar eftir Covid-19 faraldurinn, sem haldin var á Hótel Geysi. Í lok sumars náði svo íslenskt tré í fyrsta sinn 30 m hæð. Var það sitkagrenitré í reitnum við Systrafoss á Kirkjubæjarklaustri, sem um nokkur ár hefur verið hæsta tré Íslands. Haldið var upp á þetta með veglegum hætti. Forsætisráðherra kom og mældi tréð, með dyggri aðstoð ÍSÚ-manna og tækja, Skógræktarfélag Íslands útnefndi það tré ársins, ræður voru haldnar og tónlist spiluð og sungin.
Að mælitölur nái heilum tugum er í sjálfu sér aðeins merkilegt af því að það gefur tilefni til að segja frá. Það er enginn sýnilegur munur á 1,99% eða 2%, eða þá 29,8 m eða 30 m. Miklu frekar er gildi slíkra talna táknrænt. Þær þýða að við erum að ná árangri í að klæða landið meiri skógi og að trén okkar vaxa vel. Slíkt er vissulega tilefni til að koma saman og fagna.
Undirritaður var fyrir löngu búinn að ákveða að hætta að vinna þegar hann kæmist á eftirlaunaaldur í ágúst 2022. Samkvæmt því ritaði hann tilkynningu þar að lútandi til matvælaráðuneytisins sex mánuðum áður. Til baka kom svar þar sem starfslokunum var hvorki fagnað né þau hörmuð, en tilkynnt að til stæði að skoða sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Því yrði ekki auglýst eftir nýjum skógræktarstjóra. Frekar en að einhver væri settur í embætti skógræktarstjóra til bráðabirgða ákvað ég að bjóðast til að vera áfram. Því var vel tekið og því er ég hér að ganga til skógar einu sinni enn.
Árið 2022 markaðist einmitt sterklega af undirbúningi sameiningarinnar. Fyrst var skipuð nefnd á vegum ráðuneytisins til að skoða kosti og galla sameiningarinnar. Skilaði hún þeirri niðurstöðu að skynsamlegt væri að sameina þrátt fyrir nokkurn áherslumun og menningarmun á milli stofnananna tveggja. Í september tilkynnti svo Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að stefnt skyldi að sameiningu. Það gerði hún fyrst á sameiginlegum fundi allra starfsmanna beggja stofnananna, áður en það var gert opinbert fyrir alþjóð. Um leið var tilkynnt um nokkur grundvallaratriði, svo sem að ekki stæði til að segja upp starfsfólki og að ný stofnun myndi framfylgja bæði nýlegum lögum og stefnumörkun ríkisins, sem þegar lægi fyrir. Því yrði ekki um faglega stefnubreytingu í málefnum skógræktar og landgræðslu að ræða. Þá yrði staðsetning höfuðstöðva nýrrar stofnunar látin liggja á milli hluta og ráðast eftir ráðningu nýs forstjóra. Í ráðuneytinu var svo gengið til verks við að semja lagafrumvarp sem formfesti þetta allt saman. Drög að frumvarpi lágu fyrir í desember 2022. Var það lagt fram á Alþingi í febrúar 2023 og samþykkt sem lög frá Alþingi 9. júní 2023. Framhaldið bíður næsta „Gengið til skógar“.
Annað stjórnsýslulegs eðlis sem talsvert bar á á árinu 2022 var að matvælaráðuneytið setti saman fyrstu opinberu stefnumörkun íslenska ríkisins í skógrækt og landgræðslu. Endanleg stefna og aðgerðaráætlun bar heitið Land og Líf og var gefin út af ráðherra í ágústmánuði 2022. Hún samanstóð af landsáætlun í skógrækt og landgræðsluáætlun, sem unnar höfðu verið á undangengnum þremur árum af nefndum undir stjórn skógræktarstjóra annars vegar og landgræðslustjóra hins vegar. Áður var stefnumótun í þessum málaflokkum á vegum stofnananna sjálfra og undir hælinn lagt hvort nokkur tók yfirleitt mark á þeim, þar sem þær höfðu lítið stjórnsýslulegt vægi. Tíminn á eftir að leiða í ljós hvort mark verður tekið á Landi og lífi.
Unnið var áfram að þróa verkefni í kolefnisbindingu með vottun skv. kröfusetti Skógarkolefnis. Í lok árs var fyrsta verkefnið til vottunar staðfest af vottunarstofu. Það þýddi að fljótlega eftir áramót urðu til kolefniseiningar í bið sem hægt væri að skrá og setja á markað. Þær fyrstu voru seldar í janúar 2023.
Gróðursetning hélt áfram að aukast og líklegt að náðst hafi að gróðursetja um 6 milljónir trjáa á landinu árið 2022. Var gróðursetning þá aftur komin upp í það hámark sem náðist á árunum 2006-2008. Unnið var í því að hvetja gróðrarstöðvar til að auka framleiðslugetu sína og það gekk eftir. Einnig fór af stað undirbúningsvinna að stofnun nýrra gróðrarstöðva, sem á enn eftir að skila sér þegar þetta er skrifað.
Annað sem vantar ef auka á gróðursetningu er fjölgunarefni og fór allmikil vinna í að auka öflun þess. Í fyrsta sinn var mikil áhersla lögð á beina stungu aspargræðlinga, en slíkt hafði borið ágætan árangur í tilraunum og nokkrum prufustungum. Þá voru lagðir út reitir fyrir framleiðslu aspargræðlinga sem munu skila sér á komandi árum. Sýnt var fram á að græðlingaræktun lerkiblendingsins Hryms gæti gengið og verður það verkefni komandi ára að koma honum í magnframleiðslu.
Mesta átakið var þó fræsöfnun um haustið. Gott fræár var hjá grenitegundum og birki á Norður- og Austurlandi, eftir hlýtt sumar þar árið 2021, og von var til þess að einhver spírun væri í lerkifræi. Eins og venjulega var hvað mest áhersla lögð á að safna stafafurufræi og birgðir til nokkurra ára fengust af góðum kvæmum sitkagrenis og sitkabastarðs. Einnig safnaðist nokkuð af blágrenifræi, það fyrsta í mörg ár. Nóg var safnað af lerkifræi til að hægt væri að senda það til Svíþjóðar í hreinsun. Þótt spírun þess væri ekki nema um 10% verður þó til nægilegt hreinsað fræ til að sá í gróðrarstöðvum.
Margt fleira mætti telja upp, en það er í raun ekki markmið þessa pistils. Nægir að enda á því að árið 2022 var farsælt til framþróunar skógræktar á Íslandi.
RANNSÓKNIR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar fyrir árið 2022
Edda Sigurdís Oddsdóttir
Á undanförnu ári hefur borið þó nokkuð á gagnrýni á hlutverk skógræktar í umhverfis- og loftslagsmálum Íslands. Gagnrýni er í eðli sínu ekki af hinu slæma, enda felst það í orðinu, að rýna til gagns. Það er hins vegar mikilvægt að gagnrýni sé réttmæt og byggð á áreiðanlegum staðreyndum en ekki eingöngu skoðunum hvers og eins. Því hefur vísinda- og rannsóknastarf í skógrækt sjaldan verið mikilvægara, enda stuðlar slíkt starf að sannreyndri þekkingu og framþróun skógræktar. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, sinnir rannsóknastarfi og þekkingaröflun í þágu skógræktar og skógverndar á Íslandi. Rannsóknir Mógilsár helgast af faglegri þekkingarþörf skógræktar og vísindalegum gæðakröfum. Áfram verður unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi Mógilsár í stefnumörkun Skógræktarinnar og áhersla lögð á að
- stunda öflugar og sjálfstæðar rannsóknir er lúta að skógrækt og skógvernd
- birta rannsóknaniðurstöður, í alþjóðlega ritrýndum fræðatímaritum og á innlendum vettvangi
- hefja rannsóknaverkefni þar sem nýrrar þekkingar er þörf og afla til þeirra styrkja
- veita sérfræðiþjónustu á sviðum sem snerta skógrækt og skógvernd
Aðalstarfstöð rannsóknasviðs er á Mógilsá en rannsóknir eru stundaðar um allt land. Stór hluti verkefna rannsóknasviðs flokkast sem hagnýt verkefni, þar sem leitast er við að finna lausnir á vandamálum í íslenskri skógrækt og þróa aðferðir við skógrækt og úrvinnslu afurða. Vöktunarverkefni eru annar flokkur verkefna þar sem fylgst er með breytingum sem verða á skógi og umhverfi hans, ekki síst til lengri tíma. Einnig eru stundaðar grunnrannsóknir, sem miða að því að afla upplýsinga til að auka skilning á skógi og vistkerfum hans og svo er lítill hluti rannsókna sem flokkast sem þjónusturannsóknir en þær eru unnar að beiðni utanaðkomandi aðila.
Í upphafi ársins 2022 störfuðu fjórtán starfsmenn við Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, þar af tveir með starfstöð á Akureyri og einn með starfsstöð á Egilsstöðum. Helena Marta Stefánsdóttir skógfræðingur hóf störf 1. maí 2022 og var hún í 40% starfshlutfalli á rannsóknasviði á móti 60% hlutfalli á sviði skógarþjónustu. Hjördís Jónsdóttir, Laufey Rún Þorsteinsdóttir og Karl Trausti Björnsson störfuðu á rannsóknasviði sumarið 2022 sem aðstoðarmenn sérfræðinga og við umhirðu umhverfis, auk þess sem Hjördís var í um 20% starfi haustið 2022. Þá unnu fimm nemar að námsverkefnum hjá stofnuninni. Elísabet Atladóttir hætti störfum hjá Skógræktinni haustið 2022 og þökkum við henni kærlega fyrir gott samstarf.
Tafla 1. Starfsmenn Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, 2022
Edda Sigurdís Oddsdóttir |
Líffræðingur, sviðstjóri rannsóknasviðs |
Arnór Snorrason |
Skógfræðingur, deildarstjóri loftslagsdeildar og staðgengill sviðstjóra rannsóknasviðs |
Bjarki Þór Kjartansson |
Landfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Björn Traustason |
Landfræðingur, verkefnastjóri landupplýsinga |
Brynja Hrafnkelsdóttir |
Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði skógarheilsu |
Brynjar Skúlason |
Skógfræðingur, erfðafræðingur |
Elísabet Atladóttir |
Landfræðingur, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Helena Marta Stefánsdóttir |
Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði vistfræði skóga |
Hjördís Jónsdóttir |
Skógfræðinemi, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir |
Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði nýræktunar skóga |
Karl Trausti Björnsson |
Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Laufey Rún Þorsteinsdóttir |
Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Lárus Heiðarsson |
Skógfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Ólafur Eggertsson |
Jarðfræðingur, sérfræðingur á sviði árhringjafræða |
Ólafur Stefán Arnarsson |
Eðlisfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Rakel Jakobína Jónsdóttir |
Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði nýræktunar skóga |
Þorbergur Hjalti Jónsson |
Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði skógarhagfræði |
Á árinu birtu sérfræðingar rannsóknasviðs fimm greinar í alþjóðlegum tímaritum, tvær alþjóðlegar skýrslur auk fyrirlestra, greina og skýrslna á innlendum vettvangi.
Ísland tók við formennsku í stjórn SNS – Nordic forest research í upphafi árs 2022. SNS er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og hefur m.a. það hlutverk að styðja við skógræktarrannsóknir á Norðurlöndum með því að veita styrki. Í stjórninni sitja Valgerður Jónsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir sem er stjórnarformaður, auk þess sem Hjördís Jónsdóttir, skógfræðinemi er fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Starfsmenn rannsóknasviðs taka einnig þátt í starfi NordGen forest og Euforgen auk COST-verkefnanna CLEANFOREST, UB3Guard og 3DForEcoTech.
Fagráðstefna skógræktar var haldin að nýju eftir tveggja ára hlé. Yfirskrift ráðstefnunnar var Skógrækt 2030 – Græn, ábyrg framtíð og var þar fjallað um skógræktarstefnu til 2030, kolefnisbindingu og viðarafurðir. Ráðstefnan var haldin á Hótel Geysi og var vel sótt. Hægt er að kynna sér efni ráðstefnunnar á heimasíðunni, en þar eru m.a. upptökur af fyrirlestrum og ráðstefnurit.
Sem fyrr var mikil áhersla á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda í skógum landsins. Þeim verkefnum er sinnt innan loftslagsdeildar Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Verkefni sem falla undir deildina eru m.a. eitt stærsta verkefni rannsóknasviðsins, Íslensk skógarúttekt, þar sem skógur er mældur á föstum mælireitum. Árið 2022 var bætt við mælingum á jaðarreitum til að meta sjálfsáningu trjátegunda út fyrir skógana þannig að heimsóttir voru alls 212 reitir og mæld 4.088 tré. Skiptingu reita eftir tegundum má sjá á mynd 1. Enn fremur hófst vinna við greiningu kolefnis og niturs í jarðvegs- og botngróðursýnum sem safnað hefur verið í birkiskógum í gegnum árin.
Upplýsingarnar sem fást úr þessum mælingum eru notaðar í kolefnisbókhald Íslands auk þess sem unnar eru spár um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda í skógum, skógrækt og viðarafurðum á Íslandi. Þá var virk þátttaka starfsmanna Mógilsár í umbótaáætlun vegna bókhalds Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar.
Fyrsti listi yfir sérstæða birkiskóga var kynntur fyrir ráðuneytum í lok árs 2022 og nú er beðið eftir áliti lögfræðinga um næstu skref.
Eitt af rannsóknaefnum rannsóknasviðs er hvaða efnivið skuli nota í skógrækt. Í því skyni eru fjölmargar tegunda-, kvæma- og klónatilraunir um allt land. Haldið var áfram að vinna úr gögnum kvæmatilraunar birkis. Voru þau kynnt á Fagráðstefnu og nokkrar eldri lerkitilraunir mældar. Þá var unnið að undirbúningi frægarða og ágræðslu valinna trjáa af sitkabastarði. Rannsókn á möguleikum þess að fjölga barrtrjám með stiklingum hélt áfram og fyrstu niðurstöður voru kynntar.
Á vegum rannsóknasviðs fara fram frostþolsprófanir og gæðamat á skógarplöntum fyrir framleiðendur. Framkvæmd voru frostþolspróf á ellefu plöntuhollum og rótarvaxtarþróttur kannaður á 16 hollum frá tveimur gróðrarstöðvum.
Enn sem fyrr er unnið að tilraunum til að reyna að hámarka lifun plantna fyrstu árin eftir gróðursetningu. Að vori var gróðursett í þrjár tilraunir þar sem bornar eru saman frystar plöntur og plöntur sem koma af plani framleiðenda. Tilraunirnar voru svo mældar að hluta að hausti og úrvinnsla gagna er hafin. Settar voru út nýjar áburðartilraunir, auk þess sem eldri tilraun var mæld að hluta og gerð var tilraun með sáningartæki sem fest var á TTS-herfi.
Lokið var við uppfærslu jafna (lífmassa-, rúmmáls- og uppmjókkunarföll), sem lýsa vexti sitkagrenis en með þeim má betur áætla lotulengd og hvaða umhirðuaðgerðir skili mestum arði, auk þess sem þetta nýtist við spár um kolefnisbindingu. Áfram var unnið að þróun aðferða til stæðumælinga, en mikilvægt er að þær mælingar séu sem nákvæmastar til að fá rétt rúmmál þess viðar sem seldur er úr skóginum. Verkefnið var hluti af BS-verkefni Jóns Grétars Borgþórssonar við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Rannsóknum á viðargæðum alaskaaspar lauk á árinu og er nú unnið að því að koma ösp inn í gæðastaðla í samvinnu við Staðlaráð. Verkefninu TreProX lauk á árinu en tilgangur þess var að miðla reynslu norrænna þjóða í vinnslu trjáa til viðar- og skógarafurðaframleiðslu.
Enn sem fyrr var fylgst með sjúkdómum og skordýrum á trjám og í skógum landsins. Áhersla var á rannsóknir á ásókn birkikembu í mismunandi birkikvæmi þar sem leitað var svara við því hvort skýra mætti kvæmamun á skemmdum með mismunandi laufgunartíma birkis. Meira má lesa um heilsufar skóga í Skaðvaldaannál Ársritsins.
Talsverð vinna var við að uppfæra landupplýsingakerfi stofnunarinnar og endurkortleggja ræktaða skóga.
Hér hafa eingöngu verið nefnd nokkur dæmi um fjölbreytt verkefni rannsóknasviðs á árinu 2022. Í töflu 2 má sjá helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá.
Sem fyrr vinna starfsmenn rannsóknasviðs í miklu og góðu samstarfi við aðra starfsmenn Skógræktarinnar um allt land og þó nokkrir starfsmenn annarra sviða taka beinan þátt í rannsóknum, auk þess að veita ýmiss konar aðstoð, ekki síst í formi upplýsinga. Þá er samstarf við aðrar stofnanir ekki síður mikilvægt. Á síðasta ári voru starfsmenn rannsóknasviðs meðal annars í samstarfi við skógræktarfélögin, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landgræðsluna.
Síðast en ekki síst eiga starfsmenn rannsóknasviðs gott og mikið samstarf við fjölmarga skógareigendur og -ræktendur út um allt land. Samstarfið getur verið af ýmsum toga; margir skógarbændur hafa látið land undir tilraunir og þá krefjast mælingar á kolefnisforða íslenskra skóga þess oft að farið sé inn á einkalönd. Undantekningalaust hefur starfsmönnum rannsóknasviðs verið vel tekið á ferðum sínum og er það þakkarvert. Ótaldar eru allar upplýsingar sem fást fyrir tilstilli skógræktenda út um allt land, ekki síst þegar óskað er eftir upplýsingum um pestir og skaðvalda á trjám.
Tafla 2. Helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá árið 2022.
VÖKTUNARVERKEFNI | Helstu vörður 2022 |
Íslensk skógarúttekt | |
|
Unnið að gagnasöfnun og samræmingu, gerð fitjuskrár um landfræðileg skógargögn og endurkortlagningu skóglendis. |
|
Mælifletir í ræktuðum skógum mældir og lauk núna þriðja mæliári í fjórðu lotu. Gögn úr mælingum nýtt í útreikninga um skóga og skógrækt í kolefnisbókhaldi Íslands og birt í landsskýrslu Íslands. Grein:
|
Trjásjúkdómar og meindýr | Ástand skóga ásamt útbreiðsla meindýra og sjúkdóma metin í ferðum sérfræðinga, auk upplýsinga frá skógræktarfólki. Helstu niðurstöður birtar í Skaðvaldaannál. Grein:
|
HAGNÝTAR RANNSÓKNIR | Helstu vörður 2022 |
Ásókn asparglyttu í mismunandi asparklóna | Úrvinnslu gagna haldið áfram |
Viðargæði alaskaaspar | Rannsókn lokið, unnið að því að koma ösp í gæðastaðla |
Treprox | Verkefni lokið. Helstu niðurstöður má finna á vef verkefnisins. |
Viðarafurðir til framtíðar – varanleg kolefnisbindning íslenskra skóga | Viðargæði (rúmþyngd, stífni og beygjustyrkur) fjögurra íslenskra trjátegunda könnuð. Rannsókn lokið, unnið að úrvinnslu gagna. |
Loftslagsskógar á Mosfellsheiði | Tilraunareitir mældir vor og haust 2022. Skýrslu skilað tll Kolviðar. |
Kvæmatilraun með birki | Unnið að úrvinnslu mælinga frá 2020 og 2021. Fyrstu niðurstöður kynntar á Fagráðstefnu skógræktar 2022. |
Rannsóknir á birkikembu | Unnið úr gögnum og fyrstu niðurstöður kynntar á Fagráðstefnu skógræktar 2022 |
Birkiryð | Unnið úr gögnum |
Notkun á fræpökkum og arginin áburðar til hagræðingar í skógrækt | Eldri tilraunir mældar að hluta, frekari mælingar fyrirhugaðar 2023, settar út 12 nýjar áburðartilraunir með greni |
Sáningartilraunir | Sett úr tilraun þar sem notuð var sáningarvél fest á TTS herfi. |
Kvæmatilraunir | Unnið almennt að undirbúningi frægarða. Mældar ýmsar eldri kvæmatilraunir í lerki og unnið að ágræðslu valinna sitkabastarðs trjáa. |
Vaxtarjöfnur sitkagrenis | Unnið úr gögnum og grein birt í Icelandic Agricultural Sciences. Grein:
|
Lífmassaföll fyrir greni | Lífmassa- og rúmmálsföll fyrir sitkagreni uppfærð og grein send í Icelandic Agricultural Sciences. |
Stæðumælingar | Timburstæður mældar og unnið úr gögnum. |
Fjölgun barrtrjáa með stiklingum | Tilraunir með rætingu stiklinga kláraðar og skýrsluskrif hafin. |
Samanburður á lifun frystra plantna og plantna af plani eftir gróðursetningu. | Þrjár felttilraunir settar út fyrir verkefni um frystar vs. plöntur af plani. Vöxtur mældur í tveimur og frosþolspróf gerð á einni. Úrvinnsla gagna hafin. |
Skógarhagfræði | Unnið að skýrslu um mat á markaðsverðmæti skóga. |
Iðnviður | Unnið að skýrslu um skógrækt til viðarnotkunar og kolefnisjöfnunar í kísiliðnaði |
Vatnshreinsiræktun | Rannsókn á notkun trjáa til sigvatnshreinsunar. Úttekt á áhrifum sigvatns á laufgun alaskaaspar. |
GRUNNRANNSÓKNIR | Helstu vörður 2022 |
Sjálfsáning erlendra trjátegunda | Samstarfsverkefni við Dennis Riege og National Geographic. Gróðursett í nýjar tilraunir og unnið úr gögnum fyrri tilrauna. |
Endurkortlagning ræktaðra skóga | Lokið við endurkortlagningu ræktaðra skóga. |
Sjálfsáning stafafuru í Steinadal | Úrvinnslu gagna lokið og grein birt í Icelandic Agricultural Sciences. Grein:
|
Áhrif mismunandi uppgræðsluaðgerða á tegundafjölbreytni bjallna og köngulóa | Unnið úr gögnum, skýrslu- og greinaskrif |
Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum | Unnið að greinaskrifum. |
Árhringjavöxtur og umhverfisbreytingar | Sýni tekin úr birki í Búrfellsskógi og úr ilmreyni í Ásbyrgi. |
Jarðvegskolefni í mismunandi skógargerðum | Kolefni greint úr 304 jarðvegssýnum og 336 botngróðursýnum úr Íslenskri skógarúttekt. |
Jarðhitaskógur (ForHot) | Grein um niðurbrot kolefnis í hlýnandi jarðvegi birt í Biogeosciences. Grein:
|
Rannsóknir á rekaviði | Samstarf við tékkneska vísindamenn. Greinar birtar í Global and Planetary Change og Czech Polar Reports. Greinar:
|
ÞJÓNUSTURANNSÓKNIR | Helstu vörður 2022 |
Kolefnismat í skógum Landsvirkjunar | Úttekt á kolefnisbindingu skóglenda Landsvirkjunar. Niðurstöður birtar í skýrslu til Landsvirkjunar. Grein:
|
Umbótaáætlun í kolefnisbókhaldi |
Áfram unnið að verkefnum til að betrumbæta bókhald yfir gróðurhúsalofttegundir skóga og skóglenda |
Viðargreining |
Greining á viðarsýnum fyrir utanaðkomandi aðila |
Frostþol og gæðamat skógarplantna. | Rótarvaxtarþróttur og frostþol skógarplantna prófað fyrir gróðrarstöðvar. Verklýsing á frostþolsmælingum gefið út í Riti Mógilsár. Grein:
|
ERLENT SAMSTARF OG STJÓRNSÝSLUVERKEFNI | Helstu vörður 2022 |
SNS | Tveir stjórnarfundir, yfirlestur umsókna, þátttaka í afmælisviðburði SNS |
Euforgen | Þátttaka í fjarfundum og fyrirlestrum. |
NordGen | Þátttaka í ráðstefnu í Lundi, Svíþjóð og tveimur fundum í NordGen-ráðinu |
Cost CA20118 - Three-dimensional forest ecosystem monitoring and better understanding by terrestrial-based technologies (3DForEcoTech) | Þátttaka í fundum |
CA21138 - Joint effects of CLimate Extremes and Atmospheric depositioN on European FORESTs (CLEANFOREST) | Þátttaka í fundum |
CA20132 - Urban Tree Guard - Safeguarding European urban trees and forests through improved biosecurity (UB3Guard) | Þátttaka í fundum |
Skaðvaldaannáll
Heilsufar trjágróðurs á árinu 2022
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir
Hér verður fjallað í stuttu máli um helstu skaða á trjám á árinu 2022. Höfundar fóru ekki í sérstakar ferðir til að meta ástand skóga á árinu en fylgdust þó með ástandinu í öðrum ótengdum ferðum. Einnig var sendur út gátlisti til starfsmanna Skógræktarinnar og skógareigenda í byrjun sumars, þar sem þeir voru beðnir um að leggja mat á sjúkdóma og skordýraplágur í nágrenni sínu. Auk þess var óskað eftir ábendingum um skemmdir á trjám og runnum á vef Skógræktarinnar. Þá var fylgst með í hópum á Facebook og haft samband við aðila ef ástæða þótti til. Töluvert af upplýsingum barst og liggur það, auk eigin athugana höfunda, til grundvallar þessu yfirliti.
Birki
Birkikembuskemmdir (Eriocrania unimaculella) voru töluverðar á útbreiðslusvæði hennar í ár. Hún heldur áfram að dreifa sér og á árinu fannst hún í fyrsta skipti á Snæfellsnesi (sjá kort 1).
Birkiþéla (Scolioneura betuleti) var töluvert áberandi í ár og var nokkuð um skemmdir af völdum hennar á ilmbjörk og hengibjörk. Hún dreifir sér um landið og var skrásettur nýr fundarstaður Austurlandi, þar sem hún fannst fyrst árið 2020 (sjá kort 2).
Aðrar fiðrildalirfuskemmdir á birki voru undir meðallagi nema á Vestfjörðum þar sem birki var víða mjög skemmt þetta sumarið. Líklega voru nokkrar tegundir sem ollu þessum skemmdum en birkivefari (Acleris notana) var áberandi á svæðinu. Birkiryð var undir meðallagi.
Lerki og fura
Ekki bárust miklar fréttir af skemmdu lerki og furu á árinu. Aðeins bar þó á skemmdum af völdum mófeta (Eupithecia satyrata) á ungu lerki í Eyjafirði, þar sem lirfurnar klipptu toppana af trjánum.
Furur litu nokkuð vel út í ár fyrir utan þurrkskemmdir í vor. Á Austurlandi er furulúsin (Pineus pini) í lágmarki.
Greni
Líkt og í fyrra var lítið um alvarlegar skemmdir á greni þetta árið. Minna var af skemmdum af völdum sitkalúsar (Elatobium abietinum) en oft áður. Þó var eitthvað að hrjá ungar greniplöntur en ekki er vitað hvað olli skemmdunum á þeim. Eins og undanfarin ár veldur greniryð staðbundnu tjóni á nokkrum stöðum á Suðurlandi.
Ösp, víðir, viðja og selja
Asparglytta (Phratora vitellinae) heldur áfram að valda töluverðum skemmdum á víði á útbreiðslusvæði sínu og stofnstærð hennar eykst hratt á svæðum þar sem hún hefur nýlega numið land. Þar sem hún hefur verið lengur er víða að koma í ljós hversu alvarlegar afleiðingarnar eru af faraöldrum síðustu ára og ljóst að hún getur valdið verulegum skemmdum, jafnvel trjádauða, á víði hérlendis. Asparglytta virðist fara sérstaklega illa með gulvíði og viðju og sjá mátti stórar breiður af uppétnum gulvíði í Skaftafelli. Hún getur líka farið illa með stórar aspir. Í Grímsnesi bar töluvert á stórum öspum sem voru lauflausar að neðan af völdum asparglyttu.
Lítið bar á asparryði árið 2022 og var það á flestum stöðum í eða undir meðallagi.
Aðrar tegundir trjáa og runna
Eins og undanfarin ár var aðeins um staðbundna ertuyglufaraldra (Ceramica pisi) á sunnanverðu landinu að ræða. Ný tegund sem fannst fyrst 2019 og étur innan úr blöðum gullregns (líkt og birkikemba og birkiþéla) hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði en tegundin virðist vera að dreifa sér um landið. Ekki hefur tekist að tegundagreina skaðvaldinn enn þá.
Lokaorð
Hér að ofan hefur verið farið yfir helstu skaðvalda í skógum landsins á árinu 2022. Í heildina var ekki mikið um skordýr, sjúkdóma og veðurfarslegt tjón, þótt eitthvað væri um staðbundna skaða.
Rétt er að vekja athygli áhugasamra á vef Skógræktarinnar, www.skogur.is þar sem er að finna upplýsingar um helstu skaðvalda sem finnast í trjám á Íslandi.
Þakkir
Höfundar vilja þakka áhugasömu skógræktarfólki um allt land fyrir upplýsingar og ábendingar um heilsufar skóga.
Áfram eru ábendingar um heilsu skóga vel þegnar og hægt að koma þeim á framfæri með því að hafa samband við Brynju Hrafnkelsdóttur í síma 867 9574. Eins má senda upplýsingar og myndir á netfangið brynja@skogur.is. Sýni, bæði af sýktum trjám og skordýrum, er hægt að senda á:
Rannsóknasvið Skógræktarinnar
b.t. Brynju Hrafnkelsdóttur
Mógilsá
162 Reykjavík
Reglubundin vöktun landnáms trjátegunda hafin
Úttekt á landnámi trjátegunda á jaðarsvæðum ræktaðs skóglendis á Íslandi
Arnór Snorrason
Rannsóknasvið Skógræktarinnar hefur frá árinu 2005 staðið að landsúttekt á ræktuðum skógum og náttúrulegum birkiskógum og birkikjarri á Íslandi. Landnám trjáplantna innan skógræktarsvæða og við jaðar þeirra er nú einnig tekið út með reglubundnum hætti og hófust þær úttektir í sumar. Þær gefa áhugaverðar vísbendingar en betri niðurstöður um landnám trjáplantna fást á komandi árum með áframhaldandi úttektum.
Ræktaðir skógar þöktu við lok árs 2021 um 47.000 hektara (± 2.000 ha: 95% vikmörk) eða um 0,47% af landflatarmáli.
Landsúttektirnar eru byggðar á mælingum á úrtaki mælistaða sem lagt er út með fastri fjarlægð á milli úrtaksstaða, svokallað kerfislægt úrtak. Í ræktaða skóginum er fjarlægðin 500 m í vestur-austurstefnu og 1.000 m í norður-suðurstefnu. Mælingar á öllu úrtakinu dreifast á fimm ár en úrtakinu hefur verið skipt jafnt á mælifletina þannig að á hverju ári er mældur 1/5 af heildarúrtakinu.
Aðeins eru heimsóttir mælistaðir:
- sem eru innan nýjustu uppfærslu af korti sem sýnir allt ræktað skóglendi á Íslandi (hér kallað skógarkort)
- eða eru á 24 metra breiðu jaðarbelti utan skógræktarkorts
Skógarkortið er uppfært á hverju ári með nýgróðursetningum síðasta árs og endurkortlagningu á eldri skógrækt. Að þessu sinni var viðbótarsvæðið stórt því að nýlega lauk endurkortlagningarverkefni sem staðið hefur síðastliðin ár. Jaðarbeltið er haft með í úrtakssvæðinu til að tryggja að skekkjur í kortlagningu valdi ekki því að hluti skógræktarinnar falli utan úrtakssvæðis. Hafa verður í huga að skógarkortið er ekki 100% nákvæmt og innan þess geta verið svæði sem ekki eru skógrækt.
Að þessu sinni var heildarúrtakssvæðið 98.259 ha og þar af var jaðarsvæðið 25.518 ha.
Á þessu sumri var safnað sérstökum gögnum til að lýsa landnámi trjágróðurs á þeim mælistöðum sem voru utan skógræktar, hvort heldur væri í jaðarbeltinu eða innan skógarkorts. Þetta var gert í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað á ýmsum miðlum um óæskilegt landnám trjágróðurs utan skógræktarsvæða og þá sérstaklega innfluttra trjátegunda. Nýlegar rannsóknir á þremur skógræktarsvæðum, einu á Suðausturlandi og tveimur á Norðurlandi, staðfesta t.d. að landnám stafafuru getur verið umfangsmikið. Hins vegar er ekki ljóst hversu almennt landnám trjátegunda er utan skógræktarsvæða. Einnig er mikilvægt að átta sig á möguleikum á að auka útbreiðslu skóga með mjög hagkvæmum hætti með sjálfgræðslu og hve stór þáttur hennar er innan skógræktarsvæða.
Úttektin sem hér er kynnt á að varpa betra ljósi á hvort landnám trjágróðurs í næsta nágrenni við ræktaða skóga sé mikið og almennt á öllu landinu.
Sumarið 2022 voru merktir til skoðunar 316 úrtaksstaðir dreift um allt land sbr. töflu 1. Það gefur að skilja að mest er af úrtaksstöðum þar sem mikið er um skógrækt s.s. á Fljótsdalshéraði. Af þessum 316 úrtaksstöðum voru 177 endurmælingar á mæliflötum sem hafa verið mældir áður, 7 voru nýjar mælingar innan skógarkorts og 28 nýjar mælingar í jaðarsvæðinu. Af 104 stöðum sem reyndust utan skógræktar voru 43 staðir innan skógarkorts og 61 staður í jaðarbeltinu. Nýir mælifletir sem bættust við á þessu ári voru 35.
Landnám utan skógræktar
Af 104 stöðum sem reyndust utan skógræktar voru allir í jaðarbeltinu (61) auk 28 staða innan skógarkorts, samtals 89, skoðaðir með tilliti til landnáms trjáplantna. Landnám trjáplantna fannst á sjö stöðum. Á fimm þeirra var um landnám birkis að ræða, á einum stað landnám reyniviðar og á einum stað landnám viðju sem var eina innflutta trjátegundin sem fannst á jaðarsvæði utan skógarkorts. Allir staðir nema einn voru á landi friðuðu fyrir beit. Fimm af sjö stöðum tilheyrðu ekki skógræktarsvæðinu sem þýðir í flestum tilvikum að þeir voru ekki innan skógræktargirðingar. Það kom á óvart hve vistgerðir þessara staða voru fjölbreyttar, allt frá mela- og sandlendi yfir í votlendi. Einnig var óvænt að sjá fjóra af sjö stöðum algróna (gróðurþekja > 90%) og fimm af sjö með jarðvegsdýpt yfir 50 cm. Mynd 1 sýnir aðstæður á einum af tveimur mælistöðum á rýru og jarðgrunnu landi þar sem fundust 14 fræplöntur af birki á 100 fermetra hringfleti.
Landnám innan skógræktar
Heildarfjöldi mældra úrtaksstaða var 212 árið 2022. Þar af voru fimm mælifletir með einungis sjálfgræddum trjágróðri og var um sjálfsáningu að ræða í öllum tilfellum. Hægt er að skilgreina slíka sjálfgræðslu sem landnám. Aðrir mælifletir voru annað hvort einungis með gróðursettum trjáplöntum eða blöndu af gróðursettum og sjálfgræddum plöntum.
Tafla 2 sýnir helstu niðurstöður varðandi þá fimm mælifleti sem eingöngu voru með sjálfsáðum trjám. Tveir mælifletir voru með birki sem ríkjandi tegund og annar þeirra var einnig með stafafuru. Tveir mælifletir voru einungis með stafafuru. Einn mæliflötur var með viðju sem ríkjandi tegund og birki sem víkjandi tegund. Þéttleiki var frá 400 til 4.000 plöntur á hektara. Allir nema einn mæliflötur voru innan skógræktarsvæða en aðeins tveir voru við jaðar skógræktarinnar.
Tafla 2: Helstu niðurstöður varðandi mælifletina sem voru eingöngu með sjálfgræddar trjáplöntur.
Mynd 2 er frá eina mælifletinum sem var á svæði sem ekki er skilgreint sem skógræktarsvæði. Þar var vaxinn af sjálfsdáðum blandskógur af viðju og birki upp úr fyrrverandi lúpínubreiðu sem áður var lítt gróinn melur. Svæðið er á Keldnaholti í Reykjavík en á höfuðborgarsvæðinu er að finna mikið landnám trjágróðurs á landi sem hefur verið beitarfriðað í rúm 40 ár eða síðan höfuðborgargirðingin var girt.
Landsúttekt á ræktuðum skógum er byggð á kerfislægu úrtaki eins lýst var hér að ofan. Úrtakshönnunin býður því upp á að meta flatarmál svæða með landnámi trjágróðurs. Mynd 3 sýnir þá niðurstöðu með 95% vikmörkum. Landnám trjágróðurs við ræktaða skóga á Íslandi er á bilinu 1.300 til 4.700 ha eða 3% til 10% af ræktuðum skógum á Íslandi. Tvær erlendar trjátegundir, viðja og stafafura, fyrirfinnast í landnámi sem er á bilinu 160 til 2.340 ha. Landnám erlendra trjátegunda utan skógræktarsvæða var metið 500 ha en það mat er ómarktækt miðað við úrtaksstærð rannsóknarinnar. Um var að ræða landnám viðju.
Hafa verður í huga að hér er um bráðabirgðaniðurstöður að ræða og gert er ráð fyrir að þessi úttekt haldi áfram næstu 4 árin. Þá mun úrtaksmagnið fimmfaldast, niðurstöður verða áreiðanlegri og flatarmálsmat með mun minni vikmörkum.
Rannsóknir á furulús
Íslenskar skógarfurur þola lúsina best
Pétur Halldórsson
Skógræktin gaf á árinu út myndband í samvinnu við HealGenCar og SNS þar sem fjallað er um tilraunir með ýmis kvæmi skógarfuru með tilliti til þess hversu mikið mótstöðuafl þær hafa fyrir furulús. Í ljós hefur komið að afkomendur þeirra fáu trjáa sem lifðu af lúsafaraldurinn á seinni hluta síðustu aldar verða síst fyrir barðinu á lúsinni.
Furulúsin Pineus pini var mikill vágestur í skógrækt á Íslandi eftir miðja síðustu öld. Skógarfura var gróðursett í stórum stíl víða um land eftir seinna stríð og var þá ein helsta vonarstjarnan í nytjaskógrækt á Íslandi. Það breyttist á tiltölulega skömmum tíma þegar lúsin barst til landsins og fór að herja á tegundina. Skógarfuran drapst að verulegu leyti af völdum lúsarinnar og í ríflega hálfa öld hefur ekki verið litið á skógarfuru sem vænlegt skógartré hérlendis.
Ekki drápust þó öll trén og stöku fura stóðst faraldurinn allvel, jafnvel svo að sums staðar hafa vaxið upp myndarleg skógarfurutré. Þar með urðu væntanlega eftir þau tré sem mest mótstöðuafl höfðu fyrir lúsinni. Fram fór öflugt náttúruval. Fyrir nokkrum árum var lögð út tilraun með skógarfuru til að sjá hvort fengin reynsla og nýjar aðferðir gætu gefið nýja von um ræktun skógarfuru hérlendis. Helstu niðurstöður þeirrar tilraunar sýna að þær skógarfurur sem sprottnar eru af fræi þeirra trjáa sem lifað hafa af á Íslandi eru sterkastar. Önnur kynslóð skógarfuru er vöxtuleg og þolir lúsina betur en innfluttur efniviður skógarfuru.
Níðhöggur skógarfuru
Í myndbandi sem gefið var út á árinu segja tveir sérfræðingar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, Brynja Hrafnkelsdóttir og Lárus Heiðarsson, frá umræddri tilraun þar sem reynd voru skógarfurukvæmi frá Noregi, Finnlandi, Rússlandi, Skotlandi og Austurríki, auk afkomenda skógarfurutrjáa sem gróðursett voru hér á landi um og upp úr miðri síðustu öld og hafa sýnt mótstöðu gegn furulúsinni. Titill myndbandsins er Furulúsin - Níðhöggur skógarfuru. Níðhöggur var ormurinn í norrænu goðafræðinni sem nagaði rætur Asks Yggdrasils, trésins sem stendur upp um allan heiminn og nær til allra heimshluta samkvæmt þessari fornu speki.
Myndbandið er framleitt í samvinnu við SNS (Norrænar skógrannsóknir) og HealGenCar sem var tímabundinn samstarfsvettvangur um framhaldsrannsóknir í skógarheilsu- og skógerfðafræðum til stuðnings lífhagkerfinu. Samstarf þetta rann sitt skeið í árslok 2021 en við keflinu tók annar samstarfsvettvangur sem kallast Tolerant Tree og á að fjalla um erfðavísindi trjáa og kynbætur í þá átt að skógartré þoli betur ýmsa áraun sem á þeim dynur með röskun loftslagsins (Genetics and management for stress tolerant trees for the future climate).
Framleiðandi myndbandsins er Kvikland. Hlynur Gauti Sigurðsson sá um upptökur en Kolbrún Guðmundsdóttir um samsetningu. Sjá má fleiri myndbönd sem komu út á árinu og eldri myndbönd á myndbandavef Skógræktarinnar.
Loftslagsdagur Umhverfisstofnunar
Kolefnisbinding skóganna sautjánfaldast
Pétur Halldórsson
Í erindi Arnórs Snorrasonar, deildarstjóra loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar, sem hann hélt á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar 3. maí 2022 kom fram að kolefnisbinding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá því sem var fyrir þrjátíu árum. Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs, hélt einnig erindi og benti m.a. á að líffjölbreytni á Íslandi væri ekki ógnað með skógrækt.
Umhverfisstofnun stóð fyrir loftslagsdeginum í samvinnu við ýmsar stofnanir og voru um tuttugu erindi flutt þar sem tekið var á fjölmörgum málum sem snerta loftslagsbaráttuna. Edda benti meðal annars á í erindi sínu þann ávinning skógræktar á snauðu landi að þar snerist ástandið gjarnan úr losun í bindingu. Jafnframt væri timbur úr sjálfbærri skógrækt mikilvægur loftslagsávinningur skógræktar.
Skógarnir stækka og bindingin eykst
Sem fyrr segir kom fram í erindi Arnórs Snorrasonar að kolefnisbinding vegna skógræktar á Íslandi hefði sautjánfaldast á síðustu þrjátíu árum. Þrátt fyrir það væri skógrækt enn mjög umfangslítil á landinu miðað við nágrannalöndin. Flatarmál ræktaðra skóga hefur aukist um 38 þúsund hektara frá árinu 1990 og flatarmál náttúrulegra birkiskóga um ellefu þúsund hektara. Rætt var við Arnór í fréttum Ríkisútvarpsins og þar sagði hann að skógrækt væri sá þáttur í landnotkun á Íslandi sem skilaði nettóbindingu kolefnis og hefði gert það frá árinu 1990.
„Bindingin var mjög lítil 1990 enda var mjög lítið af ræktuðum skógi þá en hefur sautjánfaldast síðan. Við erum að binda um það bil jafnmikið, yfir 500 þúsund tonn af koltvísýringi, sem er eins og landbúnaðurinn er að losa. Þetta er svona um það bil 10% af allri þessari skuldbindandi losun á Íslandi sem er eitthvað um 4-5 milljónir,” sagði Arnór í samtali við Ríkisútvarpið. Hann greindi frá þeirri spá Skógræktarinnar að árleg nýskógrækt á ræktuðum skógum yrði 2.500 hektarar frá og með árinu 2025 en benti á að aukin skógrækt væri einungis hluti af lausninni. Gera yrði betur á öllum sviðum þegar að kæmi að því að sporna við hlýnun jarðar með minnkaðri losun og aukinni bindingu. Skógrækt væri þar vissulega mikilvægur þáttur, en aðeins einn þáttur af mörgum.
Innviðir fyrir 5-7 þúsund hektara á ári
Eins og segir frá í annarri grein hér í Ársritinu er skógarþekja á Íslandi nú komin yfir tvö prósent landsins sem er ánægjulegur áfangi en þó lítið hlutfall miðað við lönd sem ekki eru eyðimerkurlönd. Hlutfallslega hefur þekjan aukist mikið að sögn Arnórs. „Svona hlutfallslega höfum við aukið það mjög mikið eins og við erum búin að sautjánfalda bindinguna frá því 1990 en við vorum að byrja í mjög litlu og færðum okkur yfir í dálítið mikið. Raunstærðirnar eru ekki stórar,” segir hann í viðtalinu.
Arnór var spurður hvort þetta tæki ekki langan tíma og sagði hann að vissulega byndu tré lítið fyrstu árin en þegar þau væru orðin tveggja til þriggja metra hæð væri bindingin orðin töluverð og mest yrði hún í 20-40 ára skógi. Aðspurður um æskilegan hraða nýskógræktar taldi hann að vel mætti fara upp í 5-7 þúsund hektara á ári án þess að lenda í vandræðum með innviðina. Jafnframt þyrfti að skoða aðra þætti líka sem geta haft áhrif eins og endurheimt votlendis og landgræðslu og slíkt sem eru mjög mikilvæg tól í þessu samhengi. Erindi Arnórs hefst á 1:32:40 á upptökunni.
Skógrækt er hluti af lausninni, ekki sú eina
Edda ræddi í sínu erindi um samhengi skóga og loftslags, sýndi kolefnishringrásir og benti á kosti bæði nytjaskóga og aukinnar útbreiðslu birkiskóga sem tæki í loftslagsbaráttunni. Með því að nota öflugar trjátegundir mætti binda mikið á tiltölulega litlu svæði og með því að nota timbur úr sjálfbærri skógrækt mætti búa til allt frá matvælum upp í háhýsi. Hvað varðar líffræðilega fjölbreytni benti Edda á að gott væri að hafa ekki einungis eina trjátegund. Niðurstöður Skógvistar, samstarfsverkefnis margra stofnana, sem m.a. birtust í grein í Náttúrufræðingnum árið 2013, sýndu að ekki skipti máli fyrir líffjölbreytni hvort ræktuð væru lauftré eða barrtré á grónu landi. Hún benti líka á að skógrækt snerist ekki bara um kolefni heldur um útivist, jarðvegsvernd, skjól og margt fleira. Og hún tók undir með Arnóri að skógrækt væri ekki „lausnin“ í loftslagsmálunum heldur hluti af lausninni, eitt af tólunum sem nota þyrfti í loftslagsbaráttunni. Erindi Eddu hefst 4:08:28 á upptökunni.
Kynbætur á greni
Greni ágrætt til kynbóta gegn frosthættu
Pétur Halldórsson
Í apríllok var unnið að því í ræktunargámi Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal að græða úrvalsefni af sitkabastarði á grunnstofna sem í fyllingu tímans verða gróðursettir í frægarða til framleiðslu á íslensku fræi til skógræktar. Ágræðslunni er ætlað að gefa frostþolinn efnivið sitkabastarðs til að bæta árangur við ræktun grenis og draga úr afföllum vegna frosts.
Árið 1995-1996 voru settar út kvæmatilraunir víða um land með sitkagreni og sitkabastarði. Á þeim stöðum þar sem reyndi á frostþol kvæmanna sýndu nokkur kvæmi sitkabastarðs yfirburði, bæði í lifun og hæðarvexti. Innan þessara bestu kvæma voru afburða einstaklingar sem nú hafa verið valdir á sex tilraunastöðum til undaneldis í frægarði.
Um 60 klónar verða ágræddir á samtals 400 grunnstofna vorið 2022 og 2023. Vonir standa til að ný aðstaða í ræktunargámi á Vöglum í Fnjóskadal muni tryggja góðan árangur við ágræðsluna. Rétt hitastig, stöðugt ljós og hár loftraki eru lykilþættir til að ágræðslan heppnist sem best. Ágræddar plöntur verða ræktaðar áfram í pottum í tvö sumur og síðan komið fyrir þar sem fræræktarskilyrði eru ákjósanleg. Með þessu verður til stofn af sitkabastarði sem hefur mikinn vaxtarþrótt en um leið gott frostþol til að takast á við fyrstu frost að hausti.
Afföll á greni hafa verið vandamál víða um land, ekki síst á flatlendissvæðum í svokölluðum frostpollum þar sem mest hætta er á frosti á vaxtartíma og áður en trén hafa gengið frá sér fyrir veturinn og byggt upp frostþol. Með betri efniviði má ná betri árangri á slíkum svæðum í öllum landshlutum.
Yfirumsjón með þessu starfi hefur Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur sem hér sést á meðfylgjandi mynd ásamt Valgerði Jónsdóttur, verkefnastjóra fjölgunarefnis hjá Skógræktinni, og bak við hana glittir í Þuríði Davíðsdóttur, starfsmann á Vöglum. Myndin er tekin í ræktunargámi Skógræktarinnar á Vöglum þar sem fram fara tilraunir, gæðaprófanir á plöntum, stýrð ræktun og fleira.
Fagráðstefna skógræktar
Tvö prósent landsins eru nú skógur
Fjölsótt Fagráðstefna eftir kórónuveirufaraldurinn
Pétur Halldórsson
Vel heppnaðri fagráðstefnu skógræktar 2022 lauk á Hótel Geysi miðvikudaginn 30. mars. Lýstu þátttakendur mikilli ánægju með viðburðinn. Fjölbreytt erindi voru flutt seinni dag ráðstefnunnar þar sem áhugaverðar niðurstöður komu fram, meðal annars að nú væri skógarþekja á Íslandi komin yfir 2%.
Ráðstefnan var nú haldin eftir tveggja ára hlé vegna kórónuveirufaraldursins og vart var við mikinn þorsta eftir slíkri samkomu og nýjustu tíðindum úr faginu enda aðsóknin með mesta móti.
Á dagskrá síðari dags fagráðstefnu skógræktar á Hótel Geysi fjallaði Berglind Ósk Alfreðsdóttir hjá RML um ýmis tækifæri sem felast meðal annars í ræktun skóga og skjólbelta á löndum bænda í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði. Í framhaldi af því fjallaði Arnór Snorrason, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda skóglenda í fortíð, nútíð og framtíð. Niðurstöður spár sem gerð hefur verið um útbreiðslu skóglendis á Íslandi sýna að ræktaðir skógar munu rúmlega tvöfaldast fram til ársins 2040 og náttúrulegir skógar munu bæta við sig 12.000 hekturum. Flatarmál skóga og kjarrs á Íslandi er áætlað að verði um 260.000 hektarar árið 2040 (2,6% af flatarmáli Íslands). Steinunn Garðarsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um tilraunir með aðferðir við að endurheimta staðargróður á framkvæmdasvæðum til að draga úr áhrifum framkvæmda á yfirbragð lands. Því næst fjallaði Elísabet Atladóttir, aðstoðarmaður sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um endurkortlagningu ræktaðra skóga á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að nú hefur samanlagt skóglendi á Íslandi, villt og ræktað, náð tveimur prósentum af flatarmáli landsins sem má telja nokkur tímamót. Síðasta erindið fyrir kaffihlé fjallaði um notkun dróna og LiDAR-tækni til að mæla lífmassa skóga. Tryggvi Stefánsson frá Svarma fór yfir þau mál og sýndi hvernig þessi tækni getur með frekari þróun gert skógmælingar auðveldari, fljótlegri, nákvæmari og hagkvæmari.
Helmingur bindingar í jarðvegi
Að loknu morgunkaffi fór Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, yfir vaxtarjöfnur fyrir sitkagreni sem m.a. nýtast til að skipuleggja ræktunina með tilliti til markmiða um viðarvöxt og kolefnisbindingu. Gústaf Jarl Viðarsson hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur sagði frá verkefni þar sem metin var kolefnisbinding með skógrækt á Heiðmörk, Nesjavöllum og Ölfusvatni. Þetta var öðrum þræði reynsluverkefni um hvernig meta má bindingu fyrir einstaka skógareigendur en meðal áhugaverðra niðurstaðna var ekki síst hversu mikil binding mældist í jarðvegi þessara skóga. Hún reyndist álíka mikil og í lífmassa skóganna. Frekari rannsókna er þörf en þetta gefur vísbendingu um að íslenskir skógar bindi mögulega enn meira kolefni en áætlað hefur verið til þessa. Því næst fjallaði Páll Sigurðsson, doktorsnemi og brautarstjóri við LbhÍ, um áhrif jarðvegshlýnunar á umsetningu fínróta í sitkagreni. Þar er nýtt til rannsókna svæði í Hveragerði þar sem jarðvegur hlýnaði í kjölfar Suðurlandsskjálfta og út frá þeim má fá vísbendingar um hvað gerist þegar hitnar á jörðinni með loftslagsröskuninni. Í ljós kom að með hlýnun jarðvegs minnkaði magn fínróta og umsetning þeirra ókst sem hefur áhrif á tilurð lífræns efnis neðanjarðar. Christine Palmer, dósent við háskólann í Vermont, fjallaði um rannsóknir sínar á sveppa- og örverulífi í jarðvegi nýrra skóga sem nýst gætu til aukins árangurs í skógrækt. Frumniðurstöður hennar á sýnum sem tekin voru víða um land benda til að hagnýtrar vitneskju sé að vænta á því sviði.
Sunnlenskt birki best um allt land
Eftir hádegisverð fjallaði Hallur S. Björgvinsson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, um áhrif skjóls á nærviðri og plöntuvöxt þar sem hann sýndi augljósa kosti skjólbelta fyrir blaðvöxt og þrif birkiplantna sem nutu skjólsins. Björn Traustason fjallaði um rannsóknir á því hvort trjáplöntur gætu vaxið í beitarhólfi á Mosfellsheiði. Rannsóknirnar benda til að núverandi beitarálag hafi svo mikil áhrif að þar sé ekki vænlegt að ráðast þar í skógrækt að óbreyttu. Björk Kristjánsdóttir skógfræðingur fjallaði um rannsókn sína á dreifingu, magn og spírun stafafurufræs í rjóðurfelldum reitum í Norðtunguskógi. Hún komst að því að líklega hefði afrán á fræi og fræplöntum áhrif ellegar skortur á fræsetum sem henta til öruggrar spírunar. Jarðvinnslu væri því þörf við þessar aðstæður til að ýta undir endurnýjun skógarins. Brynjar Skúlason, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greindi frá niðurstöðum á mælingum svokallaðrar Rarik-tilraunar á íslenskum birkikvæmum þar sem í ljós koma miklir yfirburðir birkikvæma af Suður- og Suðausturlandi í öllum landshlutum. Síðastur fyrir síðdegiskaffið var Valdimar Reynisson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, sem sýndi góðan árangur af gróðursetningu á degli í stormföllnum reit í Stálpastaðaskógi í Skorradal. Tré sem gróðursett voru 2016 lifa vel og eru sum hver komin í 130 sentímetra hæð með myndarlega árssprota. Niðurstaða Valdimars var að degli væri framtíðartegund sem komið væri að því að huga meira að.
Skógrækt dró ekki úr líffjölbreytni
Eftir kaffi fjallaði Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, um náttúrulega óvini meindýra á trjám og fór meðal annars yfir mögulegan innflutning á slíkum óvinum og allt sem taka þyrfti tillit til ef slíkt kæmi til greina. Guðríður Baldvinsdóttir hjá Landbúnaðarháskóla Íslands fjallaði um TreProX-verkefnið um aukin viðargæði í skógrækt og úrvinnslu skógarafurða og síðasta erindið flutti Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, um líffjölbreytni æðplantna í Tilraunaskóginum í Gunnarsholti. Í þessum rannsóknum kom m.a. í ljós að tilkoma skógarins hefur ekki dregið úr líffjölbreytni á svæðinu.
Um 150 manns tóku þátt í fagráðstefnu skógræktar 2022 sem fór fram við góðar aðstæður og í blíðviðri á Hótel Geysi í Haukadal. Skoðunarferð var farin fyrri daginn í Laugarvatnsskóg þar sem notið var samveru, veitinga og söngs Kórs Menntaskólans á Laugarvatni.
Erfðaauðlindir skóga
Erfðaefni skóga lykillinn að heilbrigðum skógum framtíðar
Pétur Halldórsson
Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, er meðal höfunda ítarlegs rits um val og meðferð erfðaefnis í plöntuframleiðslu sem út kom á árinu á vegum EUFORGEN. Ritið er byggt á þeirri sannfæringu að erfðaefnið sé grundvöllurinn að því að koma megi upp hraustum skógum sem geti staðist ógnir sem að þeim steðja og lagað sig að breytingum en um leið fóstrað þróun vistkerfa og treyst tilvist gjöfulla landsvæða.
Brynjar Skúlason er aðalfulltrúi Íslands í þessu samstarfi Evrópulanda um vernd og nýtingu erfðaauðlinda skóga sem í daglegu tali gengur undir skammstöfuninni EUFORGEN. Hún stendur fyrir enska heitið European Forest Genetic Resources Programme. Meginmarkmið samstarfsins er að ýta undir varðveislu og sjálfbærar nytjar á erfðaauðlindum skóga í Evrópu sem órjúfanlegum þætti í sjálfbærri skógrækt og skógarnytjum. Einnig á samstarfið að vera vettvangur samstarfs milli Evrópulandanna á þessu sviði.
Markmiðunum á að ná með þrennum hætti. Í fyrsta lagi með því að örva miðlun þekkingar og samtal við helstu hagaðila um erfðaauðlindir skóga í Evrópu. Í öðru lagi með því að stilla saman strengi í friðunarstarfinu og fylgjast með árangrinum. Í þriðja lagi með því að stuðla að skynsamlegri nýtingu á erfðaauðlindum skóga með því að búa til viðmið og leiðbeiningar um slíka verndun með vísindalega þekkingu að vopni.
Efni ritsins
Ritið sem nú er komið út ber titilinn Genetic aspects linked to production and use of forest reproductive material. Þar er í fyrsta hlutanum samantekt um stöðu þekkingar á erfðamálefnum sem snerta framleiðslu og notkun á fjölgunarefni trjátegunda í Evrópu. Fjallað er um mismunandi flokka fjölgunarefnis svo sem fræ, stiklinga, vefjaræktarefni og svo framvegis og velt upp sjónarmiðum um val á stýrðri eða náttúrulegri endurnýjun skóga á tímum loftslagsbreytinga þar sem þörfin fyrir fjölgunarefni er snar þáttur.
Þá er í öðrum hluta ritsins tíundaður framleiðsluferill mismunandi fjölgunarefnis, hvernig grænt ljós er gefið á hvaða efni megi safna til fjölgunar, stjórnsýsla slíkra mála, söfnun og vottun efnisins, staðla um prófun og sýnatöku, áhrif fræs og ungplantna sem ekki eru ætlaðar sem fjölgunarefni á erfðaauðlindir skóga, áhrif kynbóta á efni sem er fyrir og á verndarþáttinn, söfnun, meðhöndlun og geymslu á fræi, aðferðir við plöntuframleiðslu, vottun og rekjanleika og loks um verslun með fjölgunarefni og flutninga á því.
Í þriðja hlutanum er fjölgunarefni skoðað með tilliti til aðferða við endurnýjun skóga með sérstöku tilliti til áhrifa loftslagsröskunar. Þar er sömuleiðis fjallað um þann möguleika að flýta fyrir flutningi trjátegunda á ný svæði með hlýnandi loftslagi. Fjórði hlutinn gefur ítarlegt yfirlit um skógræktaraðferðir og í þeim fimmta er fjallað um mikilvægi þess að henda reiður á uppruna fjölgunarefnisins til að bæta ræktunar- og umhirðustarfið í skógunum og stjórn slíkra mála. Í lokakaflanum eru tíundaðar 38 ráðleggingar eða ályktanir sem dregnar eru af efni ritsins.
Ritið er afrakstur meira en tveggja áratuga alþjóðlegs samstarfs á vegum EUFORGEN. Það er byggt á þeirri sannfæringu að erfðaefnið sé grundvöllurinn að því að koma megi upp hraustum skógum sem geti staðist ógnir sem að þeim steðja og lagað sig að breytingum en um leið fóstrað þróun vistkerfa og treyst tilvist gjöfulla landsvæða.
SKÓGARÞJÓNUSTA
Pistill sviðstjóra
Skýrsla skógarþjónustusviðs fyrir árið 2022
Hrefna Jóhannesdóttir
Texti
Konur í skógargeiranum
Ráðstefna norrænna skógarkvenna
Pétur Halldórsson
Fjölbreytni í skógarnytjum í víðu samhengi var viðfangsefni ráðstefnu sem samtök norrænna skógarkvenna stóðu fyrir í mars 2022. Vegna samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum var skipulögð staðbundin dagskrá í hverju landi fyrir sig en einnig fylgdust þátttakendur í öllum löndunum með sameiginlegum fyrirlestrum í streymi og samantekt í lok ráðstefnunnar.
Félög skógarkvenna í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi stóðu sameiginlega að ráðstefnunni. Norska félagið Kvinner i skogbruket var formlega gestgjafi ráðstefnunnar, en vegna óvissu af völdum veirufaraldursins var ákveðið að halda hana að hluta í fjarfundi. Fern samtök skógarkvenna standa að samstarfi undir merkjum Nordiske skogskvinner. Þau eru Skógarkonur á Íslandi, sænsku félögin Spillkråkan og Skogskvinnorna (Värmland) og loks áðurnefnt norskt félag, Kvinner i skogbruket. Unnið hafði einnig verið að því að ná tengslum við finnskar skógarkonur og fluttu þær kveðju frá Finnlandi í lok ráðstefnunnar. Markmiðið er að samtökin Nordiske skogskvinner verði heildarsamtök skógarkvenna á öllum Norðurlöndunum.
Vinnustofa í hverju landi
Fyrirkomulag ráðstefnunnar var á þann veg að hvert land skipulagði staðbundna dagskrá þar sem einn liðurinn var streymi frá fyrirlestrum og samantektum í hverju landi fyrir sig. Að hádegishléi loknu var haldin létt og skemmtileg vinnustofa en dagskránni lauk svo með samantekt frá hverju landi og kveðju frá Finnlandi. Dagskrá íslensku samtakanna, Skógarkvenna, fór fram í Gamla salnum að Elliðavatni.
Árangur skógarbænda
Fyrr og nú á Brekku í Núpasveit
Guðríður Baldvinsdóttir
Gróskumikið skóglendi er nú að vaxa upp þar sem um aldamótin var rýr mói með melum á milli í landi Brekku í Núpasveit við Öxarfjörð. Landið er allt í mikilli framför, þar á meðal birkitorfur sem þar voru fyrir, og forðast hefur verið að gróðursetja í bestu berjabrekkurnar. Myndirnar tvær sem hér fylgja segja meira en mörg orð.
Jörðin Brekka er skammt sunnan við Kópasker. Þar eru þokkaleg skógræktarskilyrði á skjólsælustu svæðunum en hærra í landinu taka við rýrari og vindasamari svæði sem engu að síður eru einnig að klæðast skógi. Lerki er megintegund á skógræktarsvæðinu en birkitorfur var að finna á jörðinni ásamt víði áður en skógrækt hófst og þær hafa notið góðs af friðun og ræktun. Haft hefur verið í huga við skógræktina á Brekku að gróðursetja ekki í bestu berjabrekkurnar.
Meðfylgjandi myndir eru teknar með rúmlega tuttugu ára millibili, sú fyrri af jörðu niðri haustið 2000 og sú síðari með dróna sumarið 2022. Þær sýna í grófum dráttum sama svæðið. Girðingin sem sést á eldri myndinni er svæðið fyrir miðju á þeirri nýju, þar sem sést að birki og víðir er meira áberandi en lerki og greni. Sama fellið sést efst í hægra horni beggja myndanna.
Grisjun í bændaskógum
Stærsta grisjun á Norðurlandi hingað til.
Pétur Halldórsson
Grisjunarflokkur skógarhöggsmanna af sex þjóðernum vann í októbermánuði að fyrstu grisjun skógar að Hamri á Bakásum í Húnabyggð. Þetta er líklega stærsta einstaka grisjunarverkefni sem ráðist hefur verið í hjá norðlenskum skógarbændum.
Johan Holst, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar í Húnavatnssýslum, skipulagði verkið og stýrði því. Alls voru grisjaðir 28 hektarar skógar sem er að meðaltali um tuttugu ára gamall. Bakásar blasa við vestan Blöndu þegar ekið er um Langadal frá Blönduósi í átt til Skagafjarðar. Þar er einnig myndarleg skógrækt á vegum Skógræktarfélags Austur-Húnavatnssýslu á jörðinni Gunnfríðarstöðum sem liggur að skógræktarsvæðinu á Hamri.
Að sögn Johans hefur mest verið gróðursett af lerki á Hamri en einnig töluvert af alaskaösp og fleiri tegundum. Grisjunin nú fór fram að mestu í lerkiskógi en lítillega í asparskógi. Í hópi grisjunarmanna voru sjö reyndir skógarhöggsmenn af sex þjóðernum, frá Íslandi, Noregi, Frakklandi, Danmörku, Kanada og Bretlandi. Johan segir að verkið hafi gengið hratt og vel samkvæmt áætlun.
Með þessari grisjun er búið í haginn fyrir framtíðina því nú hafa verið fjarlægð lélegustu trén úr skóginum og þau sem eftir standa fá betra rými til að vaxa og gildna. Jafnframt tryggir grisjunin að skógurinn þoli betur vindálag þegar hann stækkar. Til verður verðmætari skógur sem þar af leiðandi mun gefa betri og verðmætari afurðir í framtíðinni. Auk þess er grisjun sem þessi góður undirbúningur fyrir næstu grisjun skógarins sem væntanlega verður unnin með grisjunarvél eftir 10-15 ár.
Að grisjun lokinni tók skógfræðingurinn og skógræktarráðgjafinn Guðríður Baldvinsdóttir verkið út með aðstoð Johans og eru meðfylgjandi myndir frá þeim. Einnig fylgir kort með grisjunaráætluninni og GPS-gögn sem sýna feril grisjunarmanna við vinnu í skóginum.
ÞJÓÐSKÓGAR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla þjóðskógasviðs fyrir árið 2022
Hreinn Óskarsson
Þjóðskógar Skógræktarinnar döfnuðu vel á árinu 2022 enda tíðarfar með ágætum, hlýtt vor og haust. Sumarið var nokkuð rakt og heldur svalara en undanfarin sumur, sem hentaði þó trjágróðri betur en sólþyrstum skógargestum. Mikið og fjölbreytt starf var unnið í skógunum á árinu eins og undanfarin ár. Gróðursetning í löndum Skógræktarinnar var sú mesta frá upphafi, grisjun og úrvinnsla á skógarafurðum töluverð.
Þjóðskógasvið hefur umsjá með um 73 jörðum eða skógarreitum víðs vegar um landið. Á sumum umsjónarlöndum er um að ræða fleiri en eina samliggjandi jörð sem mynda eina heild. Það eru jarðir eins og Tumastaðir, Tunga og Kollabær 1 og 2 sem oftast kallast Tumastaðaskógur, eða Hallormsstaður, Buðlungavellir og Hafursá sem kallast í daglegu tali Hallormsstaðaskógur. Einnig eru samliggjandi jarðir Skógræktarinnar í Fnjóskadal sem teljast í almennu tali til Vaglaskógar og í Skorradal eru nokkrar jarðir sem eru í umsjá stofnunarinnar. Sumar jarðirnar fékk Skógræktin að gjöf á sínum tíma, aðrar voru keyptar, um nokkrar eru leigusamningar og einhverjar hafa verið faldar Skógræktinni til umsjónar af ríkinu. Í dag hefur Skógræktin umsjá með ríkislandi samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert var við stofnunina af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl. Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir starfar í umboði ráðuneytisins og hefur daglega umsýslu með jarðeignum í eigu ríkisins.
Flestar jarðir sem Skógræktin hefur umsjá með, eru vaxnar skógi að einhverju leyti. Fjöldi svæða sem skógarvarðarumdæmin fjögur sjá um skiptist með eftirfarandi hætti:
- Austurlandsdeild 9 jarðir
- Norðurlandsdeild 18 jarðir
- Suðurlandsdeild 18 jarðir
- Vesturlandsdeild 28 jarðir
Kort af helstu þjóðskógasvæðum má finna á vef Skógræktarinnar en á mörgum þeirra er stofnunin með starfstöðvar. Auk verkefna á þessum þjóðskógalöndum sinnir starfsfólk sviðsins endurheimt birkiskóga og skógrækt á stærri svæðum s.s. Hekluskógasvæðinu, Þorláksskógasvæðinu og Hólasandi. Eru þessi verkefni unnin í samstarfi við Landgræðsluna, sveitarfélög og ýmsa aðra aðila.
Skógræktin er með mismikla starfsemi á umsjónarlöndum sínum, allt frá verndun og endurheimt birkiskóga yfir í nýræktun blandaðra skóga og umhirðu þessara skóglenda, þ.e. grisjun, og á allra síðustu árum hafa reitir verið felldir í nokkrum þjóðskógum og gróðursett aftur í þau svæði. Það síðastnefnda má kalla endurnýjun nytjaskóga. Það er verkefni sem á eftir að aukast og þarf að þróa aðferðir við.
Skógræktin hefur á síðustu áratugum verið í fararbroddi við þróun á úrvinnslu viðarafurða og er slík úrvinnsla stór hluti af starfsemi nokkurra starfstöðva. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að stofnunin skili sértekjum og er úrvinnsla og sala á timbri stór þáttur í þeirri sértekjuöflun.
Í mörgum þjóðskógum hefur verið unnið að því að byggja upp útivistarsvæði enda þjóðskógarnir afar vinsælir áningarstaðir. Tjaldsvæði er að finna í fimm þjóðskógum og sér Skógræktin alfarið um rekstur tveggja þeirra, í Hallormsstaðaskógi og Vaglaskógi. Rekstur tjaldsvæða er leigður út í Þjórsárdal og Selskógi í Skorradal en á Þórsmerkursvæðinu sjá ferðaþjónustuaðilar og ferðafélög um rekstur tjaldsvæða. Gönguleiðir, áningarstaði og bálskýli er að finna víða um land í þjóðskógum.
Þjóðskógasvið sinnir mörgum og ólíkum verkefnum. Dæmi um verkefni sem tengjast ræktun skóga eru skipulagsvinna og umsóknir framkvæmdaleyfa, samskipti við samstarfsaðila í kolefnisbindingarverkefnum, skipulag plöntudreifingar, ráðning verktaka og samskipti við þá, slóðagerð eða viðhald slóða og dreifing áburðar á nýja skógarreiti. Önnur lykilverkefni eru uppsetning og viðhald girðinga í kringum skógræktarlönd.
Starfsfólk á þjóðskógasviði sinnir fræðslu um skóga og skógrækt allt frá grunnskólum upp í háskóla. Fjöldi hópa, innlendra sem erlendra, heimsækir skógana og skógarverðir og aðrir starfsmenn sjá um móttöku á þeim. Starfsnemar dvelja hjá Skógræktinni í lengri eða skemmri tíma og fá fræðslu og starfsfólk stofnunarinnar miðlar þeim af reynslu sinni.
Gott samstarf er við rannsóknasvið um fjölgun á nýjum efniviði s.s. uppbyggingu á græðlingabeðum eða frægörðum ýmissa tegunda og á Vöglum fer fram frærækt af lerkiblendingnum Hrym í gróðurhúsi. Söfnun á græðlingaefni til fjölgunar, söfnun á fræi af ýmsum trjátegundum og fræverkun er unnin að stórum hluta af starfsfólki á þjóðskógasviði.
Hér að ofan eru ekki talin upp öll verkefni sem þjóðskógasvið sinnir, en þau eru mörg og fjölbreytt og starfsfólk Skógræktarinnar þarf að hafa mikinn sveigjanleika og skipulagshæfileika til að starfið gangi vel. Á sviðinu störfuðu á árinu tæplega 30 starfsmenn, sumir í hlutastarfi. Um 15 erlendir skógfræði- og skógtækninemar dvöldu sem starfsnemar um nokkurra vikna skeið hver á starfstöðvum Skógræktarinnar og störfuðu þar með starfsfólki. Tæplega 50 sjálfboðaliðar alls störfuðu yfir sumarmánuðina að viðhaldi gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu og smærri hópar sjálfboðaliða komu að viðhaldi gönguleiða í fleiri skógum. Heildarfjöldi ársverka hjá sviðinu var um 25 eins og undanfarin ár.
Tíðarfar ársins
Tíðarfar ársins var ágætt fyrir trjávöxt þrátt fyrir að sjálfir sumarmánuðirnir júní-ágúst hafi verið svalir og úrkomusamir. Vorið og haustið var fremur gott og voru margir skógar allaufgaðir á Suðurlandi í maíbyrjun. Stormasamt var á köflum fyrri part árs og svo í september, sér í lagi á austanverðu landinu. Mikið stormfall varð t.d. í Hálsaskógi við Djúpavog, skógarreit Skógræktarfélags Djúpavogs. Það er með því versta sem sést hefur hér á landi. Stormfall varð í fleiri þjóðskógum, t.d. í Haukadalsskógi. Talsvert snjóbrot varð í Hallormsstaðaskógi af hvassviðrum sem gengu yfir landið í janúar og febrúar og blotasnjó á Austurlandi í byrjun mars. Miklar andstæður voru í veðri síðustu tvo mánuði ársins; nóvember var sá hlýjasti frá upphafi mælinga á mörgum veðurstöðvum en desember með þeim kaldari sem mælst hafa.
Gróðursetning
Metfjöldi plantna var gróðursettur árið 2021, alls rúmlega 2,1 milljón plantna, en árið 2022 var bætt um betur og gróðursettar tæplega 2,4 milljónir plantna. Gróðursett var í umsjónarlönd Skógræktarinnar víða um land og í samstarfsverkefni með Landgræðslunni í Hekluskóga, Hólasand og Þorláksskóga, eins og undanfarin ár. Heildarflatarmál gróðursettra svæða árið 2022 var 1.039 hektarar og endurgróðursett var í rjóðurfelld svæði alls 1 ha. Skiptingu á landshluta má sjá í töflu 1.
Tafla 1. Gróðursetning í verkefnum þjóðskógasviðs og samstarfsverkefnum árið 2022
Trjátegund | Þjóðskógar | Samstarfsverkefni | ALLS | Hlutfall af heild |
|||||
Suður- land |
Vestur- land |
Austur- land |
Norður- land |
Hóla- sandur |
Þorláks- skógar |
Heklu- skógar |
|||
Alaskaösp | 8.502 | 180 | 13.512 | 210 | 22.404 | 0,9% | |||
Alaskaösp | 151.305 | 29.080 | 180.385 | 7,5% | |||||
Alaskavíðir | 28 | 28 | 0,0% | ||||||
Álmur | 6 | 6 | 0,0% | ||||||
Askur | 8 | 4 | 12 | 0,0% | |||||
Blágreni | 1.240 | 1.240 | 0,1% | ||||||
Evrópulerki | 10 | 10 | 0,0% | ||||||
Fjallaþinur | 1.290 | 1.290 | 0,1% | ||||||
Gráelri | 1.365 | 1.365 | 0,1% | ||||||
Gulvíðir | 7 | 7 | 0,0% | ||||||
Heggur | 44 | 44 | 0,0% | ||||||
Ilmbirki | 134.448 | 27.202 | 47 | 42.998 | 265.255 | 119.996 | 908.090 | 1.498.036 | 62,7% |
Jörfavíðir | 805 | 8.000 | 8.805 | 0,4% | |||||
Lerkiblendg. 'Hrymur' | 417 | 417 | 0,0% | ||||||
Rauðelri | 1 | 1 | 0,0% | ||||||
Rauðgreni | 160 | 160 | 0,0% | ||||||
Reyniviður | 98 | 41 | 700 | 839 | 0,0% | ||||
Rússalerki | 2 | 16.189 | 16.191 | 0,7% | |||||
Sitka- og hvítsitkagreni | 311.580 | 3.040 | 13.326 | 6.020 | 333.966 | 14,0% | |||
Skógarfura | 4 | 4 | 0,0% | ||||||
Stafafura | 205.547 | 96.737 | 15.008 | 7.278 | 324.570 | 13,6% | |||
Víðir, ýmsar teg. | 450 | 58 | 508 | 0,0% | |||||
Ýmsar eikartegundir | 6 | 1 | 7 | 0,0% | |||||
Ýmsar lerkitegundir | 93 | 93 | 0,0% | ||||||
Ýmsar tegundir | 7 | 2 | 9 | 0,0% | |||||
Garðahlynur | 10 | 10 | 0,0% | ||||||
Samtals | 815.400 | 30.242 | 110.562 | 89.574 | 265.255 | 171.284 | 908.090 | 2.390.407 | 100% |
Skógarumhirða
Grisjun skóga og önnur umhirða skógarreita var á höndum starfsfólks Skógræktarinnar og verktaka. Innlendir verktakar sáu um vélgrisjunarverkefni á Norðurlandi og erlendir verktakar grisjuðu með vélum á Fljótsdalshéraði. Ekki voru stór grisjunarverkefni á Suður- og Vesturlandi, en þar hefur verið grisjað töluvert síðustu ár. Meginaukningin í grisjun var norðan- og austanlands. Í þjóðskógum voru alls grisjaðir um 37 ha og 2,6 ha voru rjóðurfelldir. Alls komu rúmlega 2.200 m3 af viði úr þessum grisjunum, þ.a. tæplega 500 m3 úr lokafellingu. Tæplega 1.000 m3 komu úr lerkiskógum og afgangurinn greni, fura og birki. Hluti af viðnum var seldur til stóriðju og stór hluti af grisjunarvið fór til ýmiss konar viðarvinnslu hjá einkafyrirtækjum á Austurlandi.
Viðarvinnsla og aðrar afurðir
Haustið 2022 lauk TreProx-verkefninu, verkefni sem snerist um að bæta þekkingu þeirra aðila hér á landi sem vinna við sögun á timbri, umhirðu skóga, vali á trjábolum til vinnslu og þurrkun á timbri. Markmiðið var að auka gæði þeirra afurða sem unnar eru úr bolviði úr íslenskum skógum. Verkefnið var samvinnuverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarinnar, Trétækniráðgjafar slf., Linné-háskólans í Svíþjóð og Kaupmannahafnarháskóla. Verkefnið hófst árið 2019 og lauk aðeins seinna en fyrirhugað hafði verið vegna Covid-19 plágunnar.
Lokaskrefin í samstarfsverkefninu „Þurrkun á timbri með jarðvarma“ sem Skógræktin tók þátt í ásamt EFLU og Trétækniráðgjöf slf. voru stigin árið 2022. Verkefnið naut styrks úr Loftslagssjóði. Þar var fýsileiki þurrkunar á Íslandi skoðaður með tilliti til núverandi tækni, nýtingar jarðvarma og staðsetningar.
Viðarvinnsla var annars með hefðbundnu sniði á árinu og gæði vinnslunnar jukust með aukinni þekkingu.
Mikið átak var vorið 2022 í klippingu á aspargræðlingum eins og fjallað er um í sérstakri grein hér í Ársritinu. Voru rúmlega 200 þúsund græðlingar klipptir og var verkið aðallega unnið af verktökum. Mestur hluti efnisins voru græðlingar til beinnar stungu, en einnig var klippt töluvert af sumargræðlingum sem nýttir voru til ræktunar á ösp í gróðurhúsi.
Jólatrjáasala var svipuð og undanfarin ár og tíðarfar gott til að afla trjánna. Alls voru seld rúmlega 1.600 tré, þ.a. tæplega 100 torgtré sem prýddu torg og stræti um allt land. Eru þetta tæplega 20% af heildarsölu á innlendum jólatrjám. Helsta samkeppnin við innlend jólatré er ekki aðeins innflutningur á lifandi trjám því einnig eru gervijólatrén að sækja í sig veðrið.
Ferðamannastaðir
Þjóðskógarnir eru vinsælir til útivistar árið um kring. Unnið var að þremur meginverkefnum sem fjármagn fékkst til úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Lokið var við að reisa eldaskálann á Vöglum. Enn er þó eftir að ganga frá salernisrými að innanverðu, auk ýmiss frágangs á svæðinu. Á Þórsmörk og Goðalandi var haldið áfram uppbyggingu og viðhaldi á gönguleiðum. Unnið var að endurbótum á gönguleiðum í Haukadalsskógi og gerð var skíðagöngubraut um svæðið sem á eftir að nýtast vel enda geta snjóalög orðið langvinn í skóginum og hentar svæðið vel til gönguskíðaiðkunar. Sagt er nánar frá því í sérstakri grein hér í ritinu. Unnið var að fleiri verkefnum til að bæta aðgengi ferðamanna að þjóðskógum um land allt og komu ýmsir að verki s.s. SEEDS-hópar og starfsfólk Skógræktarinnar.
Starfsmannamál
Eins og áður var nefnt störfuðu um 30 starfsmenn á sviðinu í ár og skiluðu rúmlega 25 ársverkum. Fjórir starfsmenn létu af störfum á árinu. Tveir starfsmenn létu af störfum vegna aldurs, þeir Einar Óskarsson, verkstjóri í Haukadal, og Jón Þór Tryggvason, skógarhöggsmaður á Hallormsstað. Tveir starfsmenn til viðbótar, þeir Erlingur Viðarsson, skógarhöggsmaður í Vaglaskógi, og Kristmundur Helgi Guðmundsson, verkstjóri í Skorradal, hættu og héldu til annarra starfa. Ægir Freyr Hallgrímsson og Guðrún Rósa Hólmarsdóttir hófu störf hjá Suðurlandsdeild. Ellert Arnar Marísson skógfræðingur var ráðinn í starf verkefnastjóra samstarfsverkefna. Þar eru fyrirferðarmest samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á svæðum eins og Hekluskógasvæðinu, Hafnarsandi, Hólasandi og víðar. Eru starfsmönnum sem hættu á árinu þökkuð góð störf á síðustu árum og áratugum og nýtt fólk boðið velkomið til starfa.
Að lokum
Mikil aukning í gróðursetningu er að stórum hluta tengd auknum áhuga fyrirtækja á að binda kolefni með skógrækt. Þessi verkefni krefjast góðs skipulags, bæði undirbúnings, þ.e. áætlanagerðar, skipulagsferlis, ráðningar á verktökum í jarðvinnslu og gróðursetningu, sem og skipulags plöntukaupa, geymslu og flutnings. Önnur verkefni hafa á sama tíma haldist svipuð og mannskap hefur ekki verið fjölgað svo nokkru nemi. Þetta þýðir að álag á starfsfólk hefur aukist þannig að fólkið þarf að hlaupa hraðar og forgangsraða til að ná að ljúka verkefnum. Þetta hefur tekist vel en jafnframt hafa kaup á þjónustu verktaka heldur aukist síðustu ár. Starfsfólk Skógræktarinnar hefur staðið sig vel í síbreytilegu umhverfi og á hrós skilið.
Hæsta tré landsins
Fyrsta tréð frá því fyrir ísöld
sem nær 30 metra hæð á Íslandi
Forsætisráðherra slær máli á tré ársins á Kirkjubæjarklaustri
Pétur Halldórsson
Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra var boðið til athafnar í skóginum á Kirkjubæjarklaustri 12. september þar sem hæsta tré landsins var útnefnt tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar, leiðbeindi Katrínu við þríhyrningsmælingu á trénu sem er sitkagreni gróðursett af fjölskyldunni á Klaustri árið 1949. Mælingu Katrínar var bætt við röð mælinga sem Björn hafði þegar gert á trénu til að fá sem nákvæmasta tölu. Niðurstaðan er sú að fyrsta tréð hefur nú náð þrjátíu metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld þegar hér uxu stórvaxnar trjátegundir sem náð gátu margra tuga metra hæð.
Í ávarpi sínu við tréð á Klaustri talaði Katrín Jakobsdóttir um mikilvægi skóga og skógræktar. Hún nefndi nýsamþykkta landsáætlun um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, og þann mikilvæga þátt sem áætlunin væri í markmiðum Íslendinga í loftslagsmálum. Þar fyrir utan ætti hún persónulega kærar minningar frá þessum stað frá því þegar hún sýndi tilvonandi manni sínum skóginn snemma í sambandi þeirra.
Fjöldi fólks, um áttatíu manns, var viðstaddur á Klaustri þegar tré ársins var útnefnt, heimafólk og fulltrúar eigenda skógarins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands. Auk forsætisráðherra fluttu ávörp Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Hafberg Þórisson í Lambhaga sem var bakhjarl viðburðarins.
Fyrsta flettiefnið úr Hrymi
Hrymur flettur
Þröstur Eysteinsson
Borð voru flett úr lerki á Hallormsstað í byrjun mars 2022. Slíkt telst yfirleitt ekki í frásögur færandi nema að í þetta skipti var umrætt lerki ekki nema 22 ára gamalt frá gróðursetningu. Lerkiblendingurinn 'Hrymur' hafði þar með í fyrsta sinn gefið nothæfan smíðavið.
Bolirnir komu úr grisjun á fyrstu tilraun með afkvæmahópa úr lerkikynbótaverkefni Þrastar Eysteinssonar, nú skógræktarstjóra, sem hófst árið 1992 og nýtti ýmsar aðferðir til að hraða kynbótunum. Nægilegt fræ varð til haustið 1997, sex árum eftir ágræðslu foreldranna, til að hægt væri að efna í að kanna vöxt og gæði afkvæmanna. Fræinu var sáð 1998 og afkvæmatilraunir voru svo gróðursettar árið 1999 á Höfða á Héraði og Mosfelli í Grímsnesi. Meðal afkvæmahópanna voru fimm fjölskyldur af blendingi rússalerkis og evrópulerkis, sem síðan fékk nafnið 'Hrymur'.
Hrymur sýndi mjög fljótlega verulega yfirburði í vaxtarhraða, sérstaklega í Mosfelli þar sem hreina rússalerkið átti bágt. Síðan kom í ljós að yfirburðirnir voru meiri í þvermálsvexti en í hæðarvexti. Til urðu sverir og miklir bolir.
Árið 2021 var ákveðið að grisja afkvæmatilraunina á Höfða, þá 22 ára gamla. Helmingur hvers afkvæmahóps var felldur þannig að betri (hærri, sverari, beinni) trén voru skilin eftir. Lakari tré Hryms voru þó það sver að ákveðið var að taka þau til hliðar og gera tilraunir með flettingu. Aðeins var fellt í tveimur blokkum, eða alls sex tré af hverjum afkvæmahópi. Þar með voru aðeins 30 Hrymir felldir. Ekki voru allir þeir bolir sagtækir en þó nóg í dágóðan stafla af borðum.
Þetta gefur góða vísbendingu um að með réttum aðferðum verði hægt að rækta Hrym þannig að nokkur borðviður fáist við fyrstu grisjun um tvítugt. Með rússalerki fæst enginn borðviður úr snemmgrisjun á þessum aldri og yfirleitt mælt er með því að skilja trén eftir liggjandi í skógarbotninum svo betri tré fái vaxtarrými. Jafnframt gefur þetta til kynna að lotulengd Hryms verði líklega 40-50 ár, eða 10-20 árum skemmri en hjá rússalerki.
Nú er unnið hörðum höndum að því að auka fræframleiðslu blendingsins Hryms í fræhöllinni í Vaglaskógi, sem mun skila sér í hraðvaxta og vel aðlöguðum lerkiskógum framtíðarinnar.
Frjósöm blæösp
Blæösp blómstrar í þriðja sinn á Íslandi
Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson
Sigrún Þöll Hauksdóttir Kjerúlf, kennari á Egilsstöðum, birti föstudaginn 22. apríl 2022 myndir af fallega blómstrandi tré á Facebook-síðunni Ræktaðu garðinn þinn – garðyrkjuráðgjöf. Myndir af blómstrandi trjám eru algengar á síðunni, en hér var um blæösp að ræða og er blómgun hennar hér á landi nánast óþekkt fyrirbæri.
Þessi atburður var svo merkilegur að skógræktarstjóri fór á stúfana og skoðaði blæaspir í trjásafninu á Hallormsstað og þær villtu í Egilsstaðaskógi til að kanna hvort þær blómstruðu. Svo reyndist ekki vera. Sigrún bauð honum svo að koma og skoða öspina í garði foreldra sinna á Egilsstöðum, þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar 24. apríl. Öspin reyndist vera karlkyns, sem sást á því að frjóduft hristist úr mjúkum reklunum í blænum. Var öspin keypt á sínum tíma í gróðrarstöð, annað hvort í Kjarna eða á Vöglum, og gróðursett í garðinn sunnan við húsið árið 1982. Þar hefur hún dafnað vel síðan.
Blómgun villtrar blæaspar hefur aldrei verið skráð hér á landi og aðeins tvisvar áður hjá ræktaðri blæösp í görðum: Fyrst gerðist þetta á Hallbjarnarstöðum í Reykjadal árið 1956 og svo við Oddeyrargötu 36 á Akureyri þar sem Jóhann Pálsson garðyrkjustjóri sá öspina blómstra einhvern tímann á Akureyrarárum sínum, 1978-1985. Um þetta má lesa í Skógræktarritinu 2002, 2. tbl.: Íslensku skógartrén 2 Blæösp (Populus tremula L.) eftir Sigurð Blöndal. Í bæði skiptin er vitað að um var að ræða klóninn frá Garði í Fnjóskadal, enda var hún sú fyrsta sem uppgötvaðist á Íslandi og sú sem langoftast hefur verið fjölgað með rótarskotum og höfð til sölu í gróðrarstöðvum. Þar sem öspin sem blómstrar nú er karlkyns eins og hinar og var keypt í gróðrarstöð á sínum tíma er mjög sennilegt að hér sé einnig um sama klóninn að ræða – Garðsöspina.
Blómgun trjáa stjórnast að mestu leyti af hitafari sumarsins áður. Blæösp er aðlöguð mun hlýrri sumrum en Ísland hefur yfirleitt að bjóða og nær því (nánast) aldrei að blómstra. Í fyrra var óvenjuhlýtt og sólríkt á Austurlandi, líkt og var 1955 og (sennilega) 1980 á Norðurlandi. Það dugði samt ekki fyrir blæaspir á Héraði yfirleitt. Í viðbót þurfti vaxtarstað sunnan við hús í skjólgóðu umhverfi og fullri sól.
Líka á Akureyri
Með þessu var sem sagt staðfest að blæösp hefði þetta vorið náð að blómstra þrisvar á Íslandi svo vitað sé. En þar með var ekki öll sagan sögð. Í apríl fannst einnig blómstrandi blæösp við við Andapollinn á Akureyri. Er það þar með fjórða tréð af tegundinni sem vitað er að hafi blómgast. Með hlýnandi veðri gæti slíkum atburðum fjölgað en hafa verður í huga að sumarið 2021 var einstakt í sinni röð á Norður- og Austurlandi. Hvort og hvenær frjó karlkyns blæaspar ná til blómstrandi kvenkyns blæaspar hérlendis er ómögulegt að segja.
Átak í fjölgun alaskaaspar
Stóra asparstiklingaverkefnið
Pétur Halldórsson
Ráðist var í kraftmikla stiklingaframleiðslu á vegum Skógræktarinnar vorið 2022 enda óvenjumikil þörf fyrir asparplöntur um þær mundir. Margar hendur lögðu sitt af mörkum bæði við söfnun og meðhöndlun stiklinganna en sömuleiðis við áframhaldandi ræktun. Gróðursetningarflokkar stungu talsverðum hluta af þessum stiklingum beint í jörð á Suðurlandi um vorið meðan mikill raki var enn í jörð. Dýrmæt reynsla fékkst af verkefninu sem nýtist vel til að auka gæði og bæta árangur við aukna asparrækt á komandi árum.
Veturinn 2021-2022 varð ljóst að plöntuframleiðsla úr gróðrarstöðvum myndi engan veginn duga til þess að anna spurn eftir asparplöntum á komandi vori vegna aukinna umsvifa í nýskógræktarverkefnum. Því var ákveðið að bregðast við þessum fyrirsjáanlega skorti á asparskógarplöntum með því að framleiða a.m.k. 200 þúsund asparstiklinga til „beinnar stungu“ á fyrirhuguðum ræktunarstað. Rannsóknir Jóhönnu Bergrúnar Ólafsdóttur, sérfræðings á rannsóknasviði Skógræktarinnar, og reynsla margra annarra starfsmanna Skógræktarinnar í gegnum árin hefur leitt í ljós að stunga asparstiklinga getur verið jafnskilvirk leið – en um leið ódýrari leið – til þess að rækta alaskaösp og gróðursetning asparplantna, sé rétt að málum staðið. Þessu lýsti Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, í föstudagspósti til starfsfólks Skógræktarinnar í byrjun maí. Þar nefndi hann þrjár forsendur fyrir góðum árangri beinnar stungu aspargræðlinga:
- Að stiklingarnir komist snemma í jörð (eins fljótt og snjóa leysir eða frost er farið úr jörðu).
- Ef stiklingarnir þurfa geymslu fram að stungu, að þeir séu geymdir í kæli, við frostmark. Stiklingar mega ekki ná að þorna, svo sem gerist ef þeir eru geymdir utandyra í marga daga eða vikur í langvarandi vorhlýindum.
Að notaðir séu sannreyndir asparklónar sem henta á viðkomandi svæði.
„Stiklingaverksmiðja“
Asparstiklingaverkefninu var formlega hrundið af stað 1. mars með þátttöku verktaka og starfsmanna Skógræktarinnar. Á Mógilsá var ákveðið að nota tækifærið og grisja gömul klónasöfn og móðurplöntureiti með góðum klónum sem voru orðnir þéttir og höfðu of lengi beðið grisjunar. Skemmunni á Mógilsá var breytt í „stiklingaverksmiðju“ til að byrja með, en þegar veðrið breyttist til hins betra fluttist framleiðslan út undir bert loft. Stiklingarnir voru blanda af góðum og reyndum klónum, flestir ættaðir upphaflega frá stöðum í Alaska á borð við Cordova, Copper River Delta og Yakutat, með minni háttar ívafi klóna af öðrum uppruna (s.s. af Kenai-skaga). Þetta stuðlar að gæðum og fjölbreytni efniviðarins.
Verktakarnir Quinn McCord og Vignir Heiðarsson báru hitann og þungann af því að klippa stiklingana á Mógilsá, með tímabundinni hjálp annarra verktaka, þ.á.m. Skógræktarfélagsins Ungviðar, starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur o.fl. Skógarhöggsmenn úr Skorradal, þeir Helgi Guðmundsson og Viktor Steingrímsson, lögðu líka ríkulega af mörkum til verkefnisins með því að annast trjáfellingar. Fleiri verktakar tóku sömuleiðis þátt í þessu starfi á Suðurlandi. Stiklingarnir voru síðan fluttir í kæligeymslu á Tumastöðum sem stillt var á hita rétt undir frostmarki. Þegar kom að gróðursetningu um vorið sá gróðursetningarfólk frá fyrirtækinu Gone West um drjúgan hluta af þessari gróðursetningu eða stiklingastungu. Um sumarið kom svo út myndband þar sem Aðalsteinn Sigurgeirsson leiðbeinir um söfnun, klippingu og stungu aspargræðlinga.
Hagkvæm aðferð
Eins og fyrr var nefnt höfum við hérlendis góða, almenna reynslu af beinni stungu aspargræðlinga beint á fyrirhuguðum ræktunarstað. En við höfum litla reynslu af því að fást við verkefni á þessum mælikvarða þar sem hundruð þúsunda græðlinga þurfa að komast í jörð á skömmum tíma og eins snemma vors og tök eru á. Verulegum hluta asparstiklinganna var stungið í sanda og annað rýrt land. Reynslan sýnir að stungu á slíkum svæðum verður að fylgja eftir með áburðargjöf, ef gróðursetningin á að bera viðunandi árangur og plönturnar sem vaxa upp af stiklingunum að festa rætur. Í takti við vaxandi þörf fyrir hraðvaxna skóga sem binda mikið kolefni eru horfur á að þetta sé aðeins byrjunin á mun meiri notkun órættra stiklinga á stórum mælikvarða við asparskógrækt. Það er mjög hagkvæm ræktunaraðferð þar sem hún hentar og þegar vel tekst til.
Lifa stiklingar jafnvel á hvolfi?
Rannsóknir Jóhönnu Bergrúnar Ólafsdóttur og reynsla annarra bendir til að því sverari sem stiklingarnir eru, því betri verði árangurinn. Enn fremur er vel þekkt, að stiklingurinn verði að fara djúpt í jörð þannig að aðeins efstu sentímetrarnir sjáist á yfirborðinu. Þannig er dregið úr útgufun og þar með vökvatapi stiklinganna. Alls ekki má láta duga að tylla bláendanum ofan í jörðu eins og stundum hefur borið við, bendir Aðalsteinn á. Jafnframt segir hann að meðal þess sem við höfum litla áþreifanlega reynslu af, sé hve nauðsynlegt er að upp úr jörðinni standi sýnileg brum sem geti skjótt tekið að „ála“ – eða hvort sprotar úr ósýnilegum dvalarbrumum geta náð að spíra úr stiklingunum. Enn fremur hefur það verið sumum áhyggjuefni að stiklingar sem ekki eru með sýnileg brum lendi óvart á hvolfi á stungustað og að slíkt leiði til mislukkaðrar stiklingastungu. Af þessum sökum hefur einn verktakinn við stiklingaframleiðsluna, Quinn McCord, haft frumkvæði að því að gera nokkrar einfaldar tilraunir í gróðurhúsinu á Mógilsá sem sjást á meðfylgjandi myndum. Ekki er þó hægt að mæla með því að stiklingum sé stungið á hvolf því óvíst er um framhaldið, jafnvel þótt þeir byrji að vaxa. Á myndbandavef Skógræktarinnar er líka myndband þar sem Quinn lýsir stiklingavinnunni í gróðurhúsinu á Mógilsá.
Framhaldið
Ýmiss konar lærdóm má draga af verkefninu. Nokkuð langt var liðið fram á vor þegar ákvörðun um að hefja verkefnið var tekin og hefði verið betra eftir á að hyggja að hefja verkið strax í janúar svo rýmri tími hefði gefist til að vinna verkið. Hætta er á að efniviðurinn hafi misst frostþol og sé jafnvel byrjaður að bruma ef unnið er að klippingu langt fram á vor. Græðlingar geymast síður í kæli ef klippt er of seint. Gæði græðlinganna voru mismikil og hefði árangur af stungu þeirra orðið enn betri hefðu allir græðlingar verið með kröftug vaxtarbrum á efri hluta sínum. Mjög grannir græðlingar úr greinarendum lifna síður, sem og mjög sverir græðlingar þar sem dvalarbrum eru ekki til staðar. Einnig þarf að auka áherslu á að nýta eingöngu efnivið af bestu þekktu asparklónum. Stefnt er að því að bæta verklag við klippingu á næstu árum, en þessi reynsla var dýrmæt.
- Asparstiklingar „til heimabrúks“ (myndband)
- Micropropagation - Black cottonwood (myndband)
Bætt aðstaða til skíðagöngu í þjóðskógi
Nýjar skíðagöngubrautir í Haukadalsskógi
Pétur Halldórsson
Aðstaða til skíðagöngu í Haukadalsskógi var bætt á árinu með nýjum leiðum og endurbótum á þeim sem fyrir voru. Leiðirnar eru hugsaðar sem göngu- og hlaupaleiðir þegar ekki er snjór. Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu tóku þátt í skipulagningu leiða og kynningu og var það liður í átaki um heilsueflandi samfélag.
Nú liggur ný leið um skjólbeltin sunnan við Hákonarlund. Það er rúmlega 500 metra langur hringur á flötu svæði og hentar því mjög vel fyrir byrjendur í skíðagöngu. Einnig hafa verið útbúnar nokkrar tengingar til að búa til hringleiðir svo að fólk geti komið til baka á upphafspunkt án þess að snúa við á sama sporinu.
Heildarlengd þeirra stíga sem nú hafa verið lagðir eða endurbættir er um þrír kílómetrar en áfram verður unnið að því að bæta aðgengi og opna fleiri leiðir. Stærri hringurinn sem sjá má á meðfylgjandi korti er meira krefjandi en sá stutti, því þar þarf að fara upp og niður smávægilegan halla. Báðar þessar leiðir ættu samt sem áður að vera færar flestum með lágmarkskunnáttu í skíðagönguíþróttinni.
Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu eru með í átaki Landlæknisembættisins um heilsueflandi samfélag og hafa tekið þátt í að skipuleggja leiðirnar og auglýsa svæðið. Þar er í forystu Gunnar Gunnarsson, íþrótta- og heilsufræðingur. Þá hefur Hótel Geysir stutt þetta verkefni með því að leggja til vélsleða til að troða skíðagöngusporin í skóginum en Gunnar útbjó spora og þjappara aftan í hann fyrir sjálft skíðasporið. Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum styrkti uppbyggingu leiðanna og viðhald gönguleiða í Haukadalsskógi í sumar.
Brautirnar byrja við bílastæðið við Hákonarlund en þar einnig hægt að nýta sér snyrtingar allt árið um kring. Allt er því til reiðu nema snjórinn því enn er snjólaust í Haukadalsskógi eins og annars staðar á landinu. Veturinn er þó bara rétt að byrja og verður spennandi að sjá hvernig skíðagöngufólk tekur bættri aðstöðu í þessum fallega þjóðskógi. Eftir því sem aðstaða til útivistar eykst og batnar í þjóðskógunum gegna þeir betur sínu fjölþætta hlutverki sem meðal annars felst í því að fjölga tækifærum fólks til að njóta skóganna og þar með þeirrar hollustu sem felst í útivist og dvöl í skógi fyrir sál og líkama.
Listaverki stolið
Hvarf brjóstmyndar Þorsteins Valdimarssonar
Pétur Halldórsson
Skógarverðinum á Hallormsstað barst fyrri hluta ágústmánaðar tilkynning um að brjóstmynd af Þorsteini Valdimarssyni skáldi væri horfin úr skóginum. Hvarfið var tilkynnt lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk en málið endaði farsællega þegar verkið fannst í heimahúsi á Egilsstöðum.
Brjóstmyndin hafði þá staðið í Trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað í áratugi til minningar um Þorstein sem bæði var þekkt ljóð skáld og starfaði öðru hverju hjá Skógræktinni á Hallormsstað sem sumarstarfsmaður. Listaverkinu var á sínum tíma valinn staður þar sem Þorsteinn bjó gjarnan í tjaldi á sumrum og kallaði Svefnósa.
Þorsteinn Valdimarsson (1918-1977) var fæddur í Brunahvammi í Vopnafirði, sonur hjónanna Guðfinnu Þorsteinsdóttur (sem tók sér skáldanafnið Erla) og Valdimars Jóhannssonar sem síðar bjuggu í Teigi í Vopnafirði og þar ólst Þorsteinn upp. Þorsteinn er í hópi þekktustu ljóðskálda þjóðarinnar og gaf út átta ljóðabækur á ferli sínum. Við nokkur ljóða sinna samdi hann sönglög auk þess sem hann þýddi allmörg erlend söngljóð og ljóðabálka á íslensku.
Svefnósar
Þorsteinn vann sem fyrr segir öðru hverju á sumrum hjá Skógræktinni á Hallormsstað á árunum 1957-1969 og tók miklu ástfóstri við staðinn, skóginn og fólkið. Á mótum Kerlingarár og Króklækjar tjaldaði hann fyrst síðsumars 1957 og nefndi staðinn Svefnósa. Auðkennum staðarins gaf hann líka sín nöfn. Nálægan klett nefndi hann Klapparljónið og tunguna á lækjamótunum Eldatanga. Þar brann oft langeldur og speglaðist í hylnum Skyggni þegar skáldið kvaddi staðarfólkið saman til söngs og annarrar skemmtunar á síðkvöldum. Eitt ljóða Þorsteins, Sprunginn gítar (1960), lýsir gleðskap við Svefnósa. Og í niðurlagi ljóðsins Slóðin í síðustu ljóðabók skáldsins, Smalavísum (1977), fer ekki milli mála hvar hugurinn dvelur:
Ég greini lækinn liðast
í lágri klapparskor
við tjald mitt og hljóðna og hverfa
í húmið hin syngjandi spor
Brjóstmyndina af Þorsteini Valdimarssyni sem numin var á brott úr skóginum gerði myndlistarmaðurinn Magnús Á. Árnason. Að uppsetningu hennar stóðu herstöðvarandstæðingar þar sem Þorsteinn skáld var virkur meðlimur og var listaverkið afhjúpað á hátíð herstöðvaandstæðinga á Austurlandi sem fram fór í Hallormsstaðaskógi 2.-3. ágúst 1980.
Farsælar málalyktir
Þegar þjófnaðurinn uppgötvaðist var hann tilkynntur til lögreglu sem þjófnaður og skemmdarverk. Töluverð leit var gerð að gripnum í skóginum, einkum í grennd við stöpulinn sem hann stóð á, en árangurslaust. Um það bil mánuði eftir hvarfið fann lögreglan brjóstmyndina fyrir tilviljun í heimahúsi á Egilsstöðum. Hún var svo afhent Skógræktinni á ný og farið að huga að leiðum til að lagfæra hana og koma á sinn stað.
Söfnun og sáning á birkifræi
Skýrsla vinnuhóps um söfnun og sáningu á birkifræi 2022
Kristinn H. Þorsteinsson og Pétur Halldórsson
Verkefnið Söfnun og sáning á birkifræi hófst sem samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar vorið 2020. Markmiðið var að efla útbreiðslu birkiskóga með sameiginlegu átaki landsmanna við söfnun og dreifingu birkifræs. Mikið birkifræ safnaðist haustið 2020 enda mjög gott fræár á Suður- og Vesturlandi en mun minni árangur varð 2021 þegar minna var af fræi í þessum fjölmennustu landshlutum. Gott fræár kom síðan á Norður- og Austurlandi 2022 og safnaðist vel af fræi, sérstaklega á Norðurlandi.
Fræ hékk meira og minna á trjám fram í desember og þegar þetta er skrifað í byrjun árs 2023 má víða enn sjá rekla á birkitrjám á Norðurlandi þar sem fræár var mjög gott. Fræ er þó farið að losna af trjánum í kjölfar þess að snjóa tók á landinu í desember og liggur birkifræ víða á snjónum. Gott fræár boðar góða afkomu smáfugla sem reiða sig á fræ yfir veturinn, ekki síst auðnutittlings sem er áberandi fuglategund hvarvetna þar sem birki er að finna.
Verkefnisstjóri verkefnisins var Kristinn H. Þorsteinsson en ásamt honum í vinnuhópnum voru Áskell Þórisson, Guðmundur Halldórsson og Pétur Halldórsson. Hópnum innnan handar voru einnig Brynjar Skúlason, Ellert Arnar Marísson og Magnús Þ. Einarsson
Samstarf um verkefnið
Sú breyting varð á að Terra ákvað að hætta þátttöku og stuðningi við verkefnið eftir breytingar á eignaraðild fyrirtækisins. Aftur á móti gekk Olís til samstarfs við átakið á árinu.
Gerðar höfðu verið 5.500 eins lítra söfnunaröskjur haustið 2021 eftir að söfnun lauk það árið. Á öskjunum komu fram merki Skógræktarinnar, Landgræðslunnar, Prentmets-Odda, Bónus, Olís, Terra, Lions og Landverndar. Vegna brotthvarfs Terra var ákveðið að prenta límmiða þar sem merki Olís kom fram í stað Terra. Miðarnir voru límdir yfir gömlu merkingarnar.
Starfsfólk Prentmets-Odda hannaði nýja fræsöfnunarkassa sem komið var fyrir í verslunum Bónus og Olís á 50 stöðum vítt og breitt um landið. Við hliðina á söfnunarkössunum var söfnunaröskjunum komið fyrir.
Veitt fræðsla
Vorið 2022 var haft samband við skóla landsins og þeim boðin fræðsla um vistheimt með birki og kynningu á landsátakinu. Skólarnir höfðu öðrum hnöppum að hneppa þar sem dagskrá vetrarins hafði riðlast mikið hjá þeim.
Þrír skólar, Lindaskóli, Smáraskóli og Hörðuvallaskóli, þáðu verklega fræðslu á Vatnsendaheiði vorið 2022 og gróðursettu í kjölfarið birkiplöntur og lærðu að sá fræjum. Álfhólsskóli þáði fræðslu um haustið og gróðursett var birki, tínt birkifræ og börnin og kennarar lærðu að sá í örfoka land.
Vinnuskóli Kópavogs fékk myndræna og verklega kennslu seinni part júnímánaðar og fram í júlí.
Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs vann að hugmynd með Þjóðkirkjunni um að öll börn á Íslandi sem skírast fái að gjöf um 1.000 fræ í umslagi og eru aðstandendur barnanna hvattir til að koma fræjunum í jörðu. Skógræktarfélag Kópavogs sá um að koma fræjum í hendur kirkjunnar fólks og undirbúa verkefnið sem fór formlega af stað 9. október. Nú þegar er farið að vinna að því að undirbúa fræðslu um endurheimt vistkerfa og kolefnisbindingu með birki fyrir fermingarbörn en hugmyndin er að þau safni birkifræi og skili inn í landsátakið. Úr þeim banka fá síðan börnin sem skírast fræ. Skógræktarfélag Kópavogs mun hefja fræðslu á nýju ári og ætlunin er að þjálfa upp leiðbeinendur innan kirkjunnar um land allt til að annast fræðsluna í framtíðinni því ríkur vilji er að þetta festist í sessi um ókomna tíð.
Á kynningardögum í grænum mánuði hjá Toyota á Íslandi í júní afhenti fyrirtækið umslög með 1.000 birkifræjum öllum þeim sem sóttu fyrirtækið heim. Gestir voru hvattir til að sá fræjunum í örfoka land og taka þannig þátt í endurheimta landgæði og binda koltvísýring í gróðri. Skógræktarfélag Kópavogs útvegaði fræ og sá um setja um 1.000 fræ í hvert umslag sem var merkt Toyota en þar var einnig vísað í upplýsingar um landsátakið, sáningar og söfnun á vefnum birkiskogur.is.
Í september voru fræðsludagar fyrir fjölskyldur hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga í Garðsárreit í Eyjafirði, Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk, Skógræktarfélagi Suður-Þingeyinga, Stórutjarnaskóla, Skógræktarfélagi Reyðafjarðar og hjá Skógræktarfélagi Kópavogs á Vatnsendaheiði.
Önnur félagasamtök sem nutu fræðslu Skógræktarfélags Kópavogs voru Lionsklúbburinn Eir og Lionsklúbbur Reykjavíkur, Soroptimistaklúbbur Kópavogs og Skátasambandið. Lionsklúbbur Reykjavíkur, Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og skátar nutu aðeins fyrirlestrar í sal.
Þá nutu eftirtalin fyrirtæki og félagasamtök fræðslu og tóku þátt í frætínslu og sáningu: Íslandsbanki, Tempo ehf., Gönguklúbburinn - einn tveir og á Listasafni Ásgríms Sveinssonar var fræðsla og birkifrætínsla í tengslum við sýninguna „Eftir stórhríðina“.
Fjölskyldur virkjaðar
Þátttaka í landsátakinu Söfnum og sáum birkifræi hentar fjölskyldum sem og öðrum mjög vel og á þetta hefur verið lögð rík áhersla í verkefninu enda hentar börnum vel að taka þátt í þessu. Þau skynja vel mikilvægi verkefnisins, eru fljót að tileinka sér rétt vinnubrögð, vinna hratt og hafa bæði gagn og gaman af því að tína birkifræ og sá þeim. Í ljós hefur komið að afar og ömmur eru mjög góður markhópur að beina sjónum að enda hópur sem bæði hefur verið duglegur að tína og einnig að drífa barnabörnin með sér.
Almenningur tók vel við sér og fjöldi fólks tók sér söfnunaröskjur og bréfpoka. Ómögulegt er að segja hversu mikið er um að fólk tíni fræ og sái því sjálft þar sem það vill sjá birki spretta upp. Tilfinning aðstandenda landsátaksins er þó sú að þetta fari vaxandi enda hefur það verið einn megintilgangur átaksins að virkja fólks til sjálfstæðs framtaks í því sameiginlega verkefni þjóðarinnar að breiða út birkiskóglendi á landinu. Áhugavert væri ef hægt væri að gera könnun á þessum þætti í starfinu til að sjá hversu mikið og hversu víða fólk, félög, fyrirtæki og stofnanir vinna sjálfstætt að útbreiðslu birkis.
Árangurinn 2022
Líklega var Akureyri og nágrenni það svæði þar sem mestu var safnað af birkifræi árið 2022. Dæmi voru um að fólk kæmi með tugi lítra af fræi sem það hafði safnað, hreinsað og þurrkað áður en því var skilað, ýmist í söfnunarkassa hjá Bónus og Olís eða beint á starfstöðvar Skógræktarinnar. Skemmtilegt dæmi eru hjón sem búa í Lundahverfi á Akureyri og fóru margar ferðir á norðanverðan golfvöllinn hjá golfklúbbnum Jaðri til að tína þar birkifræ. Uppskeran var 23 lítrar af vel þurrkuðu og hreinsuðu fræi sem var vel fyllt og leit hraustlega út. Áhugasamur fræsöfnunarmaður úr austanverðum Eyjafirði kom með um tíu lítra og hafði meðal annars tínt nærri tvo lítra af einu og sama trénu í landi Eyrarlands. Kennari í Menntaskólanum á Akureyri sem hefur mikinn áhuga á átakinu drífur nemendur nú út á hverju hausti til að tína fræ. Fjölmörg slík skemmtileg dæmi mætti nefna um frætínsluframtak fólks á ýmsum aldri.
Fræmóttökukassar voru á 50 stöðum á landinu, í verslunum Bónus og á bensínstöðvum Olís. Einnig var hægt að skila inn fræjum á starfsstöðvum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Söfnunaröskjurnar rúmuðu 1 lítra og voru að meðaltali 0,7 lítrar í hverri öskju á höfuðborgarsvæðinu.
- Á Suður- og Vesturlandi söfnuðust 150 lítrar eða um 14, 5 kg en á
- Norður- og Austurlandi söfnuðust 417 lítrar eða um 40 kg.
Nýting á fræinu
Mikilvægt er að það fræ sem safnast í söfnuninni verði nýtt til góðra verkefna og af spretti nýtt birkiskóglendi á landinu. Forystufólk verkefnisins hefur leitað leiða til að virkja almenning til frædreifingar, meðal annars gegnum verkefni Þjóðkirkjunnar, Toyota, skógræktarfélaga og fleiri, sem fyrr er greint. Ljóst er þó að meirihluti fræsins verður nýttur til sáningar í þau svæði þar sem Skógræktin og Landgræðslan vinna að því að breiða út birkiskóglendi þar sem það hefur horfið. Í því sambandi skiptir sköpum að þróaðar séu árangursríkar aðferðir til að koma fræinu í jörð, tryggja sem mestar líkur á því að þau spíri og upp geti vaxið birkitré.
Verkefnishópurinn hvetur stofnanirnar til að efla þróunarstarf á þessu leyti og koma upp afkastamiklum aðferðum við vélsáningu á birkifræi. Huga þarf að því samhliða hvernig nesta má fræin með áburðarefnum sem auka líkur á lifun plantnanna og flýta fyrir því að eðlilegt jarðvegslíf komist í gang og skógurinn geti dafnað. Kjötmjöl hefur verið notað með góðum árangri á Hekluskógasvæðinu til að búa í haginn fyrir birkið. Tilraunir hafa verið í gangi með notkun á moltu og gor á Hólasandi og þar er fram undan þróun við að auðga land með lífrænum úrgangi úr svartvatni frá byggðinni í Mývatnssveit. Þá mætti líta til tilrauna á Hrunamannaafrétti þar sem meðhöndluð seyra hefur verið lögð niður í sandinn til að kveikja á vistkerfinu. Hugmyndir hafa líka verið um að útbúa næringarríkar jarðvegsbollur með m.a. seinleystum áburði og velta þeim upp úr birkifræi.
Allar þessar tilraunir og hugmyndir lofa góðu en tryggja þarf framhald þeirra og veita til þeirra fjármagn svo að upp geti sprottið birkiskóglendi af fræinu sem þjóðin safnar. Góður árangur sem hægt er að kynna á opinberum vettvangi er líka besta hvatningin til fólks að tína fræ á komandi árum.
Kynning og umfjöllun
Á vefslóð verkefnisins má finna ýmsar upplýsingar er varða verkefnið:
Að neðan eru hlekkir á nokkrar fréttir af verkefninu í fjölmiðlum og á ýmsum vefjum. Listinn er ekki tæmandi.
- Vikublaðið 23. september: 1,5 milljónir fræja söfnuðust
- Kópavogspósturinn 14. október: Söfnuðu 200 þúsund fræjum
- skogur.is 29. september: Hátt í milljón í Heiðmörk og meira fram undan
- skogur.is 6. október: Nóg af fræi á Suðvesturlandi ef vel er að gáð
- Feykir 19. september: Söfnun og sáning á birkifræi 2022
- Bændablaðið - Fræðsluhornið: Söfnun og sáning á birkifræi
- skogur.is 29. september: Ein og hálf milljón fræja safnaðist í Garðsárreit
- Spegillinn Ríkisútvarpinu 22. september: Landssöfnun birkifræ
- Fréttir á vef Skógræktarfélags Kópavogs
REKSTUR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla rekstrarsviðs 2022
Gunnlaugur Guðjónsson
Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Stofnunin varð til 1. júlí 2016 við samruna Skógræktar ríkisins og sex stofnana sem þjónuðu skógrækt á lögbýlum, hver í sínum landshluta.
Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast rannsóknasvið, skógarþjónusta og þjóðskógar. Hins vegar miðlægt svið, rekstrarsvið.
Hlutverk rekstrarsviðs er að hafa yfirumsjón með fjármálum, bókhaldi, skrifstofuþjónustu, starfsmannamálum og annarri stoðþjónustu stofnunarinnar ásamt upplýsingatækni, samskipta-, fræðslu- og markaðsmálum. Þá hefur rekstrarsvið haft forystu um starf Skógræktarinnar að ábyrgum kolefnisverkefnum með skógrækt. Mikilvægur þáttur í því er vinna að kröfusettinu Skógarkolefni sem gerir kleift að búa til vottaðar kolefniseiningar með nýskógrækt og nýta þær til ábyrgrar kolefnisjöfnunar. Áfram var unnið að þessum málum á árinu og meðal annars auglýst nýtt starf verkefnastjóra kolefnismála. Margar góðar umsóknir bárust en í starfið var ráðinn Úlfur Óskarsson skógfræðingur sem hefur starfað sem lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands um árabil. Úlfur hefur talsverða reynslu af vottunarmálum og tekur nú við verkefnum sem tengjast gæða- og vottunarmálum, útfærslu og framkvæmd kolefnisbindingarverkefna, þróun gæðakerfa á borð við Skógarkolefni og þess háttar.
Sviðið hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar og eftirlit með framgangi hennar. Rekstrarsvið ber ábyrgð á því að uppgjör og upplýsingar berist til annarra stjórnenda og verkefnastjóra þegar það á við. Sviðið er enn fremur ábyrgt fyrir gerð ársreiknings og miðlun fjármálaupplýsinga til Fjársýslu ríkisins, Ríkisendurskoðunar, matvælaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl.
Auk almennrar fjármálaumsýslu og áætlanagerðar tilheyra samskiptamál rekstrarsviði einnig. Þar hefur verið veitt forysta verkefnum sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt er á höndum skipulagsfulltrúa. Síðla árs var þó gerð sú breyting með ráðningu nýs skipulagsfulltrúa, Páls Sigurðssonar, að yfirumsjón þeirra málefna færðist yfir til skógarþjónustu.
Á árinu var einnig auglýst eftir starfsmanni í stöðu verkefnastjóra stafrænna mála hjá Skógræktinni sem tilheyra skyldi rekstrarsviði. Fyrir valinu varð Bjarni Þór Haraldsson tölvuverkfræðingur sem hefur að undanförnu starfað að undirbúningi háskólanáms á Austurlandi á vegum Háskólans á Akureyri. Hann hefur starfstöð á Egilsstöðum og mun stýra innleiðingu á Stafrænu Íslandi hjá Skógræktinni ásamt tengdum verkefnum sem tengjast tölvu- og upplýsingatækni. Meðal annars er hlutverk hans að þróa framtíðarfyrirkomulag plöntuflutninga þar sem hugmyndin er að nýta upplýsingatækni til að létta verkin og auka skilvirkni og gæði í dreifingu trjáplantna frá gróðrarstöðvum til ræktenda.
Íslenskur landbúnaður í Laugadalshöll
Bás Skógræktarinnar vel sóttur á Landbúnaðarsýningunni
Pétur Halldórsson
Stöðugur straumur fólks var að bás Skógræktarinnar á stórsýningunni Íslenskum landbúnaði 2022 sem haldin var í Laugardalshöll í Reykjavík 14.-16. október. Básinn vakti almenna hrifningu og var mikill áhugi að kaupa tré og aðra „leikmuni“ í básnum.
Bás Skógræktarinnar var settur upp að hætti skógræktarfólks sem eins konar skógarlundur þar sem fram fór skógarganga með ketilkaffi og náðist þar upp skemmtileg skógarstemmning. Í boði var brjóstsykur með greni, lerki og birkibragði sem vakti mikla lukku og fjöldi fólks tók sér einblöðunga með upplýsingum um þjóðskóga, kolefnismál, fyrstu skrefin í skógrækt og nýja landsáætlun í skógrækt og landgræðslu, Land og líf. Skógarbingó fyrir börnin vakti líka áhuga og margir þáðu birkifræ í umslag með leiðbeiningum um söfnun og sáningu. Mikið var um ýmiss konar fyrirspurnir og gestir í básnum voru almennt mjög áhugasamir um ýmsa þætti skógræktar og jákvæðar umræður sköpuðust. Stöðugur straumur fólks var í básinn og engar dauðar stundir.
Ketilkaffi er eins konar aðalsmerki skógræktarfólks á ýmiss konar viðburðum og í bás Skógræktarinnar var komið fyrir bálpönnu innan um ilmandi tré. Þótt kaffið hafi vissulega ekki verið eldað með eldi heldur rafmagnshellu sem falin var ofan í bálpönnunni reyndist það sérlega gott og var punkturinn yfir i-ið í skógarstemmningunni sem skapaðist.
Skógræktin þakkar öllum gestum sem stöldruðu við í básnum fyrir komuna og sömuleiðis öllu því starfsfólki sem tók þátt í að undirbúa þátttöku stofnunarinnar í sýningunni, setja upp básinn, standa þar vaktir og ganga frá að sýningu lokinni. Þess má geta að margir gestir sýndu áhuga á að kaupa trén í básnum, eldiviðinn, kolla og borð úr trjábolum og fleiri „leikmuni“. Skemmst er frá því að segja að stór hluti af þessum munum seldist sem segir sína sögu um áhuga Íslendinga á skógum, skógrækt og skógarafurðum.
Ný stefna um skógrækt og landgræðslu
Land og líf
landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt
Pétur Halldórsson
Matvælaráðherra gaf í ágústlok út fyrstu sameinuðu stefnuna í landgræðslu og skógrækt auk aðgerðaáætlunar. Yfirskrift hennar er Land og líf og þar er sett fram landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt með framtíðarsýn til ársins 2031. Aðgerðaáætlunin nær fram til ársins 2026.
Stefnan er unnin samkvæmt nýlegum lögum um landgræðslu og um skóga og skógrækt. Stefna stjórnvalda í landgræðslu og skógrækt felur í sér framtíðarsýn, gildi og áherslur í málaflokknum og endurspeglist að verulegu leyti í þeim lögum sem gilda um málaflokkinn. Stefnan ræðst einnig af þróun mála á alþjóðlegum vettvangi og skuldbindingum Íslands í samstarfi við aðrar þjóðir, svo sem á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðlegra stofnana.
Verkefnisstjórnir voru skipaðar í júní 2019 og höfðu það hlutverk að móta tillögur að landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt. Verkefnisstjórnirnar tvær unnu að tillögum sínum og kynntu þær í opnu samráði á vormánuðum 2021. Í kjölfarið skiluðu þær tillögunum til ráðuneytisins ásamt umhverfismati og samantekt á helstu athugasemdum.
Í frétt um málið sem birtist á vef matvælaráðuneytisins kom fram að áherslur matvælaráðherra sneru að vernd, viðgangi og heilleika vistkerfa á grunni vistkerfisnálgunar. Einnig eflingu náttúrumiðaðra lausna í loftslagsmálum sem samræmdust alþjóðlegum skuldbindingum, stuðluðu að sjálfbærri landnýtingu, efldu þekkingu, samstarf og lýðheilsu og stuðluðu að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
„Ég legg mikla áherslu á að matvælaframleiðsla byggi á sjálfbærri nýtingu, hvort sem er til lands eða sjávar. Með þessari áætlun leggja bæði landgræðsla og skógrækt sitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Til verða atvinnutækifæri í ríkari auðlindum og nýting byggir á sjálfbærum grunni,“ var haft eftir Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í frétt ráðuneytisins.
Aðgerðaáætlun í landgræðslu og skógrækt nær til áranna 2022-2026 og mun því móta forgangsröðun í aðgerðum stjórnvalda til næstu ára. Meðal skilgreindra aðgerða eru rannsóknir á áhrifum landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis á lífríki, gerð nýrra gæðaviðmiða við val á landi til skógræktar og mat á kolefnisjöfnuði fyrir losunarbókhald í loftslagsmálum. Beinar aðgerðir snúa einkum að endurheimt vistkerfa á röskuðu landi, endurheimt votlendis, endurheimt náttúruskóga og skógrækt.
Könnun Maskínu á afstöðu landsmanna til skógræktar
Íslendingar áfram hlynntir skógrækt
Telja mikilvægt að binda kolefni í skógum
Pétur Halldórsson
Óbreyttur stuðningur er við skógrækt á Íslandi ef marka má könnun Maskínu sem gerð var í desember 2021 og kynnt snemma árs 2022. 94,3% svarenda töldu skóga hafa almennt jákvæð áhrif fyrir landið, svipað hlutfall og í sambærilegum könnunum 2017 og 2004. Mikill meirihluti aðspurðra telur líka mikilvægt að binda kolefni í skógum. Þá finnst um 60 prósentum skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar.
Könnunin var netkönnun sem gerð var fyrir Skógræktina. Hún var hluti af Hraðvagni MMR dagana 13.-20. desember 2021. Fjöldi svarenda var 2.051 manns, Íslendingar 18 ára og eldri, valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.
Spurt var þriggja spurninga um skóga og skógrækt. Tvær þeirra voru orðrétt samhljóða spurningum sem lagðar voru fyrir í Gallup-könnunum árin 2004 og 2017, annars vegar hvort fólk teldi skóga hafa almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið og hins vegar hversu mikilvægt eða lítilvægt fólk teldi að binda kolefni í skógum. Þriðja spurningin var tekin orðrétt úr spurningalistanum frá 2004 og hljóðaði svo: Finnst þér skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar?
Spurning 1: Telur þú að skógar hafi almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið?
Niðurstöðurnar eru í heild jákvæðar. Viðhorf gagnvart áhrifum skóga á landið eru almennt jákvæð sem sést á því að 59,9% svarenda telja áhrifin vera mjög jákvæð og 34,4% frekar jákvæð. Samtals telja því 94,3% svarenda að skógar hafi almennt jákvæð áhrif fyrir landið. Greina má blæbrigðamun á milli mjög og frekar jákvæðra. Hlutfall þeirra sem telja áhrifin mjög jákvæð er hæst í yngsta aldurshópnum, 18-29 ára (65,6%). Svarendur á höfuðborgarsvæðinu voru líka nokkru jákvæðari en svarendur annars staðar á landinu, 63,1% mjög jákvæð á móti 54,0% annars staðar.
Í könnuninni sést líka nokkurt samband á milli jákvæðni gagnvart skógum og þess hvort fólki finnst mikilvægt að binda kolefni í skógum. Með öðrum orðum eru svarendur sem eru mjög jákvæðir gagnvart skógum líklegri til að telja kolefnisbindingu mjög mikilvæga.
Spurning 2: Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum?
Í svörum við þessari spurningu verður ekki greindur mikill munur milli bakgrunnshópa hjá þeim sem tóku afstöðu. Hlutfall þeirra sem telja kolefnisbindingu í skógum mikilvæga er almennt um 90% óháð hópum. Hins vegar er athyglisvert að sjá breytileika í hlutfalli þeirra sem taka ekki afstöðu, þar sem kyn, aldur og menntun virðist hafa nokkur áhrif. Í flokknum „bændur, sjó-, iðn-, véla- og verkafólk“ finnst 6,1% svarenda frekar eða mjög lítilvægt að binda kolefni í skógum en hjá flestum öðrum hópum er þetta hlutfall hverfandi, lægst hjá námsmönnum, 0,6%. Það rímar við fyrri kannanir þar sem ungt fólk hefur reynst einna jákvæðast fyrir skógum og skógrækt.
Spurning 3: Finnst þér skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar?
Þessarar spurningar var spurt í Gallup-könnun árið 2004. Þá fannst 32,1% svarenda ekki skipta máli hvaða trjátegundum væri plantað en þetta hlutfall hefur hækkað upp í 40,0% ef marka má nýju könnunina. Með öðrum orðum eru fleiri nú sem finnst ekki skipta máli hvaða trjátegundum er plantað hérlendis til skógræktar. Að sama skapi eru færri nú sem finnst þetta skipta máli, 60,0% nú en var 67,9% í könnuninni 2004
Hér er vert að benda á hátt hlutfall þeirra sem svara „veit ekki“ við þriðju spurningunni. Það gefur til kynna ákveðið þekkingarleysi á málefninu, sér í lagi hjá yngri svarendum. Þá virðast elstu svarendur, háskólamenntaðir og fólk í stjórnunar -og sérfræðistörfum helst vera á þeirri skoðun að trjátegundirnar skipti máli – sem aftur gæti bent til að menntun eða reynsla hafi þar áhrif á skoðun á þessu málefni. Áfram þarf því að halda á þeirri braut sem Skógræktin hefur markað, að fræða þjóðina um skóga og skógrækt.
Ímynd stofnunarinnar
Yfir 97% jákvæð í garð Skógræktarinnar
Pétur Halldórsson
Þjóðin er jákvæð í garð Skógræktarinnar og yfirgnæfandi meirihluti þekkir til stofnunarinnar. Aðeins um 20% segjast þekkja illa til Skógræktarinnar en þekkingin er minnst í aldurshópnum 18-29 ára.
Þetta kom fram í könnun Maskínu sem gerð var snemma árs 2022 á viðhorfi og þekkingu Íslendinga á 41 íslenskri ríkisstofnun. Þekking fólks á Skógræktinni er vel yfir meðallagi og lenti stofnunin í þrettánda sæti af 41 í þeirri mælingu. Þegar litið er til jákvæðni fólks gagnvart stofnunum er Skógræktin í fimmta sæti á eftir Landhelgisgæslunni, Veðurstofu Íslands, Embætti landlæknis og Þjóðminjasafni Íslands.
Vitund á Skógræktinni mældist 86,4% sem þýðir að þetta hlutfall telur sig hafa þekkingu á stofnuninni. Í þessum lið er hlutfall þeirra sem telja þekkingu sína á Skógræktinni vera í meðallagi nokkuð hátt, 42,9%, en 37,4% segjast þekkja stofnunina vel. Þessi hlutföll hafa verið á svipuðu róli í mælingum allt frá árinu 2016 en þó hefur þeim sem þekkja stofnunina vel heldur fjölgað. Almennt er litla sem enga breytingu að sjá á þeim mælikvörðum sem settir voru upp í könnuninni.
Lítil þekking hjá fjórðungi ungs fólks
Heldur fleiri karlar telja sig þó þekkja vel til Skógræktarinnar en konur, 40,8% á móti 34,1%. Sömuleiðis eru fleiri konur en karlar sem segjast þekkja illa til stofnunarinnar. Þegar litið er á aldur svarenda kemur í ljós að þekkingin er minnst í aldurshópnum 18-29 ára, tæpur fjórðungur eða 23,5%, en mest hjá þeim sem eru 60 ára og eldri, 49,7%.
Lítill munur er á svörum eftir menntun en heldur fleiri háskólamenntaðir þekkja vel til Skógræktarinnar en aðrir. Af landshlutunum er þekkingin mest á Austurlandi þar sem aðalskrifstofa Skógræktarinnar er, 54,7%. Annars er hlutfallið á bilinu 31%-40%, lægst á Vesturlandi og Vestfjörðum, 31,1%.
Yfir 97% jákvæð
Jákvæðni gagnvart Skógræktinni mældist svipuð hjá kynjunum í könnuninni, yfir 97 prósent. Lítinn mun var að sjá á svörum eftir aldri eða búsetu nema hvað á Austurlandi og í Reykjavík virtust heldur fleiri neikvæðir en annars staðar, 5,9% og 3,4%. Á Norðurlandi reyndist hins vegar enginn neikvæður. Þessar tölur neikvæðra eru reyndar svo lágar að þær gefa takmarkaðar vísbendingar. Meginniðurstaðan er að innan við þrjú prósent svarenda mælast neikvæð.
Könnunin var lögð á netinu fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega. Spurt var um rúmlega 40 stofnanir dagana 28. janúar til 24. febrúar 2022 og voru svarendur 910 talsins.
Nýtt matvælaráðuneyti
Hátt í 300 starfsmenn á fundi með ráðherra
Pétur Halldórsson
Nýtt matvælaráðuneyti tók formlega til starfa 1. mars 2022 og þar með var Skógræktin einnig komin formlega í nýtt ráðuneyti. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra efndi að því tilefni til fundar með starfsfólki allra stofnana sem heyra undir ráðuneytið. Fundinn sótti hátt í 300 manns og þótti hugur í fólki að efna til spennandi samstarfs milli stofnana.
Auk Skógræktarinnar heyra undir hið nýja ráðuneytið fimm aðrar stofnanir og eitt opinbert hlutafélag. Þetta eru Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs, Matvælastofnun, Landgræðslan og Matís.
Í matvælaráðuneytinu, sem hlaut skammstöfunina MAR, mætast málaflokkar sjávarútvegs, landbúnaðar og matvæla auk landgræðslu og skógræktar. Mikil áhersla er lögð á sjálfbærni, jöfnuð og nýsköpun. Í stefnumiði þess segir:
„Í matvælaráðuneytinu horfum við til þess að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu hágæða matvæla. Við leggjum áherslu á ábyrga umgengni við náttúru og sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki,“
Ýmsir samstarfsfletir
Ráðherra bauð öllu starfsfólki stofnana ráðuneytisins til kynningarfundar miðvikudaginn 2. febrúar, en á fyrsta degi nýs ráðuneytis daginn áður höfðu forstöðumenn þessara sömu stofnana komið saman á sínum fyrsta fundi með ráðherra. Á fundinum hélt ráðherra ávarp og fór yfir stöðu og hlutverk hins nýja ráðuneytis, hugmyndirnar að baki því og viðfangsefnin fram undan þar sem sjálfbærni og heilbrigði vistkerfa yrði í hávegum. Því næst fluttu allir forstöðumenn stofnananna stutt ávörp. Reifaðar voru ýmsar hugmyndir um samstarfsfleti þessara stofnana sem fljótt á litið kunna að virðast ólíkar og óskyldar. Meðal annars kom Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, inn á þetta og nefndi samstarfsfleti við Skógræktina sem sæjust t.d. í því að þróað hefði verið fiskafóður úr hliðarafurðum trjáa.
Binda þarf kolefni
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði m.a. í ávarpi sínu að nú mætti segja að Skógræktin væri „komin heim“ því lengst af sögu Skógræktarinnar hefðu skógræktarmál heyrt undir ráðherra landbúnaðarmála. Hann reifaði þá spennandi tíma sem nú væru í skógrækt í takti við loftslagsaðgerðir, bæði aðgerðir hins opinbera og ýmissa annarra aðila, enda væri ljóst að markmið myndu ekki nást með því einu að draga úr losun. Samhliða þyrfti að binda eitthvað af því kolefni sem út af stæði með tiltækum aðferðum. Skógrækt væri þrautreynd aðferð og lengst komin á veg hvað varðaði staðfestingu og vottun bindingarinnar.
Í lok fundarins sem fram fór í fjarfundakerfi var tekin skjámynd af hluta þeirra nærri 300 starfsmanna stofnananna allra sem sóttu fundinn og sendi ráðherra sögu á samfélagsmiðlum um fundinn og þátttökuna
Fyrirmyndarstofnun
Skógræktin fyrirmyndarstofnun í annað sinn
Pétur Halldórsson
Sameyki, stéttarfélag í almannaþjónustu, birti í mars niðurstöður úr könnun sinni á starfsumhverfi fólks í opinberri þjónustu hjá ríki, sveitarfélögum og sjálfseignarstofnunum árið 2021. Í flokki meðalstórra stofnana með 40-89 starfsmenn lenti Skógræktin í fimmta sæti og telst þar með vera fyrirmyndarstofnun. Þetta er í annað sinn sem Skógræktin fær sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun en stofnunin hefur allt frá sameiningu 2016 alltaf verið meðal 10 efstu í sínum flokki.
Í flokki meðalstórra stofnana eru fimm stofnanir útnefndar fyrirmyndarstofnanir. Menntaskólinn á Egilsstöðum lenti í fyrsta sæti og er því stofnun ársins í sínum flokki. Því næst komu Ríkisendurskoðun, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Skógræktin sem fengu sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Allar þessar stofnanir voru í flokki stórra stofnana í síðustu mælingu, nema Menntaskólinn á Egilsstöðum. Ríkisendurskoðun var þá í fjórða sæti, Fjölbrautarskólinn í Garðabæ í öðru sæti, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra var í þriðja sæti og Skógræktin í því níunda.
Þættir sem mældir voru í könnuninni voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og að síðustu jafnrétti. Heildareinkunn Skógræktarinnar 2021 var 4,31 en var 4,24 2020.
Hæsta einkunn fékk Skógræktin fyrir jafnrétti, einkunnina 4,60, og af fyrirmyndarstofnunum fimm í flokki meðalstórra stofnana var það einungis Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra sem fékk hærra fyrir jafnrétti. Lægst fékk Skógræktin fyrir launakjör rétt eins og í fyrri könnunum, 3,42. Þó hafði sú einkun hækkað úr 3,19 frá síðustu könnun 2020. Flestar einkunnirnar voru þó á svipuðu róli og í síðustu könnun en tölur höfðu hækkað í sjö af níu atriðum sem spurt var um. Örlítið lægri einkunn fékkst nú fyrir starfsanda og sveigjanleika vinnu en varla marktækur munur. Í eftirfarandi töflu má sjá tölurnar frá 2020 og 2021.
Um könnunina
Valið á stofnun ársins 2021 var tilkynnt á hátíð Sameykis 16. mars en titlana „stofnun ársins“ og „stofnun ársins - borg og bær“ hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr í þeim þáttum sem könnun Sameykis náði yfir að mati starfsmanna þeirra. Stofnanir ársins 2021 voru Heilsustofnun NFLÍ, Menntaskólinn á Egilsstöðum, Jafnréttisstofa og Frístundamiðstöðin Tjörnin. Hástökkvarar ársins eru Ríkiskaup og Frístundamiðstöðin Miðberg.
Könnunin náði til um 31 þúsund starfsmanna í opinberri þjónustu, bæði hjá ríki, sveitarfélögunum og sjálfseignarstofnunum. Hún er unnin í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið og mannauðsdeild Reykjavíkurborgar og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum. Í henni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu, þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsmanna á vinnustöðum. Alls fengust gild svör frá rúmlega 13.300 starfsmönnum og svarhlutfallið var 43 prósent.
Starfsfólk Skógræktarinnar 2022
Nöfn starfsmanna og ársverk
Hér er listi yfir starfsfólk sem var á launaskrá hjá Skógræktinni allt árið 2022 eða hluta ársins, hvort sem það var fullt starf eða hlutastarf.
Stöðugildi eða ársverk hjá Skógræktinni á á árinu 2022 voru 66 talsins og mannmánuðir samtals tæplega 795.
NAFN | STARF | STARFSTÖÐ | SVIÐ |