Fara í efni

Gengið til skógar

Gengið til skógar 2019

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Árið 1995 náði tré 20 m hæð í fyrsta sinn á Íslandi, rússalerki í Atlavíkurlundi. Það þótti svo merkilegt að forsætisráðherra var kallaður til. Fáum árum seinna bættust svo alaskaösp og sitkagreni í 20 m hópinn. Næst voru það svo eitt af öðru blágreni, evrópulerki, stafafura og degli. Alls höfðu því sjö trjátegundir rofið 20 m múrinn fyrir árið 2019.

Hæsta tré landsins, sitkagreni í skógarlundinum á Kirkjubæjarklaustri, varð sjötugt á árinu frá gróðursetningu 1949. Tréð nálgast nú 30 metra hæð, það fyrsta á landinu, og mældist 28,7 metrar síðsumars 2019. Hjá því stendur Björn Traustason sem mældi tréð ásamt Ólafi St. Arnarsyni sem tók myndina. Báðir eru þeir sérfræðingar á rannsóknasviði SkógræktarinnarÁ hverju ári eða því sem næst fer prófessor Bjarni Diðrik Sigurðsson með hóp skógfræðinema við Landbúnaðarháskóla Íslands í hringferð um landið til að kynna þeim skógrækt. Meðal þess skemmtilega sem hópurinn gerir í leiðinni er að mæla tré og birtast niðurstöðurnar í ferðaskýrslu hópsins. Árið 2019 mældust allmörg tré yfir 20 m há, sum á nýjum stöðum þar sem ekki var vitað af svo háum trjám áður. Ekki var síður merkilegt að þrjár nýjar tegundir bættust í 20 m klúbbinn, rauðgreni, fjallaþinur og álmur, og eru tegundirnar því orðnar tíu. Auk þeirra eru fimm tegundir í viðbót komnar í um og yfir 18 metra hæð og munu því væntanlega bætast í hópinn á næstu árum. Það eru skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur.

Að tré nái 20 m hæð hefur í sjálfu sér ekki sérstaka þýðingu. Slíkt er alvanalegt víða um heim og 20 er bara tala. Á Íslandi hefur það þó þá táknrænu merkingu að okkur er að takast að rækta alvöru skóga með stórvöxnum og gjöfulum trjám. Það þótti alls ekki sjálfsagt fyrir ekki svo löngu síðan þegar þorri Íslendinga var þess fullviss að ekki þýddi að reyna að rækta skóg á þessu kalda skeri. Það að 10 trjátegundir, og bráðum 15, nái a.m.k. 20 metra hæð merkir líka að hér sé hægt að rækta fjölbreytta stórskóga. Svo förum við bráðum að hækka rána því hæstu trén nálgast óðum 30 m markið. Sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri mældist 28,7 m hátt á árinu 2019. Þegar því marki er náð förum við að hætta að taka eftir því þegar ný tegund nær 20 m hæð. Og það er gott.

Framfarir á sviði trjávaxtar héldu áfram árið 2019, en þá hófst fjölgun 27 nýrra úrvalsklóna af alaskaösp sem Halldór Sverrisson hefur leitt kynbætur á undanfarin ár. Munu þeir á næstu árum koma í staðinn fyrir þá asparklóna sem verið hafa uppistaðan í asparrækt til þessa, þau Iðunni, Hallorm, Brekkan, Pinna, Jóru o.fl. Með tilkomu þeirra eykst ryðþol auk þess sem aspir framtíðarinnar munu vaxa enn hraðar og verða beinvaxnari en hingað til. Nú þarf bara að finna sniðug nöfn á nýju klónana.

Og áfram um trjátegundir. Undanfarin ár hafa fræðimenn um heim allan unnið að því að setja saman lista yfir allar trjátegundir heims (sjá t.d. https://tools.bgci.org/global_tree_search.php). Að þessu er ekki hlaupið því fyrst þarf að ákveða hvað sé tré (en ekki t.d. runni) og síðan hvað sé tegund (en ekki t.d. undirtegund eða afbrigði). Tré ná minnst 5 m hæð samkvæmt skilgreiningunni sem notuð er, en það er reyndar nóg að einhverjir einstaklingar tegundarinnar nái þeirri hæð einhvers staðar innan útbreiðslusvæðisins. Samkvæmt skilgreiningunni eru 60.065 trjátegundir þekktar í heiminum, þar af aðeins fimm innlendar á Íslandi: ilmbjörk, reyniviður, blæösp, gulvíðir og einir. Fjórar fyrstnefndu tegundirnar ná allar a.m.k. 5 m hæð á Íslandi þótt þorri villtra einstaklinga allra þeirra sé smávaxnari. Einirinn er hins vegar aldrei tré á Íslandi en nær því þó á öðrum stöðum innan útbreiðslusvæðisins og telst því vera trjátegund. Loðvíðir, sem er yfirleitt hærri en einir hér á landi, nær hins vegar hvergi 5 m hæð svo vitað sé og telst því ekki til trjátegunda. Þar höfum við það. E.t.v. ætti skráning skóga að fara að fást við gulvíðifláka og einibuska ekki síður en birkikjarr?

Ný skógræktarlög

Í maíbyrjun samþykkti Alþingi ný lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019, sem tóku við af gömlu skógræktarlögunum frá 1955. Í leiðinni voru lög um landshlutaverkefni í skógrækt færð í almenn skógræktarlög og má segja að með því hafi sameining Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna endanlega verið kláruð. Ýmis nýmæli eru í lögunum, t.d. að hugtakið þjóðskógar hafi nú í fyrsta sinn fengið lagalegt gildi og nú sé líka í fyrsta sinn tekið á loftslagsmálum í löggjöf um skógrækt. Þá er skýrt kveðið á um að byggja skuli upp sjálfbæra skógarauðlind til fjölbreyttra nota og að nota skuli skógrækt til jarðvegsverndar og sem vörn gegn náttúruvá. Einnig er ákvæði í lögunum um gerð lands- og landshlutaáætlana um skógrækt og að jafnframt sé það nú lögbundin skylda Skógræktarinnar að halda skógaskrá fyrir landið. Í þessari skógaskrá skuli meðal annars tilgreina þá skóga sem teljist vistfræðilega merkilegir og því sé loks hægt að framfylgja ákvæðum þar að lútandi sem hafa verið í gildi um hríð í lögum um náttúruvernd. Lögbundna skilgreiningu á skógi hefur ekki verið að finna í íslenskum lögum en nú er bætt úr því. Þá er loksins í lögum kveðið á um að Skógræktin skuli stunda rannsóknir, 52 árum eftir byggingu rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá. Aðdragandinn að lagasetningunni var alllangur og var þetta þriðja atlaga að setningu nýrra skógræktarlaga síðan 1997.

Landsáætlun og fleiri stór samstarfsverkefni

Á grundvelli nýju laganna skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn haustið 2019 til að sjá um gerð landsáætlunar í skógrækt undir forystu skógræktarstjóra. Þar sem um lögformlegt ferli er að ræða hefur vinnan í för með sér víðtækt samráð og m.a. gerð umhverfismats. Verkefnisstjórnin tók strax til starfa og lýsing á innihaldi og gerð áætlunarinnar var auglýst lögum samkvæmt. Vinnan heldur áfram á árinu 2020 og eflaust lengur, ekki síst vegna tafa sem eru á öllu vegna heimsfaraldurs COVID-19 þegar þetta er skrifað í apríl 2020.

Undirbúningur að landshlutaáætlunum hófst einnig, með heimsóknum og samræðum við sveitarstjórnir víða um land. Þar er markmiðið að hvert sveitarfélag sé „landshluti“ og hafi sína áætlun um skógrækt sem samræmist landsáætlun og verður jafnvel hluti aðalskipulags.

Fleiri stór samstarfsverkefni hófust á árinu. Nefna má að gert var samkomulag við Menntamálastofnun um að færa verkefnabanka Lesið í skóginn í grunn sem verður aðgengilegur öllum skólum landsins. Þá hófst verkefnið TreproX í samstarfi við LbhÍ og fleiri innlenda og erlenda aðila þar sem markmiðið er m.a. að auka þekkingu á meðferð og framleiðslu timburs. Þá hófst vinna við Loftslagsvænni landbúnað (LOL) í samstarfi við Landgræðsluna og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins sem vonandi verður upphaf þess að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus.

Loftslagsmál

Árið 2019 hófst vinna samkvæmt áætlun stjónvalda um aðgerðir í loftslagsmálum. Settur var aukinn kraftur í plöntuframleiðslu og áhersla á eftirfylgni jókst með tilkomu nýs sérfræðings á Mógilsá. Mest var aukning gróðursetningar innan Skógræktar á lögbýlum en mikil aukning varð einnig í samstarfsverkefnum við Landgræðsluna; Hekluskógum, Þorláksskógum og á Hólasandi. Aukið samstarf og samráð við Landgræðsluna hélt áfram og skilar það góðum framförum. Unnið var náið með gróðrarstöðvum og hófst mikil uppbygging á aðstöðu til plöntuframleiðslu, sem var nauðsynleg eftir allmörg mögur ár.

Unnið var að þýðingu og kynningu á viðmiðum um vottun kolefnisbindingar með skógrækt undir nafninu Skógarkolefni. Vottun er forsenda þess að þeir sem vilji nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun CO2 séu öruggir um að bindingin sé raunveruleg, mælanleg og varanleg, að hún sé viðbót við það sem ella hefði orðið og að hún valdi hvorki losun annarsstaðar né slæmum umhverfislegum eða félagslegum áhrifum. Vottun er ekki síst forsenda þess að bæði innlendir og erlendir fjárfestar vilji styðja við skógrækt á Íslandi á þeim forsendum að þeir geti notið kolefnisbindingarinnar. Þar er með öðrum orðum komin skógarafurð sem hægt er að selja án þess að bíða þurfi í áratugi.

Það tengist e.t.v. loftslagsmálum aðeins óbeint en á árinu var sett nýtt hæðarmet fyrir birki. Ekki var um hæð trésins að ræða heldur hæð í landi þar sem hríslan fannst, sem var í 660-680 metrum yfir sjávarmáli í Útigönguhöfða í Goðalandi. Fyrra metið, 624 metrar í Austurdal í Skagafirði, hefur staðið lengi sem hæsti fundarstaður birkis á landinu. Með hlýnun loftslags má ætla að birki geti farið að lifa í æmeiri hæð og e.t.v. ekki langt að bíða þar til 700 metra hæðarmúrinn verði rofinn.

Staða Skógræktarinnar

Umtalsverðar framfarir urðu á ýmsu í innri starfsemi Skógræktarinnar. Nefna má upptöku nýs skjalavörslukerfis, áframhaldandi samræmingu á verkferlum og vinnu að jafnlaunavottun sem dæmi. Í skoðanakönnun Maskínu á viðhorfum almennings til 46 ríkisstofnana lenti Skógræktin í þriðja sæti í vinsældum á eftir Landhelgisgæslunni og Veðurstofu Íslands. Alls lýstu 78% svarenda jákvæðu viðhorfi til Skógræktarinnar. Í árlegri könnun Sameykis á viðhorfi starfsfólks ríkisstofnana skoraði Skógræktin svo hátt að hún hlaut sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Það hefur ekki gerst áður.

Athygli heimsins beindist líka að skógrækt á Íslandi í meira mæli en áður hefur þekkst. Viðtöl og greinar um íslenska skógrækt birtust í heimsþekktum dagblöðum og netmiðlum á borð við The New York Times, The Hill í Washington og víða um heim á vegum fréttaveitunnar AFP. Þá komu upptökulið frá Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi til að gera sjónvarpsþætti um skógrækt á Íslandi. Síðast þegar fréttist höfðu yfir 3 milljónir horft á EUFORGEN-myndbandið frá 2017, Afforesting Iceland – A Cause for Optimism.

Allt er þetta til marks um að við séum á réttri braut. Þorri Íslendinga og fjöldi fólks víða um heim er með okkur í baráttunni fyrir því að rækta meiri skóg. Það er gott að finna meðbyrinn.