Fara í efni

Gengið til skógar – Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Hæsta tré landsins, sitkagreni í skógarlundinum á Kirkjubæjarklaustri, varð sjötugt á árinu frá gróðursetningu 1949. Tréð nálgast nú 30 metra hæð, það fyrsta á landinu, og mældist 28,7 metrar síðsumars 2019. Hjá því stendur Björn Traustason sem mældi tréð ásamt Ólafi St. Arnarsyni sem tók myndina. Báðir eru þeir sérfræðingar á rannsóknasviði SkógræktarinnarGengið til skógar 2019

Árið 1995 náði tré 20 m hæð í fyrsta sinn á Íslandi, rússalerki í Atlavíkur­lundi. Það þótti svo merkilegt að forsætisráðherra var kallaður til. Fáum árum seinna bættust svo alaskaösp og sitkagreni í 20 m hópinn. Næst voru það svo eitt af öðru blágreni, evrópulerki, stafafura og degli. Alls höfðu því sjö trjátegundir rofið 20 m múrinn fyrir árið 2019.

Á hverju ári eða því sem næst fer prófessor Bjarni Diðrik Sigurðsson með hóp skógfræðinema við Landbúnaðar­háskóla Íslands í hringferð um landið til að kynna þeim skógrækt. Meðal þess skemmtilega sem hópurinn gerir í leiðinni er að mæla tré og birtast niður­stöð­urnar í ferðaskýrslu hópsins. Árið 2019 mældust allmörg tré yfir 20 m há, sum á nýjum stöðum þar sem ekki var vitað af svo háum trjám áður. Ekki var síður merkilegt að þrjár nýjar tegundir bættust í 20 m klúbbinn, rauðgreni, fjallaþinur og álmur, og eru tegundirnar því orðnar tíu. Auk þeirra eru fimm tegundir í viðbót komnar í um og yfir 18 metra hæð og munu því væntanlega bætast í hópinn á næstu árum. Það eru skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur.

Að tré nái 20 m hæð hefur í sjálfu sér ekki sérstaka þýðingu. Slíkt er alvanalegt víða um heim og 20 er bara tala. Á Íslandi hefur það þó þá táknrænu merkingu að okkur er að takast að rækta alvöru skóga með stórvöxnum og gjöfulum trjám. Það þótti alls ekki sjálfsagt fyrir ekki svo löngu síðan þegar þorri Íslendinga var þess fullviss að ekki þýddi að reyna að rækta skóg á þessu kalda skeri. Það að 10 trjátegundir, og bráðum 15, nái a.m.k. 20 metra hæð merkir líka að hér sé hægt að rækta fjölbreytta stórskóga. Svo förum við bráðum að hækka rána því hæstu trén nálgast óðum 30 m markið. Sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri mældist 28,7 m hátt á árinu 2019. Þegar því marki er náð förum við að hætta að taka eftir því þegar ný tegund nær 20 m hæð. Og það er gott.

Framfarir á sviði trjávaxtar héldu áfram árið 2019, en þá hófst fjölgun 27 nýrra úrvalsklóna af alaskaösp sem Halldór Sverrisson hefur leitt kynbætur á undanfarin ár. Munu þeir á næstu árum koma í staðinn fyrir þá asparklóna sem verið hafa uppistaðan í asparrækt til þessa, þau Iðunni, Hallorm, Brekkan, Pinna, Jóru o.fl. Með tilkomu þeirra eykst ryðþol auk þess sem aspir framtíðarinnar munu vaxa enn hraðar og verða beinvaxnari en hingað til. Nú þarf bara að finna sniðug nöfn á nýju klónana.

Og áfram um trjátegundir. Undanfarin ár hafa fræðimenn um heim allan unnið að því að setja saman lista yfir allar trjátegundir heims (sjá t.d. hér). Að þessu er ekki hlaupið því fyrst þarf að ákveða hvað sé tré (en ekki t.d. runni) og síðan hvað sé tegund (en ekki t.d. undirtegund eða afbrigði). Tré ná minnst 5 m hæð samkvæmt skilgreiningunni sem notuð er, en það er reyndar nóg að einhverjir einstaklingar tegundarinnar nái þeirri hæð einhvers staðar innan útbreiðslusvæðisins. Samkvæmt skilgreiningunni eru 60.065 trjátegundir þekktar í heiminum, þar af aðeins fimm innlendar á Íslandi: ilmbjörk, reyniviður, blæösp, gulvíðir og einir. Fjórar fyrst­nefndu tegundirnar ná allar a.m.k. 5 m hæð á Íslandi þótt þorri villtra einstaklinga allra þeirra sé smávaxnari. Einirinn er hins vegar aldrei tré á Íslandi en nær því þó á öðrum stöðum innan útbreiðslusvæðisins og telst því vera trjátegund. Loðvíðir, sem er yfirleitt hærri en einir hér á landi, nær hins vegar hvergi 5 m hæð svo vitað sé og telst því ekki til trjátegunda. Þar höfum við það. E.t.v. ætti skráning skóga að fara að fást við gulvíðifláka og einibuska ekki síður en birkikjarr?

Ný skógræktarlög

Í maíbyrjun samþykkti Alþingi ný lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019, sem tóku við af gömlu skóg­rækt­ar­lög­un­um frá 1955. Í leiðinni voru lög um landshlutaverkefni í skógrækt færð í almenn skógræktarlög og má segja að með því hafi sameining Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna endanlega verið kláruð. Ýmis nýmæli eru í lögunum, t.d. að hugtakið þjóðskógar hafi nú í fyrsta sinn fengið lagalegt gildi og nú sé líka í fyrsta sinn tekið á loftslagsmálum í löggjöf um skógrækt. Þá er skýrt kveðið á um að byggja skuli upp sjálfbæra skógarauðlind til fjölbreyttra nota og að nota skuli skógrækt til jarðvegsverndar og sem vörn gegn náttúruvá. Einnig er ákvæði í lögunum um gerð lands- og landshlutaáætlana um skógrækt og að jafnframt sé það nú lögbundin skylda Skógræktarinnar að halda skógaskrá fyrir landið. Í þessari skógaskrá skuli meðal annars tilgreina þá skóga sem teljist vistfræðilega merkilegir og því sé loks hægt að framfylgja ákvæðum þar að lútandi sem hafa verið í gildi um hríð í lögum um náttúruvernd. Lögbundna skilgreiningu á skógi hefur ekki verið að finna í íslenskum lögum en nú er bætt úr því. Þá er loksins í lögum kveðið á um að Skógræktin skuli stunda rannsóknir, 52 árum eftir byggingu rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá. Aðdragandinn að laga­setn­ing­unni var alllangur og var þetta þriðja atlaga að setningu nýrra skógræktarlaga síðan 1997.

Landsáætlun og fleiri stór samstarfsverkefni

Á grundvelli nýju laganna skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn haustið 2019 til að sjá um gerð landsáætlunar í skógrækt undir forystu skógræktarstjóra. Þar sem um lögformlegt ferli er að ræða hefur vinnan í för með sér víðtækt samráð og m.a. gerð umhverfismats. Verkefnisstjórnin tók strax til starfa og lýsing á innihaldi og gerð áætlunarinnar var auglýst lögum samkvæmt. Vinnan heldur áfram á árinu 2020 og eflaust lengur, ekki síst vegna tafa sem eru á öllu vegna heimsfaraldurs COVID-19 þegar þetta er skrifað í apríl 2020.

Undirbúningur að landshlutaáætlunum hófst einnig, með heimsóknum og samræðum við sveitarstjórnir víða um land. Þar er markmiðið að hvert sveitarfélag sé „landshluti“ og hafi sína áætlun um skógrækt sem samræmist landsáætlun og verður jafnvel hluti aðalskipulags.

Fleiri stór samstarfsverkefni hófust á árinu. Nefna má að gert var samkomulag við Menntamálastofnun um að færa verkefnabanka Lesið í skóginn í grunn sem verður aðgengilegur öllum skólum landsins. Þá hófst verkefnið TreproX í samstarfi við LbhÍ og fleiri innlenda og erlenda aðila þar sem markmiðið er m.a. að auka þekkingu á meðferð og framleiðslu timburs. Þá hófst vinna við Loftslagsvænni landbúnað (LOL) í samstarfi við Land­græðsl­una og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins sem vonandi verður upphaf þess að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus.

Loftslagsmál

Árið 2019 hófst vinna samkvæmt áætlun stjónvalda um aðgerðir í loftslagsmálum. Settur var aukinn kraftur í plöntuframleiðslu og áhersla á eftirfylgni jókst með tilkomu nýs sérfræðings á Mógilsá. Mest var aukning gróðursetningar innan skógræktar á lögbýlum en mikil aukning varð einnig í samstarfsverkefnum við Land­græðsl­una; Hekluskógum, Þorláksskógum og á Hólasandi. Aukið samstarf og samráð við Landgræðsluna hélt áfram og skilar það góðum framförum. Unnið var náið með gróðrarstöðvum og hófst mikil uppbygging á aðstöðu til plöntuframleiðslu, sem var nauðsynleg eftir allmörg mögur ár.

Unnið var að þýðingu og kynningu á viðmiðum um vottun kolefnisbindingar með skógrækt undir nafninu Skógarkolefni. Vottun er forsenda þess að þeir sem vilji nota kolefnisbindingu til að jafna á móti losun CO2 séu öruggir um að bindingin sé raunveruleg, mælanleg og varanleg, að hún sé viðbót við það sem ella hefði orðið og að hún valdi hvorki losun annarsstaðar né slæmum umhverfislegum eða félagslegum áhrifum. Vottun er ekki síst forsenda þess að bæði innlendir og erlendir fjárfestar vilji styðja við skógrækt á Íslandi á þeim forsendum að þeir geti notið kolefnisbindingarinnar. Þar er með öðrum orðum komin skógarafurð sem hægt er að selja án þess að bíða þurfi í áratugi.

Það tengist e.t.v. loftslagsmálum aðeins óbeint en á árinu var sett nýtt hæðarmet fyrir birki. Ekki var um hæð trésins að ræða heldur hæð í landi þar sem hríslan fannst, sem var í 660-680 metrum yfir sjávarmáli í Útigönguhöfða í Goðalandi. Fyrra metið, 624 metrar í Austurdal í Skagafirði, hefur staðið lengi sem hæsti fundarstaður birkis á landinu. Með hlýnun loftslags má ætla að birki geti farið að lifa í æ meiri hæð og e.t.v. ekki langt að bíða þar til 700 metra hæðarmúrinn verði rofinn.

Staða Skógræktarinnar

Umtalsverðar framfarir urðu á ýmsu í innri starfsemi Skógræktarinnar. Nefna má upptöku nýs skjala­vörslu­kerf­is, áframhaldandi samræmingu á verkferlum og vinnu að jafnlaunavottun sem dæmi. Í skoðanakönnun Maskínu á viðhorfum almennings til 46 ríkisstofnana lenti Skógræktin í þriðja sæti í vinsældum á eftir Landhelgisgæslunni og Veðurstofu Íslands. Alls lýstu 78% svarenda jákvæðu viðhorfi til Skógræktarinnar. Í árlegri könnun Sameykis á viðhorfi starfsfólks ríkisstofnana skoraði Skógræktin svo hátt að hún hlaut sæmdarheitið „fyrirmyndarstofnun“. Það hefur ekki gerst áður.

Athygli heimsins beindist líka að skógrækt á Íslandi í meira mæli en áður hefur þekkst. Viðtöl og greinar um íslenska skógrækt birtust í heimsþekktum dagblöðum og netmiðlum á borð við The New York Times, The Hill í Washington og víða um heim á vegum fréttaveitunnar AFP. Þá komu upptökulið frá Frakklandi, Þýskalandi og Bretlandi til að gera sjónvarpsþætti um skógrækt á Íslandi. Síðast þegar fréttist höfðu yfir 3 milljónir horft á EUFORGEN-myndbandið frá 2017, Afforesting Iceland – A Cause for Optimism.

Allt er þetta til marks um að við séum á réttri braut. Þorri Íslendinga og fjöldi fólks víða um heim er með okkur í baráttunni fyrir því að rækta meiri skóg. Það er gott að finna meðbyrinn.

 

RANNSÓKNASVIÐ

Skýrsla rannsóknasviðs – Edda S. Oddsdóttir sviðstjóri

Rannsóknasvið 2019

Gróskumikið vísinda- og rannsóknarstarf er mikilvægt í skógrækt, enda stuðlar slíkt starf að fram­þró­un skógræktar. Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, sinnir rannsóknastarfi og þekkingar­öfl­un í þágu skógræktar og skógverndar á Íslandi. Rannsóknir Mógilsár helgast af faglegri þekkingarþörf skógræktar og vísindalegum gæðakröfum.

Áfram verður unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi Mógilsár í stefnumörkun Skóg­rækt­ar­inn­ar og áhersla lögð á að

  • stunda öflugar og sjálfstæðar rannsóknir er lúta að skógrækt og skógvernd
  • birta rannsóknaniðurstöður í alþjóðlega ritrýndum fræðatímaritum og á innlendum vettvangi
  • hefja rannsóknaverkefni þar sem nýrrar þekkingar er þörf og afla til þeirra styrkja
  • veita sérfræðiþjónustu á sviðum sem snerta skógrækt og skógvernd

Klónatilraunir með sitkagreni eru hluti af því rannsóknastarfi sem miðar að því að bæta efnivið til skógræktar á Íslandi. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirAðalstarfstöð rannsóknasviðs er á Mógilsá en rannsóknir eru stundaðar um allt land. Stór hluti verkefna rann­sókna­sviðs flokkast sem hagnýt verkefni, þar sem leitast er við að finna lausnir á vandamálum í íslenskri skógrækt og þróa aðferðir við skógrækt og úrvinnslu afurða. Vöktunarverkefni eru annar flokkur verkefna en þar er fylgst með breytingum sem verða á skógi og umhverfi hans, ekki síst til lengri tíma. Einnig eru stundaðar grunnrannsóknir, sem miða að því að afla upp­lýs­inga til að auka skilning á skógi og vistkerfum hans og svo er lítill hluti rannsókna sem flokkast sem þjónustu­rann­sókn­ir en þær eru unnar að beiðni utanaðkomandi aðila.

Í upphafi ársins 2019 störfuðu 12 starfsmenn við rann­sókna­svið Skógræktarinnar. Elís Hreiðarsson lét af störfum sem umsjónarmaður fasteigna og umhverfis um mitt ár 2019 og ekki hefur verið ráðið í hans stað. Sigurður Ingi Unuson kom sem sumarstarfsmaður, aðstoðaði sérfræðinga og hugaði að umhverfi Mógilsár. Þrír starfsmenn unnu að meistara- eða doktorsprófi með rannsóknum sínum og birtar voru 8 greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum, 3 alþjóðlegar skýrslur og 6 greinar á innlendum vettvangi. Auk þess voru haldnir meira en 20 fyrirlestrar innanlands og utan.

Loftslagsdeild

Á árinu var ráðinn gagnagrunnssérfræðingur að loftslagsdeild rannsóknasviðs Skógræktarinnar, Ólafur St. Arnarsson. Honum er falið að byggja upp og halda utan um gagnagrunna landsskógarúttektar, gagna­grunna bindingar og losunar gróðurhúsalofttegunda vegna skóga og skógræktar, forritun á gagna­vinnslu­ferl­um og spálíkanagerð ásamt fleiru. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonTil að koma til móts við auknar áherslur á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda var í byrjun árs 2019 stofnuð loftslagsdeild innan rann­sókna­sviðs um verkefni sem snúa beint að lofts­lags­mál­um. Deildinni stýrir Arnór Snorrason skógfræðingur en auk hans starfa þar þrír sérfræðingar, Bjarki Þ. Kjartansson, Björn Traustason og Ólafur St. Arnarsson. Ólafur hóf störf sem gagnagrunns­sérfræðingur á Mógilsá í byrjun árs 2019.

Verkefni sem falla undir deildina eru m.a. eitt stærsta verkefni rann­sókna­sviðs­ins, Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ). Þar var haldið áfram að safna gögnum um ræktaða skóga og náttúrulega birkiskóga landsins, bæði með fjarkönn­un­um og mælingum á fjölda mæliflata út um allt land. Upplýsingarnar sem fást úr þessum mælingum eru notaðar til að skila inn gögnum um skóga landsins, m.a. til UNFCCC (rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um lofts­lags­mál), FAO (matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna) og í skýrslu um stöðu skóga í Evrópu. Þá eru ónefndar ýmsar innlendar skýrslur og greinar fyrir stjórnvöld og almenning. Sem fyrr segir eru fjórir starfsmenn innan loftslagsdeildar en auk þess komu tveir aðrir starfsmenn rann­sókna­sviðs­, auk þriggja starfsmanna skógar­þjónustu­sviðs Skógræktarinnar og fjölda nema, að verkefninu í lengri eða skemmri tíma.

Meðal annarra verkefna sem tengjast loftslagsmálum eru rannsókn á mögulegum áhrifum hlýnunar á útbreiðslu íslenskra birkiskóga, rannsóknaverkefnið Mýrvið þar sem kolefnishringrás í asparskógi á framræstri mýri er skoðuð (samstarfsverkefni með Háskólanum á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands) og hvernig hægt er að lesa í umhverfisbreytingar með því að skoða og mæla árhringi trjáa.

Aðrar rannsóknir

Þorbergur Hjalti Jónsson og Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir undirbúa tilraunareit á Mosfellsheiði þar sem Kolviður áformar að rækta loftslagsskóga. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonAuk úttekta og rannsókna á sviði loftslagsmála var unnið að fjölmörgum rannsóknaverkefnum á árinu 2019. Má þar nefna rannsóknir á erfðafræði trjáa (t.d. kvæmatilraunir á helstu trjátegundum landsins og afkvæmarannsókn á lerkiklónum), kynbótum á alaskaösp með áherslu á aukið ryðþol og tilraunir er snúa að því að hámarka lifun og vöxt ný­gróður­settra plantna, ekki síst á erfiðum svæðum. Þá eru stundaðar rannsóknir á meindýrum og sjúkdómum trjáa, t.d. ásókn birkikembu í mismunandi birki­kvæmi, ásókn asparglyttu í mismunandi víðikvæmi, rannsóknir á lífsferli ertuyglu auk þess sem fylgst var með útbreiðslu meindýra og sjúkdóma og skemmdum á trjám.

Á undanförnum árum hefur sífellt meiri áhersla verið lögð á rannsóknir á umhirðu og afurðum íslenskra skóga. Nýting nýjustu tækni við umhirðu og viðarmagnsáætlanir var rannsökuð auk þess sem verkefni sem kannar nýtingarmöguleika og eðliseiginleika timburs úr íslenskum skógum var hleypt af stokkunum.

Hér hafa eingöngu verið nefnd nokkur dæmi um fjölbreytt verkefni rann­sókna­sviðs­ á árinu 2019. Í töflu 1 má sjá helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá en auk þess má lesa ítarlegri lýsingu á verkefnunum í starfsáætlun Mógilsár á skogur.is.

Rannsóknir á brotþoli timburs úr íslenskum skógum eru liður í að kanna nýtingarmöguleika á þeim afurðum sem skógarnir gefa. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirSem fyrr vinna starfsmenn rann­sókna­sviðs­ í miklu og góðu samstarfi við aðra starfsmenn Skóg­rækt­ar­inn­ar um allt land og þó nokkrir starfsmenn annarra sviða taka beinan þátt í rannsóknum, auk þess að veita ýmiss konar aðstoð, ekki síst í formi upp­lýs­inga. Þá er samstarf við aðrar stofnanir ekki síður mikilvægt. Á árinu voru starfsmenn rann­sókna­sviðs­  meðal annars í samstarfi við skóg­ræktar­fé­lög­in, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landgræðsluna.

Síðast en ekki síst eiga starfsmenn rann­sókna­sviðs gott og mikið samstarf við fjölmarga skógræktendur út um allt land. Samstarfið getur verið af ýmsum toga. Margir skógarbændur hafa t.d. látið land undir tilraunir og þá krefjast mælingar á kolefnisforða íslenskra skóga þess að farið sé inn á einkalönd. Ótaldar eru allar upp­lýs­ingar sem fást með tilstilli skógræktenda út um allt land, ekki síst þegar óskað er eftir upplýsingum um pestir og skaðvalda á trjám. Undantekningarlítið hefur þetta samstarf gengið vel og starfsmönnum sviðsins verið vel tekið á ferðum sínum.

Tafla 1. Helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá árið 2019.

Helstu vörður rannsóknarverkefna Mógilsár 2019

Þátttaka í ráðstefnum og skipulagning ráðstefna er fastur liður í starfi rannsóknasviðs. Um 70 manns tóku þátt í ráðstefnu NordGen í Hveragerði í september þar sem fjallað var um skógarheilsu í framtíðinni. Hér er hópurinn utan við Hótel Örk í blíðunni sem var fyrri dag ráðstefnunnar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skaðvaldaannáll – Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda S. Oddsdóttir sérfræðingar

Heilsufar trjágróðurs á árinu 2019

Skemmdir eftir firðildalirfur á víði á Austurlandi. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonHér verður fjallað í stuttu máli um helstu skaðvalda á trjám á árinu 2019. Í ágúst 2019 var farin hringferð um landið til að kanna ástand trjágróðurs auk þess sem gerðar voru athuganir á ýmsum stöðum í tengslum við aðrar ferðir. Einnig var sendur út gátlisti til starfsmanna Skóg­rækt­ar­inn­ar og skógareigenda í byrjun sumars, þar sem þeir voru beðnir að leggja mat á sjúkdóma og skordýra­plág­ur í nágrenni sínu og jafnframt var óskað eftir ábendingum um skemmdir á trjám og runnum á vef Skógræktarinnar. Töluvert af svörum barst og þessar upplýsingar auk eigin athugana höfunda liggja til grundvallar þessu yfirliti.

Birki

Skemmdir eftir birkiþélu á Akureyri. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirFyrri hluta sumars fór að bera á töluverðum skemmdum af völdum birkikembu (Eriocrania unimaculella) á Suðvesturlandi og í Eyjafirði. Þrír nýir fundarstaðir voru skráðir á árinu, Vaglir á Þelamörk, Sauðárkrókur og Kirkju­bæjar­klaustur. Útbreiðsluvæði hennar nú nær því austan frá Kirkjubæjarklaustri á Suður­landi vestur yfir landið upp í Borgarfjörð. Einnig finnst hún í á nokkrum stöðum í Skagafirði og Eyjafirði. Birkiþéla (Scolioneura betuleti) var töluvert áberandi í ár og voru miklar skemmdir af völdum hennar á nokkrum stöðum á Suðulandi og í Eyjafirði. Hún heldur líka áfram að dreifa sér um landið en nýir fundastaðir eru Vogar á Vatnleysuströnd, Skaftafell og Grundarreitur í innanverðum Eyjafirði. Töluvert bar á skemmdum á birki og lyngi á Austurlandi og Norðurlandi, einkum af völdum haustfeta (Operophtera brumata) og tígulvefara (Epinotia solandriana). Yfir heildina voru aðrar maðkskemmdir á birki í meðallagi á öðrum svæðum.

Árið 2019 var þurrt á vestanverðu landinu og óvenju langur þurrkakafli á Suður- og Vesturlandi olli nokkrum þurrk­skemmd­um á birki um sumarið, einkum í nýgróðursetningum.

Lerki og fura

Á heildina litið virðist sem lerki og fura hafi sloppið að mestu við alvarlega kvilla þetta árið. Barrvefari (Zeiraphera griseana) lét þó aðeins kræla á sér á Austur- og Norðurlandi, líkt og í fyrra, og olli talsverðum skemmdum á þessum tveimur trjátegundum. Nokkuð var um frostskemmdir á lerki á Norðurlandi og þurrk­skemmd­ir á Austur­landi en furan virðist hafa sloppið best trjátegunda við vorfrostið sem varð á landinu á þessu ári.

Greni

Barrvefari á Greni í Guttormslundi. Ljósmynd: Þór Þorfinsson.Eins og undanfarin ár náði sitkalús (Ela­to­bium abietinum) sér á strik, sérstaklega á Vestfjörðum, þar sem hún hefur verið skæð síðastliðin þrjú ár. Enn fremur mátti sjá talsvert skemmd tré á höfuð­borgar­svæð­inu, en þar virðast spila saman skemmdir af völdum sitkalúsar og umhverfisaðstæður, þar sem sjá mátti umtalsvert meiri skemmdir á trjám með fram umferðargötum en trjám er stóðu í skógarreitum skammt frá. Á Austur­landi urðu töluverðar skemmdir á grenitrjám af völdum barrvefara (Zeiraphera griseana).

Mikið greniryð (Chrysomyxa abietis) var á rauð- og blágrenitrjám í Haukadal og víðar á Suðurlandi í haust, annað árið í röð.

Víða um landið var nokkuð um kal á greni eftir næturfrost síðastliðið vor. Einnig urðu töluverðar þurrk­skemmd­ir á greni á Suður­landi.

Ösp, víðir, viðja og selja

Brún víðibelti eftir asparglyttufaraldur í Skaftafelli. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirAsparglytta (Phratora vitellinae) veldur áfram töluverðum skemmdum á ösp, víði og viðju á Suður- og Vesturlandi. Einnig er hún tekin að dreifa sér um norðanvert landið og fannst í fyrsta skipti á Hólum í Hjaltadal og í innan­verð­um Eyjarfirði í ár. Þá urðu miklar skemmd­ir af völdum hennar á viðju og gulvíði í Skaftafelli, þar sem hún dreifir sér hratt.

Miklar skemmdir urðu á víði á Austurlandi þetta árið og voru víðibelti gjarnan alveg lauflaus. Þessar skemmdir voru eftir fiðrildalirfur, einkum haustfeta (Operophtera brumata) og tígulvefara (Epinotia solandriana).

Asparryð í ár var í meðallagi en það er viðvarandi í uppsveitum Árnessýslu og er enn að aukast í Eyjafirði, þar sem það fannst fyrst í teljandi mæli í fyrra.

Næturfrostið síðastliðið vor fór víða illa með ungar víði- og asparplöntur.

Aðrar tegundir trjáa og runna

Skemmdir á gullregni. Ljósmynd: Sigríður E. Elefsen.Nokkuð var um skemmdir sem ekki hafa sést áður af völdum laufborara á gullregni á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki þekkt hvaða skordýrategund olli þessu.

Töluvert var um jarðygluskemmdir í Fljótsdal á Austurlandi og var brún jörð á allstórum svæðum innan við skógar­girð­ing­una á Skriðuklaustri og í Suðurdal af völdum hennar.

Lokaorð

Hér að ofan hefur verið farið yfir helstu skaðvalda í skógum landsins á árinu 2019. Í heildina var veturinn mildur en sumarið frekar heppilegt fyrir skordýr og sjúkdóma. Plöntur urðu þó líka fyrir töluverðum skaða í vorfrosti víða um landið.

Rétt er að vekja athygli áhugasamra á vef Skógræktarinnar, skogur.is, þar sem er að finna upplýsingar um helstu skaðvalda sem finnast í trjám á Íslandi.

Þakkir

Höfundar vilja þakka áhugasömu skógræktarfólki um allt land fyrir upplýsingar og ábendingar um heilsufar skóga.

Áfram eru ábendingar um heilsu skóga vel þegnar og hægt er að koma þeim á framfæri með því að hafa sam­band við Brynju Hrafnkelsdóttur í síma 867 9574. Eins má senda upplýsingar og myndir á netfang hennar, brynja@skogur.is. Sýni, bæði af sýktum trjám og skordýrum, er hægt að senda á Mógilsá, rannsóknasvið Skógræktarinnar, 162 Reykjavík, stílað á Brynju Hrafnkelsdóttur.

SKÓGARAUÐLINDASVIÐ

Skýrsla sviðstjóra – Sigríður Júlía Brynleifsdóttir 

Skógarauðlindasvið 2019

Árið 2019 var nokkuð hefðbundið hjá skógarauðlindasviði en það annast þau verkefni sem tengjast skógrækt á lögbýlum, rekstri þjóðskóganna, eigin framkvæmdum og samstarfi við verktaka, áætlana­gerð einstakra svæða og úttektum þeirra en sinnir jafnframt því sem snýr að umsjón fræmála og fjölgunarefnis. Þá hefur sviðið það hlutverk að samþætta í áföngum verkefni lands­hluta­verk­efn­anna og þjóðskóganna svo sem skynsamlegt þykir. Umsýsla fjármála nytjaskógræktar á lögbýlum er á höndum rekstrarsviðs en samhæfingarsvið ber ábyrgð á samræmingu, umsögnum og stjórn­sýslu­verk­efn­um.

Skógarauðlindasviði er skipt upp í þrennt, skógarþjónustu, þjóðskóga og fræmál. Starfsmannafjöldi hefur verið stöðugur á skógarauðlindasviði en starfsmenn eru á fjölmörgum starfstöðvum Skógræktarinnar, um allt land, og eru að jafnaði 40-45 en fjölgar yfir sumarmánuðina um tíu.

Skógarþjónustan

Skipting gróðursettra skógarplantna á lögbýlum eftir landshlutum 2019Í skógarþjónustu Skógræktarinnar starfa skógræktarráðgjafar á starfstöðvum Skóg­rækt­ar­inn­ar víðs vegar um land. Skóg­ræktar­ráð­gjaf­ar vinna aðallega að verkefnum er lúta að starfsemi nytjaskóga á lögbýlum á tilteknu svæði svo sem grunnkortlagningu, áætlanagerð, ráðgjöf, gæðaúttektum og tölvuvinnslu vegna nytjaskógræktar á lögbýlum. Einnig vinna þeir verkefni tengd þjóðskógunum, t.d. við kortlagningu og áætlanagerð, og taka þátt í mælingum tilrauna sem settar hafa verið út á við­kom­andi starfsvæði auk annarra tilfallandi verkefna.

Eins og áður hefur verið komið að í ársritinu þá er mikilvægt að skógræktarráðgjafar vinni eftir samræmdum og skýrum vinnuferlum. Til að svo geti orðið þarf vinnuhandbók skógræktarráðgjafa að vera nokkuð ítarleg, hún er í sífelldri endurskoðun með tilliti til athugasemda þeirra sem eftir henni vinna. Skógræktarráðgjafar eru hvattir til að leita hver til annars, styðja og aðstoða á allan hátt við úrlausn verkefna. Hvatt er til vinnu í teymum um afmörkuð verkefni eða mál sem þarfnast úrlausna. Í hverjum landshluta er einum ráðgjafa falið að hafa yfirsýn um framkvæmdir í landshlutanum. Sá er n.k. teymisstjóri landshlutans og gengur undir titlinum „amtmaður“ hjá Skógræktinni. Amtmenn hafa yfirsýn um framgang verkefna er lúta að starfsemi nytjaskóga á lögbýlum. Fjöl­marg­ir fjarfundir voru haldnir í skógarþjónustunni á árinu, auk vinnufunda sem efnt var til í samfloti við ýmsa viðburði sem ráðgjafar hafa sótt á árinu.

Plöntuafhending gekk vel þetta árið. Hún hófst upp úr miðjum apríl í Rangárvallasýslu og í byrjun maí voru plöntur komnar í alla landshluta. Plöntur úr frystigeymslu komu fyrst til dreifingar og í kjölfarið bakkaplöntur en síðustu plöntunum var keyrt út í fyrstu viku í júní. Haustgróðursetning hófst á venjubundnum tíma í ágúst og stóð fram eftir hausti.

Hlutföll tegunda skógarplantna gróðursettra á lögbýlum 2019Alls voru gróðursettar 2.032.000 plöntur í nytjaskógrækt á lögbýlum á árinu 2019 á 260 skógarjörðum. Árið 2018 var gróðursett á 303 jörðum. Þetta var því fækkun um ríflega 40 jarðir í framkvæmdum á milli ára en ekki er óvanalegt að þetta sveiflist frá ári til árs. Hins vegar jókst plöntufjöldinn sem plantað var og er það í samræmi við þau markmið sem stjórnvöld hafa sett sér. Auk þess var unnið að grisjun og millibilsjöfnun á 84 hekturum á Héraði þetta árið en árið áður voru þeir töluvert færri eða 47 hektarar.

Rauntímaskráning gróðursetninga er ekki lengur ný fyrir fólki, þar sem markmiðið er að auka nákvæmni skráningar á staðsetningu og flatarmáli gróðursetninga. Skógarbændur hafa því verið hvattir til að taka upp þá aðferð að skrá inn útlínur nýrra gróðursetninga með GPS-tækjum eða símum strax að gróðursetningu lokinni og senda upplýsingarnar um hæl til skógræktarráðgjafa. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar sem eru aðgengilegar á vef Skógræktar­inn­ar og einnig er þar að finna kennslumyndband. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Voru skil á gögnum mjög góð á árinu og ljóst að þessi aðferð er komin til að vera. Jafnvel er hægt að búast við enn meiri þróun þeirra tæknilausna sem notast er við. Mikið hefur verið rætt um hvata til að bændur skili inn rauntíma­skrán­ing­um. Nefnt hefur verið að í fyllingu tímans verði skil af þessu tagi grundvöllur uppgjörs og að forsenda þess að bændur fái greidd framlög. Þessu þarf þó að gefa tíma. Ef eða þegar þessi leið verður farin verður hún kynnt bændum rækilega.

Fjöldi gróðursettra trjáplantna á lögbýlum 2019Útreikningur framlaga og vinnsla þeirra gekk vel þetta árið enda hafði verið unnið að úrbótum á vinnuferlum við uppgjör miðað við reynslu ársins áður.

Tveir formlegir samráðsfundir Skógræktarinnar, stjórnar LSE og fulltrúa frá aðildarfélögum LSE voru haldnir á árinu. Samráðsfundir eru ætlaðir til að efla tengslin, fjalla um það sem efst er á baugi og miðla upplýsingum. Fulltrúar allra skógar­bænda­félag­anna, auk stjórnar LSE, sitja þessa fundi ásamt skógræktarstjóra, sviðstjóra skógarauðlindasviðs og nokkrum öðrum starfsmönnum Skógræktarinnar.

Tölur um skiptingu plöntufjölda eftir landshlutum 2019Enginn opinn samráðsfundur með skógarbændum var haldinn þetta árið en árið áður voru þeir á fimm stöðum á landinu, í Borgarnesi, Eyjafirði, Egils­stöð­um, Selfossi og Ísafirði. Stefnt er að því að árið 2020 verði gerð bót á því og farin verði hringferð um landið, í heimsókn til aðildarfélaga LSE.

Aðsókn í nytjaskógrækt á lögbýlum er mikil enn sem áður og fjölmargir samningar í ferli. Þá er einnig unnið að endurnýjun á nokkrum samningum. Samningssvæðin eru nú 670 á um 640 jörðum á tæplega 50 þúsund hekturum. Fjöldi samninga segir þó ekki mikið í samhengi við framkvæmdir hvers árs. Ekki telst nema um helmingur samninga virkur ár hvert. Áfram er unnið að endurnýjun samninga og þá eru samningssvæði oft endurskoðuð í leiðinni. Þessar tölur eru því síbreytilegar frá degi til dags. Ljóst er að áhugi landeigenda er mikill á verkefninu. Oftar en ekki er um að ræða landeigendur sem hafa áhuga á fjölbreyttri landnotkun og þar er skógrækt sterkur valkostur. Allur sá áhugi sem birtist í fjölda umsókna er m.a. aukin meðvitund fólks um loftslagsbreytingar og þá kosti sem felast í fjölbreyttri landnotkun. Meiri þungi í umræðunni um loftslagsbreytingar hefur auk þess sýnt sig í mikilli fjölgun umsókna. Auk þess eru aðilar sem hafa „legið í dvala“ að koma sterkir inn á nýjan leik. Þá tók Skógræktin þátt í undirbúningi verkefnisins „Loftslagsvænn landbúnaður“ í samstarfi við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Landgræðsluna en verkefnið kemur til framkvæmda á árinu 2020.

Tölur um skiptingu plöntufjölda eftir tegundumÁ árinu tóku skógræktarráðgjafar þátt í átaki í endurkortlagningu skóglendis. Þetta verkefni er unnið í samstarfi við rannsóknasvið en um er að ræða nokkurra ára verkefni. Nú er verkefnið í fyrsta fasa, þar sem unnið er eingöngu með loftmyndir og við tölvu. Þetta er mjög hentugt verkefni til að hafa með öðru yfir vetrarmánuðina. Annar fasi verk­efn­is­ins hefst væntanlega á næsta ári þegar fara þarf á staðinn og skrá upplýsingar og hvern og einn reit.

Þjóðskógar

Ársskýrslur skógarvarða með ítarlegum upplýsingum um framkvæmdir og starf ársins er að finna á vef Skógræktarinnar. Hér verður þó gerð grein fyrir helstu verkefnum þjóðskóganna á árinu.

Skógræktin rekur fjórar skógarvarðardeildir og yfir hverri þeirra er skógarvörður. Verkefni þjóðskógadeildanna eru fjölbreytt, allt frá gróðursetningu og grisjun og umhirðu skóga og útivistarsvæða til sértekjuöflunar eins og afurðasölu og reksturs tjaldsvæða. Skógræktin hefur í sinni umsjón 54 lendur.

Merkingar eru mikilvægar í þjóðskógunum. Smám saman er verið að koma upp nýjum skiltum í skógunum samkvæmt samræmdu kerfi. Ljósmynd: Þór ÞorfinnssonAlls voru gróðursettar 425.822 skógarplöntur í þjóðskógum um land allt sem er næstum helmingi meira en 2018 þegar gróðursettar voru 221.645 skógarplöntur. Stærsti hlutinn fór í Skarfanes í samstarfi við Landsvirkjun. Annars var gróðursett í Haukadal, Þjórsárdal, á Tumastöðum, Stóru-Drageyri og í Selskógi Skorradal, á Klafa­stöð­um við Grundartanga, Hálsmelum, Þórðarstöðum og Skuggabjörgum í Fnjóskadal og á Hallormsstað.

Undirbúningur að gerð eldaskála í Vaglaskógi er í gangi en hann verður sambærilegur þeim skála sem reistur var á Laugarvatni og vígður árið 2018. Eldaskálinn er skýli með eldstæði, aðstöðu til borðhalds og við hann er þjónustuhús með snyrtingum. Undirbúningurinn sem fram fór á árinu er í formi hönnunar og gerðar deiliskipulags.

Í sumar var tíð ekki eins góð hvað varðaði heimsóknir á tjaldsvæði. Á Hallormsstað voru skráðar 11.311 gisti­næt­ur. Það voru því töluverð viðbrigði frá árinu áður (2018) sem var metár í aðsókn frá því að skráningar á gisti­nótt­um hófust. Þá urðu gistinæturnar 21.446. Í Vaglaskógi voru gistinæturnar 2019 ívið fleiri en árið áður eða 6.742 nætur. Í Sandártungu í Þjórsárdal voru gistinæturnar á svipuðu róli og árin áður eða í kringum 2.500.

Eins og mörg undanfarin ár hafa gönguleiðabæklingarnir, sem gefnir hafa verið út fyrir þjóðskógana, runnið út eins og heitar lummur. Einkum eru þeir bæklingar sem prentaðir hafa verið á ensku, auk íslensku, mjög vinsælir hjá útlendingum.

Skógardagar voru haldnir á fjölmörgum stöðum um allt land laugardaginn 22. júní. Viðburðirnir voru kynntir sameiginlega á Skógargáttinni undir yfirskriftinni „Líf í lundi“. Um er að ræða samvinnuverkefni undir forystu Skógræktarfélags Íslands, Skógræktarinnar og Landssamtaka skógareigenda. Meginmarkmið þess er að hvetja til þess að skógardagar verði sem víðast um landið og standa sameiginlega að kynningu þessara viðburða til að fólk komi sem mest út í skógana og læri að njóta þess sem þeir hafa að bjóða.

Það er mjög mikilvægt að taka þátt í viðburðum til að efla tengsl, miðla og nema. Starfsfólk Skógræktarinnar er því hvatt til að taka þátt í viðburðum innan og utan stofnunar. Eins og áður tók starfsfólk skógarauðlindasviðs virkan þátt í hinum ýmsum ráðstefnum og fundum svo sem Fagráðstefnu skógræktar, aðalfundi Skógræktarfélags Íslands og aðalfundi Landssamtaka skógareigenda.

Jólatré eru meðal afurða þjóðskóganna. Félagar í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík fermdu bíla sína með iðjagrænum jólatrjám í Þjórsárdalsskógi í desember 2019. Trén voru seld á jólatrjáamarkaði sveitarinnar við Flugvallarveg í Reykjavík. Ljósmynd: Jóhannes H. Sigurðsson

Fræmál og fjölgunarefni

Umsjón fræmála og fjölgunarefnis fer fram á Vöglum. Undir verksviðið heyrir:

  • Umsjón með daglegum rekstri fræhúss á Vöglum
  • Yfirsýn yfir öflun fjölgunarefnis
  • Skipulagning frætínslu víðs vegar um land
  • Umsjón með frælager Skógræktarinnar
  • Umsjón með útboðum og plöntukaupum stofnunarinnar
  • Önnur tilfallandi verkefni sem sviðstjóri felur viðkomandi

Fræuppskera af Hrym var frekar léleg í ár. Alls náðust um 3 kg. af fræi, sem var sent í hreinsun til Svíþjóðar. Ætla má að það náist að framleiða um 50 þúsund plöntur af Hrym á næsta ári. Fræþroski stafafuru var afar slakur um mestallt land. Alls var safnað um 5 kg. af fræi sem einnig var sent í hreinsun. Skortur var á stafafurufræi af Skagway-uppruna og afar brýnt að safna miklu magni þegar fræþroski verður góður. Einnig var sáð kynbættri stafafuru af innlandsuppruna, en framleiðendur flytja það fræ inn sjálfir frá Svíþjóð. Engu var safnað af birkifræi í ár, enda til birgðir frá fyrri árum, en þær klárast væntanlega á næsta ári þannig að safna verður talsverðu magni af birki á næsta ári. Nægar birgðir eru enn til af sitkagrenifræi, en það fræ er að verða nokkuð gamalt og því er stefnt að því að safna fræi af sitkagreni og sitkabastarði á næsta ári.

Lokaorð

Töluverður tími og orka hefur farið í að tala fyrir aukningu til skógræktar og árangurinn virðist vera að koma í ljós. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023 er gert ráð fyrir verulegri aukningu á fjárframlögum ríkisins til framkvæmda vegna Aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Það eru því kjörin tækifæri fyrir bændur að auka skóg­rækt­ en einnig fyrir ríkisstofnanir. Með það í farteskinu og bjartsýni að leiðarljósi tökum við fagnandi á móti árinu 2020.

Líkatjörn komin aftur – Pétur Halldórsson kynningarstjóri

Svæði að Mosfelli orðið votlendi á ný

Skógræktin endurheimti haustið 2019 votlendi að Mosfelli í Grímsnesi til mótvægis við land sem tapast við gerð Brúarvirkjunar í Haukadal. Endurbleyting landsins hefur ekki áhrif á skóginn í Mosfelli en áhugavert verður að fylgjast með breytingum á fuglalífi og gróðurfari þegar votlendið nær sér aftur á strik.

Líkatjörn komin aftur í landi Mosfells í Grímsnesi. Ljósmynd: Trausti JóhannssonÍ október 2015 kom út umfangsmikil skýrsla Guðmundar Guðjónssonar, Svenju N.V. Auhage og Rannveigar Thoroddsen sem bar heitið Gróður og fuglar á framkvæmdasvæði Brúarvirkjunar. Þar var gerð grein fyrir gróðurfari og fuglalífi á efri hluta Tungufljóts í Bláskógabyggð vegna fyrirhugaðrar Brúarvirkjunar, rennslisvirkjunar í Tungufljóti. Heildarflatarmál rannsóknarsvæðisins var 2,36 km2. Niðurstöður skýrslunnar voru m.a. að gróður myndi raskast á 5,5 hekturum lands og stór hluti þess svæðis væri skóg- og kjarrlendi sem myndi eyðast. Búist var við að alls færu 15 hektarar lands undir framkvæmdina.

Í leyfisferli Brúarvirkjunar gerði Skipulagsstofnun þá kröfu að votlendi yrði endurheimt í stað þess lands sem færi undir vatn. Þar sem Haukadalslandið er í umsjón Skógræktarinnar var ákveðið að finna framræst land á vegum stofnunarinnar annars staðar á Suðurlandi. Fyrir valinu varð fallegt svæði í Mosfelli í Grímsnesi þar sem áður var meðal annars falleg tjörn, Líkatjörn. Svæðið var ræst fram árið 1988 í því skyni að þar yrði ræktaður skógur. Ekkert hefur þó orðið af skógrækt þar sem mýrin var áður og því var upplagt að snúa landinu í átt til fyrra horfs með bleytingu.

Þegar fyllt var í skurði í Mosfelli nú í haust var notað efni af bökkum skurðanna. Starfsmenn Suðurtaks ehf. unnu verkið og að sögn Trausta Jóhannssonar, skógarvarðar á Suðurlandi, var það gert af mikilli fagmennsku og vel gengið um svæðið. Trausti sendi á árinu frá sér nýja skýrslu um endurheimt votlendis vegna framkvæmda við Brúarvirkjun í Tungufljóti. Hlekkur á þá skýrslu er hér fyrir neðan. Meðfylgjandi myndir tók Trausti og fleiri myndir er að finna í skýrslunni.

Örnefnið Líkatjörn en sagt vera dregið af því að lík Jóns Vídalíns biskups hafi verið þvegið í tjörninni á leið til Skálholts. Jón lést í Biskupsbrekku á Uxahryggjaleið árið 1720. Þegar affallið af tjörninni var stíflað fylltist tjörnin á ný og nú er yfirborð hennar komið í eðlilega hæð. Áhrifasvæði endurheimtarinnar er um 10 hektarar lands og þar er gert ráð fyrir að vatnsyfirborðið muni hækka á komandi árum en áhrifanna er þegar farið að gæta. Áhugavert verður að fylgjast með breytingum á fuglalífi og gróðurfari eftir bleytinguna. Smám saman mun votlendisgróður verða meira áberandi þar sem blotnað hefur í landinu og tjörnin laðar vafalaust fljótt að sér votlendisfugla til varps og ætisleitar.

Heildarlengd skurða sem fyllt var í er um 450 metrar. Ekki er auðvelt að slá á það hversu mikil losun hefur verið frá þessu framræsta landi eða hversu mikið dregur úr losun við aðgerðirnar. Raunar snýst verkið ekki beinlínis um minnkaða losun kolefnis heldur eru þetta mótvægisaðgerðir sem felast í að búa til votlendi í stað þess sem hverfur í Haukadal.

SAMHÆFINGARSVIÐ

Skýrsla sviðstjóra – Hreinn Óskarsson

Samhæfingarsvið 2019

Unnið var að ýmsum verkefnum hjá samhæfingarsviði Skógræktarinnar þetta árið. Helstu verkefni sviðsins eru skipulagsmál, kynningarmál, fræðslumál, markaðsmál, samstarf við erlenda skóla um starfsnám, ferðamannastaðir Skógræktarinnar auk ýmissa verkefna sem sem til falla. Hér verður stiklað á stóru um verkefni starfsmanna sviðsins, en nánar er fjallað um einstök verkefni í sérköflum hér á eftir.

Sviðstjóri kom að gerð Landsáætlunar í skógrækt sem er nýtt verkefni og hófst á haustdögum. Skógræktarstjóri stýrir starfi verkefnisstjórnar þess og var sviðstjóri skipaður starfsmaður verkefnisstjórnar. Haustið 2019 var unnið að lýsingu landsáætlunarinnar og var hún sett í kynningu á samráðsgátt stjórnvalda í lok árs. Nánar er fjallað um Landsáætlunina og fundi sem haldnir voru með sveitarfélögum um landshlutaáætlanir annars staðar í öðrum kafla.

Nokkur áhersla var lögð á Þjórsárdal, skipulagsmál gönguleiða sem og undirbúning friðlýsingar lands­lags­verndar­svæð­is í Þjórsárdal. Sat sviðstjóri í undirbúningshópi um friðlýsinguna sem gerð var í samræmi við 50. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Innan svæðisins eru þrjú svæði sérstaklega friðlýst sem náttúruvætti, í fyrsta lagi Gjáin, í öðru lagi Háifoss og Granni og loks Hjálparfoss. Áherslur Skógræktarinnar varðandi friðlýsingu svæðisins voru að tryggja áframhaldandi endurheimt birkiskóga á hinu friðlýsta svæði. Á sama tíma var unnið að friðlýsingu menningarminja í Þjórsárdal á vegum Minjastofnunar, en í dalnum er fjöldi fornminja eins og þekkt er. Samstarfshópur sveitarfélagsins, Skógræktarinnar, EFLU, ferðamálafulltrúa o.fl. vann að verkefni sem sneri að heildarskipulagi ferðaleiða um Þjórsárdal og var það verkefni styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Auk þessara verkefna var unnið að uppbyggingu áningarstaðar við Hjálparfoss og var lagt rafmagn, vatn og fráveita að salernishúsi sem unnið er að því að fullklára.

Á Þórsmerkursvæðinu hefur verið komið upp númeruðu kerfi á stikuðum gönguleiðum í samvinnu við Landsbjörg. Þetta auðveldar leit ef óhöpp verða á leiðunum. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSviðstjóri hefur setið í samstarfshópi um fag­mennsku við uppbyggingu innviða ferðamanna­staða á landinu. Er á vegum hópsins unnið að gerð handbóka um merkingar og leiðbeiningar við gerð og viðhald gönguleiða. Nokkrir fundir voru í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu með starfs­hópn­um. Unnið hefur verið að endurbótum á áningarstöðum og gönguleiðum víða um land. Stærstu verkefnin hafa verið á Þórsmerkursvæðinu eins og undanfarin ár, skilti voru sett upp á árinu, gönguleiðir stikaðar og kortlagðar.

Unnið hefur verið að markaðsmálum, þróun viðarafurða, staðlamálum, brotprófunum á timbri o.fl. á árinu og er nánar fjallað um þann þátt í annarri grein hér á eftir. Ljóst er að framtíð viðarnytja er björt en forsenda þess að vel takist til er að unnið verði að þessum verkefnum af festu.

Vefur Skógræktarinnar, skogur.is, var uppfærður á árinu til að uppfylla aðgengiskröfur. Má m.a. nefna að unnið var að uppsetningu sk. vefþulu sem gerir kleift að hlusta á efni hverrar síðu á vefnum í stað þess að lesa það. Auk þess er nú hægt að breyta litum á texta og bakgrunni til að auðvelda lestur. Í kynningarmálum var einnig unnið að undirbúningi á nýrri útgáfu bæklingsins Fræðsluefni um skógrækt sem kemur út 2020 svo eitthvað sé nefnt. Fræðslumál voru einnig veigamikill þáttur í starfi sviðsins og var undirritað samkomulag við Mennta­mála­stofn­un um nýtingu fræðsluefnis í skógrækt til kennslu í skólum landsins og endurnýjun á Verkefnabanka Lesið í skóginn sem framvegis verður vistaður hjá Menntamálastofnun. Einnig var haldinn fjöldi námskeiða sem tengjast skógrækt og skógarnytjum auk þess sem samstarf er við fjölda skóla á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Nánar er fjallað um þau verkefni í sérstakri grein í þessu riti.

Skógræktin kynnti starfsemi sína á ýmsum vettvangi, bæði með skógardögum eins og undanfarin ár og áratugi, en einnig á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, á ráðstefnu FESTU, samfélagsábyrgðar fyrirtækja, auk þess að starfsmenn tóku þátt í ýmsum viðtölum og þáttagerð, mestmegnis á vegum erlendra sjónvarpsstöðva. Áhugi á skógrækt hér á landi hefur aukist mjög, sér í lagi eftir að stuttmynd EUFORGEN um skógrækt á Íslandi birtist á vef EUFORGEN og var dreift á stuttmyndarás National Geographic. Um þrjár milljónir manna hafa séð þá mynd á Youtube.

Skógræktin og Landgræðslan undirrituðu á árinu samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Grunnskólabörn úr Þorlákshöfn gróðursettu að þessu tilefni á Hafnarsandi í júní. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirStór skógræktarverkefni hafa verið í undirbúningi um nokkurra ára skeið og hafa verið haldnir fundir um undirbúning þeirra, m.a. með Landgræðslunni. Þorláksskógaverkefnið er eitt þeirra og var áfram unnið að undirbúningi þess í samráðshópi sem starfað hefur um nokkurra ára skeið. Framkvæmdir hafa þegar hafist á Hafnarsandi og var unnið með ýmsum aðilum að gróðursetningu og uppgræðslu á sandinum á árinu. Hugmyndir eru uppi um fleiri svipuð verkefni og er Leiðvöllur og nágrenni í Skaftárhreppi eitt þeirra. Annað er Hólasandur og hefur Haukadalsheiði einnig verið nefnd. Hekluskógaverkefnið er fyrirmynd þessara verkefna og er áfram unnið að því af krafti.

Starfsfólk á samhæfingarsviðinu vann vel á árinu og skilaði góðu verki. Fundað var reglulega með fjarfunda­bún­aði (Microsoft Teams) og fjallað um ýmis mál. Sjálfboðaliðar í stígagerð unnu mörg handtök á Þórsmörk og erlendir starfsnemar í skógfræði komu að ýmsum verkefnum hjá þjóðskógunum.

Stórkostlegt sumar á Þórsmörk – Pétur Halldórsson kynningarstjóri

Stórkostlegt sumar á Þórsmörk

Charles J. Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds á Þórsmerkursvæðinu, sagðist eftir sumarið 2019 aldrei hafa upplifað annað eins sumar og sjálfboðaliðahóparnir hefðu komið miklu í verk við stígalagningu, viðhald og önnur verkefni. Um sjötíu sjálfboðaliðar víða að úr heiminum unnu þar í sumar og samtals skiluðu þeir sem svarar rúmlega 200 vikna vinnu.

Chas sagði eftir haustið að sjálfboðaliðarnir væru fullir eldmóðs og vildu bæta umhverfið og njóta náttúrunnar. „Sum­arið hef­ur verið stór­kost­legt og það besta frá því við byrjuðum á verk­efn­inu. Ég hef aldrei upp­lifað annað eins sum­ar hér á landi og það var eig­in­lega of gott til að vera satt. Við höf­um náð að koma miklu í verk,“ sagði hann.

Charles J. Goemans, verkefnastjóri stígaviðhalds, á einum þeirra göngustíga sem sjálfboðaliðar sjá um að halda við á Þórsmerkursvæðinu. Ljósmynd: Pétur HalldórssonChas hefur stýrt sjálfboðaliðaverkefnum á veg­um Skóg­rækt­ar­inn­ar frá árinu 2012. Verkefnið kallast á ensku Trailteam og á hverju hausti er auglýst eftir sjálfboðaliðum. Mörg hundruð sækja um á hverju ári og leggur Chas mikla vinnu í að fara yfir umsóknirnar og taka ítarleg viðtöl við þá umsækjendur sem hann telur að komi til greina. Hann velur úr það fólk sem hann telur líklegt að muni falla vel í hópinn en líka standast álagið sem felst í erfiðri vinnu við krefjandi aðstæður fjarri mannabyggðum í misjöfnum veðrum.

Um 70 sjálf­boðaliðar vinna að verkefnum á Þórsmörk á hverju sumri og segir Chas að þetta fólk skili rúm­lega 200 vikna vinnu samanlagt. Sjálfboðaliðarnir fái að sjálfsögðu ekki greitt fyrir vinnu sína en séu í fullu fæði á meðan og útvegi sjálf­ir nauðsynlegan búnað eins og hlífðarföt og tjald. Hóparnir gista í tjöldum sínum í starfstöð Skógræktarinnar í Langa­dal á Þórs­mörk en þar eru skýli þar sem geymdar eru birgðir, vinna má að matseld, þurrka fatnað og svo framvegis.

Sjálfboðaliðar að smíða tröppur og palla í hlíðum Valahnúks. Ljósmynd: Trailteam.isEins og eðlilegt er vilja sjálfboðaliðarnir líka fá að skoða sig um á þessu stórbrotna svæði sem Þórsmörk og nágrenni er. Yfirleitt nota sjálfboðaliðarnir hluta dvalartímans til gönguferða, gjarnan með því að fá bílferð í Landmannalaugar og ganga þaðan til baka á Þórsmörkina.

Vefur sjálboðaliðaverkefnisins er á síðunni trailteam.is þar sem hægt er að sækja um að gerast sjálfboðaliði. Aldurstakmarkið er tuttugu ár en Chas segir að þróunin undanfarin ár hafi verið sú að velja saman hópa sem ekki eru á of víðu aldursbili. Hópar ungra sjálfboðaliða nái best að hristast saman og mynda góðan vinnuanda.

Við yfirferð umsókna er lögð áhersla á að velja fólk sem telja megi víst að hafi kjarkinn sem þarf til að búa vikum saman í tjaldi í misjöfnum veðrum. Eins og sjá má á vef verkefnisins er þar tekið skýrt fram að veðrátt­an á Íslandi sé rysj­ótt og því þurfi fólk að vera vel ­bú­ið til að ráða við verk­efnið. Þá er kostur ef fólk hefur reynslu af stíga­vinnu eða einhverjum þeim störfum henni tengjast.

Starfstöð Skógræktarinnar í Langadal Þórsmörk. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHóparnir dvelja ýmist hálfan mánuð eða einn og hálfan við sjálfboðastörfin á Þórsm­erkur­svæð­inu. Chas segir að fólk hafi komið frá öllum heimshornum og alltaf bætist ný lönd við. Í sumar hafi til dæmis komið fyrsti sjálfboðaliðinn frá Slóveníu. „Það er eig­in­lega mik­il­væg­ara að geta verið í þess­um aðstæðum en endi­lega að kunna eitt­hvað fyr­ir sér í göngu­stíga­gerð, þótt það sé vissu­lega alltaf gott. Það er alltaf hægt að kenna réttu hand­tök­in,“ seg­ir Char­les. Um þriðjung­ur þeirra sem taka þátt í verk­efn­inu hafi gert það áður, slík­ar séu vin­sæld­irn­ar. Reynt sé að hafa hvern hóp sem fjöl­breyti­leg­ast­an, kynja­hlut­föll­in séu jöfn og ald­ur og reynsla fólks ólík.

Aðstæður til stígavinnu á Þórsmerkursvæðinu voru með allrabesta móti sumarið 2019 enda lék veðrið þar við fólk. Því gengu verkefni sjálfboðaliðanna einstaklega vel. Chas sagði líka að sjálfboðaliðarnir væru fullir af eldmóði og vildu bæta umhverfi sitt, auk þess að njóta náttúrunnar. „Þegar fólk hugs­ar þannig er ekk­ert drama í gangi,“ segir hann.

Fræðslumál 2019 – Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi

Verkefnabankinn Lesið í skóginn

Um þessar mundir eru 20 ár frá því verkefnabanki var stofnaður á vefnum skogur.is. Margt hefur breyst í skólasamfélaginu, netheimum og hjá Skógræktinni sem gerir kröfur um að verkefnabankinn sé endurskoðaður og settur í nýjan farveg. Af þessu tilefni var leitað til Menntamálastofnunar sem tók hugmyndum um samstarf afar vel og var undirritaður samstarfssamningur á Mógilsá í lok nóvember.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri undirrita samkomulagið. Ljósmynd: Ólafur OddssonÍ stórum dráttum felur samstarfið í sér að Menntamálstofnun heldur tæknilega utan um bankann/flettibókina, hýsir hana á rafrænu formi eins og annað námsefni og kynnir það grunn­skólum landsins. Skógræktin sér um að fóðra bankann með samþættu efni um fjölbreyttar hliðar skógarins. Gert er ráð fyrir að verkefnabankinn geti tengst öllum námsgreinum og skólastigum grunnskólans, m.a. til að hann styðji betur við markmiðin um „skóla fyrir alla“ (fjölbreytt skólastarf) og grunngildi menntunar og markmið Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. Til þess þarf að bæta við nýjum verkefnum sem bjóða upp á þessa fjölbreytni og tengsl við fleiri námsgreinar og aldursstig.

Markmiðin með endurútgáfu verkefnabankans eru m.a. að efla tengingu nemenda, kennara og skóla við umhverfi sitt og byggja upp skógarmenningu í skólastarfi til lengri tíma sem byggir upp viðhorf og skilning skólasamfélagsins á gildi skógarins fyrir mannlíf, menningu, náttúru og efnahag þjóðarinnar. Vonast er til að þannig muni fólk upplifa sig sem hluta af náttúru landsins og skógarumhverfinu.

Eftir undirritun samningsins milli Skógræktarinnar og Menntamálastofnunar sem fram fór á Mógilsá 22. nóvember. Frá vinstri: Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, Andri Már Sigurðsson, ritstjóri í náttúrugreinum, Óskar Níelsson þróunarstjóri, Gunnhildur Steinarsdóttir kynningarstjóri, Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri. Ljósmynd: Ólafur Oddsson

 

Skógaruppeldi í fræðslustarfi – Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi

Fólkið og skógurinn

Þegar við tölum um skógaruppeldisleg viðfangsefni eigum við gjarnan við þá skógarfræðslu sem beinist að uppeldisstéttum eða öðrum þeim sem búa til dagskrá fyrir almenning, börn og fullorðna. Í slíkri dagskrá er gert ráð fyrir því að viðfangsefnin og aðferðirnar í náminu skilji eftir reynslu og skilning hjá þátttakandanum á mikilvægi skógarins sem fjölbreytts vistkerfis og gildi hans fyrir náttúru, mannlíf, menningu og efnahag þjóða.

Mörg af þeim námskeiðum sem Skógræktin hefur tekið þátt í byggjast á kennsluaðferðum sem gera ráð fyrir virkri þátttöku, að fólk læri með því að gera en ekki bara með því að hlusta eða horfa.

Verkefni sem auðvelt er að taka upp, fylgja eftir og tengja námi í skólastarfi eru líkleg til að mynda hefð og stuðla að skógarmenningu í skólastarfi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSkógaruppeldislegar kennsluaðferðir miðast við að námið sé samþætt mörgum námsgreinum s.s. náttúrufræði, sögu, íslensku og öðrum tungumálum, stærðfræði og sköpun, auk tengsla við grunnþætti menntunar í aðalnámskrá. Námið er þverfaglegt í eðli sínu þannig að ólíkir faghópar vinna að sama verkefninu og bæta hver annan upp í þekkingunni á skóginum og nýtingu hans. Kennsluhættir og viðfangsefni eru hagnýt og bjóða auðveldlega upp á að þeim sé fylgt eftir í skólastarfi, á heimilinu eða í tómstundastarfi. Að læra að lesa í viðinn, kljúfa hann til að smíða úr honum eða nota í eldivið gerir kröfur um þekkingu og færni til að ná árangri. Verkefni sem auðvelt er að taka upp, fylgja eftir og tengja námi í skólastarfi er líklegt til að mynda hefð og stuðla að skógarmenningu í skólastarfi. Unnið er í skógi og með afurðir hans og lífríki við staðbundnar aðstæður. Þessi skógarfræðsla tekur mið af algengustu trjátegundum á Íslandi og helst þeim sem vaxa almennt í nærumhverfi fólks, görðum og opnum skógarsvæðum og gott er að nota í almenn verkefni í tálgun og almennum skólanytjum í skólastarfi og handverki.

Saltbátur úr íslenskum viði eftir nemanda á námskeiðinu Útikennsla og græn nytjahönnun. Ljósmynd: Ólafur OddssonSkógræktin hefur haldið námskeiðin Lesið í skóginn og önnur svipuð námskeið þar sem unnið er með skógfræðileg viðfangsefni á uppeldislegan hátt í samvinnu við ýmsa aðila, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Í samvinnu við Land­búnaðar­háskól­ann/ Garð­yrkju­skóla ríkisins hefur Skógræktin haldið margs konar námskeið fyrir almenning, skógar­bænd­ur og sumarhúsafólk. Fyrir kennaranema voru þróuð námskeiðin Lesið í skóginn í grunnnámi kennaramenntunar á Menntavísindasviði HÍ og Útikennsla og græn nytjahönnun á meistarastigi. Annað hvert ár er haldið námskeiðið Tálgað í takt við náttúruna sem er í boði í kennsluréttindanámi Listaháskóla Íslands. Það hentar fólki úr ýmsum listgreinum. Námskeiðin Lesið í skóginn og tálgað í tré hafa verið haldin um allt land um árabil í samvinnu við fjölmarga aðila, fyrirtæki og stofnanir. Um leið og fólk lærir tálgun tengja þessi námskeið saman nytjar, umhirðu og efnisöflun í nærumhverfinu með sköpun og fræðandi upplifun. Engin skil eru á milli kynslóða í tálguninni og farið hefur í vöxt að hún sé liður í aukinni samveru fjölskyldunnar.

Á undanförnum árum hefur komið í ljós að skógaruppeldisleg viðfangsefni eiga heima í fjölmörgum geirum atvinnulífsins. Brýnt er að sérhæfa skógarleiðsögufólk til slíkra verka. Stofnanir sem endurhæfa fólk vegna veikinda, slysa og brottfalls úr atvinnu eða skóla þurfa að taka meira mið af hverjum og einum þegar valin eru tálguverkefni, hvaða viðartegundir skuli notaðar eða við val á öðrum skógartengdum viðfangsefnum. Í tómstundastarfi fólks á ýmsum aldri þarf líka að laga verkefnin að þeim einstaklingum eða hópum sem við er átt hverju sinni og það sama má segja um almennt skólastarf, ferðaþjónustu og annan vettvang þar sem tálgun nýtist til að opna heim skógarins fyrir fólki.

Hvernig leggjum við mat á árangur af skógaruppeldinu? Er markmiðið að fjöldi fólks hafi atvinnu af því að selja tálgaða gripi úr afurðum skógarins? Eða er markmiðið að skapa þær hefðir meðal almennings að nota skóginn til útiveru, heilsubótar, sköpunar og nýrra hugmynda? Hvort tveggja er verðmætt en verðmætastur er árangurinn ef til verður skógarmenning í landinu sem eflir stuðning fólks við skógrækt með öllu því sem hún gefur fyrir landið, þjóðina og heiminn allan.

Skógarnytjar eru mjög margvíslegar. Skógurinn gefur eldivið, efni í leikföng, nytjahluti, byggingar og fleira, en líka tækifæri til margvíslegrar sköpunar, útivistar, heilsueflingar og þar mætti lengi áfram telja. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

 

Afurðamál 2019 – Björn Bjarndal Jónsson, verkefnastjóri afurðamála

Afurðamál skóga

Á undaförnum árum hafa skapast tækifæri til að vinna að grunnþáttum í afurðamálum skóga á Íslandi.

Skógræktin og Landssamtök skógareigenda hafa unnið að stefnumarkandi skýrslu þar sem horft er til næstu ára hvað varðar hina ýmsu þætti afurða- og markaðsmála skógræktar. Teymishópurinn sem hefur leitt þessa vinnu fékk vinnuheitið Skógarfang og hafa verið haldnir 19 vinnufundir. Nú liggur fyrir skýrsla vinnuhópsins sem er nær 70 blaðsíður með 16 kaflaheitum. Margir hafa komið að greinaskrifum í skýrsluna þar sem farið er yfir stöðu mála nú, en einnig er í lok hvers kafla horft til framtíðar og lögð á ráðin um næstu skref sem talið er nauðsynlegt að vinna frekar að til að tryggja uppgang greinarinnar.

Árið 2018 gerðu Skógræktin, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landssamtök skógareigenda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur með sér samstarfssamning um gæðamál viðarnytja. Samstarfið fékk vinnuheitið Gæðafjalir. Markmið með þessu samstarfi var að vinna að kröfum um staðla fyrir þær trjátegundir sem nýtast í timburiðnaði. Skyldi það gert m.a. með því að útbúa fræðsluefni fyrir timburafurðir þannig að kröfum markaðarins yrði fullnægt. Jafnframt var stefnt að því að auka gæði í ræktun og umhirðu skóga svo afurðir skógarins uppfylltu kröfur markaðarins.

Verkefnið Gæðafjalir leiddi til þess að sótt var um styrk til ESB, sem fékkst 2019. Landbúnaðarháskólinn fer fyrir verkefni sem heitir Innovation in Training and Exchange of Standards for Wood Processing, en vinnuheitið er TreProX. Aðrir aðilar að verkefninu eru Linné-háskólinn í Svíþjóð, Landbúnaðarháskólinn í Kaupannahöfn, Skógræktin og Trétækniráðgjöf (tók við af Nýsköpunarmiðstöð Íslands). Samstarfaðilar í einstökum verkefnum hér á landi eru einnig Skógræktarfélag Reykjavíkur, Límtré Vírnet, Byko, Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands.

Merki TreproxTreProX-verkefnið vinnur að nokkrum lykilverkefnum innan afurða- og markaðsmála fyrir íslenska skógrækt.

  1. Unnið er að því að taka upp viðskiptaflokkun á timbri í samstarfi við samstarfsaðila á Norðurlöndum. Unnið er að þýðingu og útgáfu á bókinni Handelssortering. Einnig er unnið á þýðingu á námsefni úr sænsku. Samhliða er unnið að gerð staðals fyrir alaskaösp.
  2. Settar verða upp námskeiðaraðir sem kallast „Fólkið á söginni“ fyrir þá aðila sem vinna við flettingu og úrvinnslu á timbri. Námskeiðin verða haldin bæði hér á landi og einnig í Danmörku og Svíþjóð.
  3. Námsefni fyrir námskeiðaraðirnar Grænni skóga I og Grænni skóga II verður endursamið og verkefnin uppfærð. Í framhaldi af því verður til röðin Grænni skógar III. Hún mun höfða til skógareigenda sem hafa byrjað að grisja skóga og vinna að úrvinnslu afurða úr skógum.

Þegar horft er til framtíðar í afurða- og markaðsmálum skóga er mikilvægt að gera sér grein fyrir að skógar skaffa ekki einvörðungu timburafurðir til iðnaðarframleiðslu, heldur einnig fjölbreyttar afurðir eins og til textílframleiðslu, efni í ilmefni og snyrtivörur og hráefni í hátækniiðnað svo fátt eitt sé nefnt. Því þarf að nota tímann vel meðan skógar landsins vaxa til að undirbúa hagkvæmar úrvinnsluaðferðir svo skógar framtíðarinnar skili sem mestum arði til samfélagsins hér á landi. Framtíðin er björt.

Um Lands- og landshlutaáætlanir – Hrefna Jóhannesdóttir skipulagsfulltrúi

Landshlutaáætlanir í skógrækt

Í maí 2019 voru samþykkt ný lög um skóga og skógrækt nr. 33/2019. Þar segir að Skógræktin skuli í samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög, skógarbændur og aðra hagsmunaaðila vinna landshlutaáætlanir, þar sem útfærð sé stefna um skógrækt úr landsáætlun í skógrækt.

Tengsl skógræktar við aðrar áætlanir og stefnur ríkis og sveitarfélaga eru margvísleg; efst á baugi er áætlun íslenska ríkisins um kolefnishlutleysi árið 2040. Það er augljóst varðandi umhverfismálin að sveitarfélögin verða að setja sér skýr markmið um annars vegar samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar aukna bindingu kolefnis. Kolefnisbinding í skógum er ein af mörgum aðgerðum til að verjast loftslagsbreytingum og bæta ræktarlandið í leiðinni, en vannýtt tækifæri liggja bæði í landbúnaði og skógrækt.

Í landshlutaáætlunum skal:

  • tilgreina skóga og skógræktarsvæði innan sveitarfélaganna auk annarra svæða sem leggja skuli áherslu á í skógrækt
  • fjalla um aðrar áherslur í skógrækt sem fram koma í skipulagsáætlunum og lagasetningu
  • fjalla um hvernig samstarfi við sveitarfélögin um skógrækt verði háttað

Ekki er hægt að móta landshlutaáætlun nema í góðu samráði við sveitarfélögin og landeigendur en sterk tengsl eru milli landshlutaáætlunar og aðalskipulags hvers sveitarfélags. Haldnir voru nokkrir kynningar- og samráðs­fund­ir vegna landshlutaáætlunarinnar seinni helming ársins til þess að fylgja eftir kynningarbréfi sem sent var til allra sveitarfélaga skömmu eftir að ný lög um skóga og skógrækt voru staðfest. Til fundar við skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar og skógræktarráðgjafa viðkomandi svæðis, mættu fulltrúar sveitarfélagsins, ýmist úr sveitar­stjórn eða umhverfisnefnd. 

Á fundunum var m.a. rætt hvernig betur mætti gera grein fyrir skógrækt í aðalskipulagi hvers sveitarfélags auk þess sem góð umræða skapaðist um samþættingu skógræktar við aðra landnýtingarkosti og atvinnugreinar um land allt.

Tafla 1. Kynningar- og samráðsfundir vegna landshlutaáætlana 2019.

Dagsetning Sveitarfélag
4. september Grímsnes- og Grafningshreppur
28. október Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður
28. október Fjarðabyggð
29. október Vopnafjarðarhreppur
1. november Borgarbyggð
1. nóvember Dalabyggð
20. nóvember Svalbarðsstrandarhreppur
12. desember Akureyrarbær

 

REKSTRARSVIÐ

Pistill sviðstjóra – Gunnlaugur Guðjónsson

Rekstrarsvið 2019

Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru tvö fagsvið sem nefnast rannsóknasvið og skógarauðlinda­svið. Hins vegar eru tvö miðlæg svið, rekstrarsvið og samhæfingarsvið.

Hlutverk rekstrarsviðs er að hafa yfirumsjón með fjármálum, bókhaldi, skrifstofuþjónustu, starfsmannamálum og annarri stoðþjónustu stofnunarinnar.

Sviðið hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar og eftirlit með framgangi hennar. Rekstrarsvið ber ábyrgð á því að uppgjör og upplýsingar berist til annarra stjórnenda og verkefnisstjóra þegar það á við. Sviðið er enn fremur ábyrgt fyrir gerð ársreiknings og miðlun fjármálaupplýsinga til Fjársýslu ríkisins, Ríkisendurskoðunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl.

Fjármál Skógræktarinnar 2019

Afgangur af rekstri ársins var 4,5 m.kr. Í upphafi árs var höfuðstóll stofnunarinnar neikvæður um 13,5 m.kr. og í árslok var hann því neikvæður um 9,0 m.kr. Fjárheimild ársins var 914,9 m.kr. og hækkaði um 77,4 m.kr. á milli ára.

Heildarkostnaður við rekstur Skógræktarinnar var 1.222,5 m.kr. árið 2019 og hækkaði um 92,0 m.kr. frá fyrra ári. Rekstrarkostnaður var 962,5 m.kr. og hækkaði um 73,2 m.kr. á milli ára. Framlög til skógræktar á lögbýlum voru 238,4 m.kr. og hækkuðu um 21,4 m.kr. frá árinu á undan. Fjallað er nánar um framlög til skógræktar á lögbýlum hér fyrir neðan. Sértekjur voru 291,1 m.kr. og hækkuðu um 26,7 m.kr.

Skuld stofnunarinnar við ríkissjóð var m.kr. m.kr í árslok og lækkaði um 21,1 m.kr. Viðskiptakröfur lækkuðu um 3,5 m.kr. á milli ára úr 47,8 m.kr. í 44,3 m.kr. Bankainnstæður voru í árslok 16,0 m.kr. Skammtímaskuldir hækkuðu um 1,4 m.kr., úr 24,4 m.kr. í 25,8 m.kr.

Framlög til skógræktar á lögbýlum

Samkvæmt fjárlögum voru framlög til skógræktar á lögbýlum áætluð 222,0 m.kr. fyrir árið 2019 og lækkuðu um 2,9 m.kr. milli ára. Heildarframlög árið 2016 voru 253,0 m.kr., 222,8 m.kr. árið 2017, 217,0 m.kr. árið 2018 og 238,4 m.kr. árið 2019. Frá sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt eru uppsöfnuð framlög ríkisins til skógræktar á lögbýlum 896,7 m.kr. en heildarfjárhæð útgreiddra framlaga 931,0 m.kr.

Skipting framlaga milli landshluta árið 2019 var eftirfarandi: Austurland 65,5 m.kr. (var 57,2 m.kr árið 2018), Norðurland 57,7 m.kr. (var 56,9 m.kr. árið 2018), Vesturland og Vestfirðir 61,9 m.kr. (var 52,3 m.kr. árið 2018) og Suðurland 53,2 m.kr. (var 50,4 m.kr. árið 2018).

Stærstur hluti framlaga fór til plöntukaupa, 108,7 m.kr. (var 97,3 m.kr. árið 2018), gróðursetningar 66,6 m.kr. (var 54,0 m.kr. árið 2018) og girðinga 36,1 m.kr. (var 34,8 m.kr. árið 2018).

Skógræktin, eitthvað fyrir alla – Björg Björnsdóttir mannauðsstjóri

Skógræktin eitthvað fyrir alla

Þegar minnst er á skógrækt sjá líklega flestir fyrir sér vígalegan skógarhöggsmann með keðjusög í annarri hendi og lerkilurk í hinni inni í miðjum skógi. Vissulega er starf skógarmanns stór hluti af starfsemi Skógræktarinnar en innan stofnunarinnar eru þó mun fleiri störf og fjölbreytt. Það mætti halda því fram að Skógræktin hefði eitthvað fyrir alla!

Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Hlutverk Skógræktarinnar er að hafa forystu um uppbyggingu skógarauðlindar á Íslandi með víðtækri samvinnu, vinna að vernd og friðun skóga og draga fram hagrænan, umhverfislegan og samfélagslegan ávinning af sjálfbærri nýtingu skóga.

Skógræktin rækir hlutverk sitt með því að veita framlög og ráðgjöf til skógræktenda, rækta og hirða um þjóðskógana, endurheimta birkiskóga, sinna rannsóknum innan lands og í samstarfi við aðrar þjóðir og hafa forystu um að afla og miðla þekkingu á skógrækt á Íslandi. Jafnframt með því að hvetja til samvinnu og veita ráðgjöf á sviði skógræktar á Íslandi með áherslu á sjálfbærni, eflingu byggðar, verðmætasköpun og mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

Til þess að rækja þetta hlutverk sitt þarf Skógræktin á fjölbreyttum starfsmannahóp að halda sem hefur ólíkan bakgrunn og menntun. Stofnunin er með starfstöðvar um allt land og hefur um árabil nýtt fjarfundabúnað í starfsemi sinni. Hér á eftir fylgir yfirlit yfir helstu störf innan stofnunarinnar ásamt stuttri lýsingu á hverju starfi.

Sérfræðingur og aðstoðarsérfræðingur

Sérfræðingar og aðstoðarsérfræðingar Skógræktarinnar heyra undir rannsóknasvið stofnunarinnar sem aðalaðsetur á Mógilsá. Þeir vinna að ýmsum rannsóknum sem tengjast skógrækt, s.s. um erfðaauðlindir, landupplýsingar, nýræktun skóga og skjólbelta, loftslagsbreytingar, trjá- og skógarheilsu, umhirðu og afurðir skóga og vistfræði skóga. Þessir starfsmenn eru menntaðir í skógfræði, landfræði, plöntufræði, vistfræði og eðlisfræði svo eitthvað sé nefnt.

Hvert skyldi vera starfsvið sérfræðings og helstu verkefni? Fáum dæmi.

Brynja
Hrafnkelsdóttir

sérfræðingur

Ég starfa sem sérfræðingur á rannsóknasviði við spennandi og fjölbreyttar rannsóknir sem tengjast heilsufari trjáa og skóga. Til að mynda vistfræðirannsóknir þar sem smádýralíf er skoðað á ólíkum svæðum, kynbótarannsóknir þar sem er reynt að finna réttan efnivið sem þolir skaðvalda betur og vöktun þar sem ástand skóga og skemmdir eftir skaðvalda eru skrásettar.

 

 

Skógarverðir og aðstoðarskógarverðir

Skógarverðir og aðstoðarskógarverðir tilheyra sviði þjóðskóga sem hefur umsjón með ríflega fimmtíu lendum um allt land. Þjóðskógarnir eru öllum opnir allan ársins hring. Skógarverðir eru fjórir talsins (Austurland, Suðurland, Norðurland, Vesturland/Vestfirðir) og hafa umsjón með daglegum rekstri og framkvæmdum í þjóðskógunum, umsjón með fjármálum, eignum, tækjum og vélum, skógvernd og framþróun fjölhliða nýtingar skóga. Til að gegna stöðu skógarvarðar þarf háskólamenntun í skógfræði.

Aðstoðarskógarverðir koma að skipulagningu og framkvæmd verkefna í þjóðskógunum. Háskólamenntun í skógfræði er æskileg en ekki nauðsynleg. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa reynslu af vinnu við gróður­setn­ingu, grisjun og aðra skógarumhirðu sem og af skógmælingum og gerð skógræktaráætlana og æskilegt er að hafa reynslu af verkstjórn, mannaforráðum og notkun Arc Info. Hæfni til að stjórna verkefnum og vinna hvort heldur sem er sjálfstætt eða í hópavinnu er skilyrði.

En hvað nýtist best í starfi aðstoðarskógarvarðar?

Bergrún Arna
Þorsteinsdóttir

aðstoðarskógarvörður

Í starfi nýtist mér vel að vera alin upp í sveit og hafa unnið við bústörf og vélar frá barnsaldri en líka  að hafa lært garð­yrkju­fræði. Svo vann ég víða í Noregi við uppeldi skógarplantna og fékk mikla reynslu þegar ég kom til Skógræktarinnar og vann með fólki með allt að 50 ára starfsreynslu. Stutt námskeið um allt mögulegt og reynslan eftir 33 ár hjá stofnuninni, allt frá sumarstarfsmanni í tjaldvörð, starfsmanni í plöntuuppeldi í ræktunarstjóra þar til gróðrarstöðin var lögð niður á Hall­orms­stað. Þá hófst nýr kafli og ég fluttist í skógarhlutann, fór að setja mig inn í sögun, þurrkun og allt sem tilheyrir framleiðslu á timbri, umhirðu skóga og áfram mætti telja.

Verkefnastjórar

Verkefnastjórar starfa á þvert á svið og sinna flestir ákveðnum verkefnum, s.s. skipulags- og umhverfismálum, kynningarmálum, fræðslumálum, mannauðsmálum, fræmálum, uppgjörsmálum og markaðsmálum. Fyrir flest þessara starfa er gerð krafa um háskólamenntun og reynslu af starfsviði.

Hrefna
Jóhannesdóttir

skipulagsfulltrúi

Ég fæ fjölbreytt og skemmtileg verkefni inn á borð til mín. Helstu verkefnin eru umsagnir um opinber skipulagsmál, fellingarleyfi og gerð samninga um mótvægisaðgerðir við varanlega skógareyðingu. Þá vinn ég líka að undirbúningi landshlutaáætlana í skógrækt.

 

Verkstjórar og skógarhöggsmenn

Verkstjórar og skógarmenn tilheyra sviði þjóðskóga. Þessir starfsmenn koma að margvíslegum störfum, s.s. gróðursetningu og áburðargjöf, gönguleiða- og stígagerð, skógarumhirðu og grisjun, útkeyrslu viðar og viðarvinnslu. Ekki er gerð krafa um menntun fyrir þessi störf.

Hvað skyldi skógarhöggsmanni líka best við starfið sitt?

Níels
Magnús
Magnússon

skógarhöggsmaður

Það sem mér líkar best við starfið mitt hjá Skógræktinni er fyrst og fremst að fá að vinna úti í íslenskri náttúru allan ársins hring, sérstaklega í okkar fallegu og friðsælu skógum.

Amtmenn og skógræktarráðgjafar

Amtmenn og skógræktarráðgjafar tilheyra sviði skógarþjónustu. Amtmenn eru fjórir, einn í hverjum landshluta, og samræma starf skógræktarráðgjafa á svæðinu auk þess að sinna sjálfir verkefnum skógræktarráðgjafa. Þau snúast öll um starfsemi nytjaskóga á lögbýlum, s.s. grunnkortlagningu, áætlanagerð, ráðgjöf og tölvuvinnslu. Æskilegt er að hafa háskólagráðu í skógfræði eða tengdum greinum, reynslu af ráðgjöf, áætlanagerð, skógrækt og starfsemi bændaskógræktar.

Bergsveinn
Þórsson

skógræktarráðgjafi

Hlutverk skógræktarráðgjafa er að aðstoða skógarbændur við að koma upp skógi á jörðum sínum, þannig að starfið snýst um að veita þjónustu og ráðgjöf. Samstarfið við skógar­bænd­ur er fjölbreytt og ánægjulegt að upplifa að sjá nýja skóga verða til.

 

 

Starfsmenn á sviði rekstrar

Á rekstrarsviði starfa m.a. bókarar, launafulltrúi, skjalavörður og gjaldkeri. Þeir sinna öllum verkefnum sem lúta að bókhaldi, launahaldi og skjalavörslu. Æskilegt er að viðkomandi starfsmenn hafi menntun og reynslu sem nýtist í starfi.

Anna Pálína Jónsdóttir er launafulltrúi Skógræktarinnar. Hvað skyldi hún gera í vinnunni og hvernig ætli henni líki vinnan?

Anna Pálína Jónsdóttir

launafulltrúi

Ég er hef unnið hjá stofnuninni í 24 ár og er mjög ánægð í mínu starfi. Skemmtilegust eru samskiptin við starfsfólkið sem er alveg einstakt. Ég held utan um launaskráningu starfs­mannaog launakeyrslu, skráningu orlofs og veikindadaga sem ég sendi Fjársýslunni og uppfærslu launa frá Fjár­sýsl­unni til að setja inn í bókhaldskerfið. Hef að hluta til umsjón með ráðningarsamningum, er í sambandi við ýmis stéttarfélög vegna kjarasamninga og lífeyrissjóði starfs­manna. Svara líka alls konar fyrirspurnum um fjölda stöðugilda, menntun starfsmanna, kynjahlutfall og fleira.

 

Sviðstjórar

Sviðstjórar eru eðli málsins samkvæmt framkvæmdastjórar sviða stofnunarinnar. Einnig er vert að nefna fagmálastjóra sem er staðgengill skógræktarstjóra. Sviðstjórar bera ábyrgð á rekstri sinna sviða og daglegri stjórnun þeirra auk þess sem þeir sitja í framkvæmdaráði stofnunarinnar ásamt skógræktarstjóra. Gerð er krafa um háskólamenntun, umtalsverða reynslu og þekkingu á skógrækt auk rekstrarreynslu.

Skógræktin er mjög dreifð stofnun og sviðstjórar þurfa að stýra starfsfólki sem dreift er um allt land. Hvernig skyldi það vera, Sigríður Júlía, Brynleifsdóttir, sviðstjóri skógarauðlindasviðs?

„Þetta er krefjandi starf þar sem sviðstjóri þarf að vera með yfirsýn yfir starfsemi víða og setja sinn inn í fjölbreytt mál og mismunandi aðstæður. Því skiptir það mjög miklu máli að sýna fólkinu traust sem vinnur á sviðinu og að það sé gagnkvæmt. Vissulega getur fjarlægðin verið til trafala en ég reyni að gera mitt besta til að hitta starfsfólkið reglulega og ef ekki í raunheimum þá í netheimum. Þá skiptir máli að bregðast hratt við og greiða úr þegar starfsfólk hefur samband,“ segir Sigríður Júlía


Skógræktarstjóri

Hvers vegna skógrækt, Þröstur? „Vegna alls þess sem skógar gefa, þá er deginum ljósara hvað það er sem vantar í skóglausu landi – meiri skóg (og minna kjaftæði).“   Skógræktarstjóri er æðsti yfirmaður Skógræktarinnar. Um hlutverk hans er kveðið á í lögum: „Hann skal hafa háskólagráðu á málefnasviði stofnunarinnar. Skógræktarstjóri ber ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi Skógræktarinnar og ræður annað starfsfólk hennar.“

En hvers vegna skógrækt, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri?

Vegna alls þess sem skógar gefa, þá er deginum ljósara hvað það er sem vantar í skóglausu landi – meiri skóg (og minna kjaftæði).

 

Skógarkolefni – Pétur Halldórsson kynningarstjóri

Skógarkolefni

Skógræktin hefur hrundið af stað verkefni sem kallast Skógarkolefni. Með því er ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með verður í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining sam­svarar einu tonni af koltvísýringi. Stefnt er að því að fyrstu einingarnar verði skráðar á næsta ári.

Úr þjóðskóginum í Haukadal. Ljósmynd: Pétur HalldórssonMarkmið Skógarkolefnis eru að:

  • draga úr áhrifum loftslagsbreytinga með því að binda kolefni
  • bjóða landeigendum upp á nýja kosti til að fjármagna skógrækt
  • bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á nýjan kost til að kolefnisjafna sig
  • efla skógrækt á Íslandi með öllum þeim kostum sem henni fylgja

Skógarkolefni tryggir:

  • raunverulega kolefnisbindingu með nýskógrækt
  • viðbót við fyrri kolefnisbindingu
  • mælda og staðfesta kolefnisbindingu
  • skilgreindan varanleika kolefnisbindingar
  • vottaða kolefnisbindingu
  • umhverfis- og samfélagslega ábyrgð

Tonn á móti tonni

Hlutverk skóga í kolefnishringrásinni er að fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu sem losnað hefur, t.d. við rotnun lífrænna efna eða vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Trén binda kolefnið í vefjum sínum og í jarðvegi en skila súrefnishluta sameindar­innar CO2 aftur út í andrúmsloftið.

Ein skógarkolefniseining samsvarar einu tonni af koltvísýringi (CO2) í andrúmsloftinu sem bundið er í skógi. Til að jafna losun á einu tonni af CO2 þarf því að telja fram eina skógarkolefniseiningu. Til að slíkar einingar geti orðið til þarf að rækta nýjan skóg og fá kolefnisbindinguna vottaða og skráða í Skógarkolefnisskrá. Einingarnar eru skráðar „í bið“ til að byrja með. Eftir fimm ár frá gróðursetningu er skógurinn metinn til að sjá hvort hann sé á réttu róli og muni binda það sem til er ætlast. Með óháðri vottun eru þessar úttektir staðfestar og þar með verða skógarkolefniseiningarnar fullgildar. Tíu árum seinna er skógurinn fyrst mældur og kolefnisbinding staðfest og vottuð. Þegar skógarkolefniseiningar eru notaðar til jöfnunar á losun er ekki hægt að nota þær aftur.

Kerfi í mótun

Fyrstu drög að Skógarkolefni voru kynnt í lok árs 2019 en stefnt að því að hægt yrði að skrá fyrstu einingarnar á árinu 2020. Til að svo megi verða þarf að koma á laggirnar skógarkolefnisskrá sem heldur utan umskóg­rækt­ar­verk­efni frá því að stofnað er til þess og þar til vottaðar skógarkolefniseiningar hafa verið notaðar á móti losun. Skógarkolefnisskrá er því eins konar banki sem tryggir að einingar standist settar kröfur og að þær séu aðeins notaðar einu sinni á móti losun. Einingarnar þarf að votta af til þess bærum vottunaraðila. Ekki er nauðsynlegt að einungis ein vottunar­stofa sjái um slíka vottun heldur þarf hún aðeins að hafa réttindi til vottunar og vera óháð þeim sem stofna til eða versla með einingarnar.

Ríkið, einkageirinn og almenningur

Skógarkolefni inniheldur viðmið fyrir vottun og skráningu á kolefnisbindingu með ný­skógrækt á frjálsum markaði. Almenningur, stofnanir og fyrirtæki sem vilja leggja sitt af mörkum til loftslagsbaráttunnar og binda kolefni fá þannig fullvissu um bindingu sína.

Nánar:

Merki Skógarkolefnis

 

Skógræktin fyrirmyndarstofnun 2019 – Pétur Halldórsson kynningarstjóri

Til fyrirmyndar meðal stofnana

Skógræktin lenti í fimmta sæti í flokki stórra stofanana á vegum ríkisins í mati Sameykis á stofnun ársins 2019 og hlaut því sæmdartitilinn fyrirmyndarstofnun 2019. Stofnunin er framarlega í öllum atriðum sem metin voru nema einna helst í því sem snertir launakjör.

Sameyki stéttarfélag varð til í byrjun ársins við sameiningu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR stéttarfélags í almannaþjónustu. Bæði þessi eldri félög hafa gert kannanir og valið stofnanir ársins og nú birtist fyrsta sameiginlega könnunin sem áfram er skipt eftir því hvort stofnun tilheyrir sveitarfélagi eða ríkinu.

Frá starfsmannafundi Skógræktarinnar á Hótel Selfossi í janúar 2019. Ljósmynd: Pétur HalldórssonNiðurstöður úr könnuninni Stofnun ársins 2019 hjá SFR voru kynntar 15. maí á Hilton Reykjavík Nordica að viðstöddu fjölmenni. Í könnun Sameykis eru sem fyrr segir tveir flokkar, annars vegar stofnanir á vegum sveitarfélaga og hins vegar stofnanir á vegum ríkisins. Stofnunum á vegum sveitarfélaga var skipt í tvennt eftir því hvort starfsmenn voru færri eða fleiri en fimmtíu. Stofnunum á vegum ríkisins var skipt í litlar, meðalstórar og stórar stofnanir, allt að 20 starfsmenn, 20-50 starfsmenn eða fleiri en 50 starfsmenn. Valin var stofnun ársins í hverjum stærðarflokki, bæði hjá ríki og bæ, og einnig tveir hástökkvarar ársins, annar hjá ríki og hinn hjá bæ. Þær stofnanir sem lenda í efstu sætunum meðal ríkissstofnana hljóta sæmdarheitið fyrirmyndarstofnanir og eru fimm efstu í flokki stórra stofnana útnefndar fyrirmyndarstofnanir en þrjár í flokkum meðalstórra og lítilla stofnana. Skógræktin er því fyrirmyndarstofnun árið 2019.

Einkennismerki fyrirmyndarstofnana 2019Í flokk stofnana sveitarfélaga falla vinnustaðir Reykjavíkurborgar, Akraness og Seltjarnarness, sem áður tilheyrðu Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Í flokk ríkisstofnana falla ríkisstofnanir, sjálfseignar­stofnanir og fleiri stofnanir sem féllu undir SFR áður. Auk þess fengu Fyrirmyndarstofnanir viðurkenningu og Hástökkvari ársins.

Skógræktin er í fremstu röð í atriðum sem snerta stjórnun, starfsanda og vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu, ánægju og stolt og jafnrétti. Það eru helst launakjör sem draga einkunn stofnunarinnar niður og einnig fengu þær stofnanir sem ofar lentu allar enn betri einkunn en Skógræktin fyrir stjórnun.

Allar ríkisstofnanir sem eru þátttakendur í könnuninni fá senda skýrslu með niðurstöðum svo fremi sem skilyrði um lágmarkssvörun sé uppfyllt (35% þátttaka). Öðrum þátt­töku­stofn­un­um gefst kostur á að kaupa skýrslu frá Gallup fyrir sína stofnun, svo framarlega sem skilyrði um svörun sé uppfyllt. Í skýrslunni er gerð ítarleg greining á niðurstöðum könnunarinnar. Þar eru m.a. bornar saman meðaltalseinkunnir hverrar spurningar hjá viðkomandi stofnun við meðaltalseinkunn allra stofnana. Einnig eru breytingar frá síðustu mælingu skoðaðar þegar það á við. Kannanir sem þessi gagnast stjórnendum því vel við að greina styrk­leika og veikleika í starfsemi sinni og vinna að úrbótum þar sem þörf er á.

Fulltrúar þeirra stofnana sem fengu viðurkenningu að þessu sinni. Edda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs Skógræktarinnar, þriðja frá hægri. Mynd: Sameyki.

 

Starfsfólk Skógræktarinnar 2019

Nöfn starfsmanna og ársverk

Hér er listi yfir starfsfólk sem var á launaskrá hjá Skógræktinni allt árið 2019 eða hluta ársins, hvort sem það var fullt starf eða hlutastarf.

Stöðugildi eða ársverk hjá Skógræktinni á á árinu 2019 voru 65 og hálft.

   
NAFN STARF STARFSTÖÐ SVIÐ
Aðalheiður Bergfoss bókari aðalskrifstofa rekstrarsvið
Aðalsteinn Sigurgeirsson fagmálastjóri aðalskrifstofa/Reykjavík yfirstjórn
Anna Pálína Jónsdóttir launafulltrúi aðalskrifstofa rekstrarsvið
Andri Þór Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Aníta Mjöll Ásgeirsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Antonía Þóra Antonsdóttir verkamaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Arnlín Þuríður Óladóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturl./Vestfjörðum skógarauðlindasvið
Arnór Snorrason sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Astrid Maria Stefánsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Ásmundur Smári Ragnarsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Benedikt Stefánsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Benjamín Örn Davíðsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarauðlindasvið
Bergrún Arna Þorsteinsdóttir aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Bergsveinn Þórsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarauðlindasvið
Bjarki Þór Kjartansson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Bjarki Sigurðsson verkstjóri þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Björg Björnsdóttir mannauðsstjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Björn Bjarndal Jónsson verkefnastjóri Suðurland samhæfingarsvið
Björn Traustason sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Brynja Hrafnkelsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Brynjar Skúlason sérfræðingur Mógilsá/Akureyri rannsóknasvið
Böðvar Guðmundsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarauðlindasvið
Charles Josef Goemans verkefnisstjóri Þórsmörk samhæfingarsvið
Edda Sigurdís Oddsdóttir sviðstjóri Mógilsá rannsóknasvið
Einar Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Eiríkur Kjerulf skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Elís Björgvin Hreiðarsson umsjónarmaður fasteigna Mógilsá rannsóknasvið
Ellert Arnar Marísson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarauðlindasvið
Erna Sigrún Valgeirsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Francisco De B. Yanez Barnuevo skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarauðlindasvið
Glúmur Björnsson verkamaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Guðmundur Sigurðsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarauðlindasvið
Gunnlaugur Guðjónsson sviðstjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Halldór Sverrisson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Hallur S Björgvinsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarauðlindasvið
Harpa Dís Harðardóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa/Selfoss rekstrarsvið
Hlynur Gauti Sigurðsson sérfræðingur skógarþjónusta Vesturlandi samhæfingarsvið
Hrafn Óskarsson verkstjóri þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Hraundís Guðmundsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarauðlindasvið
Hrefna Jóhannesdóttir skipulagsfulltrúi skógarþjónusta Norðurlandi samhæfingarsvið
Hreinn Óskarsson sviðstjóri Suðurland samhæfingarsvið
Hrönn Guðmundsdóttir verkefnastjóri Suðurland samhæfingarsvið
Huldar Trausti Valgeirsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Johan Wilhelm Holst skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarauðlindasvið
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Jóhannes H Sigurðsson aðstoðarskógarvörður þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Jón Auðunn Bogason skógarvörður þjóðskógar Vesturlandi skógarauðlindasvið
Jón Þór Birgisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarauðlindasvið
Jón Þór Tryggvason verkamaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Kjetil Vatne Nybö skógarhöggsmaður þjóðskógar Vesturlandi skógarauðlindasvið
Kristján Jónsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vestfjörðum skógarauðlindasvið
Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarauðlindasvið
Lucile Delfosse verkamaður þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Magnús Fannar Guðmundsson verkamaður þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Maria Danielsdóttir Vest skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarauðlindasvið
Margrét Guðmundsdóttir gjaldkeri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Martina Kasparová verkamaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Nick Christiansen skógarhöggsmaður þjóðskógar Vesturlandi skógarauðlindasvið
Níels Magnús Magnússon verkamaður þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Ólafur Eggertsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi aðalskrifstofa/Reykjavík samhæfingarsvið
Ólafur Stefán Arnarsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Ólöf Inga Sigurbjartsdóttir verkefnastjóri aðalskrifstofa rekstrarsvið
Pavle Estrajher verkamaður þjóðskógar Vesturlandi skógarauðlindasvið
Pétur Halldórsson kynningarfulltrúi aðalskrifstofa/Akureyri samhæfingarsvið
Rakel Jakobína Jónsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Norðurlandi skógarauðlindasvið
Rúnar Ísleifsson skógarvörður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindarvið
Sigfús Jörgen Oddsson skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir sviðstjóri skógarþjónusta Vesturlandi skógarauðlindasvið
Sigurður E Kjerulf vélsmiður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Sigurður Ingi Arnarsson aðstoðarmaður sérfræðinga Mógilsá rannsóknasvið
Snorri Páll Jóhannsson skógarhöggsmaður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Sæmundur Kristján Þorvaldsson verkefnastjóri skógarþjónusta Vestfjörðum skógarauðlindasvið
Teitur Davíðsson verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Trausti Jóhannsson skógarvörður þjóðskógar Suðurlandi skógarauðlindasvið
Vala Garðarsdóttir bókari aðalskrifstofa rekstrarsvið
Valdimar Reynisson skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Vesturlandi skógarauðlindasvið
Valgeir Davíðsson verkstjóri þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið
Valgerður Anna Jónsdóttir verkefnastjóri skógarþjónusta Norðurlandi skógarauðlindasvið
Valgerður Erlingsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Suðurlandi skógarauðlindasvið
Viktor Steingrímsson verkamaður þjóðskógar Vesturlandi skógarauðlindasvið
Þorbergur Hjalti Jónsson sérfræðingur Mógilsá rannsóknasvið
Þór Þorfinnsson skógarvörður þjóðskógar Austurlandi skógarauðlindasvið
Þórveig Jóhannsdóttir skógræktarráðgjafi skógarþjónusta Austurlandi skógarauðlindasvið
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri aðalskrifstofa yfirstjórn
Þuríður Davíðsdóttir verkamaður þjóðskógar Norðurlandi skógarauðlindasvið