Fara í efni

Gengið til skógar 2023

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri

Eftir talsverðan undirbúning voru lög um Land og skóg nr. 66 samþykkt á Alþingi 22. júní 2023. Þar með var ákveðið að sameina skógræktar- og landgræðslustarf á vegum ríkisins undir einni stofnun á ný eftir 109 ára aðskilnað. Í þessu felast mörg tækifæri til að gera betur í þessum málaflokkum.

Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóriSumir hafa áhyggjur af því að í sameiningunni felist líka ákveðnar hættur, t.d. að tilhneiging verði til aukins skrifræðis í stærri stofnun, að ákvarðanataka verði þunglamaleg eða að áherslumunur leiði til ósættis. Að nýta tækifærin og eyða neikvæðum þáttum er þó alfarið undir starfsfólki L&S komið. Sú stofnun mun taka til starfa 1. janúar 2024 með gott starfslið og því er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Það er skemmtilegt að hugsa til þess að nafn nýrrar stofnunar skuli vera í eintölu. Eitt land, einn skógur. Það minnir mig á samtal sem ég átti við finnskan kollega fyrir allmörgum árum. Ég sagði honum frá því að á Íslandi væru um 60 þjóðskógar og þeir hétu nöfnum eins og Hallormsstaðaskógur, Vaglaskógur, Þórsmörk o.s.frv. Í Finnlandi er bara einn þjóðskógur, sagði hann þá. Hann heitir Finnland. E.t.v. gefur nafn nýrrar stofnunar fyrirheit um aukna samfellu í skógarþekju á Íslandi.

Árið 2023 var um margt sérstakt í skógrækt á Íslandi. Veðurlag var sérstakt og má þar greina öfgarnar sem oft eru nefndar sem fylgifiskar hlýnandi loftslags. Í desember 2022 og janúar 2023 var mjög kalt og geisuðu norðanstormar með fannfergi á norðaustanverðu landinu en snjóleysi sunnan heiða. Fór það illa með nýgróðursettar plöntur á Suðurlandi. Eftir mildan febrúar komu svo frost í mars og apríl sem ollu vorkali á viðkvæmustu klónum alaskaaspar og því litla síberíulerki sem eftir er í landinu. Versta veðrið var þó óvenjumikið vestanrok og saltveður um hvítasunnuhelgina sem olli miklum skemmdum á nýlaufguðum trjám á Vesturlandi. Eftir það hreyfði þó varla vind á landinu langtímum saman. Maí og júní voru hlýir mánuðir á austanverðu landinu en júlí og ágúst á því vestanverðu. Svo haustaði áfallalaust. Meðaltöl hita, vinds og úrkomu verða sennilega nálægt meðallagi fyrir árið þegar upp er staðið en meðaltölin lýsa ekki sveiflunum og það eru þær sem skaða trén, eða efla þau eftir atvikum.

Þegar þetta er skrifað eru ekki allar tölur komnar í hús en öruggt er að sett hafi verið met í gróðursetningu. Líklegt er að hún hafi verið nálægt sjö milljónum plantna eða jafnvel meiri en það. Sú mikla gróðursetning var ekki án vandræða. Skortur var og er á fólki til gróðursetningar þrátt fyrir að gerðir hafi verið samningar við erlenda verktaka. Gróðursetningu þarf að undirbúa betur næst og ljóst er að meira eftirlit þarf að hafa með gróðursetningarfólki.

Meiri gróðursetning kallar á aukna öflun fjölgunarefnis og meiri plöntuframleiðslu. Gróðrarstöðvarnar sem fyrir voru stóðu sig vel og með vorinu bættist gróðrarstöðin Jurt ehf. (gamli Barri) í hópinn með asparrækt. Þar mun hraðfjölgun aspa hafa gengið vel og von er til þess að enn betur gangi á komandi ári. Hinn eilífi vandi að ekki fáist nóg af ösp gæti því heyrt sögunni til á næstunni.

Í byrjun árs voru fyrstu Skógarkolefniseiningar úr íslenskum skógi skráðar til sölu (og seldar). Var það Yggdrasill Carbon sem það gerði og urðu einingarnar til á Arnaldsstöðum í Fljótsdal í samstarfsverkefni með Skógræktinni. Nokkur verkefni í viðbót voru skráð með einingar í loftslagsskrána ICR á árinu og mörg eru á mismunandi stigum undirbúnings. Einkaaðilar eru nú að koma sterkt inn í skógrækt á Íslandi án ríkisstyrkja og er það geysigóð þróun. Þetta er í fyrsta sinn sem aðrir en ríkið fjárfesta í skógrækt á Íslandi svo um muni. Verulega aukin gróðursetning og veruleg aðkoma einkageirans að henni er skógrækt til framdráttar, árangur sem starfsfólk Skógræktarinnar má vera stolt af.

Nú eru liðin átta ár frá því að undirritaður tók við sem skógræktarstjóri. Á starfsmannafundi í janúar 2016 spáði ég því að áður en ég hætti sem skógræktarstjóri myndu ræktaðir skógar ná að þekja 0,5% landsins, skógar og kjarr alls 2% og að hæsta tréð næði 30 m hæð. Fyrstu töluna (0,5%) gat ég reiknað og var nokkuð viss um að hún næðist. Mun meiri vafi var um 2% skógarþekju og allsendis óvíst að nokkurt tré myndi ná 30 m hæð. Fól sú spá því í sér talsverða bjartsýni, en þetta átti þó allt eftir að verða raunin.

Á meðan við mannkynið fáumst við okkar daglega argaþras vaxa skógarnir og dafna. Á meðan við sofum hækka trén og stækka. Árangurinn af starfi okkar skógarfólks verður æ sýnilegri, fallegri og verðmætari. Höldum áfram!