Ávarp skógræktarstjóra
Gengið til skógar 2023
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri
Eftir talsverðan undirbúning voru lög um Land og skóg nr. 66 samþykkt á Alþingi 22. júní 2023. Þar með var ákveðið að sameina skógræktar- og landgræðslustarf á vegum ríkisins undir einni stofnun á ný eftir 109 ára aðskilnað. Í þessu felast mörg tækifæri til að gera betur í þessum málaflokkum.
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóriSumir hafa áhyggjur af því að í sameiningunni felist líka ákveðnar hættur, t.d. að tilhneiging verði til aukins skrifræðis í stærri stofnun, að ákvarðanataka verði þunglamaleg eða að áherslumunur leiði til ósættis. Að nýta tækifærin og eyða neikvæðum þáttum er þó alfarið undir starfsfólki L&S komið. Sú stofnun mun taka til starfa 1. janúar 2024 með gott starfslið og því er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af framtíðinni.
Það er skemmtilegt að hugsa til þess að nafn nýrrar stofnunar skuli vera í eintölu. Eitt land, einn skógur. Það minnir mig á samtal sem ég átti við finnskan kollega fyrir allmörgum árum. Ég sagði honum frá því að á Íslandi væru um 60 þjóðskógar og þeir hétu nöfnum eins og Hallormsstaðaskógur, Vaglaskógur, Þórsmörk o.s.frv. Í Finnlandi er bara einn þjóðskógur, sagði hann þá. Hann heitir Finnland. E.t.v. gefur nafn nýrrar stofnunar fyrirheit um aukna samfellu í skógarþekju á Íslandi.
Árið 2023 var um margt sérstakt í skógrækt á Íslandi. Veðurlag var sérstakt og má þar greina öfgarnar sem oft eru nefndar sem fylgifiskar hlýnandi loftslags. Í desember 2022 og janúar 2023 var mjög kalt og geisuðu norðanstormar með fannfergi á norðaustanverðu landinu en snjóleysi sunnan heiða. Fór það illa með nýgróðursettar plöntur á Suðurlandi. Eftir mildan febrúar komu svo frost í mars og apríl sem ollu vorkali á viðkvæmustu klónum alaskaaspar og því litla síberíulerki sem eftir er í landinu. Versta veðrið var þó óvenjumikið vestanrok og saltveður um hvítasunnuhelgina sem olli miklum skemmdum á nýlaufguðum trjám á Vesturlandi. Eftir það hreyfði þó varla vind á landinu langtímum saman. Maí og júní voru hlýir mánuðir á austanverðu landinu en júlí og ágúst á því vestanverðu. Svo haustaði áfallalaust. Meðaltöl hita, vinds og úrkomu verða sennilega nálægt meðallagi fyrir árið þegar upp er staðið en meðaltölin lýsa ekki sveiflunum og það eru þær sem skaða trén, eða efla þau eftir atvikum.
Þegar þetta er skrifað eru ekki allar tölur komnar í hús en öruggt er að sett hafi verið met í gróðursetningu. Líklegt er að hún hafi verið nálægt sjö milljónum plantna eða jafnvel meiri en það. Sú mikla gróðursetning var ekki án vandræða. Skortur var og er á fólki til gróðursetningar þrátt fyrir að gerðir hafi verið samningar við erlenda verktaka. Gróðursetningu þarf að undirbúa betur næst og ljóst er að meira eftirlit þarf að hafa með gróðursetningarfólki.
Meiri gróðursetning kallar á aukna öflun fjölgunarefnis og meiri plöntuframleiðslu. Gróðrarstöðvarnar sem fyrir voru stóðu sig vel og með vorinu bættist gróðrarstöðin Jurt ehf. (gamli Barri) í hópinn með asparrækt. Þar mun hraðfjölgun aspa hafa gengið vel og von er til þess að enn betur gangi á komandi ári. Hinn eilífi vandi að ekki fáist nóg af ösp gæti því heyrt sögunni til á næstunni.
Í byrjun árs voru fyrstu Skógarkolefniseiningar úr íslenskum skógi skráðar til sölu (og seldar). Var það Yggdrasill Carbon sem það gerði og urðu einingarnar til á Arnaldsstöðum í Fljótsdal í samstarfsverkefni með Skógræktinni. Nokkur verkefni í viðbót voru skráð með einingar í loftslagsskrána ICR á árinu og mörg eru á mismunandi stigum undirbúnings. Einkaaðilar eru nú að koma sterkt inn í skógrækt á Íslandi án ríkisstyrkja og er það geysigóð þróun. Þetta er í fyrsta sinn sem aðrir en ríkið fjárfesta í skógrækt á Íslandi svo um muni. Verulega aukin gróðursetning og veruleg aðkoma einkageirans að henni er skógrækt til framdráttar, árangur sem starfsfólk Skógræktarinnar má vera stolt af.
Nú eru liðin átta ár frá því að undirritaður tók við sem skógræktarstjóri. Á starfsmannafundi í janúar 2016 spáði ég því að áður en ég hætti sem skógræktarstjóri myndu ræktaðir skógar ná að þekja 0,5% landsins, skógar og kjarr alls 2% og að hæsta tréð næði 30 m hæð. Fyrstu töluna (0,5%) gat ég reiknað og var nokkuð viss um að hún næðist. Mun meiri vafi var um 2% skógarþekju og allsendis óvíst að nokkurt tré myndi ná 30 m hæð. Fól sú spá því í sér talsverða bjartsýni, en þetta átti þó allt eftir að verða raunin.
Á meðan við mannkynið fáumst við okkar daglega argaþras vaxa skógarnir og dafna. Á meðan við sofum hækka trén og stækka. Árangurinn af starfi okkar skógarfólks verður æ sýnilegri, fallegri og verðmætari. Höldum áfram!
RANNSÓKNIR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla Mógilsár,
rannsóknasviðs Skógræktarinnar,
fyrir árið 2023
Edda Sigurdís Oddsdóttir
Öflugt vísinda- og rannsóknastarf er undirstaða þekkingaröflunar og framfara í nútímaþjóðfélagi, auk þess sem það stuðlar að uppbyggilegri umræðu, sem byggð er á staðreynanlegum gögnum. Rannsóknir í skógrækt hafa verið stundaðar frá 1967 er Rannsóknastöð skógræktar hóf starfsemi á Mógilsá. Til 1990 var skipuð stjórn yfir stöðinni en fagráð frá 1990 til 2016. Hlutverk stjórnar og fagráðs var m.a. að tryggja sjálfstæði rannsókna hjá rannsóknastöðinni.
Rannsóknir rannsóknasviðs Skógræktarinnar helgast af faglegri þekkingarþörf skógræktar og vísindalegum gæðakröfum, eins og sjá má í stefnumörkun Skógræktarinnar, en þar er lögð áhersla á að:
- stunda öflugar og sjálfstæðar rannsóknir er lúta að skógrækt og skógvernd
- birta rannsóknaniðurstöður, í alþjóðlega ritrýndum fræðatímaritum og á innlendum vettvangi
- hefja rannsóknaverkefni þar sem nýrrar þekkingar er þörf og afla til þeirra styrkja
- veita sérfræðiþjónustu á sviðum sem snerta skógrækt og skógvernd
Eins og sjá má er lögð áhersla á sjálfstæðar rannsóknir og birtingu niðurstaðna. Enn frekar er hnykkt á þessu í siðareglum Skógræktarinnar en þar er tekið fram að:
- Starfsmenn er stunda rannsóknir hafa frelsi til að leita þekkingar hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta.
- Starfsmenn skulu vanda gagnaöflun og ástunda rannsóknar- og matsaðferðir sem samræmast faglegum viðmiðum.
- Við rannsóknir skal taka tillit til fyrri rannsókna og vísa til uppruna heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.
- Niðurstöður rannsókna skal birta, á opinberum vettvangi ef þess er kostur.
Tilgangur þessara reglna er að tryggja, eins og kostur er, sjálfstæði rannsóknasviðsins er kemur að rannsóknum og birtingu niðurstaðna, óháð því hvaða áhrif niðurstöðurnar hafa á aðra starfsemi Skógræktarinnar. Þetta er mikilvægt til að efla gæði skógræktar á landsvísu.
Aðalstarfstöð rannsóknasviðs er á Mógilsá en einnig eru starfsmenn sviðsins á Akureyri og Egilsstöðum. Hins vegar eru rannsóknir stundaðar um allt land, bæði með reglulegum úttektum og tilraunareitum. Stór hluti verkefna rannsóknasviðs flokkast sem hagnýt verkefni, þar sem leitast er við að finna lausnir á vandamálum í íslenskri skógrækt og þróa aðferðir við skógrækt og úrvinnslu afurða. Vöktunarverkefni eru annar flokkur verkefna en í þeim er fylgst með breytingum sem verða á skógi og umhverfi hans, ekki síst til lengri tíma. Einnig eru stundaðar grunnrannsóknir, sem miða að því að afla upplýsinga til að auka skilning á skógi og vistkerfum hans og svo er lítill hluti rannsókna sem flokkast sem þjónusturannsóknir en þær eru unnar að beiðni utanaðkomandi aðila.
Í upphafi ársins 2023 störfuðu þrettán starfsmenn við rannsóknasviðið, þar af tveir með starfstöð á Akureyri og einn með starfstöð á Egilsstöðum. Helena Marta Stefánsdóttir skógfræðingur jók starfshlutfall sitt á rannsóknasviði og er nú í 80% starfshlutfalli á rannsóknasviði á móti 20% hlutfalli á sviði skógarþjónustu. Kristín Sveiney Baldursdóttir hóf störf sem aðstoðarmaður sérfræðinga í júní 2023 og Helga Ösp Jónsdóttir hóf störf sem plöntusjúkdómafræðingur í desember. Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir og Ólafur Eggertsson voru í 50% starfi á rannsóknasviði á móti 50% stöðu við Landbúnaðarháskóla Íslands, Ólafur frá því í október en Jóhanna frá janúar. Jóhanna hættir svo störfum hjá Skógræktinni í lok árs 2023 og þökkum við henni kærlega gott samstarf um leið og við óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Hjördís Jónsdóttir, Elísabet Atladóttir, Jannick Elsner og Karl Trausti Björnsson störfuðu á rannsóknasviði sumarið 2023 sem aðstoðarmenn sérfræðinga og við umhirðu umhverfis. Þá unnu ellefu nemar að námsverkefnum hjá stofnuninni í lengri eða skemmri tíma.
Tafla 1. Starfsmenn Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar, árið 2023
STARFSMAÐUR | Sérfræðisvið og hlutverk |
Edda Sigurdís Oddsdóttir | Líffræðingur, sviðstjóri rannsóknasviðs |
Arnór Snorrason | Skógfræðingur, deildarstjóri loftslagsdeildar og staðgengill sviðstjóra rannsóknasviðs |
Bjarki Þór Kjartansson | Landfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Björn Traustason | Landfræðingur, verkefnastjóri landupplýsinga |
Brynja Hrafnkelsdóttir | Skordýrafræðingur, sérfræðingur á sviði skógarheilsu |
Brynjar Skúlason | Skógfræðingur, erfðafræðingur |
Elísabet Atladóttir | Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Helena Marta Stefánsdóttir | Skógfræiðngur, sérfræðingur á sviði vistfræði skóga |
Helga Ösp Jónsdóttir | Plöntusjúkdómafræðingur, sérfræðingur á sviði skógarheilsu |
Hjördís Jónsdóttir | Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Jannick Elsner | Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir | Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði nýræktunar skóga |
Karl Trausti Björnsson | Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Kristín Sveiney Baldursdóttir | Sumarstarfsmaður, aðstoðarmaður sérfræðinga |
Lárus Heiðarsson | Skógfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Ólafur Eggertsson | Jarðfræðingur, sérfræðingur á sviði árhringja og viðarfræða |
Ólafur Stefán Arnarsson | Eðlisfræðingur, sérfræðingur í loftslagsdeild |
Rakel Jakobína Jónsdóttir | Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði nýræktunar skóga |
Þorbergur Hjalti Jónsson | Skógfræðingur, sérfræðingur á sviði skógarhagfræði |
Tafla 2. Nemar undir leiðsögn sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar, 2023
NEMI | GRÁÐA | VERKEFNI | LEIÐBEINANDI |
Hilmar N. Þórðarson | MSc | Jarðvegsörverur á mismunandi framvindustigum sjálfsáningar birkis – Birkivist | Snæbjörn Pálsson (HÍ), Edda S. Oddsdóttir |
Jón G. Borgþórsson | BSc | Aðferðir til rúmmálsmælinga á stöfluðu timbri | Lárus Heiðarsson |
Kári F. Lefever | MSc | Degli á Íslandi. Möguleikar og áskoranir við ræktun deglis í skógrækt á Íslandi | Brynjar Skúlason, Bjarni D. Sigurðsson (LbhÍ), Lárus Heiðarsson |
Kristín S. Baldursdóttir | MSc | Ásókn asparglyttu í mismunandi tegundir og klóna innan víðiættar | Brynja Hrafnkelsdóttir, Edda S. Oddsdóttir |
Liam Adams-O'Malley | BSc | Aerial seeding pellet development | Hreinn Óskarsson, Brynjar Skúlason |
Mai Lynn Duong | MSc | The Potential for Using Spruce (Picea) in Icelandic Forestry Mariana | Lucia Tamayo (HÍ), Brynjar Skúlason |
Rebekah D'Arcy | MSc | How does forest fire impact above ground tree biomass in Iceland? | Mark Rayment (Univ.Bangor), Bjarki Þ. Kjartansson |
Erik Pessozki | Starfsnemi | Impacts of insect pests and diseases on trees in different parts of Iceland | Ólafur Eggertsson, Brynja Hrafnkelsdóttir |
Joep van Dongen | Starfsnemi | Comparing soil activity between burnt and unburnt area in an Icelandic mixed forest (Heiðmörk), two years after the fire | Helena Marta Stefánsdóttir, Brynja Hrafnkelsdóttir |
Lucie Fresel | Starfsnemi | Estimation of the impacts of continuous cover forest management on economy, resilience and biodiversity in Iceland | Lárus Heiðarsson |
Belma Mesetovic | BSc | Samsetning þinglýstra skógræktarsvæða á Íslandi | Björn Traustason |
Á árinu birtu sérfræðingar rannsóknasviðs sex greinar í alþjóðlegum tímaritum, tvær alþjóðlegar skýrslur auk fyrirlestra, greina og skýrslna á innlendum vettvangi. Þá luku fjórir nemendur, undir handleiðslu sérfræðinga sviðsins, námsverkefnum með lokaritgerðum
Ísland fer með formennsku í stjórn SNS – Nordic forest research, sem er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og hefur m.a. það hlutverk að styðja við skógræktarrannsóknir á Norðurlöndum með því að veita styrki. Í stjórninni sátu Valgerður Jónsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir sem er stjórnarformaður, auk þess sem Hjördís Jónsdóttir skógfræðinemi er fulltrúi ungu kynslóðarinnar. Starfsmenn rannsóknasviðs tóku einnig þátt í starfi NordGen forest og Euforgen, norrænu verkefnunum NorForSoil, INFOBIOM og Alien forest pathogens and pests in changing environment, Erasmus+ verkefninu TreproX auk COST-verkefnanna CLEANFOREST, UB3Guard og 3DForEcoTech.
Fagráðstefna skógræktar var haldin á Ísafirði í mars og var vel sótt að vanda. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Skógrækt á tímum hamfarahlýnunar“. Sagt er betur frá ráðstefnunni í grein hér í Ársritinu en einnig er hægt að kynna sér efni ráðstefnunnar ítarlegar á vefsíðu hennar, þar sem eru m.a. upptökur af fyrirlestrum og ráðstefnurit.
Sem fyrr var mikil áhersla lögð á rannsóknir og úttektir sem tengjast og styðja við bókhald gróðurhúsalofttegunda í skógum landsins. Þeim verkefnum er sinnt innan loftslagsdeildar Mógilsár, rannsóknasviðs Skógræktarinnar. Verkefni sem falla undir deildina eru m.a. eitt stærsta verkefni rannsóknasviðsins, Íslensk skógarúttekt, þar sem skógur er mældur á föstum mælireitum. Hver mælireitur er heimsóttur á 5 ára fresti. Árið 2023 voru mældir 210 reitir en skiptingu reita eftir ríkjandi trjátegundum má sjá á mynd‑1. Haldið var áfram að greina kolefni og nitur í jarðvegs- og botngróðursýnum og fyrstu niðurstöður kynntar á Fagráðstefnu skógræktar á Ísafirði.
Upplýsingarnar sem fást úr þessum mælingum eru notaðar í kolefnisbókhald Íslands auk þess sem unnar eru spár um losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda í skógum, skógrækt og viðarafurðum á Íslandi. Þá var virk þátttaka starfsmanna Mógilsár í umbótaáætlun vegna bókhalds Íslands um losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis vegna landnotkunar.
Á árinu 2023 fékkst styrkur úr Orkusjóði Landsvirkjunar til að þróa aðferðafræði til þess að meta líffræðilega fjölbreytni í tengslum við Íslenska skógarúttekt. Í því skyni voru tekin jarðvegssýni úr föstum mæliflötum og send til DNA-greiningar, þar sem áhersla var lögð á að tegundagreina sveppi, bakteríur og heilkjörnunga. Haldið verður áfram að vinna úr niðurstöðum á komandi ári og þróa aðferðina frekar, með það að markmiði að auka rannsóknir á áhrifum mismunandi trjátegunda á líffræðilega fjölbreytni.
Frá stofnun rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá hefur verið lögð áhersla á rannsóknir á því hvaða efniviður (tegundir og kvæmi) sé heppilegastur til skógræktar á Íslandi. Þar þarf að taka tillit til ýmissa atriða, svo sem tilgangs skógræktarinnar, ástands svæðisins og ekki síst hugsanlegra breytinga í veðri á líftíma trjátegundanna. Ljóst er að aðlaga þarf erfðaefni skógræktar loftslagsbreytingum og tryggja eins og hægt er að þær trjátegundir sem gróðursettar eru í dag, geti bæði vaxið og dafnað við núverandi aðstæður, sem og þær sem verða eftir 50-100 ár. Mai Lynn Duong skilaði MS-verkefni um kvæmatilraun sitkagrenis, auk þess sem gróðursett var í nýja kvæmatilraun lerkis og asparklónatilraun mæld.
Áríðandi er að hámarka lifun og vöxt plantna fyrstu árin eftir gróðursetningu, enda miklir fjármunir í húfi og mikilvægt að vel takist til. Áburðargjöf á nýgróðursettar plöntur er ein aðferð sem gjarnan er notuð. Reynslan hefur hins vegar sýnt að máli skiptir hvernig áburður er notaður. Haustið 2023 var mæld tilraun þar sem notkun ArGrow-áburðar var borin saman við hefðbundinn áburð. Enn fremur er samstarf við Sorpu þar sem áhrif moltu eru rannsökuð og þá fékkst styrkur úr Orkusjóði Landsvirkjunar til að prófa niturbindandi hvítsmára sem fóstru fyrir birki. Jafnframt var sett upp verkefni þar sem áhrif þess að blanda lífkolum við jarðveg verða rannsökuð.
Sem fyrr fara frostþolsprófanir og gæðamat á skógarplöntum fyrir framleiðendur fram á vegum rannsóknasviðs. Framkvæmd voru frostþolspróf á ellefu plöntuhollum og rótarvaxtarþróttur kannaður á 16 hollum frá tveimur gróðrarstöðvum. Með því að frysta skógarplöntur er frekar hægt að tryggja gæði þeirra en þekkt er úr erlendum rannsóknum að frystingin getur haft neikvæð áhrif á frostþol að hausti. Í verkefni um áhrif yfirvetrunaraðferða í gróðrarstöð og mismunandi gróðursetningartíma er frostþol að hausti kannað í skógarplöntum sem hafa verið frystar og þær bornar saman við plöntur sem hafa verið yfirvetraðar á hefðbundinn hátt úti við. Einnig hefur verið fylgst með vexti og lifun í tvö vaxtartímabil og eru allar helstu tegundir sem notaðar eru í skógrækt kannaðar í verkefninu.
Lokið var við uppfærslu jafna (lífmassa- og rúmmálsföll), fyrir sitkagreni og niðurstöður birtar í grein. Jöfnur þessar þarf að uppfæra og aðlaga íslenskum aðstæðum eftir því sem trjátegundir ná hærri aldri og verða stærri. Nú er unnið að samsvarandi jöfnum fyrir stafafuru og fyrsta greinin birtist á árinu. Þá vann Jón Grétar Borgþórsson BS-verkefni í skógfræði um aðferðir til rúmmálsmælinga á viðarstæðum.
Eftir því sem skógar landsins stækka og eldast, eykst áhersla á rannsóknir á afurðum þeirra. Árið 2023 var birt grein í Skógræktarritinu um rannsókn þar sem gæði íslensks viðar voru könnuð, en niðurstöður gefa til kynna að íslenskt timbur sé vel nothæft í alla vöruflokka sem framleiða má úr timbri. Þá lauk verkefninu TreProX en í því var leitast við að auka gæði viðarafurða, ekki síst með því að auka þekkingu þeirra sem vinna að viðarúrvinnslu. Nánar má lesa um verkefnið á vef þess, en þar má m.a. hlaða niður bókinni Gæðafjalir – viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám sem leiðbeinir um flokkun timburs þannig að uppfylla megi kröfur neytandans.
Enn sem fyrr var fylgst með sjúkdómum og skordýrum í skógum landsins og almennt yfirlit um heilsufar skóga er í Skaðvaldaannál Ársritsins. Kristín Sveiney Baldursdóttir varði MS-ritgerð um ásókn asparglyttu í mismunandi asparklóna, auk þess sem farið var í tilraunaverkefni með notkun dróna til að meta skemmdir á gulvíði af völdum asparglyttu. Síðarnefnda verkefnið hlaut styrk úr Orkusjóði Landsvirkjunar og Nýsköpunarsjóði námsmanna. Þá var birt grein um áhrif sumarhita á útbreiðslu ertuyglu, áhrif skógarelda á yfirborðsskordýr og niðurbrot rannsökuð, auk þess sem áfram var fylgst með útbreiðslu og skemmdum af völdum ýmissa skordýra.
Íslensk veðrátta er ólíkindatól og getur haft mikil áhrif á vöxt og viðgang trjáa. Um hvítasunnu gerði mikið saltrok á sunnan- og vestanverðu landinu og síðla vors frysti á Norðurlandi. Hvort tveggja hafði áhrif á laufgun trjáa og voru skemmdir af völdum veðurs metin sumarið 2023. Unnið verður úr þeim gögnum á komandi ári.
Endurkortlagningu ræktaðra skóga lauk á árinu 2023 og samkvæmt henni er flatarmál ræktaðra skóga á Íslandi 56.900 ha. Áfram var haldið við að uppfæra landupplýsingakerfi stofnunarinnar.
Hér hafa eingöngu verið nefnd nokkur dæmi um fjölbreytt verkefni rannsóknasviðs á árinu 2023. Í töflu 3 má sjá helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá.
Sem fyrr vinna starfsmenn rannsóknasviðs í miklu og góðu samstarfi við aðra starfsmenn Skógræktarinnar um allt land og þó nokkrir starfsmenn annarra sviða taka beinan þátt í rannsóknum, auk þess að veita ýmiss konar aðstoð, ekki síst í formi upplýsinga. Þá er samstarf við aðrar stofnanir ekki síður mikilvægt. Á síðasta ári voru starfsmenn rannsóknasviðs meðal annars í samstarfi við skógræktarfélögin, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Landgræðsluna.
Síðast en ekki síst eiga starfsmenn rannsóknasviðs gott og mikið samstarf við fjölmarga skógareigendur og -ræktendur út um allt land. Samstarfið getur verið af ýmsum toga; margir skógarbændur hafa látið land undir tilraunir og þá krefjast mælingar á kolefnisforða íslenskra skóga þess oft að farið sé inn á einkalönd. Undantekningalaust hefur starfsmönnum rannsóknasviðs verið vel tekið á ferðum sínum og er það þakkarvert. Ótaldar eru allar upplýsingar sem fást fyrir tilstilli skógræktenda út um allt land, ekki síst þegar óskað er eftir upplýsingum um pestir og skaðvalda á trjám.
Tafla 3. Helstu vörður rannsóknaverkefna á Mógilsá árið 2023.
VÖKTUNARVERKEFNI | Helstu vörður 2023 |
Íslensk skógarúttekt | |
|
Unnið að gagnasöfnun og samræmingu, gerð fitjuskrár um landfræðileg skógargögn og endurkortlagningu skóglendis. |
|
|
Líffræðileg fjölbreytni |
Jarðvegssýni tekin úr 31 mælifleti Landsskógarúttektar og send til DNA-greiningar til að meta fjölbreytileika sveppa, baktería og heilkjörnunga. |
Jarðvegskolefni |
Sýni til kolefnismælinga tekin úr 31 mælifleti Landsskógarúttektar, auk rúmþyngdarsýna. |
Trjásjúkdómar og meindýr |
Ástand skóga ásamt útbreiðslu meindýra og sjúkdóma metin í ferðum sérfræðinga, auk upplýsinga frá skógræktarfólki. Helstu niðurstöður birtar í Skaðvaldaannál. |
HAGNÝTAR RANNSÓKNIR | Helstu vörður 2023 |
Ásókn asparglyttu í mismunandi asparklóna | MSc-ritgerð varin. |
Notkun dróna til mats á skemmdum af völdum asparglyttu | Teknar myndir og unnið úr þeim. Skýrslum skilað til Orkusjóðs Landsvirkjunar og Nýsköpunarsjóðs námsmanna. |
Treprox | Verkefni lokið. Helstu niðurstöður má finna á vef verkefnisins. |
Viðarafurðir til framtíðar – varanleg kolefnisbindning íslenskra skóga | Grein skrifuð í Skógræktarritið |
Kvæmatilraun með íslenskt birki | Unnið úr gögnum og niðurstöður birtar í Riti Mógilsár |
Notkun arginínáburðar til hagræðingar í skógrækt | Tilraunir mældar haustið 2023. |
Kvæmatilraunir | Gróðursett í kvæmatilraun með fjórum kvæmum evrópulerkis í bland við Hrym og rússalerki. MS-ritgerð skilað um kvæmatilraunir sitkagrenis, unnið að greinarskrifum. Mældar klónatilraunir alaskaaspar á Íslandi. Unnið að úrvinnslu gagna. |
Vaxtarjöfnur | Birt grein um vaxtarjöfnur stafafuru. |
Lífmassaföll | Birt grein um lífmassaföll grenis. |
Stæðumælingar | Niðurstöður birtar í BS-ritgerð. |
Fjölgun barrtrjáa með stiklingum | Verkefni lokið, niðurstöður birtar í Riti Mógilsár. |
Frostþol og gæði skógarplantna | Birt grein um rótarfrostþol í framleiðslu rússalerkis og áhrif rótarkals á vöxt eftir gróðursetningu. Birt grein um stýringu og eftirlit með gæðum skógarplantna í Evrópu |
Skógarhagfræði | Unnið að skýrslu um jólatrjáamarkaðinn á Íslandi 1921-2022. |
Áhrif yfirvetrunaraðferða í gróðrarstöð og gróðursetningartíma á vöxt og frostþol skógarplantna. | Áhrif yfirvetrunaraðferða í gróðrarstöð og gróðursetningartíma á vöxt og frostþol skógarplantna. |
Iðnviður | Unnið að skýrslu um skógrækt til viðarnotkunar og kolefnisjöfnunar í kísiliðnaði Erindi um hraðfjölgun alaskaaspar, og aðstoð við verkferla því tengda. |
Vatnshreinsiræktun |
Rannsókn á notkun trjáa til sigvatnshreinsunar. Úttekt á áhrifum sigvatns á laufgun alaskaaspar. Úrvinnsla gagna og skýrsluskrif. |
GRUNNRANNSÓKNIR | Helstu vörður 2023 |
Endurkortlagning ræktaðra skóga | Lokið við endurkortlagningu ræktaðra skóga. |
Áhrif mismunandi uppgræðsluaðgerða á tegundafjölbreytni bjallna og köngulóa | Unnið úr gögnum, skýrslu- og greinaskrif. |
Skordýrabeit í landgræðsluskógum og lúpínubreiðum | Verkefni lokið, birt grein um áhrif sumarhita á útbreiðslu ertuyglu. |
Árhringjavöxtur og umhverfisbreytingar | Tekin sýni úr smárunnum í samvinnu við Háskólann í Cambridge. Birt grein um áhrif hækkandi hitastigs á vöxt trjáa og runna. |
Rannsóknir á rekaviði | Vettvangsferð á Standir. Sýnum af reka safnað að Dröngum, um 300 sýnum. Viðartegundir greindar og uppruni rekans kannaður með árhringjafræðum |
Úttekt á skógareldasvæðum |
MS-ritgerð um áhrif skógarelda á trjávöxt ári eftir bruna. Sýnataka og úrvinnsla gagna úr forathugunum á niðurbrotshraða, þéttleika jarðvegs- og yfirborðsdýra innan og utan brunasvæða |
ReWet – Breytingar í kjölfar endurheimtar mýrlendis | Unnið að söfnun sýna og DNA-greiningu á sveppum og bakteríum í jarðvegi. Úrvinnsla hafin. MS-nemi áætlar vörn vorið 2024. Fyrirlestrar um eiginleika og vistfræði íslenskra birkivistgerða. Kolefni greint úr birkijarðvegi. Forathugun á fýsileika þess að nýta fjarkönnun til að meta útbreiðslu birkikjarrs. |
Birkivist | Gróðursett vorið 2023 á fjórum mismunandi stöðum og árangur metinn haustið 2023. Áfangaskýrslu skilað til Landsvirkjunar. |
Hvítsmári sem fóstra fyrir nýgróðursettar birkiplöntur | Tilraun á Austurlandi mæld, úrvinnsla gagna hafin. |
Langtímatilraun með blöndun tegunda og mismunandi upphafsþéttleika trjáa. |
Sett upp forathugun á áhrifum þess að blanda lífkolum saman við jarðveg fyrir ræktun. |
Lífkol |
Sett upp forathugun á áhrifum þess að blanda lífkolum saman við jarðveg fyrir ræktun. |
ÞJÓNUSTURANNSÓKNIR | Helstu vörður 2023 |
Viðargreining |
|
Frostþol og gæðamat skógarplantna. |
Rótarvaxtarþróttur og frostþol skógarplantna prófað fyrir gróðrarstöðvar. |
ERLENT SAMSTARF OG STJÓRNSÝSLUVERKEFNI | Helstu vörður 2023 |
SNS-stjórn | Þátttaka og stjórn, stjórnarfundir, yfirlestur umsókna. |
Euforgen | Þátttaka í fundi í Þýskalandi. |
NordGen | Þátttaka í fundum. Þemadagur (ráðstefna) haldinn á Mógilsá. |
Cost CA20118 - Three-dimensional forest ecosystem monitoring and better understanding by terrestrial-based technologies (3DForEcoTech) | Þátttaka í fundum |
CA21138 – Joint effects of CLimate Extremes and Atmospheric depositioN on European FORESTs (CLEANFOREST) | Þátttaka í fundum |
CA20132 – Urban Tree Guard - Safeguarding European urban trees and forests through improved biosecurity (UB3Guard) | Þátttaka í fundum |
Alien forest pathogens and pests in changing environments: focus on North Europe - SNS netverk | Þátttaka í fundum |
Tolerant Tree – NordGen-netverk á sviði kynbóta með tilliti til skaðvalda. | Þátttaka í fundum og undirbúningur vinnustofu sem haldin verður á Íslandi vorið 2024. |
NorForSoil – Norrænt samstarf um samræmingu á vöktun kolefnis í skógarjarðvegi | Þátttaka í fundum. |
Skaðvaldaannáll
Heilsufar trjágróðurs á árinu 2023
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir
Hér að neðan verður fjallað í stuttu máli um helstu skaða á trjám á árinu 2023. Farnar voru ferðir um alla landshluta haustið 2023 til að meta ástand skóga á árinu, auk þess sem ástandið var metið í öðrum ferðum. Þá var farið í sérstakar ferðir um Norður- og Suðurland til að meta salt- og frostskemmdir í kjölfar hvítasunnuhretsins.
Eins og fyrri ár var sendur út gátlisti til starfsmanna Skógræktarinnar og skógareigenda í byrjun sumars, þar sem þeir voru beðnir að leggja mat á sjúkdóma og skordýraplágur í nágrenni sínu. Enn fremur var fylgst með í hópum á Facebook og haft samband við aðila ef ástæða þótti til. Töluvert af upplýsingum barst sem liggja, auk eigin athugana höfunda, til grundvallar þessu yfirliti.
Birki
Birkikembuskemmdir (Eriocrania unimaculella) voru í meðallagi á útbreiðslusvæði birkikembu í ár. Kemban heldur áfram að dreifa sér. Í ár fannst hún í fyrsta skipti á Höfn í Hornafirði og á nokkrum nýjum stöðum á Vestur- og Norðurlandi (sjá kort). Birkiþéla (Scolioneura betuleti) dreifist einnig um landið og voru skrásettir nýir fundarstaðir í öllum landshlutum á árinu (sjá kort). Nokkuð var um skemmdir af völdum þélunnar á birki, sérstaklega í Eyjafirði. Hún olli þó minni skemmdum á Suðvesturlandi en oft áður, hugsanlega vegna þess að nýr náttúrulegur óvinur hennar sem fannst í ár (ógreind sníkjuvespa af ættinni Eulophidae) hefur nú dreift sér á því svæði.
Árið 2022 fannst þriðja tegundin sem lifir innan í laufum birkis, vesputegundin Fenusella nana. Hún fannst einnig aftur á nokkrum stöðum árið 2023 en enn sem komið er virðist útbreiðslusvæði hennar vera bundið við afmarkað svæði á Suðvesturlandi.
Aðrar fiðrildalirfuskemmdir og skemmdir af völdum ryðs á birki voru undir meðallagi á árinu.
Lerki og fura
Ekki bárust miklar fréttir af skemmdu lerki og furu á árinu. Aðeins bar þó á skemmdum af völdum mófeta (Eupithecia satyrata) á ungu lerki í Eyjafirði, líkt og í fyrra. Einnig fannst ný tegund af lús á lerki á tveimur stöðum á Norðurlandi, við Mývatn og í Varmahlíð. Þessi lús hefur enn ekki verið greind til tegundar er en líklega er hún af ættkvíslinni Cinara.
Greni
Líkt og undanfarin ár var lítið um alvarlegar skemmdir á greni. Minna var af skemmdum af völdum sitkalúsar (Elatobium abietinum) en oft áður. Þó var einhver sjúkdómur að hrjá ungar greniplöntur en ekki er vitað hvað olli skemmdunum á þeim.
Stofnstærð asparglyttu (Phratora vitellinae) eykst hratt á svæðum þar sem hún hefur nýlega numið land og hún heldur áfram að valda töluverðum skemmdum á víði. Þar sem hún hefur verið lengur er víða að koma í ljós hversu alvarlegar afleiðingarnar eru af faröldrum síðustu ára en mikið er af dauðum gulvíði og viðju á verstu svæðunum. Á Suðurlandi var hún þó seinna á ferðinni á þessu ári en undanfarin ár sem mun hugsanlega hafa áhrif á stofn næsta árs.
Asparryð var undir meðallagi í ár í flestum landshlutum nema á Austurlandi, þar sem það var nokkuð mikið. Þar fundust einnig dauðar aspir í litlum asparreit. Við fyrstu sýn voru einkennin ekki ólík þeim sem sáust í asparreit á Norðurlandi árið 2021. Send voru viðarsýni af öspunum eystra auk sýna frá Norðurlandi til frekari greiningar við sænska landbúnaðarháskólann SLU en því miður var ekki hægt að greina hvað væri að hrjá þessar aspir.
Aðrar tegundir trjáa og runna
Í vor urðu miklar hitafarsbreytingar á Norður- og Suðurlandi þar sem hiti féll hratt á stuttum tíma. Einnig var mikil saltákoma á Suðurlandi í lok maí. Þetta olli töluverðum skemmdum á nokkrum trjátegundum, sérstaklega á ösp, lerki og ungu birki á þeim svæðum sem urðu verst úti.
Mikill faraldur haustfetalirfa (Operophtera brumata) kom upp á runnum á höfuðborgarsvæðinu í ár líkt og gjarnan gerist þegar laufgun verður seinna en í venjulegu árferði.
Eins og undanfarin ár varð aðeins vart við staðbundna ertuyglufaraldra (Ceramica pisi) á sunnanverðu landinu. Faraldur skógbursta (Orgyia antiqua) geisaði á sunnanverðu landinu í ár og virðist útbreiðslusvæði hans á Íslandi fara stækkandi.
Mikið hornryð (Gymnosporangium cornutum) kom upp á sunnanverðum Vestfjörðum og var nánast allur ilmreynir á stóru svæði rauður af völdum þess.
Í sumar fannst ný tegund glitmalar á Íslandi, Argyresthia conjugella, sem lifir á lirfustigi á blómum ilmreynis. Fannst hann fyrst á Egilsstöðum og við nánari athugun hefur hann dreift sér töluvert um svæðið.
Lokaorð
Hér að ofan hefur verið farið yfir helstu skaðvalda í skógum landsins á árinu 2023. Í heildina var ekki mikið um meindýr og sjúkdóma, þótt eitthvað væri um staðbundna skaða. Veðurfarslegt tjón var töluvert vegna vorskaða en sum trén jöfnuðu sig þegar líða fór á sumarið.
Þakkir
Höfundar vilja þakka áhugasömu skógræktarfólki um allt land fyrir upplýsingar og ábendingar um heilsufar skóga.
Áfram eru ábendingar um heilsu skóga vel þegnar og þeim má koma á framfæri með því að hafa samband við Brynju Hrafnkelsdóttur í síma 867 9574. Eins má senda upplýsingar og myndir á netfangið brynja.hrafnkelsdottir@landogskogur.is. Sýni, bæði af sýktum trjám og skordýrum, má senda á Rannsóknasvið Skógræktarinnar, Mógilsá, 162 Reykjavík, stílað á Brynju Hrafnkelsdóttur.
Trjátegundir og kolefnisbinding
Hvernig skiptist flatarmál, kolefnisbinding og kolefnisforði á milli trjátegunda í ræktuðum skógum á Íslandi?
Arnór Snorrason
Verið er að vinna spá um bindingu ræktaðra skóga og náttúrulegra birkiskóga á Íslandi. Hluti af þeirri vinnu felst í að greina ríkjandi trjátegundir í ræktuðum skógum, flatarmál og aldur þeirra, kolefnisbindingu og kolefnisforða. Þannig er hægt að framreikna bindingu í trjágróðri í ræktuðum skógum. Gögnin sem byggt er á eru úr landsskógarúttekt ræktaðra skóga frá árunum 2018 til 2022 en á þeim árum voru mældir 1.002 mælifletir í úrtaksmælineti Íslenskrar skógarúttektar.
Miðað er við lok árs 2020 sem er miðjuár mælingaráranna. Nettóflatarmál ræktaðra skóga var þá samkvæmt þessu mati 40.500 ha (± 2.000 (95% vikmörk)). Þegar átt er við nettóflatarmál er búið að draga frá öll svæði sem ekki eru vaxin trjágróðri, s.s. vegslóða, klapparholt, votlendisbletti og fleiri slík úrtök sem eru það lítil að flatamáli (undir 0,5 ha) að þau teljast innan brúttóflatarmáls skógræktar. Slík úrtök eru um 12% af brúttóflatarmáli ræktuðu skóganna.
Heildarflatarmálið skiptist þá niður á milli helstu trjátegunda eins og efri myndin hér fyrir neðan sýnir:
Þarna er flatarmál ilmbjarkar sem ríkjandi tegundar mest en þar á eftir kemur flatarmál rússa-/síberíulerkis. Með ríkjandi tegund er átt við þá tegund sem hefur mesta krónuþekju á hverjum mælifleti.
Samanlögð kolefnisbinding var metin 304 kílótonn CO2 (± 30 kt (95% vikmörk)) og skiptist hlutfallslega á milli ríkjandi trjátegunda eins og myndin hér fyrir neðan sýnir:
Binding í rússa-/síberíulerkiskógum er langmest og eru hinar fjórar megintegundirnar hver um sig með einungis í kringum fjórðungsbindingu lerkisins.
Ef skoðuð er árleg CO2-binding og kolefnisforða í trjám á hektara kemur í ljós nokkuð óvænt að rússa-/síberíulerki hafði vinningin varðandi árlega bindingu en rauðgreni hefur mestan forða sem skýrist að hluta af því að meðalaldur rauðgrenisskóganna er mun meiri en hinna tegundanna. Meðalaldur er sýndur fyrir ofan súlu hverrar trjátegundar:
Meðalaldur hinna trjátegundanna er nokkuð jafn eða frá 19 til 23 ár sem er vel innan skekkjumarka. Flatarmálsveginn meðalaldur ræktaðra skóga var miðað við 2020 um 22 ár.
Innflutningur timburs með berki – ógn?
Er innflutningur á trjávið með berki
ógnun við íslenska skóga?
Brynja Hrafnkelsdóttir og Edda Sigurdís Oddsdóttir
Matvælaráðuneytið felldi 16. janúar 2023 úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar (MAST) um að fyrirtæki sem flutt hafði inn trjáboli með berki frá Póllandi skyldi eyða þeim eða endursenda úr landi. Enn sem komið er hefur engin barkarbjöllutegund numið land á Íslandi, eflaust að hluta til vegna þeirra ströngu reglna sem hér gilda um innflutning á trjáplöntum. Nágrannalönd okkar hafa ekki verið jafnheppin. Í Evrópu geisa nú alvarlegir barkarbjöllufaraldrar og er talið að vandamálin af völdum þeirra eigi eftir að aukast enn í framtíðinni með áframhaldandi loftslagsbreytingum.
Aðdragandi málsins er sá að í nóvember 2021 voru trjábolirnir fluttir til landsins sem kolefnisgjafi til framleiðslu á kísilmálmi. Við afgreiðslu málsins á sínum tíma leitaði MAST til ýmissa sérfræðinga sem vinna við þessi mál hérlendis, meðal annars hjá Skógræktinni, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Auk þess var leitað frekari upplýsinga hjá innflytjanda og plöntuverndaryfirvöldum í Póllandi (sem gefið höfðu út heilbrigðisvottorð fyrir farminn). Eftir að hafa kynnt sér málið og umsagnir sérfræðinga ákvað MAST 19. nóvember 2021 að hafna þessum innflutningi og var innflytjanda gert að farga sendingunni eða endursenda hana til Póllands. Innflytjandinn ákvað að kæra þann úrskurð, sem endaði að lokum með því, sem fyrr segir, að ráðuneytið felldi úr gildi kröfu MAST um að farga skyldi eða endursenda viðinn.
Helstu deiluefni þessa máls tengjast orðalagi í lögum og hvort heilbrigðisvottorðið sem fylgdi sendingunni hafi verið fullnægjandi fyrir íslenskar aðstæður. Í reglugerð um innflutning og útflutning á plöntum og plöntuafurðum (189/1990) kemur fram að eingöngu sé heimilt að flytja inn trjávið með berki, fylgi sendingunni heilbrigðisvottorð.
Þá er einnig tekið fram að ekki sé heimilt að flytja inn „villtar plöntur sem safnað er á víðavangi“. Rökstuðningur MAST var m.a. sá að samkvæmt reglugerðinni væri fortakslaust bann við innflutningi á trjáviði með berki þar sem trjábolirnir kæmu af villtum plöntum sem safnað hefði verið á víðavangi. Það var hins vegar mat matvælaráðuneytisins að slíkt ætti ekki við í þessu tilfelli, enda kæmi fram í vottorði erlendra yfirvalda að umrædd tré hefðu verið ræktuð á skógræktarsvæðum þar sem tré eru felld reglubundið.
Margt leynist í trjáberkinum
Í nágrannalöndum okkar gilda strangar reglur um trjávið með berki, vegna þeirrar hættu sem fólgin er í slíkum innflutningi.
Helsti ávinningur þess að afbarka við er að lágmarka hættuna á því að barkarbjöllur berist til landsins og sjúkdómar sem þeim fylgja.
Rannsóknir hafa einnig sýnt að með afbörkun minnka mjög líkurnar á því að með viðnum berist aðrir skaðvaldar sem lifað geta undir berkinum, svo sem ýmsar skortýtu- (t.d. blaðlýs og barrlýs), fiðrilda-, bukku- og vesputegundir sem valda gjarnan miklu tjóni í skógum. Barkarbjöllur eru meindýr af ranabjölluætt sem draga nafn sitt af því að þær verpa í innri lög barkarins. Lirfur þeirra nærast á berkinum og mynda í honum göng. Fyrir utan þetta tjón sem barkarbjöllurnar og lirfur þeirra valda á trjánum fylgja þeim oft sveppir sem einnig geta valdið miklum skaða á trjám og leitt þau til dauða. Barkarbjöllur og örverurnar sem fylgja þeim eru nú eitt alvarlegasta vandamálið sem við er að etja í skógrækt víða um lönd, ekki síst á svæðum þar sem trén eru veik fyrir af öðrum ástæðum, til að mynda vegna þurrka.
Enn sem komið er hefur engin barkarbjöllutegund numið land á Íslandi, eflaust að hluta til vegna þeirra ströngu reglna sem hér gilda um innflutning á trjáplöntum. Nágrannalönd okkar hafa ekki verið jafnheppin. Í Evrópu geisa nú alvarlegir barkarbjöllufaraldrar og er talið að vandamálin af völdum þeirra eigi eftir að aukast enn í framtíðinni með áframhaldandi loftslagsbreytingum.
Sem dæmi má nefna tegundina Ips typographus, sem hefur nú þegar dreift sér um stærstan hluta Evrópu og er m.a. mikil ógn við rauðgreniskóga.
Einnig geta nokkrar barkarbjöllutegundir farið illa með birki og fleiri trjátegundir sem algengar eru hérlendis.
Að lokum
Hér á landi eru tiltölulega fáir skaðvaldar og því eru plöntur hér sérlega viðkvæmar fyrir landnámi nýrra meindýra.
Skortur á náttúrulegum óvinum eykur svo enn getu meindýra til hraðrar útbreiðslu, eins og hefur sýnt sig í nýjum skaðvöldum á birki. Innflutningur á viði með berki eykur líkurnar á að fleiri nýir skaðvaldar nemi hér land, ekki síst barkarbjöllur og fylgisveppir þeirra, sem gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir skóga landsins.
Skiptir þá litlu máli hvort trén eru ræktuð sérstaklega til fellingar eða vaxa í náttúrulegum skógum.
Í ljósi úrskurðar ráðuneytisins er nauðsynlegt að skýra regluverk það sem á við um slíkan innflutning með það að markmiði að vernda íslenska skóga.
Elsta tréð á Íslandi
Elsta „tré“ á Íslandi allt að 280 ára
Pétur Halldórsson
Að minnsta kosti 250 árhringir hafa verið taldir í eini á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Einirinn sá er þar með elsta „tré“ sem vitað er um að vaxi á Íslandi. Mikla stækkun þarf til að telja megi árhringi í grönnum stofni íslenska einisins. Helsti sérfræðingur landsins í áhringjafræðum starfar hjá Skógræktinni og er nýkominn af ráðstefnu evrópskra árhringjafræðinga í Portúgal.
Ólafur Eggertsson, sérfræðingur á Mógilsá, rannsóknasviði Skógræktarinnar, hefur sérhæft sig í viðarfræði og árhringjarannsóknum og rætt var við hann í Samfélaginu á Rás 1 miðvikudaginn 17. maí. Þar sagði hann frá fagi sínu, árhringjafræði og hvernig t.d. hafa verið búin til svokölluð árhringjatímatöl í öðrum löndum þar sem árhringir hafa verið kortlagðir aldir og jafnvel árþúsund aftur í tímann. Slík árhringjatímatöl gefa mikilvægar upplýsingar um t.d. veðurfar, efnasamsetningu í andrúmsloftinu á hverjum tíma í sögunni og fleira. Þau má líka nota til að aldursgreina muni og hús sem gerð eru úr timbri. Til dæmis er hægt að sjá nákvæmlega hvenær fururnar í norsku stafkirkjununum voru felldar eða eikurnar sem notaðar voru í byggingar sunnar í Evrópu.
Örmjóir árhringir í íslenskum eini
Hérlendis hefur Ólafur meðal annars rannsakað þau birkitré sem ætla má að séu hvað elst hér á landi. Þau eru hartnær 200 ára gömul og standa í Gatnaskógi í Fljótsdal. En af mælingum Ólafs á eininum á Hólasandi er ljóst að einir nær talsvert hærri aldri en birki hérlendis. Einir er mjög útbreidd tegund og breytileg og vex vítt og breitt um norðurhver jarðar.
Samkvæmt vefnum The Gymnosperm Database eru sagnir um að einir hafi fundist sem hafi verið allt að sex hundruð ára gamall. Því kemur aldur einisins sem Ólafur hefur mælt á Hólasandi ekki með öllu á óvart. Á uppgræðslusvæðinu á Hólasandi má víða finna myndarlegan eini á íslenskan mælikvarða þótt ekki sé hann hávaxinn. Svæðið þar sem einir þessi vex er sunnarlega á Hólasandi og reyndar nær algjör eyðimörk að öðru leyti og þar hefur sandurinn ekki verið græddur upp. Aðstæðurnar hafa orðið til þess að einirinn myndar þarna eins konar þúfur.
Aldur einisins gamla fékkst með því að telja árhringi í dauðum kvisti sem fannst við eina af einiþúfunum syðst á Hólasandi. Árhringirnir eru örmjóir og því þarf að stækka þversniðið mjög mikið upp svo að hægt sé að telja þá, til dæmis með því að skoða þá undir víðsjá. Ólafur segir að með vissu hafi verið taldir 250 áhringir en óhætt sé að ætla að bæta megi áratugum við þá tölu. Því megi áætla að aldur einisins sé um 280 ár. Rannsóknirnar eru unnar í samvinnu við Landgræðsluna.
Eini innlendi barrviðurinn
Einir, Juniperus communis, er eina barrviðartegundin sem óx á Íslandi fyrir landnám. Hann er fremur algengur um nær allt land, síst þó í Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu vestanverðri (Hörður Kristinsson - floraislands.is).
Hérlendis vex einir helst í mólendi, hraunum, kjarri og brekkubrúnum sem fremur lágvaxinn, kræklóttur runni með nállaga blöð. Þótt hann sé stundum uppréttur og geti mest náð um tveggja metra hæð er hann yfirleitt jarðlægur, um 30-120 sentímetrar á hæð. Og jafnvel þótt hér hafi verið settar gæsalappir utan um orðið „tré“ er einir sannarlega ein fimm innlendra trjátegunda á Íslandi. Trjátegund er skilgreind sem fjölær planta með trénaðan stofn sem nær a.m.k. 5 m hæð einhvers staðar á útbreiðslusvæði sínu. Einir nær víða um lönd þeirri hæð og er því trjátegund. Að hann nái ekki 5 m hæð á í litlum hluta útbreiðslusvæðis síns (á Íslandi) breytir engu um það. Með hlýnandi veðri undanfarin ár virðist einir sums staðar vera að teygja sig meira upp í loftið en áður, til dæmis á Þórsmörk og í Fnjóskadal. Ef til vill nær hann að rétta hlut sinn í hópi trjátegunda á Íslandi þegar fram líða stundir.
Einir er sérbýlisplanta og því eru einstaklingar af tegundinni kvenkyns eða karlkyns. Einiberin eða berkönglar einis þroskast á tveimur árum og eru notaðir sem krydd í matargerð og sterka drykki svo sem gin.
Nýr plöntusjúkdómafræðingur
Plöntusjúkdómafræðingur á ný
starfandi hjá Skógræktinni
Pétur Halldórsson
Síðla árs var fyllt í það skarð sem myndaðist í hópi sérfræðinga fyrir nokkrum árum þegar Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur hætti störfum hjá stofnuninni. Helga Ösp Jónsdóttir var ráðin plöntusjúkdómafræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar úr hópi níu umsækjenda um starfið.
Helga Ösp lauk BS-gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006. Í lokaverkefni sínu þar rannsakaði hún mótstöðu asparblendinga gegn asparryði og dreifingu ryðs undir handleiðslu Halldórs Sverrissonar plöntusjúkdómafræðings. Hún stundaði nám í skógrækt og stjórnun náttúrusvæða við Høgskolen i Hedmark í Noregi og því næst meistaranám í landbúnaði með áherslu á plöntusjúkóma við Kaupmannahafnarháskóla. Þar vann hún meistaraverkefni í plöntusjúkdómafræði og fjallaði um áhrif asparryðs á kal í ösp. Meistararitgerð sína varði hún árið 2011 við mikið lof prófdómara. Ritgerðin ber heitið Effects of poplar leaf rust Melampsora larici-populina on frost resistance in poplars. Vinna við verkefnið var að mestu unnin hér á landi. Prófanir á frostskemmdum voru gerðar í Kalstofunni á Möðruvöllum í Hörgárdal. Leiðbeinendur við verkefnið voru Iben M. Thomsen við Kaupmannahafnarháskóla og Halldór Sverrisson sem þá starfaði bæði hjá Skógræktinni á Mógilsá og við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Með námi starfaði Helga Ösp sem aðstoðarmaður sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar en var síðan um þriggja ára skeið fagsviðstjóri hjá Matvælastofnun. Hún var umsjónarmaður Vinnuskólans hjá Akureyrarbæ frá 2015 til 2016 en tók þá við starfi sérfræðings á Umhverfisstofnun. Helga Ösp býr á Akureyri og hefur óskað eftir því að aðalstarfstöð hennar verði þar.
Ekki hefur verið starfandi plöntusjúkdómafræðingur hjá Skógræktinni um hríð frá því að Halldór Sverrisson lét af störfum fyrir aldurs sakir. Þörfin er þó brýn enda mikilvægt að fylgjast vel með heilsu plantna, stunda rannsóknir, safna gögnum og bregðast við nýjum ógnum sem upp koma. Með tilkomu nýrrar stofnunar um áramót, Lands og skógar, nýtast kraftar Helgu Aspar jafnframt við plöntusjúkdóma í landgræðsluplöntum.
Skógræktin býður Helgu Ösp Jónsdóttur velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi.
- BS-verkefni Helgu Aspar:
Mótstaða asparblendinga gegn asparryði og dreifing ryðs - Meistaraverkefni hennar:
Effects of poplar leaf rust Melampsora larici-populina on frost resistance in poplars
Fagráðstefna skógræktar 2023
Skógrækt á tímum hamfarahlýnunar
Fagráðstefna skógræktar í Edinborgarhúsinu Ísafirði
Pétur Halldórsson
Ísafjörður var vettvangur hinnar árlegu Fagráðstefnu skógræktar að þessu sinni. Ráðstefnan fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og hófst með ávarpi fulltrúa ráðuneytisins og skógræktarstjóra. Streymt var frá ráðstefnunni og má finna upptökur að flestum erindanna á Youtube-rás Skógræktarinnar.
Skógar og loftslagsbreytingar
Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var skógrækt á tímum hamfarahlýnunar. Áhersla var á þetta þema fyrri ráðstefnudaginn. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, talaði í upphafserindi ráðstefnunnar um hlutverk skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greindi frá nýrri spá um bindingu skóglenda fram til 2050 og setti fram áhugaverðar tölur um hversu mikið landsvæði þyrfti undir þá skóga sem horfur eru á að verði ræktað næstu áratugi. Að því búnu flutti Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, erindi þeirra Halldórs Björnssonar á Veðurstofunni um loftslag framtíðar, ræktunarskilyrði og náttúruvá. Því næst komu erindi tveggja sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Brynjar Skúlason talaði um aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum og Brynja Hrafnkelsdóttir um áhrif hlýnunar á skaðvalda í skógum.
Náttúruvá
Eftir hádegi fyrri daginn var ýmis náttúruvá áberandi í dagskránni enda Ísafjörður að mörgu leyti miðstöð á því sviði. Ráðstefnugestir fengu að heyra um Háskólasetrið á Vestfjörðum hjá Matthías Kokorsch, námsframboð þar og skógartengd verkefni. Aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga að náttúruvá á tímum loftslagsbreytinga var umfjöllunarefni Jóhönnu Gísladóttur, umhverfisstjóra Landbúnaðarháskólans, og svo fjallaði Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, um skógarskaða og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ólafur Eggertsson, jarðfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greindi frá því hvernig meta mætti snjóflóðasögu með aðferðum árhringjafræða og síðasta erindið fyrri daginn kom beint frá Sviss þegar Dr. Peter Bebi hjá CERC-rannsóknamiðstöðinni talaði um tré, landhalla og ofanflóð.
Spennandi seinni dagur
Fjölbreytt erindi voru svo flutt seinni dag ráðstefnunnar. Fjallað var meðal annars um notkun trjábola til að varna rofi í árbökkum og fleiri varnir gegn landbroti en líka sagt frá brunanum í Heiðmörk og afleiðingum hans. Erindi var flutt um drög að áhættumati í Skógarkolefnisverkefnum en líka um magn kolefnis í jarðvegi birkiskóga, áhrif greniskógræktar á kolefnisbúskap í graslendi og áhrif yfirvetrunaraðferða í gróðrarstöð á vöxt og frostþol skógarplantna. Þá var flutt mannfræðilegt erindi um íslensku skógræktarfélögin, notkun jarðvarma til viðarþurrkunar og íslensk víðiyrki.
Tæplega eitt hundrað manns sóttu Fagráðstefnu skógræktar 2023 á Ísafirði og komu þátttakendur hvaðanæva af landinu. Næst verður Fagráðstefna skógræktar haldin á Akureyri 20.-21. mars 2024.
Rit Mógilsár
Sunnlenskt birki best um allt land
Pétur Halldórsson
Fjögur tölublöð af Riti Mógilsár komu út á árinu 2023. Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur í skógarhagfræði, fjallaði í 48. tölublaði um markaðsvirði skógareignar. Meðal annars er þar rætt um nýja aðferð sem er byggð á tilgátu um tímagildismat mannsins. Rakel Jakobína Jónsdóttir, sérfræðingur í skógarplöntugæðum og -framleiðslu, fjallaði í 49. tölublaði um tilraunir sem lofa góðu með fjölgun á lerkiblendingnum 'Hrymi' með græðlingum. Í 50. tölublaði skrifuðu þau Brynjar Skúlason, Brynja Hrafnkelsdóttir og Aðalsteinn Sigurgeirsson um nýjar mælingar á kvæmatilraun með 50 birkikvæmum sem leiða í ljós að sunnlenskt birki hefur yfirburði í ríkulegri fræmyndun og besta þolið gagnvart birkiryði. Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar hafa almennt mestan lífmassa. Í 51. tölublaði Rits Mógilsár birtust svo útdrættir úr erindum og veggspjöldum frá Fagráðstefnu skógræktar 2023.
Methods of forest appraisal compared to market prices in Britain

Þorbergur Hjalti Jónsson
(48. tbl.)
Markaðsverð skógareignar getur þurft að meta vegna sölu eða kaupa á skógi, vegna eignamats í bókhaldi, skiptingar dánarbús, veðhæfni, trygginga, skattlagningar eða skaðabóta. Hér eru bornar saman sjö aðferðir til að meta markaðsverð á skógi í einkaeign á Stóra-Bretlandi, þar á meðal svokallað sjálfbærnivirði, ný aðferð sem sett er fram í greininni og er byggð á tilgátu um tímagildismat mannsins. Mælt er með þessari aðferð við mat á markaðsverðmæti skóga á Íslandi. Mat á skaðabótavirði er hins vegar byggt á tjóni eigandans en ekki endilega markaðsvirði. Sjálfbærniaðferðin hentar því sjaldan við mat á skaðabótum.
Ræktun græðlinga af Hrymi

Rakel J. Jónsdóttir
(49. tbl.)
Þar sem frærækt annar ekki eftirspurn eftir plöntum af lerkiblendingnum ‘Hrymi’ (Larix decidua x sukaczewii) var kannað í þessu verkefni hvort mögulegt væri að fjölga honum með græðlingum á mismunandi tímum árs. Miðað við það ræktunarumhverfi sem notað var náðist 60,7% til 67,1% ræting vetrargræðlinga. Trénað sumargræðlingaefni sem hafði aðeins hliðarbrum rætti sig síður en það sem var minna trénað og klippt af toppsprota eða hliðargrein með endabrumi . Helsta orsök affalla í græðlingaræktuninni var grámygla (Botrytis sp.) Verkefnið leiddi í ljós að græðlingar af Hrymi þurfa að lágmarki 11 til 12 vikna ræktun svo viðunandi ræting náist. Af þeim þremur bakkagerðum sem prófaðar voru í verkefninu reyndist ræktun í míkróbakka áhugaverðust með tilliti til auðveldrar priklunar í fjölpottabakka eftir rætingu, hagkvæmnisjónarmiða og stutts framleiðslutíma á söluhæfum plöntum. Forsenda þess að græðlingaræktun nái að bera sig fjárhagslega er góð þekking á ræktun og umhirðu móðurplantna við íslenskar aðstæður með tilliti til aldurs þeirra og fjölda framleiddra græðlinga. Áframhaldandi rannsóknir ættu því að beinast mestmegnis að þeim þætti.
Ræktunaröryggi, vöxtur, fræmyndun
og heilbrigði kvæma íslensks birkis

Brynjar Skúlason, Brynja Hrafnkelsdóttir og Aðalsteinn Sigurgeirsson
(50. tbl.)
Vorið 1998 var sett út kvæmatilraun með 50 kvæmum, gróðursett á níu mismunandi tilraunastaði og voru fimm þeirra mældir árin 2020 og 2021. Hæð og þvermál plantnanna var mælt auk þess að lifun, ryðmyndun og fræmagn var metið. Jákvæð fylgni var fyrir alla eiginleika í einkunnum kvæma milli tilraunastaða og oftar en ekki marktæk sem bendir til að eiginleikarnir stýrist af arfgerð fremur en umhverfi. Mjög góð fylgni fannst á milli sunnlensku tilraunastaðanna í lifun, þar sem kvæmið Steinadalur er afgerandi best og kvæmin frá Suðaustur- og Suðvesturlandi raðast nánast öll fyrir ofan kvæmin frá Norðaustur- og Norðvesturlandi. Röðun kvæma í lifun er breytilegri á tilraunastöðum á Norðurlandi og á Vestfjörðum. Bæjarstaðabirki og skyldir stofnar hafa almennt mestan lífmassa og kvæmin frá Suðaustur- og Norðausturlandi hafa fæsta aukastofna. Skýrustu niðurstöðurnar eru fyrir fræmyndun og ryðþol þar sem birkið frá Suðausturlandi hefur yfirburði í ríkulegri fræmyndun og besta þolið gagnvart birkiryði. Við notkun birkis fyrir láglendi Íslands má nýta þann kynbótaávinning sem yrkið Embla sýnir og auka erfðabreytileikann með því að bæta klónum inn í þýðið frá kvæmum sem koma vel út í tilrauninni s.s. Steinadal, Þingvöllum, Þórsmörk og Bæjarstað.
Fagráðstefna skógræktar 2023 – útdrættir erinda og veggspjalda

Pétur Halldórsson (ritstj.)
(51. tbl.)
Fagráðstefna skógræktar er tveggja daga ráðstefna sem haldin hefur verið árlega nær óslitið frá aldamótum. Ráðstefnan er haldin í samstarfi Skógræktarinnar, Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarfélags Íslands, Skógfræðingafélags Íslands og Bændasamtaka Íslands. Ráðstefnan var að þessu haldin á Ísafirði fór fram í hinu gamla og virðulega Edinborgarhúsi. Fyrri dagurinn var helgaður þemanu skógrækt á tímum hamfarahlýnunar. Síðari dagurinn var svo vettvangur fjölbreyttra erinda og veggspjaldakynninga á málefnum sem snerta skógrækt, skógrannsóknir, skógtækni og skyld efni. Streymi var frá ráðstefnunni á Youtube-rás Skógræktarinnar og þar er upptökur að finna að flestum fyrirlestranna.
Lífkol til jarðvegsbóta
Tilraunir með lífkol til jarðvegsbóta
Pétur Halldórsson
Á árinu hófst verkefni með þátttöku Skógræktarinnar þar sem kannaðir verða möguleikar á því að framleiða lífkol úr viði og nýta þau til jarðvegsbóta í akuryrkju. Slík nýting gæti leitt til minni notkunar á tilbúnum áburði en hefði einnig í för með sér kolefnisbindingu í jarðvegi. Jafnframt mætti með þessu draga úr mengun frá kísilmálmvinnslu með því að skipta út jarðkolum fyrir lífkol. Efniviðurinn í kolagerðina er er annars vegar trjáviður úr grisjun skóga og hins vegar afgangar sem falla til við timburvinnslu.
Austfirska fyrirtækið Tandrabretti hlaut styrk úr nýsköpunarsjóðnum Lóu til verkefnisins. Fyrirtækið hefur unnið að grisjun skóga með samningi við Skógræktina undanfarin misseri og við slík verkefni fellur til mikið magn af grönnum bolum sem erfitt er að nýta nema þá helst í framleiðslu á kurli eða sem orkugjafa. Jafnframt fellur til afgangsviður við framleiðslu á vörubrettum hjá fyrirtækinu. Til að nýta betur bæði grisjunarvið og afganga þótti vert að kanna fleiri möguleika.
2.000 ára þekking frá Amason
Að kola timbur og blanda kolunum saman við jarðveg er langt í frá nýlunda. Frumbyggjar á Amason-svæðinu í Suður-Ameríku hafa iðkað þetta frá fornu fari og af því varð sá jarðvegur sem kallaður er Terra Preta og mun vera einhver sá frjósamasti í heiminum. Lífkol í jarðvegi brotna mjög hægt niður, ólíkt ókoluðum lífrænum leifum á yfirborðinu. Frumbyggjarnir í Amason komust að því fyrir um tvö þúsund árum hversu mikið gagn lífkolin gætu gert í jarðveginum en á seinni tímum hafa nútímavísindi fært okkur betri vitneskju um hvernig á þessu stendur. Kolaagnirnar binda í sér næringarsölt, t.d. nitursambönd, og draga þar með úr útskolun þeirra úr jarðvegi. Efnin eru því aðgengilegri plöntum og þannig verður jarðvegurinn frjósamari og stöðugri.
Verkefni Tandrabrettis í samvinnu við Skógræktina er hugsað til 3-5 ára hið minnsta og felur í sér að kanna nýtingarmöguleika á lífkolum hérlendis. Lífkol eða viðarkol eru framleidd með því að hita viðinn í 300-500 gráður við aðstæður þar sem lítið sem ekkert súrefni kemst að efninu. Raunar má nota nánast hvaða lífræna efni sem er til lífkolagerðar, til dæmis hvers kyns lífrænan úrgang, en eiginleikar hinnar endanlegu koluðu afurðar fara mjög eftir því hvert hráefnið er. Verkefnið skiptist í þrjá meginhluta.
Fyrsti hluti verkefnisins snýst um að finna besta hitastigið við kolunina fyrir þær trjátegundir sem aðgengilegar eru, en hitastigið hefur áhrif á eiginleika kolanna.
- Annar hlutinn felst í að setja lífkolin í jarðveg. Áður er þeim blandað saman við mykju, moltu og jafnvel fleira lífrænt efni, sem rannsóknir í öðrum löndum hafa sýnt að eykur mjög virkni kolanna. Lagðir eru út tilraunareitir og jarðvegssýni tekin úr þeim. Lífkolablöndu er svo dreift í tilraunareitina þar sem hún er plægð niður í jarðveginn. Að auki er meðferð þar sem eingöngu lífkolum er komið fyrir í jarðveginum auk hefðbundins áburðar í mismunandi miklum skömmtum. Sáð er bæði grasfræi og byggi í tilraunareitina.
- Þriðji hlutinn er að uppskera, gera mælingar á þurrefnainnihaldi uppskerunnar og taka á hverju ári jarðvegssýni til efnagreiningar.
Loks verður skrifuð skýrsla um niðurstöður tilraunanna. Í kjölfarið þarf að þróa framleiðslu lífkolanna áfram og koma þeim í hagkvæmar einingar þannig að auðvelt sé að flytja kolin og einnig að dreifa þeim á ræktunarland. Hugmynd forsvarsmanna Tandrabrettis er að pressa lífkolin í köggla eða perlur í þar til gerðum pressum en til þess að þau loði saman er gert ráð fyrir að blanda þurfi einhverju saman við þau. Mikil trjákvoða eða harpix er í viði barrtrjáa og meðal annars verða gerðar tilraunir með að blanda trjákurli saman við kolin til límingar.
Kolefnisávinningur
Einn liður enn í þessari vinnu er að kanna hvort sú kolefnisbinding sem fæst með blöndun lífkolanna við jarðveginn getur nýst til að búa til seljanlegar kolefniseiningar. Þetta verður kannað í samvinnu við fyrirtækið Yggdrasil Carbon. Enn fremur verður kannað hvort álitlegt gæti verið að framleiða lífkol á Íslandi til notkunar í kísilmálmiðnaði. Íslensk lífkol gætu mögulega komið í staðinn fyrir innflutt jarðkol. Þetta myndi minnka losun koltvísýrings vegna kísilmálmvinnslu en einnig losun vegna flutnings kola um langan veg. Ef íslenskum grisjunarviði væri breytt í lífkol og kolunum brennt í verksmiðju myndi verksmiðjan losa kolefni sem bundist hefur í íslenskum skógi en ekki kolefni sem bast á milljónum ára í iðrum jarðar. Kolefnið í timbrinu myndi losna hvort sem er ef bolirnir væru látnir liggja í skóginum og rotna. Þannig væri komið í veg fyrir ósjálfbæra kolefnislosun vegna brennslu innfluttra kola. Losun verksmiðjunnar kæmi úr innlendri hringrás en ekki úr ósjálfbærri einstefnunýtingu jarðefnaeldsneytis.
Tilraunareitir á Héraði og Hvanneyri
Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, skipuleggur jarðvegstilraunirnar sem hófust á árinu í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands. Sett hafa verið viðarkol í tilraunareiti á tveimur stöðum á Fljótsdalshéraði, í Vallanesi og á Gíslastöðum. Settir voru út samanburðarreitir með mismiklu magni af kolum í jarðvegi og mismiklu magni af áburði. Á Gíslastöðum er sáð vallarfoxgrasi í rannsóknarreitinn en byggi í Vallanesi, þar sem stunduð er lífræn ræktun. Einnig stendur til að setja út tilraun á Hvanneyri í Borgarfirði.
Kolin eru gerð í brennsluofni á Víðivöllum í Fljótsdal þar sem unnt er að framleiða kol úr einum til tveimur rúmmetrum af ferskum smáviði á dag. Úr einum rúmmetra viðar verða til um 200 kíló af viðarkolum. Í tilraununum er sett mismikið af kolum saman við jarðveginn, mest tuttugu tonn á hektara. Kolunum var ýmist blandað við búfjáráburð eða þau sett beint á jörðina og tilbúinn áburður yfir.
Mikilvægt að meta langtímaáhrifin
Lárus segir rannsóknina snúa að því að setja lífkolin í jörð, finna hversu mikið þurfi að setja af þeim saman við jarðveginn og athuga hver áhrifin verði. „Það sem við vonumst eftir að sjá er að hægt verði að minnka áburðarnotkun í hefðbundinni ræktun, hvort sem um er að ræða tún- eða kornrækt,“ sagði Lárus í samtali við Bændablaðið í maímánuði. Ekki var búist við miklu eftir fyrsta sumarið í rannsókninni en upp frá því gætu jákvæð áhrif viðarkolanna farið að koma í ljós ár frá ári. Vegna þessa er vilji til að rannsóknin standi að minnst kosti þrjú ár, helst fimm eða jafnvel lengur, svo betur megi sjá áhrif lífkolanna á jarðveginn.
Og ekki eru upptaldir enn þeir möguleikar sem felast í lífkolunum. Auk þess sem miklar tilraunir fara nú fram erlendis með að setja lífkol í jörð og meta langtímaáhrif þeirra á jarðveg hafa til dæmis verið gerðar tilraunir til íblöndunar lífkola í steinsteypu. Í þessari vinnu Tandrabrettis og samstarfsaðila er áhugi á því að kanna hvort íslenskir framleiðendur steinsteypu hafi hug á að rannsaka slíka notkun íslenskra lífkola.
SKÓGARÞJÓNUSTA
Pistill sviðstjóra
Skýrsla skógarþjónustusviðs fyrir árið 2022
Hrefna Jóhannesdóttir
Texti
Skógarumhirða á Vestfjörðum
Vestfirskir skógarbændur
huga að umhirðu skóga
Valdimar Reynisson
Víða á Vestfjörðum eru að vaxa upp fallegir skógar og nú er svo komið að sumir þeirra þurfa umhirðu við. Dæmi um slíkan skóg er á Kvígindisfelli við Tálknafjörð. Þar hittust skógræktarráðgjafar af Vestfjörðum og Vesturlandi miðvikudaginn 20. september til að meta umhirðuþörf skógarins.
Það er ekki síður mikil gróska í vestfirskum skógum en annars staðar á landinu. Sáum við á leiðinni marga fallega skógarreiti. Skógarbóndinn á Kvígindisfelli, Lilja Magnúsdóttir, var stödd á fundi fyrir sunnan og gat því ekki verið með okkur við þessa úttekt.
Metinn var reitur sem gróðursettur var í júní árið 2002. Þá voru settar niður 4.500 plöntur af sitkabastarði og 1.000 af alaskaösp en jafnframt 110 steinbjarkir. Við úttektina nú voru mældir fjórir 100 m2 mælifletir. Mælt var þvermál á öllum trjám, metin gæði trjánna og þéttleiki mældur.
Reiturinn reyndist nokkuð þéttur en þó voru neðstu greinar ekki farnar að drepast. Trén litu í flestum tilfellum vel út og þarna er að vaxa upp efnilegur viðarnytjareitur. Þó sást munur á frjósemi jarðvegs vel við þessa könnun. Í reitnum voru blettir þar sem trén litu út fyrir að búa við nokkurn skort á næringarefnum. Þar var greinilega rýrari jarðvegur.
Nokkuð var um skemmd tré af völdum veðurs, toppar höfðu brotnað og margir nýir toppar myndast.
Samkvæmt niðurstöðum og umræðum milli ráðgjafa á staðnum er líklegasta niðurstaðan að þarna verði ráðlögð svokölluð tiltekt, þ.e.a.s. að farið verði um reitinn og skemmd tré og undirmálstré fjarlægð, auk þess að fjarlægja svokallaða varga. Það eru stór og mjög greinamikil tré sem taka mikið pláss í skóginum og skila litlum timburgæðum vegna greinanna.
Aðgerð sem þessi, að fara í tiltekt, skilar því að í reitnum verður aukið rými fyrir eftirstandandi tré og grisjun verður auðveldari í framhaldinu. Vonumst við til að fleiri vestfirskir skógarbændur fari að huga að umhirðumálum í sínum skógum.
Ráðgjafarnir sem tóku þátt í þessari úttekt eru Kristján Jónsson Vestfjörðum og Aaron Zachary Shearer, Hraundís Guðmundsdóttir og Valdimar Reynisson Vesturlandi.
Sérfræðingaspjall með plöntuframleiðendum
Plöntuframleiðendur á fundi með sérfræðingum
Pétur Halldórsson
Fulltrúar skógarplöntuframleiðenda hittust snemma í nóvembermánuði á fundi með sérfræðingum frá Skógræktinni og sviðstjóra skógarþjónustu. Mikil ánægja var með fundinn og áhugi er á því að slíkt samtal fari fram reglulega, til dæmis einu sinni á ári.
Fundurinn var haldinn í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri þar sem Akureyrarskrifstofa Skógræktarinnar er til húsa en einnig var haldið í skoðunarferð í gróðrarstöð Sólskóga í Kjarnaskógi.
Byrjað var á erindum og fyrstur sagði Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur frá kynbótastarfi Skógræktarinnar á þeim trjátegundum sem mest eru notaðar í skógrækt hérlendis. Stöðugt væri unnið að því að afla betri efniviðar til skógræktar og meðal annars horft til þeirra breytinga sem vænta má í takti við hlýnun loftslags. Rakel J. Jónsdóttir, sérfræðingur í plöntugæðum, ræddi um eftirlit með gæðum skógarplantna og aðferðir við gæðaprófanir, þá umhverfisþætti sem helst hvetja frostþolsmyndun í skógarplöntum og hvað verði að hafa í huga áður en þeim er pakkað inn á frysta. Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri endurnýjunarefnis, talaði því næst um viðmiðunarstaðla skógarplantna.
Að loknum erindunum tók Hrefna Jóhannesdóttir við, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, og efndi til umræðu um ýmis viðfangsefni. Þar gafst færi á gagnlegri umræðu þar sem skipst var á skoðunum og upplýsingum, hugmyndir ræddar og framleiðendur gátu borið upp mál sem á þeim brenna.
Mikil ánægja var með þennan fund, ekki síst meðal framleiðenda, sem gátu þarna borið saman bækur sínar. Stéttin er ekki stór og fulltrúar framleiðenda á fundinum töluðu um að þeim þætti þeir vera svolítið „einir í sínu horni“ í daglegu amstri. Á þeim var að heyra að fundir sem þessi væru fagnaðarefni og nú er rætt um að halda slíka fundi reglulega, til dæmis einu sinni á ári.
Auk erinda og umræðna í Gömlu-Gróðrarstöðinni var haldið í skoðunarferð í gróðrarstöð Sólskóga í Kjarnaskógi þar sem mikið hefur verið byggt upp undanfarin misseri. Gróðurhúsum hefur fjölgað og önnur endurnýjuð eða endurbætt. Einnig hefur verið reist stór skemma sem bætir aðstöðu mjög og þar er meðal annars nýr róbóti sem margfaldar afköst og gæði við priklun skógarplantna á fyrsta stigi ræktunar. Þá hafa útiplön verið stækkuð að mun og meðal annars komið upp búnaði til að skyggja plöntur á útisvæði.
Fulltrúar frá öllum skógarplöntuframleiðendum sem Skógræktin er með virka samninga við sendu fulltrúa á fundinn á Akureyri. Þetta eru Jurt að Valgerðarstöðum í Fellum, Kvistabær Biskupstungum, Sólskógar Akureyri og Ölur að Sólheimum Grímsnesi.
Loftslagsvænn landbúnaður
Búum fjölgar í Loftslagsvænum landbúnaði
og garðyrkjan bætist við
Pétur Halldórsson
Garðyrkjubændur komust haustið 2023 í hóp þeirra bænda sem vinna að ýmsum betrumbótum í búrekstri sínum undir verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Bændur á fjórtán nýjum búum tóku þá fyrstu skref sín í verkefninu og sögðust sjá í því mikil tækifæri. Meðal annars gæti bæði sparast vinna og peningar með umbótum í þágu loftslagsins.
Loftslagsvænn landbúnaður er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Verkefninu var hrundið af stað 2020 og í fyrstu atrennu var fimmtán sauðfjárbúum boðin þátttaka. Síðan hefur verkefnið stækkað mjög og búin eru nú orðin sextíu talsins. Fyrstu búin í nautgriparækt bættust við haustið 2021 og nú í haust voru í fyrsta sinn tekin inn garðyrkjubú. Þátttaka hvers bús tekur fjögur til fimm ár í senn.
Sjö búanna fjórtán sem bættust við nú á haustdögum eru á Suðurlandi og annað eins á Norðurlandi. Sunnlensku bændurnir tóku fyrstu skrefin í Gunnarsholti á Rangárvöllum með ráðgjöfum RML, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar en þeir norðlensku hittu ráðgjafana á Akureyri þar sem útsendari Skógræktarinnar fékk að vera fluga á vegg dálitla stund.
Betri nýting á landi og öllum gæðum
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir er meðal fyrstu grænmetisbændanna sem nú tileinka sér loftslagsvænan landbúnað. Hún býr í Breiðargerði í Skagafirði sem er í gamla Lýtingsstaðahreppnum. Grænmetisræktin þar er með lífræna vottun og segir Elínborg að kröfur lífrænnar ræktunar rími vel við þá hugsun sem boðuð sé með Loftslagsvænum landbúnaði. Hún telur grænmetisbændur eiga jafnmikið erindi inn í verkefnið og aðrir bændur. Þeir þurfi auðvitað ekki að fást við iðragerjun eins og sauðfjár- og kúabændur en Loftslagsvænn landbúnaður snúist mikið um ræktun nytjaplantna, landnýtingu, skjólbeltarækt og margt fleira. Hún nefnir líka hagræðingu í rekstrinum og betri nýtingu á landinu og öllum þeim gæðum sem bóndinn nýtir.
Betri uppskera í skjólinu
Varðandi skógræktar- og landgræðsluverkefni nefnir Elínborg að víða séu bændur með svæði á löndum sínum sem ekki séu í notkun og þar sé upplagt að huga að landgræðslu og skógrækt en líka skjólbeltarækt. Slík verkefni styðji vel við meginbúgreinarnar auk þess sem mikilvægt sé að nýta allt landið vel og skila því í betra ástandi til þeirra sem á eftir koma.
Breiðargerði er með skógræktarsamning sem ekki snertir grænmetisræktina beinlínis, segir Elínborg. Hins vegar muni aukin skjólbeltarækt örugglega skila sér í betri uppskeru. Hún hvetur aðra garðyrkjubændur til að feta sömu slóð enda hljóti að vera jákvætt, til dæmis gagnvart kaupendum afurðanna, að geta sýnt fram á að vel sé staðið að umhverfismálunum.
Nesti í traktorinn
Hjördísi Leifsdóttur á Brúnastöðum í Fljótum þótti verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður mjög athyglisvert. Meðal annars hafi ættingjar sem tekið hafi þátt í verkefninu mælt mjög með því. Þau Brúnastaðabændur hafi því talið sig heppin að vera dregin úr potti umsækjenda að þessu sinni. Tækifærin í verkefninu telur hún ekki síst liggja í því að bændurnir fái þarna aðstoð við að rýna í allan búreksturinn og leita að leiðum til að gera betur á öllum sviðum.
Á námskeiðinu var meðal annars bent á á að bændur hlypu gjarnan í vörn þegar minnst væri á umhverfismál og hefðu áhyggjur af því að umbótum í þeim efnum fylgdi bara meiri vinna og kostnaður. Hjördís segir að útkoman sé einmitt þveröfug. Með þeim betrumbótum sem gerðar séu sparist bæði vinna og peningar. Bændum sé eins og öðrum hollt að hugsa hlutina upp á nýtt og finna nýjar leiðir. Þar getur ótalmargt komið til sem kannski kemur sumum spánskt fyrir sjónir en getur skipt máli, svo sem að taka með sér nesti í traktorinn til að þurfa ekki alltaf að aka heim til að fá sér bita.
Sparnaður og betri nýting
Á Brúnastöðum er sauðfjárrækt, nautakjötsframleiðsla og geitfjárrækt, auk ferðaþjónustu og úrvinnslu afurða. Hjördís segir að verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður snerti alla þessa þætti. Búið sé stórt og þar þurfi til dæmis mikið að heyja. Verkefnið stuðli ekki einungis að olíusparnaði heldur einnig betri nýtingu á bæði tilbúnum áburði og búfjáráburði.
Skógrækt hefur verið stunduð á Brúnastöðum í yfir tuttugu ár og sá hluti búrekstrarins verður auðvitað grandskoðaður eins og aðrir að sögn Hjördísar. Hlutverk skógarins hjá þeim sé aðallega að veita skjól, bæði fólki og skepnum, en ekki til að gefa timburnytjar. Gróðursettar hafa verið um 77.000 plöntur sem vaxið hafa vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Aðeins rúmur helmingur umsækjenda um þátttöku í Loftslagsvænum landbúnaði fékk að vera með í þessari atrennu. Hjördís segist óska þess að sem flestir bændur fái tækifæri til að taka þátt í þessu frábæra verkefni. Elínborg og Hjördís segja frá í stuttu myndbandi hér að neðan.
ÞJÓÐSKÓGAR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla þjóðskógasviðs fyrir árið 2023
Hreinn Óskarsson
Tafla 1. Gróðursetning í verkefnum þjóðskógasviðs og samstarfsverkefnum árið 2023
Trjátegund | Þjóðskógar | Samstarfsverkefni | ALLS | Hlutfall af heild |
|||||
Suður- land |
Vestur- land |
Austur- land |
Norður- land |
Hóla- sandur |
Þorláks- skógar |
Heklu- skógar |
|||
Alaskaösp | 8.502 | 180 | 13.512 | 210 | 22.404 | 0,9% | |||
Alaskaösp | 151.305 | 29.080 | 180.385 | 7,5% | |||||
Alaskavíðir | 28 | 28 | 0,0% | ||||||
Álmur | 6 | 6 | 0,0% | ||||||
Askur | 8 | 4 | 12 | 0,0% | |||||
Blágreni | 1.240 | 1.240 | 0,1% | ||||||
Evrópulerki | 10 | 10 | 0,0% | ||||||
Fjallaþinur | 1.290 | 1.290 | 0,1% | ||||||
Gráelri | 1.365 | 1.365 | 0,1% | ||||||
Gulvíðir | 7 | 7 | 0,0% | ||||||
Heggur | 44 | 44 | 0,0% | ||||||
Ilmbirki | 134.448 | 27.202 | 47 | 42.998 | 265.255 | 119.996 | 908.090 | 1.498.036 | 62,7% |
Jörfavíðir | 805 | 8.000 | 8.805 | 0,4% | |||||
Lerkiblendg. 'Hrymur' | 417 | 417 | 0,0% | ||||||
Rauðelri | 1 | 1 | 0,0% | ||||||
Rauðgreni | 160 | 160 | 0,0% | ||||||
Reyniviður | 98 | 41 | 700 | 839 | 0,0% | ||||
Rússalerki | 2 | 16.189 | 16.191 | 0,7% | |||||
Sitka- og hvítsitkagreni | 311.580 | 3.040 | 13.326 | 6.020 | 333.966 | 14,0% | |||
Skógarfura | 4 | 4 | 0,0% | ||||||
Stafafura | 205.547 | 96.737 | 15.008 | 7.278 | 324.570 | 13,6% | |||
Víðir, ýmsar teg. | 450 | 58 | 508 | 0,0% | |||||
Ýmsar eikartegundir | 6 | 1 | 7 | 0,0% | |||||
Ýmsar lerkitegundir | 93 | 93 | 0,0% | ||||||
Ýmsar tegundir | 7 | 2 | 9 | 0,0% | |||||
Garðahlynur | 10 | 10 | 0,0% | ||||||
Samtals | 815.400 | 30.242 | 110.562 | 89.574 | 265.255 | 171.284 | 908.090 | 2.390.407 | 100% |
Brúargólf endurnýjað á Þingvöllum
Íslenskt timbur til lagfæringa á Þingvöllum
Pétur Halldórsson og Trausti Jóhannsson
Í nóvembermánuði var unnið að endurbótum á efsta hluta göngustígsins frá útsýnispallinum á Hakinu á Þingvöllum og niður í Almannagjá. Viðargólf göngubrúarinnar var endurnýjað með sitkagreni úr Haukadal sem unnið var í sögunarmyllu Skógræktarinnar í Þjórsárdal.
Grenitrén sem gáfu timbrið voru gróðursett í Haukadalsskógi undir lok sjöunda áratugarins. Nokkuð hafði fallið af trjám í reitnum vegna storma og þótti skynsamlegast að fella hann allan og rækta upp á nýtt. Talsverð sjálfsáning er einnig í reitnum sem áhugavert verður að fylgjast með á komandi árum en til að tryggja endurnýjun verður gróðursett í hann einnig.
Tandrabretti sáu um fellinguna á liðnu vori og timbrið var flutt til vinnslu í starfstöð Skógræktarinnar að Skriðufelli í Þjórsárdal. Brúargólfið var klætt timbri frá Stálpastöðum í Skorradal árið 2012 en tíminn vinnur á þessu ágæta efni ásamt þungum ferðamannastraumnum svo nú var komið að endurnýjun.
Vegna þessara framkvæmda var efsti hluti göngustígsins sem liggur ofan frá útsýnispallinum á Haki niður í Almannagjá lokaður alla daga frá klukkan 18 til 23 fram í byrjun desember. Sem kunnugt er streyma ferðamenn á Þingvöll allt árið um kring en einna minnstur er straumurinn yfir háveturinn. Því var þessi árstími valinn til framkvæmdanna í von um að þær hefðu sem minnst áhrif á gesti þjóðgarðsins. Með hækkandi sól njóta gestir þjóðgarðsins þess að ganga um á nýju alíslensku grenigólfi niður í Almannagjá. Í skóginum vaxa aftur á móti ný tré, bæði sjálfsáin og gróðursett, sem munu hafa betri rótfestu en þau föllnu því aðrar og betri aðferðir verða notaðar við ræktunina nú. Þekkingu fleytir fram í skógrækt á Íslandi.
- Tæplega sextugur skógur brúar gap í Almannagjá (frétt frá 21. ágúst 2012)
- Flett í brúargólf (frétt frá 6. júlí 2012)
Söfnun og sáning á birkifræi
Lítill fræþroski á birki þetta árið
– nema í Vesturbyggð
Kristinn H. Þorsteinsson og Pétur Halldórsson
Skýrsla vinnuhóps um söfnun og sáningu á birkifræi 2023
Megináhersla verkefnisins Söfnum og sáum birkifræi árið 2023 var lögð á kynningarstarf, söfnun og sáningu í Vesturbyggð enda var óvíða annars staðar á landinu teljandi fræ á birki að þessu sinni. Fræi sem safnast hefur í verkefninu var líka dreift með margvíslegum hætti, meðal annars á opinberum samkomum þar sem þátttakendur og gestir fengu fræðslu en líka fræ til að dreifa á eigin spýtur. Verkefnið hefur nú fest sig í sessi og er orðið þekkt meðal almennings á Íslandi en einnig hefur orðið borist út fyrir landsteinana. Mikilvæg reynsla hefur fengist sem nýtist við áframhaldandi vinnu við verkefnið. Meðal annars er ljóst að beina verður fræðslu og hvatningu til þeirra svæða á landinu þar sem fræþroski er nægilega góður hverju sinni til að unnt sé að hvetja fólk til dáða við að safna og sá birkifræi.
Landsátakið Söfnum og sáum birkifræi hefur verið samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar með aðstoð og stuðningi frá ýmsum áhugasömum aðilum en verður í umsjón Lands og skógar með sameiningu stofnananna tveggja frá og með árinu 2024. Markmið verkefnisins er að efla útbreiðslu birkiskóga með sameiginlegu átaki landsmanna við söfnun og dreifingu birkifræs. Verkefnið hófst haustið 2020. Að auki standa að verkefninu Prentmet-Oddi, Bónus, Olís, Terra, Lions, Skógræktarfélag Íslands og Landvernd. Í verkefnisstjórn árið 2023 voru Brynjar Skúlason, Hreinn Óskarsson og Pétur Halldórsson frá Skógræktinni og Gústav Magnús Ásbjörnsson, og Magnús Þór Einarsson frá Landgræðslunni. Kristinn H. Þorsteinsson verkefnastjóri kemur frá Skógræktarfélagi Kópavogs fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands. Hlutverk hans er að stýra verkefnum í umboði stjórnar. Verndari landsátaksins er forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.
Söfnun birkifræs
Prentmet-Oddi framleiddi 10 þúsund eins lítra fræsöfnunaröskjur og jafnframt söfnunarkassa fyrir öskjurnar til að stilla upp á söfnunarstöðum. Á hvort tveggja voru prentaðar ýmsar upplýsingar um átakið.
Söfnunarkassar voru settir upp í völdum verslunum Bónus og Olísstöðvum og þar lágu fræsöfnunaröskjur frammi ókeypis fyrir fólk sem vildi tína. https://www.facebook.com/birkifrae
Blómgun birkis vorið 2023 var með ágætu móti en óheppileg veðurskilyrði nánast um land allt gerðu vonir manna um gott fræár að engu. Vesturbyggð var eitt örfárra svæða á landinu þar sem fræspretta var með ágætum. Verkefnisstjórn landsátaksins ákvað því að halda almennri hvatningu til landsmanna um fræsöfnun í lágmarki. Í allri umræðu um birkisöfnun 2023 var bent á að fólk sem hefði áhuga á að safna fræi þyrfti víðast hvar að hafa talsvert fyrir því að leita fræja. Aftur á móti var fókusinn var settur á Vesturbyggð vegna mikils fræmagns sem þar var og því haldið á lofti í kynningarstarfi átaksins
Landsátakið hófst formlega þetta árið hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk miðvikudaginn 13. september. Fyrstu skrefin voru tekin með fræðslu tveggja sérfræðinga á sviði birkis, þeirra Þorsteins Tómassonar og Aðalsteins Sigurgeirssonar. Þeir félagar fjölluðu um birkið frá ýmsum hliðum og að því loknu var gengið út í góða veðrið og birkifræi safnað. Eftirtekja var rýr en fræðslan stóð fyrir sínu.
Birkifrætínsla og fræðsla fór fram í Vesturbyggð laugardaginn 18. nóvember og var fólk á öllum aldri hvatt til að taka þátt í viðburðinum. Fræðsla var í boði á Bíldudal kl. 11, á Tálknafirði kl. 13 og loks kl. 15 á Patreksfirði. Veðurguðirnir voru þátttakendum hliðhollir en veður var fallegt, svalt og stilla. Skógræktarfélögin á svæðinu og Þjóðkirkjan stóðu á bak við söfnunina ásamt landsátakinu. Meðal sjálfboðaliða voru fermingarbörn sem tóku vel til hendinni meðvituð um mikilvægi verkefnisins. Það fræ sem safnaðist verður eyrnamerkt Vesturbyggð og notað til áframhaldandi skógræktar þar að ósk heimamanna.
- Komið að tína fræ í Vesturbyggð (skogur.is)
- Birkifræuppskeran best í Vesturbyggð (Bændablaðið)
Þetta haustið skilaði sér talsvert minna magn fræja í söfnunarkassana en árin á undan en það sem inn kom skilaði sér að mestu um mánaðamótin september-október og nánast ekkert eftir það. Þó árið hafi verið á heildina litið frekar rýrt náðist að vekja athygli á landsátakinu mjög víða. Vonandi verður gott fræár næsta haust og þar sem grunnskipulag verkefnisins er með festu verður auðvelt að bregðast við og efna til söfnunardaga þar sem nægilegt magn fræs er að finna.
Sáning birkifræs
Örn Jónsson, bóndi á Nesjum í Grafningi, óskaði eftir birkifræi til að sá í umfangsmikið örfoka land eða um x ha. Ánægjulegt var að fá slíka beiðni og kom það sér vel að til var fræ í geymslu í Gunnarsholti sem Erni var látið í té ásamt fræi sem barst í söfnunarkassa landsátaksins.
Óskar Leifur Arnarsson fékk fræ úr landsátakinu sem sáð var í 7 ha örfoka land í Patreksfirði.
Kynning
Unnið var áfram í kynningarmálum á árinu. Árið 2021 voru hönnuð og prentuð umslög að stærð A-5 merkt landsátakinu og einnig var útbúið spjald af stærðinni 9 x 14 cm. Á spjaldinu eru upplýsingar um söfnun og sáningu birkifræs. Á árinu 2023 var umslögum sem innihéldu um þúsund fræ dreift víða ásamt spjaldinu til kynningar á verkefninu. Góður rómur var gerður að kynningunni og var því ákveðið að prenta fleiri umslög og spjöld og nota áfram til kynningar. Prentuð voru 5.000 eintök sem eru framlag Prentmets – Odda í verkefnið.
DesignTalks
DesignTalks er stór alþjóðleg ráðstefna sem haldin var í Silfurbergi í Hörpu miðvikudaginn 3. maí í tengslum við HönnunarMars. Ráðstefnan er vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs. Í kynningu á viðburðinum í Hörpu segir að þar sé tekið á áskorunum líðandi stundar og varpað ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir, veiti þar innsýn í brýn viðfangsefni og ekkert sé utan seilingar.
Landsátakið Söfnum og sáum birkifræi lagði til umslög með birkifræi og upplýsingum um verkefnið sem var lögð voru hvert sæti í Silfurbergi áður en ráðstefnan hófst. Í upphafi ráðstefnunnar var sagt frá landsátakinu og þátttakendur hvattir til þess að nýta sér fræin og leggja málinu lið. Þá lögðum við til fjölda birkitrjáa sem skreyttu sviðið á ráðstefnunni.
Leiðtogafundur
Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn í Hörpu dagana 16. til 17. maí og lagði landsátakið þar einnig til birki og kynningarefni. ( )
Fyrsta árs nemar í vöruhönnun
Fimmtudaginn 11. maí var sýningin „Birkiverk“ haldin í sal Skógræktarfélags Kópavogs, Leiðarenda 3 í Guðmundarlundi í Kópavogi. Nemendur í vöruhönnun buðu gesti velkomna á sýninguna en þar var hægt að sjá mismunandi nemendaverkefni sem áttu sameiginlegt að tengjast birki á einn eða annan hátt. Vinna við verkefnin hófst í febrúar og þar unnu nemendur með og rannsökuðu íslenska birkið með fjölbreyttum tilraunum út frá ólíkum sjónarhornum.
Landsátakið Söfnum og sáum aðstoðaði nemendur á margan hátt og á sýningunni afhentu nemendur gestum umslagið góða með yfir 1.000 fræjum ásamt fræðsluefni sem nemendur notuðu í kynningu um markmið og tilgang landsátaksins.
Áfanginn er hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Birkivist.
Mannauðsdagurinn
Mannauðsdagurinn 2023 var haldinn föstudaginn 4. október í Eldborgarsal Hörpu. Hann var fyrst haldinn árið 2011, hefur vaxið hratt og dafnað með hverju ári og er nú einn stærsti viðburður stjórnunar- og mannauðsmála hér á landi.
Starfsmennt fræðslusetur var með kynningarbás og fékk umslög með birkifræjum í ásamt fræðsluefni um tínslu og sáningu birkis sem dreift var til þeirra sem á básinn komu.
Vísindavaka
Þann 30. september fór fram Vísindavaka Rannís í Laugardagshöllinni og var rannsóknasvið Skógræktarinnar með kynningarbás fyrir gesti vökunnar. Stöðug aðsókn var í básinn en gestum var boðið að skoða í víðsjá árhringi trjáa og geitungabú. Miðlað var fræðslu um skógarmælingar, reiknuð kolefnisbinding skóga og margt fleira. Í glerkrukku voru birkifræ og gátu gestir tekið þátt í getraun þar sem spurningin var hversu mörg birkifræ væru í krukkunni og hversu stór skógur gæti vaxið upp af þessum fræjum ef þau yrðu öll að trjám. Í lokin bauðst gestum á kynningarbás Skógræktarinnar að taka með sér matskeið af birkifræi í umslagi landsátaksins ásamt leiðbeiningum um söfnun og sáningu birkifræs og allir hvattir til að sá fræjunum í illa gróið land.
Þjóðkirkjan
Á síðasta ári hófst samstarf á milli landsátaksins Söfnum og sáum og Þjóðkirkjunnar. Kirkjan hefur reglulega fengið birkifræ frá landsátakinu því öll börn sem skírast fá að gjöf um 1.000 fræ í umslagi og eru aðstandendur barnanna hvattir til að koma fræjunum í jörðu. Hefur þetta mælst vel fyrir og vilji til áframhaldandi samstarfs. Það er því ánægjulegt og skemmtilegt að greina frá því að fermingarbörn í Vesturbyggð tóku þátt í verkefninu og söfnuðu fræjum sem skila sér til skírnarbarna.
Samantekt
Þau ár sem verkefnið hefur staðið yfir hafa skilað dýrmætum árangri og reynslu. Tekist hefur að mynda og viðhalda öflugu samstarfsneti fyrirtækja, frjálsra félagasamtaka og opinberra aðila um verkefnið. Fræðslustarf hefur verið öflugt og vakið mikla athygli innanlands og að nokkru leyti einnig utan landsteinanna. Þetta tvennt myndar sterkan grundvöll fyrir áframhaldandi starfsemi verkefnisins. Hins vegar hefur náttúran verið duttlungafull að vanda. Aðeins eitt gott fræár hefur komið þar sem finna mátti fræ nær alls staðar á landinu og víða í mjög miklum mæli. Þess utan hefur fræframboð verið takmarkað við ákveðin svæði. Brugðist hefur verið við þessu með því að beina átakinu inn á þessi svæði. Því er mikilvægt að safnað sé upplýsingum um fræsetningu á mismunandi svæðum og heimaaðilar virkjaðir til að safna fræi og nýta það í heimabyggð.
Nóvembergróðursetning
Gróðursetning í nóvember
Pétur Halldórsson og Trausti Jóhannsson
Ekkert er því til fyrirstöðu að gróðursetja tré í nóvember ef tíðarfar hefur verið gott eins og var haustið 2023. Starfsfólk starfstöðvar Skógræktarinnar á Selfossi setti niður aspir og furur í landi Kollabæjar í Fljótshlíð um miðjan mánuðinn undir stjórn Hrafns Óskarssonar, ræktunarstjóra á Tumastöðum. Búist er við um tuttugu tonna árlegri meðalbindingu koltvísýrings á svæðinu.
Nokkrir starfsmenn frá starfstöð Skógræktarinnar á Selfossi héldu 16. nóvember 2023 að Tumastöðum til gróðursetningar undir dyggri stjórn Hrafns Óskarssonar, ræktunarstjóra þar. Reiturinn sem gróðursett var í er hluti af svokölluðu „Nýfundnalandi“ sem er spilda úr landi Kollabæjar. Nokkur bið hafði verið eftir að fá framkvæmdaleyfi fyrir verkinu og því hafði dregist að gróðursetja í spilduna.
Veðrið í nóvember var afar milt og því var ekkert til fyrirstöðu að gróðursetja þó komið sé fram í seinni hluta nóvembermánaðar. Gróðursetningin var unnin í samstarfi við European Festivals Forests, verkefni sem stuðlar að kolefnisbindingu í skógi til að vega upp kolefnislosun þeirra hátíða sem haldnar eru á vegum European Festivals Association.
Alls voru gróðursettar tæplega 3.000 plöntur af alaskaösp og stafafuru þennan milda fimmtudag í nóvember. Helsta vandamálið við gróðursetningar á þessum árstíma er hversu stuttir dagarnir eru.
Samkvæmt kolefnisspá fyrir svæðið má gera ráð fyrir því að árleg meðalbinding í reitnum verði um 20,6 tonn af koltvísýringi, sem er dágott. Aftur verður gróðursett á næsta ári og þá er gert ráð fyrir að sett verði niður um 6.000 tré.
REKSTUR
Pistill sviðstjóra
Skýrsla rekstrarsviðs 2022
Gunnlaugur Guðjónsson
Skógræktin er ríkisstofnun sem heyrir undir matvælaráðuneytið og þjónar skógrækt á Íslandi samkvæmt lögum um skógrækt. Stofnunin varð til 1. júlí 2016 við samruna Skógræktar ríkisins og sex stofnana sem þjónuðu skógrækt á lögbýlum, hver í sínum landshluta.
Skógræktin skiptist í fjögur svið. Annars vegar eru þrjú fagsvið sem nefnast rannsóknasvið, skógarþjónusta og þjóðskógar. Hins vegar miðlægt svið, rekstrarsvið. Hlutverk rekstrarsviðs er að hafa yfirumsjón með fjármálum, bókhaldi, skrifstofuþjónustu, starfsmannamálum og annarri stoðþjónustu stofnunarinnar ásamt upplýsingatækni, samskipta-, fræðslu- og markaðsmálum. Þá hefur rekstrarsvið haft forystu um starf Skógræktarinnar að ábyrgum kolefnisverkefnum með skógrækt. Mikilvægur þáttur í því er vinna að kröfusettinu Skógarkolefni sem gerir kleift að búa til vottaðar kolefniseiningar með nýskógrækt og nýta þær til ábyrgrar kolefnisjöfnunar. Áfram var unnið að þessum málum á árinu og meðal annars auglýst nýtt starf verkefnastjóra kolefnismála. Margar góðar umsóknir bárust en í starfið var ráðinn Úlfur Óskarsson skógfræðingur sem hefur starfað sem lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands um árabil. Úlfur hefur talsverða reynslu af vottunarmálum og tekur nú við verkefnum sem tengjast gæða- og vottunarmálum, útfærslu og framkvæmd kolefnisbindingarverkefna, þróun gæðakerfa á borð við Skógarkolefni og þess háttar.
Sviðið hefur umsjón með gerð fjárhagsáætlunar og eftirlit með framgangi hennar. Rekstrarsvið ber ábyrgð á því að uppgjör og upplýsingar berist til annarra stjórnenda og verkefnastjóra þegar það á við. Sviðið er enn fremur ábyrgt fyrir gerð ársreiknings og miðlun fjármálaupplýsinga til Fjársýslu ríkisins, Ríkisendurskoðunar, matvælaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins o.fl.
Auk almennrar fjármálaumsýslu og áætlanagerðar tilheyra samskiptamál rekstrarsviði einnig. Þar hefur verið veitt forysta verkefnum sem snúa að samskiptum við almenning (kynningarmál), við einstaka hópa (fræðslumál, markaðsmál, skipulagsmál) og inn á við (mannauðsmál). Útgáfa fellingarleyfa skv. nýjum lögum um skóga og skógrækt er á höndum skipulagsfulltrúa. Síðla árs var þó gerð sú breyting með ráðningu nýs skipulagsfulltrúa, Páls Sigurðssonar, að yfirumsjón þeirra málefna færðist yfir til skógarþjónustu.
Á árinu var einnig auglýst eftir starfsmanni í stöðu verkefnastjóra stafrænna mála hjá Skógræktinni sem tilheyra skyldi rekstrarsviði. Fyrir valinu varð Bjarni Þór Haraldsson tölvuverkfræðingur sem hefur að undanförnu starfað að undirbúningi háskólanáms á Austurlandi á vegum Háskólans á Akureyri. Hann hefur starfstöð á Egilsstöðum og mun stýra innleiðingu á Stafrænu Íslandi hjá Skógræktinni ásamt tengdum verkefnum sem tengjast tölvu- og upplýsingatækni. Meðal annars er hlutverk hans að þróa framtíðarfyrirkomulag plöntuflutninga þar sem hugmyndin er að nýta upplýsingatækni til að létta verkin og auka skilvirkni og gæði í dreifingu trjáplantna frá gróðrarstöðvum til ræktenda.
Skógarkolefniseiningar – fyrstu einingarnar
Fyrstu vottuðu kolefniseiningarnar gefnar út
Pétur Halldórsson
Tilkynnt var um það í byrjun ársins að Yggdrasill Carbon hefði fengið útgefnar fyrstu íslensku vottuðu kolefniseiningarnar. Þær koma úr nýskógræktarverkefni á vegum félagsins á Arnaldsstöðum í Fljótsdalshreppi. Framkvæmdastjóri félagsins segir þetta stórt skref og hann finnur fyrir miklum áhuga hjá fyrirtækjum að tryggja sér þessar einingar.
Frá þessu var greint í tilkynningu sem Yggdrasill Carbon sendi frá sér 2. janúar. Þar er bent á að gera þurfi greinarmun á vottuðum kolefniseiningum sem hafa raungerst og vottuðum kolefniseiningum í bið sem eigi eftir að raungerast. Þá sé afar mikilvægt að gera greinarmun á verkefnum sem hlotið hafa vottun og þeim sem enga vottun hafa fengið. Einingar eru í bið allt þar til bindingin á bak við þær hefur orðið í skóginum, verið staðfest og ferlið vottað. Þá hafa þær raungerst og eru nothæfar á móti losun í grænu bókhaldi.
Fyrstu vottuðu kolefniseiningarnar á Íslandi eru vottaðar af iCert eftir kröfum Skógarkolefnis Skógræktarinnar, sem byggt er á breska staðlinum UK Woodland Carbon Code. Einingarnar voru gefnar út sem vottaðar kolefniseiningar í bið í Loftslagsskrá þar sem hver og ein eining fékk sitt raðnúmer (e. serial number). Sem dæmi er fyrsta raðnúmerið FCC-ICE-354-17-2027-CC-1-00000000 þar sem gert er ráð fyrir að hún verði fullgild árið 2027.
„Það er stórt skref fyrir okkur að fá útgefnar fyrstu íslensku vottuðu kolefniseiningarnar. Satt að segja er ég einstaklega stoltur af þessu og er þetta mikil viðurkenning fyrir okkar vinnu,“ var haft eftir Björgvin Stefáni Péturssyni, framkvæmdastjóra Yggdrasils Carbon, í tilkynningunni sem sagði enn fremur:
„Við höldum okkar vinnu áfram og trúum því að vottaðar kolefniseiningar séu eina leiðin áfram til þess að styðja við gagnsæja upplýsingagjöf í loftslagsbókhaldi fyrirtækja. Þá erum við mjög stolt af því að hafa staðið við stóru orðin og ekki farið að selja einingar fyrr en þær hefðu hlotið vottun. Aðgerðir í loftslagsmálum eru ekki skyndilausnir og því er mjög mikilvægt að stofnanir og fyrirtæki styðji með ábyrgum hætti við verkefni sem geta tryggt þeim kolefnishlutleysi árið 2040 í samræmi við markmið og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda. Það þarf að byrja strax til að tryggja árangur árið 2040 og við finnum fyrir miklum áhuga fyrirtækja á að tryggja sér þessar nýju einingar sem munu byrja að raungerast vel fyrir árið 2040.“
Kolefnismál – Hver vinnur verkið?
Hver á að vinna verkið og hver borgar?
Gunnlaugur Guðjónsson
Markaður með kolefniseiningar mun einn og sér ekki leysa allan vanda vegna loftslagsbreytinga. Og ekki munu öll verkefni skila þeim loftslagsávinningi sem þeim er ætlað. Þetta eru óumdeildar staðreyndir. En það þýðir ekki að hætta eigi algerlega við kolefnisjöfnun og að þátttaka á kolefnismarkaði sé grænþvottur. Ekki hættum við að byggja hús þó einhver þök leki, nei við reynum að gera betur. Markaður með kolefniseiningar er ein af fáum aðferðum sem við höfum nú til að fjármagna náttúrulega kolefnisbindingu og varðveislu hennar í náttúrunni. Þannig borgar sá sem mengar fyrir sína losun.

Það er almennt viðurkennt í heiminum að kolefniseiningar eru aðeins einn hluti af víðtækari aðgerðaáætlunum í loftslagsmálum. Reynslan sýnir að meirihluti fyrirtækja sem fjárfestir í kolefnisverkefnum fjárfestir einnig mikið í að draga úr losun í eigin virðiskeðju og notar kolefniseiningar einungis til að jafna á móti „óhjákvæmilegri“ losun. Með Skógarkolefni leggur Skógræktin áherslu á að fyrirtæki verði fyrst að draga úr losun og noti kolefniseiningar aðeins til að bæta upp fyrir losun sem þau geta ekki forðast. Þetta er í samræmi við Net-Zero Guidance frá Sameinuðu þjóðunum og Science-Based Targets Initiative.
Framleiðsla kolefniseininga eftir gæðastaðli eins og Skógarkolefni tryggir fyrirtækjum hágæða kolefniseiningar. Slíkar gæðaeiningar leiða til þess að raunmarkaðsverð myndast á kolefni sem skapar hvata fyrir fyrirtæki að draga úr losun eins fljótt og auðið er. Þegar öllu er á botninn hvolft, því hraðar sem fyrirtæki minnka sína losun því færri kolefniseiningar þurfa þau að lokum að kaupa.
Markaður með kolefniseiningar ber að sjálfsögðu aðeins árangur ef kolefniseiningar fela í sér raunverulega bindingu eða minnkaða losun. Valkvæðir kolefnismarkaðir verða að glíma við það að kolefniseiningar eru mismunandi að gæðum. Mikilvægt er að fyrirtæki veiti þessu athygli og geri ríkar kröfur um gæði þeirra kolefniseininga sem þau kaupa. Mörg fyrirtæki framkvæma nú áreiðanleikakannanir á kolefnisverkefnum sem þau taka þátt í og mjög hefur fjölgað fyrirtækjum sem bjóða upp á slíka þjónustu. Þá hefur markaðurinn sjálfur frumkvæði að auknum gæðum með þátttöku í verkefnum eins og:
- nýrri tækniforskrift Staðlaráðs um kolefnisjöfnun, ÍST TS 92 – Kolefnisjöfnun,
- Nordic Dialogue on Voluntary Compensation - Harnessing voluntary carbon markets for climate ambition
- The Voluntary Carbon Markets Integrity Initiative
Of seint að gera ekki neitt
Tækniframfarir gera nú kleift að meta gæði kolefnisverkefna af meiri nákvæmni en áður hefur þekkst. Þetta þýðir að fyrirtæki eiga auðveldara með að finna raunverulegar, hágæða kolefniseiningar. Þá eru hágæða kolefniseiningar farnar að seljast á hærra verði sem er auðvitað eðlileg þróun á virkum markaði. Íslensk fyrirtæki eru almennt mjög meðvituð um samfélags- og umhverfisskyldur sínar og eru tilbúin að borga fyrir raunverulegan árangur sem staðlar eins og Skógarkolefni tryggja.
Sú staðreynd að ekki eru allar kolefniseiningar „fullkomnar“ þýðir ekki að kolefniseiningar séu ónothæfar. Það er einfaldlega of seint að gera ekki neitt og hér er aðferð sem er tiltæk hér og nú. Sem stendur eru engar trúverðugar aðgerðir í gangi sem haldið geta hækkun hitastigs á heimsvísu undir 1,5°C. Vísindalegar sannanir eru ótvíræðar (sjá The Intergovernmental Panel on Climate Change - IPCC), loftslagsbreytingar ógna velferð mannkyns og annarra íbúa jarðarinnar. Allar frekari tafir á samstilltum alþjóðlegum aðgerðum minnka möguleika okkar á lífvænlegri framtíð. Við þurfum á öllum verkfærunum í kassanum að halda, þar á meðal kolefniseiningum.
Mikilvægt er því að tryggja virkan markað með kolefniseiningar á Íslandi. Ef við gerum það ekki þá gefum við fyrirtækjum leyfi til að gera ekkert í þeirri losun sem þau geta ekki skorið niður og bíða þess í stað eftir fullkominni lausn sem kemur kannski aldrei. Við drögum verulega úr möguleikum á að fjármagna náttúrulausnir á sama tíma og við bíðum eftir að verkfræðilegar lausnir til kolefnisförgunar, sem eru enn á frumstigi, eru prófaðar, reyndar og skalaðar upp. Þá missum við af gullnu tækifæri til að endurheimta og rækta nýja skóga og skapa þannig auðlind fyrir komandi kynslóðir. Byrjum strax. Við megum engan tíma missa.
Fólk sem áttar sig á jákvæðum ávinningi kolefniseininga og þörfinni á hágæða kolefnisverkefnum sér að trúverðugleiki, gagnsæi og ábyrgð er aðalsmerki kolefnismarkaðarins. Fáar en háværar raddir eru tilbúnar að tala allar lausnir niður en hverjar eru þeirra lausnir? Þær fylgja sjaldnast sögunni.
„Það er aðeins ein leið til að forðast gagnrýni: Gerðu ekkert, segðu ekkert og vertu ekkert.“ – (Aristóteles)
Vísindavaka Rannís
Vísindavaka Rannís 2023
Pétur Halldórsson
Ung stúlka úr Kópavogi vann gjafabréf fyrir jólatré úr Haukadalsskógi í getraun sem efnt var til í bás rannsóknasviðs Skógræktarinnar á Vísindavöku Rannís sem fram fór 30. september. Básinn var vel sóttur og vakti mikla lukku gesta að fá að mæla tré og telja árhringi í viðarsýnum.

Vísindavaka Rannís fór fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 30. september og var rannsóknasvið Skógræktarinnar með kynningarbás á fyrir gesti vökunnar. Stöðug aðsókn var í básinn þar sem þar sem gestum bauðst að skoða í víðsjá árhringi trjáa og geitungabú. Þá gátu gestir líka tekið þátt í getraun þar sem spurningin var hversu mörg birkifræ væru í glerkrukku og hversu stór skógur yrði af þessum fræjum ef þau yrðu öll að trjám. Rúmlega 150 gestir tóku þátt í getrauninni og var einn miði með réttum svörum dreginn úr pottinum. Ung stúlka í Kópavogi, Áróra Kristófersdóttir, vann gjafabréf upp á jólatré í Haukadalsskógi.
Einnig gátu gestir fræðst um skógmælingar, mælt hæð og þvermál á trjám og reiknað kolefnisbindingu skóga. Bindinguna mátti svo bera saman við kolefnislosun vegna heimilishalds og samgangna. Í því samhengi var Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar kynntur og þar gátu gestir áætlað bindingu nýskógræktar víðs vegar um landið.
Loks gátu gestir tekið með sér matskeið af birkifræi úr bás Skógræktarinnar ásamt leiðbeiningum um söfnun og sáningu birkifræja.
Að uppsetningu skógarbássins stóðu nokkrir starfsmenn rannsóknasviðs Skógræktarinnar, þau Bjarki Þór Kjartansson, Brynja Hrafnkelsdóttir, Helena Marta Stefánsdóttir og Ólafur Eggertsson. Stóðu þau líka vaktina í básnum.
Loftslagsdagur Umhverfisstofnunar
Skógarkolefnisreiknir kynntur
á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar
Pétur Halldórsson
Skógræktin tók þátt í Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar sem fram fór í Hörpu í Reykjavík fjórða maí, bæði með erindi og umræðum um loftslagsmál og kolefnisbindingu og einnig með kynningarbás þar sem Skógarkolefnisreiknir var kynntur. Gestir sýndu reikninum mikinn áhuga.
Að loknum upphafsávörpum var umfjöllun um hvernig okkur Íslendingum miðaði í átt að kolefnishlutleysi. Þar var m.a. fjallað um losun Íslands 1990-2040 og um það höfðu framsögu Nicole Keller, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, Arnór Snorrason, deildarstjóri hjá Skógræktinni og Jóhann Þórsson, fagteymisstjóri hjá Landgræðslunni.
Arnór kynnti hlut skógræktar í kolefnislosunarbókhaldi Íslands og benti á þá einföldu staðreynd að tré vaxa, jafnvel þótt við tökum ekki mikið eftir því meðan það gerist. Í vextinum felst kolefnisbindingin og binding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá 1990. Arnór brá upp sviðsmynd um væntanlega bindingu íslenskra skóga til 2040 miðað við annars vegar óbreytt ástand en hins vegar auknar aðgerðir þar sem miðað er við að gróðursett sé í tvöfalt meira land eða 50 ferkílómetra á ári með tilkomu verkefna með fjármagni úr einkageiranum. Hann sýndi líka á korti að þrátt fyrir slíka tvöföldun verða skógarnir ekki sýnilega meira áberandi á Íslandskortinu. Með viðbótarsviðsmyndinni myndu skógarnir stækka úr um fimm prósentum láglendis í tæplega sjö og þar af yrðu um 75% birkiskógur en 25% nytjaskógur.
Að lokinni formlegri dagskrá Loftslagsdagsins í Hörpu gátu gestir Loftslagsdagsins blandað geði og kynnt sér ýmislegt sem var til kynningar, meðal annars Skógarkolefnisreikni Skógræktarinnar, reiknivélina sem byggð er á áratugamælingum rannsóknasviðs Skógræktarinnar á íslenskum skógum. Reiknivélina má nota til að áætla bindingu mismunandi trjátegunda á völdum svæðum sem koma til greina til skógræktar á láglendi Íslands. Kynningin tókst vel og margir sýndu reikninum áhuga.
Á árinu var einnig unnið að nýju útliti fyrir Skógarkolefnisreikni og leit reiknirinn í nýju útliti dagsins ljós á sérstökum undirvef á miðju sumri.
Jarðvinnsla og kolefnisbinding
Áhrif jarðvinnslu til nýskógræktar
á kolefnisbindingu
Úlfur Óskarsson
Verkefni mannkyns á næstu árum og áratugum er að hægja á aukningu CO2 í andrúmsloftinu, fyrst og fremst með því að minnka losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis, en einnig með því að stöðva eyðingu skóga heimsins og auka bindingu í gróðri og jarðvegi, m.a. með nýskógrækt. Ísland er aðili að alþjóðlegum samningum og aðgerðaáætlunum með skilgreind loftslagsmarkmið sem ætlað er að ná mælanlegum árangri.
Stjórnvöld á Íslandi hafa um árabil talið fram bindingu skóga í loftslagbókhaldi landsins. Þessi binding dregst frá losun landsmanna á gróðurhúsalofttegundum. Hún nemur nú árlega um 500.000 tonnum af CO2 og skiptir verulegu máli.1
Langtíma vöktunarverkefni og rannsóknaniðurstöður sýna að íslenskir skógar binda umtalsvert kolefni.2 Þessi binding er hröðust í uppvaxandi skógi og þess vegna er mikilvægt að velja réttar aðferðir, rétt land og réttan efnivið til að auka þrótt og vöxt gróðursettra plantna og stuðla þannig að sem mestri bindingu.
Jarðvinnsla er nauðsynlegur undanfari nýskógræktar á sumum svæðum, en skráningar sýna að frá 1990 hefur verið jarðunnið á um 30% skógræktarsvæða (Arnór Snorrason, óbirt gögn). Megintilgangur jarðvinnslu er að bæta lifun og auka vöxt gróðursettra trjáplantna með því að draga úr vexti samkeppnisgróðurs, stuðla að auknum jarðvegshita og auðvelda aðgengi plantnanna að jarðraka og næringu.3 Jarðvinnslan bætir jafnframt úrval gróðursetningarstaða og auðveldar skipulag gróðursetningarinnar.4
Áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap jarðvegs ráðast m.a. af því hversu stórum hluta jarðvegsyfirborðsins er raskað og hve djúpt er jarðunnið. Áhrifin eru líka breytileg eftir jarðvegsgerðum, sem fer m.a. eftir því hvernig kolefnisforði jarðvegsins er samsettur og hve vel hann þolir tímabundna röskun.3, 5
Jarðvinnsla getur aukið losun kolefnis úr jarðvegi, en það á einkum við um jarðveg sem inniheldur mikið af lítt rotnuðum gróðurleifum.6 Í þurrlendisjarðvegi er stór hluti jarðvegskolefnisins hins vegar geymdur í stöðugum lífrænum efnasamböndum, svokölluðum húmus.7 Jarðvinnsla eykur ekki endilega rotnunarhraða húmussins, en dregur mögulega tímabundið úr nýmyndun húmuss á meðan gróðurþekjan er skert.8
Rotnun húmuss er háð því að rotverur hafi aðgang að ferskri og auðrotnanlegri lífrænni fæðu. Því getur jarðvinnsla hægt á rotnunarhraða í sumum tilvikum, sérstaklega þegar jarðveginum hefur verið bylt þannig að húmus hefur lent á meira dýpi en áður og þannig dregið úr losun kolefnis til skamms tíma.9
Í heildina er tap kolefnis úr forða jarðvegs yfirleitt mjög lítið við undirbúning lands til skógræktar, sérstaklega í samanburði við þá miklu kolefnisbindingu sem á sér stað í uppvaxandi skógi.10 Hérlendar iðufylgnirannsóknir gefa vísbendingar um að áhrif losunar vegna jarðvinnslu séu lítil og skammvinn.11, 12
Með fjölgun skógarkolefnisverkefna og auknum rannsóknum munu fást nákvæmari upplýsingar um kolefnisbúskap mismunandi svæða í upphafi nýskógræktar.
Heimildir:
1. Keller N., Á. K. Helgadóttir, S. R. Einarsdóttir, R. Helgason, B. U. Ásgeirsson, D. Helgadóttir, I.R. Helgadóttir, B.C. Barr, C. Jónsdóttir Thianthong, K.M. Hilmarsson, L. Tinganelli, A. Snorrason, S.H. Brink & J. Þórsson (2023). National Inventory Report, Emissions of Greenhouse Gases in Iceland from 1990 to 2021. Institution: The Environment Agency of Iceland 14 April 2023 Reykjavík: DOI: https://unfccc.int/documents/627842
2. Skógræktin (2023, október). Íslensk skógarúttekt (ÍSÚ). Vísindaleg og reglubundin söfnun upplýsinga um skóga og skógrækt á Íslandi. Vöktunarverkefni. https://www.skogur.is/is/rannsoknir/rannsoknaverkefni/verkefni-i-vinnslu/islensk-skogaruttekt
3. Mayer, M., Prescott, C. E., Abaker, W. E., Augusto, L., Cécillon, L., Ferreira, G. W., ... & Vesterdal, L. (2020). Tamm Review: Influence of forest management activities on soil organic carbon stocks: A knowledge synthesis. Forest Ecology and Management, 466, 118127. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2020.118127
4. Suadicani K. (2003). Site preparation and planting in a shelterwood. In: Maria Iwarsson Wide & Berit Baryd (Eds.), Procedings of the 2nd Forest Engineering Conference Techniques and Methods (p 40-49), 12—15 May 2003, Växjö, Sweden, pp 88. https://www.skogforsk.se/contentassets/357fd4133198432eb9cc8af594f385c4/arbetsrapport-535-2003.pdf
5. Mäkipää, R., Abramoff, R., Adamczyk, B., Baldy, V., Biryol, C., Bosela, M., ... & Lehtonen, A. (2023). How does management affect soil C sequestration and greenhouse gas fluxes in boreal and temperate forests? – A review. Forest Ecology and Management, 529, 120637. https://doi.org/10.1016/j.foreco.2022.120637
6. Gartzia-Bengoetxea, N., Gonzalez-Arias, A., Merino, A., & de Arano, I. M. (2009). Soil organic matter in soil physical fractions in adjacent semi-natural and cultivated stands in temperate Atlantic forests. Soil Biology and Biochemistry, 41(8), 1674-1683. https://doi:10.1016/j.soilbio.2009.05.010
7. Berg, B. (1986). Nutrient release from litter and humus in coniferous forest soils—a mini review. Scandinavian journal of forest research, 1(1-4), 359-369. https://www.researchgate.net/profile/Bjoern-Berg/publication/240525547_Nutrient_Release_from_Litter_and_Humus_in_Coniferous_Forest_Soils-a_Mini_Review/links/565d40b808ae1ef9298208a7/Nutrient-Release-from-Litter-and-Humus-in-Coniferous-Forest-Soils-a-Mini-Review.pdf
8. Smolander, A., Paavolainen, L., & Mälkönen, E. (2000). C and N transformations in forest soil after mounding for regeneration. Forest Ecology and Management 134: 17-28. https://doi.org/10.1016/S0378-1127(99)00242-X
9. Smolander, A., & Heiskanen, J. (2007). Soil N and C transformations in two forest clear-cuts during three years after mounding and inverting. Canadian Journal of Soil Science, 87(3), 251-258. https://cdnsciencepub.com/doi/pdf/10.4141/S06-028
10. Mjöfors, K., Strömgren, M., Nohrstedt, H. Ö., Johansson, M. B., & Gärdenäs, A. I. (2017). Indications that site preparation increases forest ecosystem carbon stocks in the long term. Scandinavian Journal of Forest Research, 32(8), 717-725. https://doi.org/10.1080/02827581.2017.1293152
11. Bjarnadottir B., B. D. Sigurdsson & A. Lindroth (2009). A young afforestation area in Iceland was a moderate sink to CO2 only a decade after scarification and establishment. Biogeosciences, 6, 2895–2906. www.biogeosciences.net/6/2895/2009/
12. Valentini, R., Matteucci, G., Dolman, A. et al. (2000). Respiration as the main determinant of carbon balance in European forests. Nature 404, 861-865. https://doi.org/10.1038/35009084
Starfsmannafundur
Síðasti starfsmannafundur Skógræktarinnar
Pétur Halldórsson
Nær allir starfsmenn Skógræktarinnar komu saman á starfsmannafundi sem fram fór á Hótel Hallormsstað 30. nóvember. Einungis fjórir starfsmenn af um sextíu áttu þess ekki kost að sitja fundinn. Þetta var síðasti starfsmannafundur stofnunarinnar undir þessu nafni en um áramót rennur hún ásamt Landgræðslunni inn í nýja stofnun, Land og skóg.
Fundurinn var með hefðbundnu sniði undir stjórn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra. Markmiðið var að venju bæði að rýna í viðfangsefni stofnunarinnar og að þjappa fólki saman, faglega og félagslega. Í hópavinnu voru tekin fyrir ákveðin mál sem unnið verður áfram með í mótun nýrrar stofnunar. Dagskipan hópanna var að rýna í tiltekna þætti í starfseminni og koma með ábendingar um hvað hefði mátt betur fara. Hópstjórar kynntu niðurstöður og þær verða síðan afhentar stjórnendum Lands og skógar sem efniviður í mótunarstarf hinnar nýju stofnunar.
Þá fluttu nokkrir afsérfræðingum stofnunarinnar erindi um ýmis efni. Aaron Zachary Shearer skógræktarráðgjafi talaði um þéttbýlisskógrækt og mikilvægi trjáa í þéttbýli, nokkuð sem ekki hefur verið sinnt með markvissum hætti hérlendis en er vaxandi í umræðunni á alþjóðasviðinu í takti við að sívaxandi hluti jarðarbúa býr nú í þéttbýli. Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu, og Björn Traustason, verkefnastjóri landupplýsinga, ræddu um framtíðarsýn í skógrækt, ekki síst út frá áætlanagerð, kortlagningu og miðlun gagna og upplýsinga. Tveir sérfræðingar á rannsóknasviði, Brynja Hrafnkelsdóttir og Helena Marta Stefánsdóttir, töluðu um framtíðarsýn í skógrækt út frá sjónarmiðum um líffjölbreytni og Valdimar Reynisson frá sjónarhóli skógræktenda.
Að loknum fundi var haldið í ratleik um Hallormsstaðaskóg sem endaði við varðeld á bökkum Lagarfljóts. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður, nokkurs konar árshátíð Skógræktarinnar, þar sem meðal annars var heiðraður Sæmundur Þorvaldsson, sem lét af störfum hjá stofnuninni fyrir nokkru og sömuleiðis kom Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, ávarpaði samkomuna og tók þátt í gleðinni.
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() |
Starfsfólk Skógræktarinnar 2023
Nöfn starfsmanna og ársverk
Hér er listi yfir starfsfólk sem var á launaskrá hjá Skógræktinni allt árið 2022 eða hluta ársins, hvort sem það var fullt starf eða hlutastarf.
Stöðugildi eða ársverk hjá Skógræktinni á á árinu 2022 voru 66 talsins og mannmánuðir samtals tæplega 795.
NAFN | STARF | STARFSTÖÐ | SVIÐ |